Hoppa yfir valmynd

Synjun landlæknis um útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur

Föstudaginn. 21. ágúst 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 27. apríl 2009, kærði A (hér eftir nefnd kærandi) til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknisembættisins frá 19. mars 2009 að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Umsækjandi er pólskur ríkisborgari og menntuð í Póllandi.

Kröfur

Gerð er krafa um að málið verði endurskoðað og að ráðuneytið veiti kæranda undanþágu með tilliti til 20 ára starfsreynslu.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 29. apríl 2009, send kæran og gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum. Umsögn landlæknis ásamt gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 8. maí 2009. Kæranda var með bréfi dags. 13. maí 2009 gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 29. maí 2009 varðandi umsögn landlæknis. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Málsatvik

Kærandi sótti þann 16. nóvember 2006 um starfsleyfi sem sjúkraliði og var umsóknin byggð á menntun hennar í Póllandi. Starfsleyfi sem sjúkraliði var gefið út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu þann 30. janúar 2007. Með bréfi dags, 18. september 2007 sótti kærandi um starfsleyfi til ráðuneytisins sem hjúkrunarfræðingur. Umsóknin var byggð á sömu gögnum og fyrri umsókn um starfsleyfi sem sjúkraliði. Umsóknin var send hjúkrunarráði til umsagnar og barst svar þess 4. janúar 2008. Þar kemur m.a. fram að samkvæmt framlögðum gögnum vanti upplýsingar um tímafjölda í fræðilegu og verklegu námi ásamt ítarlegri upplýsingum um innihald náms. Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2008 var kæranda send umsögn hjúkrunarráðs og veittur andmælafrestur til 25. janúar 2008.

Með lögum nr. 12/2008 var útgáfa starfsleyfa flutt frá ráðuneytinu til landlæknis og kom breytingin til framkvæmda þann 1. apríl 2008. Þar með fluttist umsókn kæranda, sem var óafgreidd í ráðuneytinu, til landlæknisembættisins. Landlæknisembættið sendi þau viðbótargögn sem borist höfðu ráðuneytinu frá kæranda þann 7. mars 2008 til hjúkrunarráðs til umsagnar. Í umsögn hjúkrunarráðs dags. 8. maí 2009 kemur fram að kærandi uppfylli ekki tilskilin viðmið Hjúkrunarráðs varðandi menntunarstig til að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi. Með bréfi landlæknis dags. 21. maí 2008 er kæranda gefinn frestur til að koma að andmælum varðandi umsögn hjúkrunarráðs fram til 21. júní 2008.

Með bréfi kæranda til landlæknis dags. 19. nóvember 2008 var kærð sú niðurstaða hjúkrunarráðs að veita kæranda ekki leyfi til að starfa sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi. Landlæknir framsendi það erindi kæranda til ráðuneytisins með bréfi dags. 1. desember 2008. Þar sem niðurstaða hjúkrunarráðs var ekki bindandi niðurstaða í málinu endursendi ráðuneytið erindið þann 11. desember 2008 til landlæknisembættisins til ákvörðunar varðandi umsókn kæranda um hjúkrunarleyfi.

Landlæknisembættið sendi kæranda bréf dags. 17. desember 2008 þar sem kæranda var tilkynnt að embættið myndi á ný taka umsókn hennar um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur til afgreiðslu. Kæranda var gefinn kostur á að gera grein fyrir því hvort hún teldi sig uppfylla ákvæði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Með bréfi dags. 5. janúar 2009 setur kærandi fram rökstuðning sem fjallað verður frekar um undir kaflanum „málsástæður og lagarök kæranda.“

Landlæknir synjaði kæranda um hjúkrunarleyfi á Íslandi með bréfi dags. 19. mars 2009.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í bréfi sínu til landlæknis dags. 19. nóvember 2008, vegna niðurstöðu hjúkrunarráðs, nafngreinir kærandi þrjá einstaklinga sem hún telur að séu með sambærilega menntun og hafi fengið starfsleyfi hér á landi. Hér sé um að ræða hjúkrunarfræðing sem hafi þriggja ára menntun frá Þýskalandi, ljósmóður með tveggja ára nám frá Póllandi og hjúkrunarfræðing með sama hjúkrunarnám frá Póllandi og kærandi. Í bréfinu óskar kærandi eftir því að ráðuneytið grípi inn í málið og láti hana njóta jafnræðis.

Í andmælabréfi kæranda til landlæknis dags. 5. janúar 2009 ítrekaði kærandi ósk sína um jafnræði með vísan til áður tilgreindra þriggja einstaklinga. Kærandi heldur því einnig fram að hún uppfylli kröfur 2. mgr. 33. gr. tilskipunar nr. 2005/36/EB og ekki verði fallist á að 3. mgr. 33. gr. hamli því að leyfi sé gefið út þar sem kærandi sé með fimm ára hjúkrunarnám.

Í kæru til ráðuneytisins dags. 27. apríl 2009 kemur fram að kærandi hafi hafið nám í menntaskóla á hjúkrunarfræðibraut árið 1980, en skólinn hafi alfarið verið ætlaður hjúkrunarfræðingum. Kærandi hafi útskrifaðist árið 1985 eftir fimm ára nám. Einnig kemur fram að kærandi er fædd 1966 og því 19 ára þegar hún útskrifast, en nemendur sem luku prófi hafi fengið starfsréttindi sem hjúkrunarfræðingar í Póllandi. Skólinn hafi boðið upp á sambærilegt nám og skólar gera í dag. Kærandi hafi 20 ára starfsreynslu í Póllandi, en sé nú í leyfi frá störfum þar. Á þeim tíma hafi kærandi lokið námskeiðum og bætt þekkingu sína og starfshæfni. Kærandi flutti til Íslands sumarið 2005 og hefur búið hér síðan. Kærandi fékk leyfi sem sjúkraliði í byrjun árs 2007 og vinnur nú á Landspítalanum, gigtar- og almennri lyflækningadeild (B7) í Fossvogi.

Í kæru segir einnig að kærandi telji sig hafa notið mikils trausts, ekki bara samstarfsfólks heldur einnig sjúklinga. Hafi kærandi þrátt fyrir að hún vinni sem sjúkraliði sannað í starfi að hún sé hæf sem hjúkrunarfræðingur. Kærandi segist „oft [hafa] hjálpað læknum og hjúkrunarfræðingum að koma fyrir æðalegg, þvaglegg, taka blóð og sprauta í æð.“ Kærandi bendir ennfremur á að við inngöngu Póllands í Evrópusambandið (árið 2004) hafi ekki verið skrifað undir samninga varðandi nám hjúkrunarfræðinga sem höfðu lokið 5 ára námi úr áðurnefndum skóla. Þetta hafi verið gert til að koma í veg fyrir flótta hjúkrunarfræðinga, en fyrir þann tíma hafi hjúkrunarfræðingar með þessa menntun starfað erlendis. Skólum sem buðu upp á framangreinda menntun hafi verið lokað árið 1997, þar sem nýjar menntaleiðir hafi verið teknar upp.

Í kæru kemur ennfremur fram að margir pólskir hjúkrunarfræðingar starfi erlendis og hafi þeir náð góðum árangri í starfi. Megi þar nefna hjúkrunarfræðing, sem útskrifaðist með kæranda og hafi fengið starfsleyfi á Íslandi. Einnig nefnir kærandi annan pólskan hjúkrunarfræðing, sem ekki er nefnd í fyrri bréfum kæranda, sem hafi aðeins lokið þriggja ára námi og hafi enga starfsreynslu frá Póllandi, sem hafi fengið réttindi sín metin hér á landi.

Kærandi bendir á að hér á landi starfi margir erlendir hjúkrunarfræðingar sem hafi þriggja ára nám að baki, en samningar milli landa geri þeim kleift að vinna hér á landi sem hjúkrunarfræðingar. Kærandi ítrekar að hún hafi tuttugu ára starfsreynslu og hæfni í starfi. Kærandi bendir að lokum á að í Póllandi gildi ákveðin vinnuregla varðandi hjúkrunarfræðinga. Starfi þeir ekki í fimm ár missi þeir starfsréttindi sín þar í landi, kærandi muni því missa sín réttindi í júlí 2010 ef hún geti ekki starfað sem hjúkrunarfræðingur.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í umsögn landlæknis um kæruna dags. 8. maí 2009 kemur fram að kærandi hafi sótt um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur með bréfi dags. 18. september 2007. Samkvæmt 1. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974 hefur sá rétt til að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing sem hefur fengið staðfestingu landlæknis á hjúkrunarleyfi í landi sem er aðili að EES-samningnum. Gildandi reglugerð um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta o.fl. skv. ákvæðum EES-samningsins er nr. 244/1994. Umsókn kæranda var send til umsagnar til hjúkrunarráðs, þó að slíkt sé ekki skylt þegar um er að ræða umsóknir frá hjúkrunarfræðingum á EES-svæðinu. Niðurstaða hjúkrunarráðs var sú að kærandi uppfyllti ekki viðmið hjúkrunarráðs varðandi menntunarstig til að hljóta starfsleyfi á Íslandi.

Ennfremur kemur m.a. eftirfarandi fram í umsögn landlæknis frá 8. maí 2009:

„Samkvæmt málsgögnum stundaði umsækjandi hjúkrunarnám í Póllandi á árunum 1980-1985 og hafði lokið námi skömmu áður en hún varð tvítug. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er fjallað um hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun. Þar kemur fram í 3. þætti III. kafla III. bálks að við mat á vitnisburði um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun frá Póllandi er viðmiðunardagsetning 1. maí 2004. Nám umsækjanda féll ekki þar undir þar sem hún hóf nám árið 1980. Því kannaði Landlæknisembættið hvort undantekningarheimild sem er í 33. gr. gæti átt við í tilviki hennar. Þ.e. grunnmenntun er ekki nægileg en spurning hvort skilyrði um áunnin réttindi eiga við. Af gögnum hennar varð ráðið að hún hefði ekki lokið þeirri viðbótarmenntun sem gerð er að skilyrði í 33. gr. Þegar borin voru saman þau gögn sem umsækjandi lagði fram með umsókn um menntun sína og þau skilyrði sem hjúkrunarfræðingur með menntun frá Póllandi þarf að uppfylla sást að hún uppfyllti þau ekki.“

Þá kemur einnig fram í umsögn landlæknis að í bréfum kæranda dags. 19. nóvember 2008 og 5. janúar 2009 nefni kærandi þrjá starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem hún óski eftir því að vera látin njóta jafnræðis við. Fram kemur að landlæknisembættið kannaði framangreind þrjú tilvik og taldi þau ekki sambærileg.

Niðurstaða landlæknisembættisins, með hliðsjón af umsögn hjúkrunarráðs, varð því sú að ekki væri heimilt að veita kæranda starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknis um útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til handa kæranda. Í kæru er þess krafist að ráðuneytið veiti kæranda undanþágu með tilliti til tuttugu ára starfsreynslu og hæfni í starfi og veiti henni réttindi til að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Kærandi byggir á því að ekki hafi verið gætt jafnræðis þar sem hér séu starfandi hjúkrunarfræðingar sem hafi sambærilega menntun og hún.

Ráðuneytið kannaði gögn þeirra fjögurra einstaklinga sem kærandi nafngreinir í bréfum sínum Einn einstaklingur lauk hjúkrunarfræðiprófi á háskólastigi, dyplom licencjata pielegniarstwa, árið 2006 í Póllandi, þ.e. eftir viðmiðunardagsetningu aðildar Póllands að Evrópusambandinu. Því uppfyllir sá einstaklingur kröfur tilskipunar 2005/36/EB. Eitt tilvik varðar umsókn um starfsleyfi sem ljósmóðir og er því ekki sambærilegt við umsókn kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Þriðji einstaklingurinn fékk leyfi til að bera starfsheitið hjúkrunarfræðingur, Gesundheits- und Krankenpflegerin, eftir að hafa lokið hjúkrunarfræðiprófi árið 2005 í Þýskalandi. Hún uppfyllir því skilyrði 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/452/EBE. Fjórða tilvikið varðar hjúkrunarfræðing sem fékk starfsleyfi hér á landi árið 1993. Nám hennar var metið með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar voru hér á landi á þeim tíma. Rétt er að benda á í þessu sambandi að Ísland gerðist ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu fyrr en árið 1994. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að framangreind tilvik séu ekki sambærileg við mál kæranda.

Tilskipun 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hefur nú verið tekin upp í EES-samninginn, sbr. viðauka nr. 7 við EES-samninginn og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007. Unnið er að innleiðingu síðarnefndu tilskipunarinnar í íslenskan rétt undir stjórn menntamálaráðuneytisins. Með henni er ætlunin að samræma þær tilskipanir sem í gildi hafa verið, bæði þær sem falla undir almennt kerfi til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi og þær tilskipanir sem gilda um einstakar starfsstéttir og falla því undir hið sérstaka kerfi.

Tilskipanir um hjúkrunarfræðinga tilheyra hinu svokallaða sérstaka kerfi, en samkvæmt því hafa kröfur um menntun ákveðinna heilbrigðisstétta, þ.á.m. hjúkrunarfræðinga verið samræmdar. Fyrst skal nefna tilskipun ráðsins nr. 77/452/EBE frá 27. júní 1977 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt, með síðari breytingum og tilskipun ráðsins nr. 77/453/EBE frá 27. júní 1977 um samræmingu á ákvæðum er varða starfsemi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun og sett eru með lögum og stjórnsýslufyrirmælum. Tilskipun 2005/36/EB mun taka við af framangreindum tilskipunum sem gilda um hjúkrunarfræðinga og hafa ákvæði þeirra verið tekin upp í hina nýju tilskipun. Tilskipun 2005/36/EB tekur einnig á þeirri aðlögun sem sett var um nám pólskra hjúkrunarfræðinga við inngöngu Póllands í Evrópusambandið 1. maí 2004.

Lágmarkskröfur um nám samkvæmt tilskipunum hafa ekki breyst. Við veitingu starfsleyfa til hjúkrunarfræðinga hér á landi hefur verið miðað við þær kröfur sem settar eru fram í tilskipunum.

Þegar menntun umsækjanda uppfyllir ekki lágmarkskröfur tilskipana, ber að skoða hvort almennar reglur um áunnin réttindi eigi við. Samkvæmt aðlögunartexta aðildarsamnings EES vegna stækkunar Evrópusambandsins 2004 var bætt við 4. gr. tilskipunar 453/77/EBE, ákvæði 4. gr. b. Nánari tilvísun: Kafli III. 2 viðauka II-C, um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi, aðildarsamnings EES árið 2004 (fullgiltur með lögum nr. 8/2004 um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993).:

„Að því er varðar menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun í Póllandi gilda einungis eftirfarandi ákvæði um áunnin réttindi:

Hafi ríkisborgarar aðildarríkjanna fengið prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun eða hafið nám í Póllandi fyrir aðildardaginn, og sem fullnægja ekki kröfum um lágmarksþjálfun sem mælt er fyrir um í 1. gr. tilskipunar 77/453/EBE, skulu aðildarríkin viðurkenna eftirfarandi prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi í almennri hjúkrun sem nægjanlega sönnun ef þeim fylgir vottorð þar sem fram kemur að ríkisborgarar þessara aðildarríkja hafi raunverulega og á löglegan hátt starfað sem hjúkrunarfræðingar í almennri hjúkrun í Póllandi á tímabilinu sem um getur hér á eftir:

  • B.S.-próf í hjúkrunarfræðum (diplom licencjata pielegniarstwa) – a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins.
  • prófskírteini hjúkrunarfræðings (diplom pielegniarki albo pielegniarki dyplomowanej) – með menntun á æðra skólastigi frá fagskóla á sviði læknavísinda – a.m.k. fimm ár samfellt á næstliðnum sjö árum fyrir útgáfu vottorðsins.

Í fyrrnefndu starfi skal viðkomandi hafa borið fulla ábyrgð á áætlanagerð, skipulagningu og hjúkrun sjúklinga.“

Hér er átt við vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem var gefinn út í Póllandi eða ef nám hófst fyrir 1. maí 2004, sem er viðmiðunardagsetning fyrir aðild Póllands að Evrópusambandinu.

Ákvæði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem ber yfirskriftina „Áunnin réttindi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun“ er sambærilegt við ofangreint ákvæði.

Í 3. mgr. 33. gr tilskipunar 2005/36/EB segir ennfremur:

„Aðildarríkin skulu viðurkenna vitnisburð um formlega menntun og hæfi í hjúkrunarfræði, gefinn út í Póllandi til handa hjúkrunarfræðingum sem hafa lokið námi fyrir 1. maí 2004 sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um menntun sem mælt er fyrir um í 31. gr., að því tilskildu að viðkomandi leggi fram prófskírteini fyrir nám sem samsvarar B.S.-prófi og að það hafi verið gefið út eftir að viðkomandi lauk sérstakri endurmenntun sem er að finna í 11. gr. laga frá 20. apríl 2004 um breytingu á lögum um starfsgreinar hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og öðrum lagagerningum (Stjórnartíðindi Lýðveldisins Póllands frá 30. apríl 2004 nr. 92, liður 885) og reglugerð heilbrigðisráðherra frá 11. maí 2004 um nákvæm skilyrði varðandi menntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem hafa lokið prófi á framhaldsskólastigi (lokapróf — „matura“) og námi við læknaskóla og fagskóla á sviði hjúkrunarfræða og ljósmóðurfræða (Stjórnartíðindi Lýðveldisins Póllands frá 13. maí 2004 nr. 110, liður 1170), með það markmið að staðfesta að hlutaðeigandi einstaklingur búi yfir sambærilegri þekkingu og hæfni og hjúkrunarfræðingar sem hafa öðlast þá menntun og hæfi sem eru, að því er Pólland varðar, skilgreind í lið 5.2.2 í V. viðauka.“

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 77/453/EBE, með áorðnum breytingum, skal hjúkrunarnám að lokinni 10 ára almennri skólagöngu vera „fullt tiltekið starfsnám sem verður að taka til greinanna í námsáætluninni sem skráð er í viðauka þessarar tilskipunar og verður að vera þriggja ára nám eða 4600 klukkustunda nám með bóklegri og klínískri kennslu.“ Einnig kemur fram í 4. mgr. 1. gr. að „sá tími sem bóklega kennslan varir skal vera að minnsta kosti þriðjungur og klíníska kennslan að minnsta kosti helmingur lágmarkstíma náms sem um getur í b-lið 2. mgr.“

Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar segir ennfremur að aðildarríkin skuli sjá til þess að prófskírteini, vottorð og annar vitnisburður um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, eins og tilgreint sé í 3. gr. tilskipunar 77/452/EBE, séu eingöngu veitt að loknu prófi sem tryggir að á námstímabilinu hafi hlutaðeigandi einstaklingur öðlast þá þekkingu sem getið er um í greininni. Sambærilegt ákvæði er í 31. gr. tilskipunar 2005/36/EB.

Kærandi hefur ekki lagt fram tilskilin gögn frá Póllandi svo sem B.S.-próf í hjúkrunarfræðum (diplom licencjata pielegniarstwa), né pólskt prófskírteini hjúkrunarfræðings (diplom pielegniarki albo pielegniarki dyplomowanej) með menntun á æðra skólastigi frá fagskóla á sviði læknavísinda þar í landi. Kærandi hefur þar af leiðandi ekki heldur lagt fram vottorð um að hún hafi starfað raunverulega og á löglegan hátt sem hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun í Póllandi a.m.k. fimm ár samfellt á næstliðnum sjö árum fyrir útgáfu vottorðsins, eða a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins.

Við skoðun fyrirliggjandi gagna um nám kæranda þá hefur hún stundað nám við „Medical High School“ og hefur hlotið „the nurse’s diploma of a Medical High School“ (dypl. pieleg. liceum Medycznego). Það próf uppfyllir ekki skilyrði samkvæmt tilskipun og aðlögunartexta aðildarsamnings EES frá 2004 varðandi Pólland. Ekki liggja fyrir í gögnum málsins vottorð frá þar til bærum yfirvöldum í Póllandi sem staðfesta að framangreint próf kæranda uppfylli skilyrði 4. gr. b aðlögunartexta við tilskipun 77/453/EBE. Kærandi hefur ennfremur ekki sýnt fram á að hún hafi endurmenntun frá Póllandi samkvæmt 3. mgr. 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 244/1994 um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta o.fl. skv. ákvæðum EES-samningsins gefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, nú landlæknir út, samkvæmt umsókn, staðfestingu hjúkrunarleyfis til EES-ríkisborgara sem hafa lokið hjúkrunarnámi í öðru EES-landi og sem uppfyllir skilyrði staðfestingar skv. 3. gr. tilskipunar 77/452/ EBE, sbr. 1. gr. tilskipunar 77/453/EBE.

Nám kæranda er samtals 3506 stundir, en krafa tilskipunar nr. 77/453/EB er 4600 stundir. Prófskírteini og vottorð sem kærandi hefur lagt fram eru ekki í samræmi við tilskipanir hvað varðar menntun og starfsheiti. Kærandi hefur ekki heldur lagt fram gögn um viðbótarnám eða vottorð frá bærum yfirvöldum eða stofnunum í Póllandi um að nám hennar uppfylli skilyrði framangreindrar tilskipunar eða þær kröfur sem gerðar eru í aðlögunartexta aðildarsamnings EES vegna inngöngu Póllands í Evrópusambandið.

Með vísan til framanritaðs er synjun landlæknis um staðfestingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til handa kæranda því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis um synjun á staðfestingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til A er hér með staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum