Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 22. nóvember 1997

Föstudaginn 22. nóvember 1997 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 6/1997

Grímsneshreppur

gegn

Guðrúnu St. Halldórsdóttur Dodsworth

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, hrl, formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 30. september 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 9. október 1997, fór Grímsneshreppur, kt. 580169-1719, Grímsnesi, Árnessýslu (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur fyrir 252 ferm. landspildu. Umrædd spilda er hluti sumarbústaðalands úr Noðurkotslandi, Grímsneshreppi, í eigu Guðrúnar St. Halldórsdóttur Dodsworth, kt. 210429-3609, 22 Thornton Way, Cambridge, CB 3 ONJ, Englandi (eignarnámsþoli).

Skv. staðfestu deiluskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir að vegspotti liggi um land eignarnámsþola, að öðru sumarbústaðalandi sem liggur neðar og nær Álftavatni. Umræddur vegspotti er samtals 63 m. langur og 4 m. breiður, eða samtals 252 ferm. Eignarnámið byggir á heimild í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 9. október 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Ekki var gert athugasemd við skipan matsnefndarinnar í málinu. Af hálfu eignarnámsþola mætti Ásgeir Magnússon hrl. Hann tók sérstaklega fram að hann hefði ekki sérstakt umboð til að mæta hjá matsnefndinni í málinu og óskaði hann eftir fresti til að afla umboðsins og kanna afstöðu eignarnámsþola til málsins. Málinu var frestað til 31. október 1997.

Föstudaginn 31. október 1997 var málið tekið fyrir. Ekki var mætt af hálfu eignarnámsþola, en matsnefndinni hafði borist símbréf frá henni þar sem eftirfarandi kemur fram:

"Ég undirrituð mótmæli hér harðlega þeirri ákvörðun hreppsnefndar Grímsneshrepps að taka hluta af sumarbústaðalandi mínu í Norðurkotslandi eignarnámi vegna einkavegs að öðrum bústað.

Ég tel hana ósættanlega og áskil mér allan rétt til að leita réttar míns fyrir stjórnvöldum eða dómstólum vegna hennar.

Vegna þessa mun ég ekki hafa nein afskipti af starfi matsnefndar eignarnámsbóta.

29. október 1997

Guðrún St. Halldórsdóttir (sign)"

Af hálfu matsnefndar var ákveðið að halda málinu áfram allt að einu, þar sem matsnefndin er úrskurðarnefnd, sem ekki er bundin af kröfugerð aðila, er hún sker úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um eignarnám. Málinu var því frestað til vettvangsgögngu til 7. nóvember 1997.

Föstudaginn 7. nóvember 1997 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Þá var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðatöku hinnar eignarnumdu spildu á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Þar sem enginn mætti af hálfu eignarnámsþola var málið tekið til úrskurðar að lokinni vettvangsgöngu. Matsnefndin gaf eignarnámsþola þó bréflega lokatækifæri til að koma að kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu. Frestur eignarnámsþola til þess rann út þann 14. nóvember 1997, án þess að nokkur gögn bærust nefndinni frá henni.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að meta beri hina eignarnumdu landspildu á sama verðlagi og almennt tíðkast um landsvæði á þessum stað á landinu. Eignarnemi hefur lagt fram upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins þar sem fram kemur að grunnverð sumarhúsalóða í Norðurkotslandi nemi kr. 103,5 pr. ferm. Samkvæmt því séu réttar bætur fyrir hið eignarnumda kr. 26.082- (103,50 x 252).

Eignarnemi bendir á að hin eignarnumda spilda sé á einu vinsælasta sumarhúsasvæði landsins rétt við Álftavatn, en vekur þó athygli á að landið liggi ekki að vatninu sjálfu. Eignarnemi heldur því fram að vegurinn breyti í engu nýtingarmöguleikum eignarnámsþola á landinu, þar sem á því hafi hvort sem er verið kvöð um gangstíg þar sem vegspottinn nú liggur, skv. framlögðum kaupsamningi um lóð eignarnámsþola frá 22. maí 1936. Eignarnemi telur að einungis sé verið að auka þá kvöð úr því að vera göngustígur yfir í það að vera nettur akfær vegur.

V. Álit matsnefndar:

Svo sem fram hefur komið hefur eignarnámsþoli ekki lagt fram neinar kröfur eða komið á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu. Þykir það þó ekki standa því í vegi að matsnefndin kveði upp úrskurð í málinu í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Mæling eignarnema á hinni eignarnumdu spildu er ekki véfengd. Hún liggur á fallegum stað í einni vinsælustu sumarhúsabyggð landsins. Að áliti matsnefndar sker vegspotti sá sem lagður hefur verið á spildunni land eignarnámsþola í sundur og gerir nýtingu landsins suðvestan við vegspottann óhentugri en verið hefði ef þar hefði einungis verið gangstígur. Sá hluti lands eignarnámsþola sem þannig er slitinn úr tengslum við land eignarnámsþola áætlast nefndinni að sé u.þ.b. 3.000 ferm. að stærð.

Matsnefndinni þykir rétt, við mat á bótum fyrir hina eignarnumdu spildu, að taka sérstakt tillit til þess óhagræðis sem nefnt hefur verið. Með vísan til gangverðs á sumarbústaðalöndum á því svæði sem um er að ræða og þess sem fram kemur hér að framan þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda vera sem hér segir:

Bætur fyrir 252 ferm. landspildu

kr. 30.000

Bætur vegna sérstakrar verðrýrnunar á landi eignarnámsþola

kr. 180.000

Samtals

kr. 210.000

Þá skal eignarnemi greiða kr. 184.200- til ríkissjóðs í kostnað vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu. Ekki þykja efni til að ákvarða eignámsþola málskostnað í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Grímsneshreppur, kt. 580169-1719, Grímsnesi, Árnessýslu, greiði eignarnámsþola, Guðrúnu St. Halldórsdóttur Dodsworth, kt. 210429-3609, 22 Thornton Way, Cambridge, CB 3 ONJ, Englandi, kr. 210.000- í eignarnámsbætur. Þá greiði eignarnemi kr. 184.200- til ríkissjóðs vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarámsbóta í máli þessu.

________________________________________

Helgi Jóhannesson, formaður

______________________________

_______________________________

Vífill Oddsson, verkfr.

Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum