Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 22. desember 1997

Mánudaginn 22. desember 1997 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 21/1997:

Landsvirkjun

gegn

Eig. Ásgarðs, Grímsneshreppi

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Ágreiningsefni:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997, fór eignarnemi, Landsvirkjun, þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti eignarnámsþola, eiganda Ásgarðs, Grímsneshreppi, hæfilegar bætur vegna eignarnáms sem gert var á hluta jarðarinnar vegna lagningar Búrfellslínu 3A, 220 kV háspennulínu um jörðina. Eignarnámið nær til lagningar 400 m. vegslóða um jörðina auk þess að reisa 2 möstur sem koma til með að bera framangreinda háspennulínu, sem verður um 850 m. að lengd í landi jarðarinnar. Þá leggst sú kvöð á næsta nágrenni línunnar, að ekki má byggja önnur mannvirki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram henni.

Í matsbeiðni var auk þess krafist að eignarnema yrði, á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til, þó mati sé ekki lokið, þar sem brýnt sé að framkvæmdir við lagningu línunnar geti hafist sem fyrst.

Við fyrstu fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni þann 15. desember 1997 mótmælti fulltrúi eignarnámsþola því að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda landsvæðis. Af hálfu matsnefndar var eignarnámsþola gefinn kostur á að skila inn skriflegum athugasemdum vegna þessa og liggja þær nú fyrir.

III. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst umráða yfir hinu eignarnumda landsvæði með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, þar sem brýnt þykir að framkvæmdir við lagningu háspennulínunnar geti hafist sem fyrst. Eignarnema þykir mikilvægt að geta nýtt vetrarmánuðina til, framkvæmda við undirstöður mastra, lagningar línuvega og annars undirbúnings fyrir sjálfa uppsetningu línunnar, sérstaklega m.t.t. þess hversu snjólétt er um þessar mundir á svæðinu.

IV. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að synjað verði kröfu eignarnema um umráðatökuna að svo stöddu. Því er haldið fram að umráðatakan sé ólögmæt og a.m.k. ekki tímabær og að hún geti beinlínis valdið eignarnámsþola tjóni. Eignarnámsþoli heldur því fram að hönnun hinnar fyrirhuguðu raflínu sé í raun miðuð við 400 kV línu þannig að umfang og undirstöður línunnar verði af þessum sökum mun stærri og meira áberandi heldur en ef einungis væri um að ræða 220 kV línu, og því sjónmengun meiri.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að eignarnemi hafi sagt að matsbeiðnin lúti einungis að 220 kV línu, en að 400 kV lína verði reist ef leyfi fáist. Eignarnámsþoli bendir m.a. á að nú sé unnið að umhverfismati vegna 400 kV línu um svæðið en frestur til að skila inn athugasemdum vegna þess mats renni út þann 2. janúar 1998.

Eignarnámsþoli telur að þær bótafjárhæðir sem eignarnemi hafi boðið þeim séu langt undir því sem raunhæft geti talist og viðræður eignarnema við eignarnámsþola hafi snúist um að þrýsta á eignarnámsþola um að gefa eignarnema leyfi til að hefja framkvæmdir á jörðinni. Eignarnámsþoli telur alls ekki eðlilegt að eignarnemi fái umráð landsins á þessu stigi málsins, enda hafi hann haft nægan tíma til þess að undirbúa framkvæmdir sínar sem séu ekki nauðsynlegar vegna rafvæðingar byggða landsins, heldur einungis nauðsynlegar í því skyni að selja rafmagn til stóriðjuframkvæmda og því sé hér einungis um ágóðastarfsemi eignarnema að ræða, en ekki þáttur í þjónustu við íbúa landsins. Með vísan til þessa efast eignarnámsþoli um gildi leyfis iðnaðarráðuneytisins frá 3. þ.m. þar sem það heimilar eignarnám það sem hér er fjallað um.

Eignarnámsþoli heldur því fram að eignarnemi hafi við afgreiðslu máls þessa brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem eignarnemi hafi aldrei viljað hlusta á hugmyndir eignarnámsþola um að mögulegt væri að línan yrði lögð á öðrum stað, þ.e. í óbyggðum norðan byggðar.

Með hliðsjón af framangreindu og 72. gr. stjórnarskrárinnar krefst eignarnámsþoli þess að synjað verði um umráðatöku, a.m.k. að svo stöddu eða þar til í ljós er komið hvort leyfi muni fást fyrir 400 kV línu á svæðinu.

V. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér landsvæði það sem hin fyrirhugaða háspennulína mun liggja um. Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins að mati nefndarinnar. Ekkert annað er fram komið í máli þessu en að fyrirhugað sé að leggja 220 kV línu á svæðinu, enda er miðað við þess konar línu í öllum gögnum málsins. Af þessum sökum þykja hugleiðingar um mögulega stækkun línunnar í 400 kV og áhrif þess á matið ekki tímabærar á þessu stigi málsins.

Af hálfu matsnefndarinnar þykir sýnt að framkvæmdir eignarnema á svæðinu muni ekki með neinum hætti torvelda störf nefndarinnar síðar. Þá hefur eignarnámsþoli ekki sýnt fram á framkvæmdir eignarnema á svæðinu, þó mati sé ekki lokið, muni raska neinum þeim hagsmunum hans sem réttlæta það að eignarnema sé gert ókleyft að hefja framkvæmdir á svæðinu.

Með vísan til ofanritaðs er eignarnema heimiluð umráðataka hins eingnarnumda landsvæðis og að hefja framkvæmdir á svæðinu með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands Ásgarðs, Grímsneshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl., formaður

___________________________

_________________________________

Vífill Oddsson, verkfr.

Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum