Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 18/2012

Miðvikudaginn 16. janúar 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 18/2012, A gegn barnaverndarnefnd B. Málið varðar beiðni um endurupptöku úrskurðar kærunefndarinnar frá 2. febrúar 2012 þess efnis að synja kröfu kæranda um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dætra hennar, þeirra C og D. Upp var kveðinn svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi, dags. 18. september 2012, fór A, þess á leit við kærunefnd barnaverndarmála að hún endurupptæki úrskurð sinn frá 2. febrúar 2012. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun barnaverndarnefndar B, sbr. bréf dags. 1. desember 2011, að hafna beiðni um að aflétt yrði nafnleynd vegna barnaverndartilkynningar sem varðaði dætur kæranda, þær D, og C.

 

Kærandi krafðist þess að nafnleyndinni yrði aflétt.

 

Af hálfu Barnaverndar B var krafist staðfestingar á synjun um afléttingu nafnleyndar.

 

 

I

Málsmeðferð og helstu málavextir

 

Kærunefnd barnaverndarmála sendi Barnavernd B erindi kæranda með bréfi, dags. 28. september 2012. Í erindi sínu vísaði kærandi til bréfs Barnaverndarstofu til kæranda frá 31. ágúst 2012, sem er meðal gagna málsins, en þar kemur fram sú skoðun Barnaverndarstofu að sá ágalli hafi verið á ákvörðun Barnaverndar B að ákvörðun varðandi beiðni um afléttingu nafnleyndar hafi ekki verið tekin af barnaverndarnefndinni sjálfri, með úrskurði, heldur af einum starfsmanni nefndarinnar. Hin kærða ákvörðun var tekin af E, lögfræðingi Velferðarsviðs B. Kærunefnd barnaverndarmála óskaði, í fyrrgreindu bréfi sínu til Barnaverndar B, eftir skýringum barnaverndarnefndar á því hvers vegna staðið hafi verið að ákvörðun nefndarinnar með þessum hætti og á hvaða heimild í barnaverndarlögum þessi framkvæmd byggi.

 

Velferðarsvið B sendi kærunefnd barnaverndarmála bréf, dags. 29. október 2012, ásamt eftirfarandi bókun:

 

Á þeim tíma er ákvörðun þessi var tekin af lögmanni Velferðarsviðs B, dags. 20. desember 2011, fyrir hönd barnaverndarnefndar B, höfðu gildandi reglur um könnun og meðferð einstakra mála hjá barnaverndarstarfsmönnum skv. 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ekki að geyma framsal til handa starfsmönnum barnaverndar til að taka ákvörðun um að synja afléttingar nafnleyndar. Ákvörðun um synjun um að aflétta nafnleynd hefði með réttu átt að fara fyrir barnaverndarnefnd skv. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákvörðun lögmanns Velferðarsviðs var því ekki lögmæt þar sem hún átti sér ekki stoð í lögum og er því ólögmæt að efni til og ógildanleg. Í kjölfar þessa máls felur barnaverndarnefnd B lögfræðingi Velferðarsviðs að endurskoða reglurnar að nýju með tilliti til ofangreinds máls, til að ákvarðanataka af þessu tagi muni ekki endurtaka sig í framtíðinni.“

 

Málið var tekið fyrir á fundi kærunefndar barnaverndarmála 14. nóvember 2012 og gerð var í því svohljóðandi bókun:

 

Kærunefnd barnaverndarmála kvað upp úrskurð 2. febrúar 2012 þess efnis að synja kröfu A um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dætra hennar, þeirrar D og C.

 

Lögmaður Velferðarsviðs B tók hina kærðu ákvörðun 20. desember 2011. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 bar barnaverndarnefnd B hins vegar að taka slíka ákvörðun og vald til að taka slíka ákvörðun hafði ekki verið framselt til starfsmanna nefndarinnar á grundvelli 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga. Ákvörðunin er því ógildanleg og afturkallar kærunefnd barnaverndarmála því úrskurð sinn sem kveðinn var upp 2. febrúar 2012 í máli kæranda með vísan til 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

 

 

II

Niðurstaða

 

Í 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, segir:

 

Ef tilkynnandi skv. 16. gr. óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála Leiðbeina skal tilkynnanda og foreldri um rétt til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar.“

 

Samkvæmt framangreindu skal barnaverndarnefnd taka ákvörðun, sem kæranleg er til kærunefndar barnaverndarmála. Í máli þessu tók lögfræðingur Velferðarsviðs B hina kærðu ákvörðun, en ekki barnaverndarnefndin. Reglur um könnun og meðferð einstakra mála hjá barnaverndarstarfsmönnum skv. 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga höfðu ekki að geyma framsal til handa starfsmönnum barnaverndarnefndarinnar til að taka ákvörðun um að synja afléttingu nafnleyndar. Hin kærða ákvörðun var því ólögmæt og ógildanleg, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum endurupptók kærunefnd barnaverndarmála málið 2. febrúar sl. og afturkallaði úrskurð sinn.

 

Mál þetta varðar beiðni kæranda til barnaverndarnefndar B um að aflétt verði nafnleynd. Þar sem ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 1. desember 2011, þess efnis að synja kæranda um að aflétta nafnleynd tilkynnanda, var samkvæmt framangreindu ekki tekin af stjórnvaldi sem til þess var bært, verður máli kæranda vísað aftur heim til nefndarinnar til löglegrar meðferðar, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Máli A um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dætra hennar, þeirra C og D, er vísað heim til barnaverndarnefndar B til löglegrar meðferðar.

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum