Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2008: Dómur frá 11. febrúar 2009

Ár 2009, miðvikudaginn 11. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 9/2008.

                                                           

Sjúkraliðafélag Íslands gegn Reykjavíkurborg

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið var 8. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Arnfríður Einarsdóttir, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Guðni Á Haraldsson.

 

Stefnandi er: Sjúkraliðafélags Íslands, kt. 560470-0109, Grensásvegi 16, Reykjavík.

Stefndi er: Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi þrjár dómkröfur vegna fjögurra starfsmanna við sérhæfða umönnun og hjúkrun sjúkra á hjúkrunardeild Seljahlíðar, sem rekin er af velferðarsviði stefnda, þeirra Hallfríðar Elíasdóttur kt. 120343-2389, Ragnhildar Árnadóttir kt. 151054-3829, Rósu Haraldsdóttur kt. 170843-3209 og Signýjar Bjarnadóttur kt. 171275-4589:

 

  1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnandi hafi farið með samningsaðild vegna framangreindra fjögurra starfsmanna frá og með 1. júní 2008, en til vara frá 1. júlí 2008.
  2. Að viðurkennt verði með dómi að laun framangreindra fjögurra starfsmanna hafi farið eftir gildandi kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar frá og með 1. júní 2008, en til vara frá 1. júlí 2008.
  3. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

 

Málavextir

Stefnandi er stéttarfélag sjúkraliða og hefur rétt samkvæmt lögum nr. 94/1986, til að gera kjarasamninga fyrir félagsmenn sína við sveitarfélög og stofnanir þeirra.

Samkvæmt 3. gr. laga stefnanda eiga rétt til aðildar að félaginu:

Sjúkraliðar sem lokið hafa námi við Sjúkraliðaskóla Íslands, fjölbrautaskóla eða hliðstæða skóla erlendis, sem njóta viðurkenningar viðkomandi ráðuneytis og Sjúkraliðafélags Íslands. Einnig eiga rétt til aðildar að félaginu starfsmenn sérmenntaðir í hjúkrun og /eða aðhlynningu á félags- eða heilsugæslusviði sem leggja má að jöfnu við sjúkraliðanám eða hluta af sjúkraliðanámi.

Stefndi Reykjavíkurborg starfrækir Seljahlíð, sem er heimili fyrir aldraða. Heimilið hóf starfsemi 1. júní 1986 og mun fyrst hafa verið rekið sem vistheimili fyrir 83 heimilismenn. Árið 1991 mun hluta af vistheimilinu hafa verið breytt í hjúkrunardeild með þrettán hjúkrunarrýmum. Nokkrum árum síðar mun hjúkrunardeildin hafa verið stækkuð í 28 rými, en árið 1999 var hafist handa við að breyta þeim 55 vistrýmum sem eftir voru í þjónustuíbúðir. Þeirri breytingu mun hafa verið lokið í árslok 2005 og hefur stofnunin síðan verið rekin í tveimur deildum, annars vegar þjónustudeild sem tekur til þjónustuíbúðanna og hins vegar hjúkrunardeild fyrir heimilismenn sem eru í þörf fyrir hjúkrun og sérhæfða umönnun. Lítilsháttar skörun mun vera á milli deilda, sbr. framlagt yfirlit um starfsemina. Samkvæmt yfirlitinu hefur hjúkrunarrýmum einnig fækkað á hjúkrunardeild úr 28 niður í 19. 

Á deildum Seljahlíðar starfa bæði hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, auk ófaglærðra starfsmanna. Samkvæmt yfirlýsingum stefnda er það stefna borgarinnar að ráðnir verði eftir föngum sjúkraliðar á hjúkrunarheimilin Seljahlíð og Droplaugarstaði.

Fram er komið að stefndi hefur ekki mótað sjálfstæða skilgreiningu um það hvernig manna skuli störf á hjúkrunarheimilum sínum með tilliti til faglærðs og ófaglærðs starfsfólks. Stefnandi heldur því fram að um hjúkrunarmönnun á öldrunarstofnunum gildi því almenn viðmið landlæknis, sem gefin voru út í ágúst 2001 og áherslur embættisins í heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum frá því í júlí 2008. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda sem telur hér einungis um að ræða ábendingar, sem unnar voru af gæðaráði landlæknisembættisins í öldrunarhjúkrun.  Þessi viðmið geti því með engu móti talist bindandi fyrir Seljahlíð eða aðrar sambærilegar stofnanir. Heldur stefndi því fram að hér sé m.a. um að ræða tillögur um mönnunarstuðla sem ætlað sé að vera leiðbeinandi um mönnun á öldrunarstofnunum.  Í tillögunum sé t.d. gengið út frá því að allar stöður á hjúkrunarheimilum séu mannaðar hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Ekki sé gert ráð fyrir að félagsliðar eða ófaglærðir starfi að umönnun á slíkum stofnunum í þessum tillögum.

Fyrir liggur að sett var á stofn sérstakt nám – sjúkraliðabrú – í samvinnu stefnanda við menntamálaráðuneyti og fjölbrautarskóla sem mennta sjúkraliða Tilgangur þessa sérstaka náms var að gefa ófaglærðum starfsmönnum með langa starfsreynslu í umönnunarstörfum tækifæri til þess að öðlast starfsréttindi sjúkraliða.

Fjórir starfsmenn á Seljahlíð sóttu um inngöngu í námið vorið 2006, þ.e. Hallfríður Elíasdóttir, Ragnhildur Árnadóttir, Rósa Haraldsdóttir og Signý Bjarnadóttir. Eru dómkröfur stefnanda gerðar vegna þeirra eins og áður greinir.

Áður en þær Hallfríður, Ragnhildur, Rósa og Signý sóttu um inngöngu í námið höfðu þær rætt við stjórnendur Seljahlíðar. Fengu þær mjög jákvæð viðbrögð og hvatningu við áform sín, m.a. frá Margréti Árdísi Ósvaldsdóttur, núverandi forstöðumanni Seljahlíðar, sem gaf skriflega stuðningsyfirlýsingu við umsóknir þeirra allra. Kemur fram í umsögn um þær að þær eigi fyllilega erindi í raðir sjúkraliða.

Þær Hallfríður, Ragnhildur, Rósa og Signý stunduðu námið á sjúkraliðabrú veturna 2006–2007 og 2007–2008 og luku því eins og ráð var fyrir gert í maí 2008. Að lokinni útskrift sóttu þær um leyfi til þess að starfa sem sjúkraliðar og gaf landlæknir út leyfisbréf þeim til handa í júní og byrjun júlí 2008. Samhliða sóttu þær um aðild að stefnanda.

Þegar þessi formsatriði voru frágengin, töldu þær Hallfríður, Ragnhildur, Rósa og Signý að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Seljahlíð og velferðarsvið stefnda, sem launagreiðandi, byrjuðu að greiða laun samkvæmt kjarasamningi stefnanda og stefnda og að flutningur milli kjarasamninga ætti að miðast við mánaðarmótin eftir útskrift úr náminu, þ.e. 1. júní. Í öllu falli ætti flutningurinn að miðast við 1. júlí enda hafi þá legið fyrir leyfi landlæknis.

Fram kom hins vegar af hálfu stjórnenda Seljahlíðar að ekki væri hægt að verða við þessu, vegna þess að ekki væru fyrir hendi „laus störf sjúkraliða“ handa þeim fjórum. Deilt var um þetta atriði fram eftir ágústmánuði og var m.a. leitað atbeina stefnanda til þess að finna lausn á málinu. Var m.a. send athugasemd til embættis landlæknis, sem svaraði með bréfi dags. 8. september 2008.

Stefndi bendir á að á Seljahlíð starfi, auk sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, félagsliðar og ófaglært starfsfólk við almenna umönnun.  Óumdeilt sé í þessu máli að umræddir starfsmenn störfuðu við almenn umönnunarstörf á grundvelli starfslýsingar Eflingar-starfsfólks samkvæmt ráðningarsamningi en hafi ekki unnið sérhæfð umönnunarstörf eins og stefnandi haldi fram. Fram til 1. október 2008 hafi þeir tekið laun og önnur ráðningarkjör samkvæmt kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags. Í ráðningarsamningum og launaseðlum umræddra starfsmanna komi skýrt fram hvert starfsheiti þeirra var og eftir hvaða kjarasamningi ráðningarkjör þeirra fóru. Þeir fjórir starfsmenn sem um ræðir hafi sótt um inngöngu í nám á sjúkraliðabraut. Ekki  hafi verið gert að skilyrði fyrir sjúkraliðanámi starfsmannanna að þeir störfuðu við sérhæfða umönnun enda hafi slíkt ekki verið raunin. Rétt sé að forstöðumaður Seljahlíðar hafi mælt með þessum starfsmönnum í sjúkraliðanámið en í yfirlýsingum hennar felist með engu móti skuldbinding af hálfu stefnda að þeir yrðu sjálfkrafa ráðnir sem sjúkraliðar strax að loknu námi og að um ráðningarkjör þeirra færi eftir kjarasamningi stefnanda og stefnda. Slíkt sé sjálfstæð ákvörðun, sem fari hverju sinni eftir mati á þörf, þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru o.s.frv.

Um miðjan september 2008 bárust skilaboð um það frá lögfræðingi mannauðsskrifstofu stefnda að þeir fjórir starfsmenn sem um ræðir myndu flytjast í störf sjúkraliða. Stefnandi telur að eftirfylgni hafi skort við þessi áform og um mánaðarmótin september/október hafi ekki verið búið að ganga frá nýjum ráðningarsamningum við alla hlutaðeigandi. Ennfremur hafi komið fram að Seljahlíð hygðist láta nýjar starfslýsingar gilda frá 1. október 2008.

Stefnandi kveðst þegar hafa gert athugasemd við þessi áform og krafist þess að flutningur yfir á kjarasamning félagsins miðaðist við 1. júní 2008. Með tölvupósti lögfræðings mannauðsskrifstofu stefnda dags. 10. október 2008 var þessari kröfu hafnað, en boðin málamiðlun sem að mati stefnanda var ekki ásættanleg.

Fram er komið að við þrjá af þessum fjórum starfsmönnum var gerður nýr ráðningarsamningur, sem tók gildi 1. október 2008, þegar þeir tóku við starfi sjúkraliða á Seljahlíð. Laun og önnur ráðningarkjör frá þeirri dagsetningu fara eftir kjarasamningi stefnanda og stefnda. Fjórði starfsmaðurinn, Signý Bjarnadóttir, hafi verið í fæðingarorlofi. Heldur stefndi því fram að gerður verði nýr ráðningarsamningur við hana um starf sjúkraliða við stofnunina þegar hún kemur til vinnu í lok janúar 2009.

Vegna ágreinings aðila um það hvenær samningsaðild stefnanda vegna þessara umræddu starfsmanna varð virk og frá hvaða tímamarki laun umræddra starfsmanna fari eftir kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar telur stefnandi nauðsynlegt að leggja málið fyrir Félagsdóm til úrlausnar, sbr. 3. tl. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Fyrsta dómkrafa stefnanda lýtur að viðurkenningu á því að stefnandi hafi farið með samningsaðild vegna framangreindra fjögurra starfsmanna frá og með 1. júní 2008, en til vara frá 1. júlí 2008. Þessi krafa sé gerð til öryggis, þar sem stefndi hafi enn ekki fengist til þess að gera ráðningarsamninga sem byggist á kjarasamningi stefnanda og stefnda. Er á því byggt af hálfu stefnanda að útgáfa nýrrar starfslýsingar fyrir starfsmennina geti ekki komið í stað eða verið ígildi nýs ráðningarsamnings.

Krafa stefnanda að þessu leyti styðjist við lögbundið samningsumboð stefnanda fyrir starfandi sjúkraliða, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fyrir liggi að hlutaðeigandi starfsmenn hafi gengið í Sjúkraliðafélag Íslands, enda hafi þeir uppfyllt skilyrði 3. gr. laga stefnanda um félagsaðild frá og með 1. júní 2008. Starfsmennirnir hafi, allir fjórir, farið þess formlega á leit við stefnda að taka laun samkvæmt kjarasamningi stefnanda og stefnda frá því tímamarki.

Önnur dómkrafa stefnanda byggist aðallega á því að hlutaðeigandi fjórir starfsmenn hafi, með því að ljúka menntun af námsbrautinni sjúkraliðabrú, öðlast faglega færni sem stefnda sé skylt að meta til launa samkvæmt gildandi kjarasamningi SLFÍ og Reykjavíkurborgar, einkum gr. 1.3.2 og 1.3.6.1, sbr. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 897/2001, um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða.

Stefnandi byggir einnig á því að þegar fyrir lágu leyfisbréf, útgefin til handa umræddum starfsmönnum á grundvelli laga nr. 58/1984, um sjúkraliða, hafi stefnda borið að endurskoða mönnun á Seljahlíð, til þess að svara kröfum sem gerðar séu til sérhæfðrar aðhlynningar og hjúkrunar á hjúkrunardeildum öldrunarstofnana. Þessar kröfur komi fram í opinberum viðmiðum sem sett séu samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 786/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðis­þjónustu og faglegar lágmarkskröfur og á grundvelli laga nr. 41/2007, um landlækni. Grundvöll þessara opinberu viðmiða um mönnun hjúkrunardeilda með löggiltum heilbrigðisstéttum, sé að finna í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, m.a. 16. gr., og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, m.a. 14. gr. Ennfremur sé skýrt kveðið á um það í 4. gr. reglugerðar nr. 897/2001, um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða, að ekki sé heimilt að ráða aðra en sjúkraliða til sérhæfðra umönnunar- og hjúkrunarstarfa samkvæmt 3. mgr. 3. gr., nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum.

Stefnandi telur að viðbrögð stefnda við því að umræddir fjórir starfsmenn luku menntun sinni stangist á við þessi opinberu viðmið og lögbundnu skyldur. Stefndi beiti þannig ómálefnalegu sjónarmiði, sem stangist á við réttmætisreglu íslensks réttar, þegar hann beri fyrir sig að ekki hafi verið gert ráð fyrir launabreytingum í fjárhagsáætlun ársins. Þá sé það rangt hjá stefnda að ekki vanti sjúkraliða á Seljahlíð, með því að fyrir liggi að samkvæmt opinberum viðmiðum vanti mikið upp á faglega mönnun við sérhæfða aðhlynningu og hjúkrun. Af sjálfu leiði síðan að með fjóra menntaða sjúkraliða í starfi við sérhæfð umönnunar- og hjúkrunarstörf geti stefndi ekki haldið því fram að beita megi undanþáguheimild 4. gr. reglugerðar nr. 897/2001.

Hafa beri og í huga að stefndi sé, sem stjórnvald, bundinn af lögmætisreglu sem skyldi hann til þess að haga viðbrögðum sínum og ákvörðunum í hvívetna í samræmi við heimildarlög og þannig að ekki sé brotið gegn öðrum lögum. Stefnandi telur, í því sambandi, að þau heimildarlög sem hér eigi við séu efnisreglur laga um veitingu faglegrar heilbrigðisþjónustu á hjúkrunardeildum öldrunarstofnana, sbr. áðurgreint.

Ágreiningur sé einnig milli aðila um það frá hvaða tímamarki flutningur eða framgangur í starf sjúkraliða eigi að gilda. Í því efni geri stefnandi aðallega þá kröfu að tímamarkið 1. júní 2008 verði viðurkennt með dómi, en til vara að tímamarkið skuli miðast við útgáfu leyfisbréfs landlæknis framangreindum fjórum starfsmönnum til handa.

Stefnandi hafni þeirri skoðun að launagreiðandi geti ákveðið þetta tímamark af eigin geðþótta, sbr. það að stefndi telur tímamarkið eiga að vera 1. október eða eftir atvikum 1. september. Afstöðu sína rökstyðji stefnandi með því að fyrir því sé óskoruð venja samkvæmt íslenskum starfsmannarétti að framgangur milli starfa á grundvelli viðbótarmenntunar skuli miðast við það tímamark þegar starfsmaður hafi formlega lokið þeim áföngum sem áskildir séu. Stefnandi telur að þessarar venju megi m.a. sjá stað í úrlausnum dómstóla og ætti því að vera óumdeild.

Stefnandi fallist hins vegar á að áhöld kunni að vera um það hvenær umræddir fjórir starfsmenn teljist formlega hafa lokið þeim áfanga sem áskilinn sé vegna framgangs í starfi. Stefnandi telji eðlilegt að miða við 1. júní 2008 í þessu sambandi, þar eð fyrir liggi að útskrift af sjúkraliðabrú hafi farið fram í maí 2008. Komi það tímamark ekki til álita sé einboðið að mati stefnanda að miða við það tímamark er leyfisbréf landlæknis var gefið út framangreindum fjórum starfsmönnum til handa.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi ekki frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu. 

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Í stefnu komi fram að dómkrafa stefnanda, um viðurkenningu á því að stefnandi fari með samningsaðild vegna starfsmannanna, sé gerð til öryggis þar sem stefndi hafi ekki enn fengist til að gera ráðningarsamning við starfsmennina sem byggist á kjarasamningi stefnanda og stefnda. Eins og fram sé komið hafi þrír af þessum fjórum starfsmönnum ritað undir nýjan ráðningarsamning sem byggist á kjarasamningi stefnanda og stefnda. Hafi þeir tekið gildi frá og með 1. október 2008. Með vísan til þessa verði að líta svo á að fyrsta dómkrafa stefnanda sé niður fallin.

Svo virðist sem umræddir starfsmenn hafi gert ráð fyrir því að með að ljúka sjúkraliðanáminu myndu þeir sjálfkrafa flytjast yfir á launakjör sjúkraliða samkvæmt kjarasamningi stefnanda og stefnda og taka við starfi sem sjúkraliðar. Stefndi líti hins vegar öðrum augum á málið og vísar til þess að þau störf sem starfsmennirnir sinntu fram til 1. október 2008, voru ekki sjúkraliðastörf heldur almenn umönnunarstörf og voru launasett sem slík samkvæmt kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags. Til stuðnings þessu sé vísað til fyrirliggjandi ráðningarsamninga og starfslýsinga á störfum Eflingar-starfsfólks og sjúkraliða á stofnuninni. Í ráðningarsamningum þeirra komi hvergi fram að þeir hafi verið ráðnir sem sjúkraliðar eða að störf þeirra væru með einhverjum hætti tengd störfum sjúkraliða. Þá beri að benda á að í lögum nr. 58/1984 um sjúkraliða og reglugerð nr. 897/2001 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða komi fram að einungis sjúkraliðar skuli sinna sérhæfðum umönnunarstörfum, fáist þeir til starfa. Hvorki í lögunum né reglugerðinni sé það hins vegar skilgreint hvað felist í sérhæfðri umönnun. Samkvæmt skilgreiningum stofnunarinnar sinntu umræddir starfsmenn almennum umönnunarstörfum á Seljahlíð og megi hafa það til marks að ekki hefði verið auglýst eftir sjúkraliðum til starfa hefðu störf þeirra losnað, heldur hefði verið auglýst eftir starfsfólki í umönnun.

Stefnandi byggi á því að þegar leyfisbréf starfsmannanna lágu fyrir hafi stefnda borið að endurskoða mönnun á Seljahlíð til þess að svara kröfum sem gerðar séu til sérhæfðrar aðhlynningar og hjúkrunar á hjúkrunardeild öldrunarstofnana. Því til  svara sé bent á að ekki sé til almenn skilgreining á því hvernig manna skuli stöður á hjúkrunarheimilum með tilliti til faglærðs og ófaglærðs starfsfólks. Í 11. gr. reglugerðar nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur, komi einungis fram að fjöldi heilbrigðisstarfsmanna skuli taka mið af umfangi og eðli þjónustunnar og aðstæðum hverju sinni. Bent sé á að 28 rými hafi verið á hjúkrunarheimili Seljahlíðar þegar umræddir starfsmenn hófu nám sitt en höfðu minnkað niður í 19 þegar starfsmennirnir komu aftur til starfa. Þörfin fyrir sjúkraliða við stofnunina hafi því verið meiri við upphaf námsins en við lok þess.  Við mat á mönnunarþörf hafi verið tekið mið af þessari minnkun á hjúkrunareiningu stofnunarinnar. Stefndi geti því ekki fallist á það sjónarmið stefnanda að það hafi átt að vera skylda Seljahlíðar, sem vinnuveitanda, að ráða starfsmennina í störf sjúkraliða um leið og þeir útskrifuðust úr brúarnámi sínu þann 1. júní 2008. Matið á því hvort þörf sé á fleiri sjúkraliðum við stofnunina, og þá hve mörgum, sé stofnunarinnar.  Verði það ekki tekið af henni nema samkvæmt skýrum lagafyrirmælum. Þau opinberu viðmið sem stefnandi vísi til séu einungis ábendingar og teljist engan veginn bindandi fyrir stofnunina. Önnur laga- og reglugerðarákvæði, sem stefnandi vísi til, eigi ekki við hér enda sé þar fyrst og fremst um að ræða almenn ákvæði um hvaða þjónustu skuli veita á öldrunarstofnunum þar sem hjúkrunarrými séu til staðar.

Því er mótmælt að viðbrögð stefnda við því að umræddir starfsmenn luku menntun sinni stangist á við þessi opinberu viðmið landlæknis og lögbundnar skyldur.  Ekkert í málatilbúnaði stefnanda styðji það að stefndi hafi ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar á grundvelli laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, laga nr. 125/1999 um málefni aldraða og þeirra reglugerða sem vísað sé til. Sönnun um slíkt hvíli óumdeilt á stefnanda. Þá sé því jafnframt mótmælt að stefndi beiti fyrir sig ómálefnalegu sjónarmiði sem stangist á við réttmætisreglu íslensks réttar með vísan til framanritaðs.

Umframmenntun starfsmanna sé ekki fortakslaust metin á þann átt að hún leiði sjálfkrafa til slíks framgangs sem stefnandi geri kröfu um. Launasetning starfa hjá stefnda sé fyrst og fremst miðuð út frá því starfi sem starfsmaður sinni en ekki menntun starfsmanna þó vissulega geti starfsmenn fengið umfram menntun sem nýtist í starfinu metna til launa í ákveðnum tilfellum. Þannig fái t.d. viðskiptafræðingur í umönnunarstarfi ekki laun samkvæmt kjarasamningi Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga heldur samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags, rétt eins og ófaglærður starfsmaður og félagsliði sem sinni sama starfi. Þá megi geta þess að í kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags sé m.a. gert ráð fyrir framgangi í starfi þegar starfsmaður hafi lokið svokölluðu „brúar“námi.

Meginrök fyrir sýknukröfu stefnda af annarri dómkröfu stefnanda séu þau að stefnandi geti ekki, fyrir hönd starfsmannanna, breytt einhliða skýrum ákvæðum í ráðningarsamningum þar sem þeir hafi verið ráðnir til almennra umönnunarstarfa og séu því bundnir af þeim samningi þar til nýr ráðningarsamningur sé gerður. Breytt félagsaðild breyti ekki forsendum ráðningarsamninga, sbr. t.d dóm Félagsdóms í máli nr. 2/2004. Á meðan svo sé verði ráðningarkjör þeirra áfram miðuð við kjarasamning stefnda og Eflingar-stéttarfélags.  Við ráðningu þeirra hafi verið gengið út frá því að um laun og ráðningarkjör færi samkvæmt þessum kjarasamningi, eins og ráðningarsamningar og launaseðlar þeirra beri skýrt með sér. Sé þannig á því byggt að það sé ekki á valdi stefnanda að fá breytt starfi eða starfslýsingu einstakra starfsmanna með málsókn fyrir Félagsdómi. Um það hljóti stefndi, sem vinnuveitandi, að hafa fullt mat. Hingað til hafi það ekki verið á valdi stéttarfélaga að ákveða innra skipulag stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga. Hvernig störf skuli skilgreind og hverjir skuli vinna ákveðin störf heyri óumdeilanlega undir vinnuveitanda að ákveða en ekki stéttarfélög, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 4/1998. Af sama dómi verði einnig ráðið að samningsaðild til kjarasamninga flytjist ekki sjálfkrafa milli stéttarfélaga þó að sá er starfinu gegni skipti um félag. Stefndi telji jafnframt að það sé ekki innan valdsviðs Félagsdóms að dæma um ráðningarkjör eða ráðningarsamninga sem starfsmenn geri, þegar þeir ráða sig til vinnu, eða um forsendur slíkra samninga eins, og önnur dómkrafa stefnanda lúti að, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Stefndi leggi ríka áherslu á að stöðugleiki ríki þannig að samfélagsleg markmið, sem að sé stefnt með rekstri stofnana á borð við Seljahlíð, náist. Þurfi vinnuveitandi að búa við það að stéttarfélag geti hvenær sem er krafist samningsaðildar vegna starfa sem þegar hafi verið samið um, sé ljóst að slíkt geti haft neikvæð áhrif á starfsemina.  Starfsmönnunum hafi mátt vera ljóst hvaða kjarasamningur yrði lagðir til grundvallar launaröðun þeirra að loknu „brúar“náminu. Þar sem þeir hafi enn gegnt sama starfi, að lokinni útskrift og allt þar til þeir voru ráðnir til að gegna störfum sjúkraliða frá og með 1. október sl., hafi farið um kjör þeirra samkvæmt sama samningi og áður, þ.e. kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags.

Stefndi fallist ekki á að þau tímamörk sem dómkröfur stefnanda kveði á um.  Hér eigi fortakslaust að miða við þegar nýr ráðningarsamningur sé gerður við starfsmennina. Af dómi Félagsdóms nr. 18/1998 verði ráðið að meðlimur stéttarfélags, sem breytt hafi um stéttarfélagsaðild, verði eftir sem áður bundinn af kjarasamningi þess stéttarfélags sem hann gekk úr, meðan gildistími þess samnings vari. Sé í því sambandi vísað til grunnreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en samkvæmt ákvæðinu hafi úrsögn úr stéttarfélagi engin áhrif á það hvaða ákvæði kjarasamnings gildi um kjör starfsmannsins. Hann sé ávallt bundinn af samningnum meðan hann vinni þau störf sem samningurinn gildi um. Stefndi geti með engu móti fallist á afturvirkni þessa fyrirkomulags til þess tímapunkts er starfsmennirnir luku námi eða fengu leyfisbréfin í hendurnar. Að mati stefnda sé það óumdeilt að starfsmennirnir störfuðu áfram við sömu störf eftir að náminu lauk þar til nýi ráðningarsamningurinn tók gildi og þeir byrjuðu að starfa sem sjúkraliðar. Um framangreint vísist jafnframt til dóms Félagsdóms í máli nr. 9/2001.

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og rökum stefnanda í málinu. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem hann heldur fram í málinu. 

Stefndi vísar m.a. til grundvallarreglna íslensks vinnuréttar. Þá vísar stefndi til laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, fyrst og fremst 2. mgr. 3. gr. laganna og laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.

Þá vísar stefndi ennfremur til dóma Félagsdóms í málum nr. 4/1998, 18/1998, 9/2001 og 2/2004.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi gerir í fyrsta lagi kröfu til þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi hafi farið með samningsaðild vegna framangreindra fjögurra starfsmanna Seljahlíðar frá og með 1. júní 2008, en til vara frá 1. júlí 2008. Er sú krafa byggð á því að þar sem tilgreindir starfsmenn luku sjúkraliðanámi í maí 2008 og fengu í kjölfarið aðild að Sjúkraliðafélagi Íslands ætti flutningur þeirra milli kjarasamninga að miðast við mánaðamótin 1. júní 2008, en í öllu falli ætti flutningurinn að miðast við 1. júlí 2008 er fyrir lá leyfi landlæknis til þess að þeir mættu starfa sem sjúkraliðar.

Samkvæmt ráðningarsamningum við stefnda störfuðu þeir starfsmenn sem hér um ræðir sem ófaglærðir starfsmenn við aðhlynningarstörf hjá stefnda áður en þeir hófu sjúkraliðanám. Þeir tóku laun og önnur ráðningarkjör samkvæmt kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags sem var með gildistíma frá 1. október 2005 til og með 31. október 2008. Samkvæmt grunnreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur hættir meðlimur stéttarfélags að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Það leiðir af þessari grunnreglu, sem einnig á sér stoð í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að tilgreindir starfsmenn stefnda voru eftir sem áður bundnir af kjarasamningi stefnda og Eflingar-stéttarfélags út samningstímabilið til 31. október 2008, nema til kæmi breyting á samningsbundnum ráðningarkjörum þeirra.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að þeir starfsmenn sem hér um ræðir héldu áfram í sömu störfum hjá stefnda eftir að þeir luku sjúkraliðanámi og þar til nýr ráðningarsamningur var gerður við þrjá af þessum fjórum starfsmönnum sem tók gildi 1. október 2008 þegar þeir tóku við starfi sjúkraliða á Seljahlíð. Einnig er gert ráð fyrir því að gerður verði nýr ráðningarsamningur við fjórða starfsmanninn um starf sjúkraliða við stofnunina þegar hann kemur aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi. Liggur og fyrir að frá þeim tíma fer um laun þeirra og kjör eftir kjarasamningi stefnanda og stefnda. Verður því að telja að stefnandi hafi fyrst getað farið með samningsaðild vegna framangreindra starfsmanna frá og með þeim tíma er gerðir voru við þá nýir ráðningarsamningar um störf sjúkraliða. Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda samkvæmt fyrri kröfulið í stefnu.

Stefnandi gerir í öðru lagi kröfu til þess að viðurkennt verði með dómi að laun framangreindra fjögurra starfsmanna hafi farið eftir gildandi kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar frá og með 1. júní 2008, en til vara frá 1. júlí 2008. Er sú dómkrafa á því byggð að hlutaðeigandi fjórir starfsmenn hafi, með því að ljúka menntun af námsbrautinni sjúkraliðabrú, öðlast faglega færni sem stefnda sé skylt að meta til launa samkvæmt gildandi kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar. Stefnda hafi jafnframt borið að endurskoða mönnun á Seljahlíð, til þess að svara kröfum sem gerðar séu til sérhæfðrar aðhlynningar og hjúkrunar á hjúkrunardeildum öldrunarstofnana í samræmi við opinber viðmið og lögbundnar skyldur.

Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnanda að sjúkraliðanám framangreindra starfsmanna eigi sjálfkrafa að leiða til þess að þeir færist upp í störf sjúkraliða á þeirri stofnun, sem þeir störfuðu á. Ósannað er að starfsmenn þeir sem hér um ræðir, og ráðnir voru til almennra umönnunarstarfa í Seljahlíð, hafi í raun unnið sjúkraliðastörf. Þá liggur ekki fyrir að aukin menntun starfsmannanna að þessu leyti leiði sjálfkrafa til þess framgangs sem stefnandi gerir kröfu um. Mönnunarþörf og stöðugildi sjúkraliða á hjúkrunarstofnunum stefnda hlýtur að vera háð mati og ákvörðun yfirmanna viðkomandi stofnunar eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Þá verður ekki talið að þau opinberu viðmið og ábendingar landlæknis, sem stefnandi byggir á í þessu sambandi hafi hér þýðingu, enda liggur ekki fyrir að stefndi hafi í þessu efni vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum um heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til grunnreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, sem fyrr er vikið að, verður ekki heldur fallist á kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 2 í stefnu.  Ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 250.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sjúkraliðafélags Íslands, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Arnfríður Einarsdóttir

Kristjana Jónsdóttir

Gísli Gíslason

Guðni Á. Haraldsson.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum