Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 44/2014

Mál nr. 44/2014

Fimmtudaginn 22. september 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. maí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. apríl 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 28. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. júní 2014. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. júní 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 7. ágúst 2014. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. ágúst 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 19. ágúst 2014. Var hún send kæranda með bréfi 22. ágúst 2014 og henni boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kæranda barst með bréfi 22. september 2014. Athugasemdir kæranda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 25. september 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd X og býr í X fermetra eigin húsnæði að B ásamt uppkominni dóttur sinni og barnabarni sem halda með henni heimili.

Kærandi er [...] en hefur rekið [...]. Hún hefur verið atvinnulaus og fengið lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði [...].

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 20. febrúar 2014, eru 48.373.196 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 1995 til 2008.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika til atvinnuleysis hennar þegar hún hætti [...] á árinu 2009.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. október 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Væri því ekki annar möguleiki fyrir hendi en að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr. lge.

Fram kom í bréfi umsjónarmanns að kærandi ætti fasteign að B. Hún hafi lagt á það áherslu að hún vildi halda eigninni og sala hennar kæmi ekki til greina. Tekjur kæranda væru 220.000 krónur á mánuði en framfærslukostnaður hennar um 192.433 krónur. Greiðslugeta hennar væri því um 30.567 krónur á mánuði. Í framfærslukostnaði væri gert ráð fyrir rekstri bifreiðar en kærandi hafi lagt til að skila bifreið sinni til að hækka greiðslugetu sína lítillega. Afborganir af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar væru 287.026 krónur á mánuði. Afborgarnirnar væru fyrst og fremst svo háar vegna láns frá Landsbankanum sem hvíldi á 5. veðrétti eignarinnar en afborganir þess láns væru 122.000 krónur á mánuði. Þar sem kærandi hafi ekki getað staðið undir þessum afborgunum hafi hún lagt til að hún fengi mánaðarlegt framlag frá þriðja aðila til að borga af fasteigninni. Kærandi hefði verið upplýst um að umsjónarmaður myndi láta á þetta reyna en ólíklegt væri að þessi tillaga yrði samþykkt af hálfu umboðsmanns skuldara og kröfuhafa.  Umsjónarmaður hafi sent drög að frumvarpi til umboðsmanns skuldara og óskað eftir viðbrögðum við því. Í svari umboðsmanns skuldara í tölvupósti 30. september 2013 hafi komið fram að meginreglan væri sú að samþykkja ekki frumvörp þar sem gert væri ráð fyrir framlagi frá þriðja aðila. Mögulega væri þó hægt að gera undantekningar þegar um tímabundið ástand væri að ræða og hægt að sýna fram á að kærandi gæti sjálf staðið undir afborgunum af eigninni til framtíðar. Umboðsmaður skuldara hafi jafnframt bent á að ekki virtist vera um slíkar aðstæður að ræða í þessu tilviki en kærandi væri orðin X ára gömul og ljóst að ef hún myndi fá atvinnu yrði það í skamman tíma. Þá hafi umboðsmaður skuldara jafnframt tekið fram að afborganir af fasteigninni væru mjög háar auk þess sem fasteignin væri óhófleg að stærð. Raunhæfara væri að kærandi gæti staðið undir leigugreiðslum af hóflegu húsnæði. Þegar þessi afstaða umboðsmanns skuldara hafi legið fyrir hafi umsjónarmaður farið yfir stöðuna á fundi með kæranda. Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um að ekki væri fær önnur leið í hennar máli en að fasteignin yrði seld. Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um að ef hún neitaði að selja fasteignina myndi hann vísa málinu til Embættis umboðsmanns skuldara, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Á fyrrgreindum fundi hafi komið fram að kærandi gæti fengið vinnu hjá fyrirtækinu, Fínu fólki ehf. Umsjónarmanni hafi borist tilkynning í tölvupósti 9. október 2013 um að kærandi hafi hafið störf hjá fyrrgreindu fyrirtæki og að laun hennar yrðu um 100.000 krónur á mánuði. Umsjónarmaður taldi að þær viðbótartekjur kæranda myndu ekki duga til að kærandi gæti greitt af fasteign sinni. Að mati umsjónarmanns hafi ekki verið önnur leið fær við úrlausn á máli kæranda en að fasteign hennar yrði seld. Þar sem kærandi hafi ekki viljað framfylgja þeirri ákvörðun hafi umsjónarmaður vakið athygli umboðsmanns skuldara á því að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli laganna.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 4. febrúar 2014 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun 10. apríl 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveður fjárhagserfiðleika sína mega rekja til fyrirtækis sem hún hafi stofnað. Umsjónarmaður hafi haft samband við hana í ágústmánuði 2012 til að spyrjast fyrir um hvort dóttir hennar byggi enn hjá henni og hvort hún hefði getað lagt eitthvað til hliðar.

Kærandi búi ásamt dóttur sinni og X ára dóttur hennar og reki þær heimilið saman. Dóttir hennar hafi lagt minna en ella til heimilisins vegna tímabundinna erfiðleika. Kærandi kveður að fordæmi séu fyrir því að móðir, sem hafi verið í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, hafi búið með uppkomnum börnum sínum án þess að nokkrar athugasemdir hafi verið gerðar við það hjá umboðsmanni skuldara.

Kærandi kveðst ávallt hafa lagt pening til hliðar og farið eftir reglum umboðsmanns skuldara í einu og öllu. Sumarið X hafi verið brýn nauðsyn til að gera við hús hennar vegna leka og rakamyndunar og því hafi hún þurft að taka af þeirri upphæð sem hún hafði lagt til hliðar. Hún hafi upplýst umsjónarmann sinn um þetta sem hafi ekki gert athugasemdir.

Á fundi 4. október 2013 hafi umsjónarmaður hafnað því að hægt væri að fá fjárhagsaðstoð frá þriðja aðila. Á fundi stuttu síðar hafi umsjónarmaður sagt að selja þyrfti íbúð kæranda. Kærandi hafi neitað að samþykkja sölu á íbúð sinni. 

Umboðsmaður skuldara telji íbúð kæranda óhóflega og því beri að selja hana. Þessi afstaða umboðsmanns skuldara sé ekki rökstudd og ekki virðist hafa farið fram það ítarlega og vandaða mat sem samkvæmt greinargerð með lögum nr. 101/2010 skuli fara fram áður en slík ákvörðun sé tekin. Þegar af þeirri ástæðu sé rétt að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Þá telji umboðsmaður skuldara ekki tilefni til að bera ákvörðun um sölu íbúðar kæranda undir kröfuhafa. Með því að bera eignasölu undir kröfuhafa hefði afstaða þeirra komið fram snemma, en engin þörf sé á eignasölu ef kröfuhafar óski þess ekki, eins og fram komi í greinargerð með lögum nr. 101/2010. Ákvörðun um eignasölu gegn vilja kæranda sé svo íþyngjandi og viðurhlutamikil að ekki sé verjandi að taka hana án þess að grennslast fyrir um afstöðu kröfuhafa.  

Fram hafi komið að umboðsmaður telji að kærandi geti ekki staðið undir afborgunum af veðskuldum sem séu innan matsverðs íbúðarinnar. Þetta telur kærandi að sé óskýrt og óljóst. Í ákvörðuninni, greinargerð og fylgiskjölum hafi ekki komið skýrlega fram hvernig þessar afborganir séu reiknaðar. Þótt fram hafi komið að kærandi geri ráð fyrir að auka tekjur sínar og njóta aðstoðar fjölskyldu sinnar eftir þörfum til að geta haldið íbúðinni virðist umboðsmaður skuldara ekki samþykkja að taka tillit til þess. Þetta komi ekki fram í ákvörðuninni sjálfri, einungis í aðdraganda hennar. Rétt hefði verið að leiðbeina kæranda um það hvernig mætti ganga frá fjárhagsaðstoð frá fjölskyldu með formlegum hætti í stað þess að krefjast sölu á eigninni, sem greinilega sé óþarfi og ekki í þágu kröfuhafa, hverra hagsmuna beri einnig að horfa til við ákvörðun um eignasölu, sbr. greinargerð með lögum nr. 101/2010.

Umboðsmaður skuldara telji að kærandi geti ekki fengið að greiða fastar mánaðarlegar afborganir af veðskuldum, sem nemi hæfilegri leigu fyrir íbúðina, vegna þess að kærandi gæti ekki staðið undir afborgunum eftir að tímabili greiðsluaðlögunar ljúki. Ekki hafi verið metið hver væri hæfileg mánaðarleiga fyrir íbúðina, sem þó væri eðlilegt að gera áður en því sé slegið föstu að kærandi muni ekki geta staðið í skilum eftir tímabil greiðsluaðlögunar. Ekki hafi heldur verið leitað eftir afstöðu kröfuhafa um þetta atriði, sem þó væri bæði auðvelt og nauðsynlegt til að ákvörðunin byggi á nægjanlega traustum grunni. Greiðslubyrði eftir tímabil greiðsluaðlögunar velti að verulegu leyti á afstöðu kröfuhafa. Þessi málsmeðferð virtist illa ígrunduð og ekki í samræmi við hið vandaða mat sem skuli vera undanfari eignasölu, sbr. greinargerð með lögum nr. 101/2010. Rétt sé að benda á að samkvæmt 21. gr. laga nr. 101/2010 sé geta til að standa undir þessum afborgunum eftir tímabil greiðsluaðlögunar ekki sett sem skilyrði fyrir því að skuldari megi greiða af eigninni sem nemi hæfilegri leigu á almennum markaði.

Umboðsmaður telji að sökum aldurs kæranda sé óhugsandi að líta svo á að lágar tekjur hennar vegna atvinnuleysis séu tímabundnar. Kærandi geti því ekki fengið að greiða afborganir sem nemi 60% af þeirri fjárhæð sem myndi svara til hæfilegrar leigu fyrir eignina á almennum markaði. Þessi afstaða umboðsmanns skuldara veki spurningar og virtist fela í sér ólögmæta mismunun á grundvelli aldurs. Ekkert bendi til þess að reynsla kæranda geti ekki nýst henni í mörg ár enn til að afla sér tekna. Ef umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun um eignasölu á aldri kæranda sé nauðsynlegt að það komi skýrt fram og sé rökstutt sérstaklega til að hægt sé að bregðast við slíkri mismunun. Fram sé komið að kærandi hyggist hefja verslunarrekstur á ný. Óeðlilegt sé að ætla henni að sýna fram á aflahæfi sitt og ganga verði út frá því að hún geti aflað tekna þar sem hún hafi óskerta starfsorku. Aldur kæranda sé samkvæmt þessu engan veginn tæk forsenda fyrir eignasölu, einkum og sér í lagi þegar afstaða kröfuhafa til eignasölu hafi ekki verið könnuð.

Umboðsmaður skuldara telji að kærandi muni ekki geta staðið undir afborgunum af veðskuldum innan matsverðs íbúðarinnar eftir að tímabili greiðsluaðlögunar lýkur. Þess vegna geti kærandi ekki fengið að greiða fastar mánaðarlegar afborganir af veðskuldum sem nemi hæfilegri leigu fyrir íbúðina á almennum markaði.

Umboðsmaður skuldara neiti að taka tillit til væntanlegrar fjárhagsaðstoðar fjölskyldu kæranda við að standa undir afborgunum af veðskuldum. Þessi neitun sé alfarið án lagaheimildar og sé þess vegna ekki tæk sem forsenda eignasölu og eftirfarandi niðurfellingar heimildar til að leita greiðsluaðlögunar. Neitunin sé einnig andstæð hagsmunum kröfuhafa þar sem ekki verði séð að þeir myndu neita samningi þar sem gert væri ráð fyrir greiðslum frá þriðja aðila. Eðlilegt hefði verið að bera þetta atriði undir kröfuhafa og fá fram afstöðu þeirra til þess.

Umboðsmaður skuldara hafi frá árinu 2011 aftrað því að frumvarp umsjónarmanns yrði lagt fyrir kröfuhafa með því að grípa inn í lögbundið hlutverk umsjónarmanns. Samningsumleitanir á milli kröfuhafa og kæranda, með milligöngu umsjónarmanns, hefðu að lögum átt að hefjast stuttu eftir að umsókn var móttekin hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmaður skipaður. Þá hefði umsjónarmaður samkvæmt lögum nr. 101/2010 átt að semja frumvarp í samráði við kæranda og leggja það frumvarp svo fyrir kröfuhafa. Þá hefði afstaða kröfuhafa fljótlega komið fram, meðal annars til eignasölu, og niðurstaða hefði fengist fljótlega. Þetta sé sá farvegur sem gert sé ráð fyrir í lögum nr. 101/2010 en þessum farvegi hafi ekki verið fylgt. Frumvarpið hafi í staðinn farið í eitthvert ólöglegt ferli hjá umboðsmanni skuldara og hafi, næstum fjórum árum eftir að umsókn kæranda barst umboðsmanni skuldara, ekki enn verið lagt fyrir kröfuhafa. Þeir hafi því ekki enn fengið að taka afstöðu til þess hvort þeim þyki þörf á að selja eign kæranda eða verið spurðir að því, þrátt fyrir skýr skilaboð laga og greinargerðar um að ekki sé tilefni til að selja eignir ef kröfuhafar óski þess ekki. Krafa um sölu eignar við þessar aðstæður sé því andstæð lögum nr. 101/2010 og því beri að fella úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Í afstöðu lánardrottna hefðu getað komið fram mikilvægar upplýsingar um það hvort raunveruleg ástæða væri til að selja eignina. Þetta verði að skoðast sem vanræksla á rannsóknarskyldu af hálfu umboðsmanns skuldara. Um eignasölu sé fjallað nokkuð ítarlega í greinargerð með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun. Fram komi að slíka ákvörðun skuli umsjónarmaður ekki taka nema að vel athuguðu máli og komi þá einkum til skoðunar þau áhrif sem sala hefði á skuldarann og heimilishald hans. Vilji löggjafans sé skýr um það að ekki sé ástæða til að krefjast sölu ef lánardrottnar fallist á að skuldarinn fái að halda eigninni.

Umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður virtust byggja á því að tekjur kæranda muni ekki hækka. Þessi ákvörðun sé ekki rökstudd með öðru en aldri kæranda. Fái kærandi vinnu muni greiðslugeta hennar aukast. Einnig komi fram af hálfu kæranda að hún hyggist jafnvel hefja rekstur búðar sinnar á ný. Umboðsmaður skuldara virðist því byggja ákvörðun sína að miklu leyti á því að kærandi muni í framtíðinni hvorki hafa tekjur af atvinnu né atvinnurekstri. Kærandi hafi mikla atvinnureynslu auk X ára reynslu af [...]og því virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að hún geti aflað tekna í 10 til 20 ár til viðbótar. Það að afskrifa framtíðartekjumöguleika hennar einungis með vísan til aldurs sé mismunun sem brjóti gegn jafnræðisreglu og sé því ólögmæt. Af þessum sökum sé ljóst að skilyrði séu fyrir hendi til að líta svo á að aðstæður kæranda séu tímabundnar og því sé heimilt að setja frumvarp upp með þeim hætti að hún greiði 60% af því sem væri hæfileg leiga fyrir eignina á almennum markaði.

Í 6. lið framhaldsgreinargerðar umboðsmanns skuldara komi fram fullyrðing þess efnis að full mánaðarleg greiðsla af fasteignaveðkröfum skuli vera sem nemi fullri greiðslu af áhvílandi veðkröfum innan matsverðs fasteignar.

Samkvæmt þessum skilningi væri reglan sú að væri greiðslubyrði skuldara samkvæmt samningnum lægri en sanngjörn leiga þyrfti að hækka fastar mánaðarlegar afborganir upp í það sem teldist jafngilda sanngjarnri leigu. Þetta virðist vera fráleitur skilningur á lögunum. Tilgangurinn með lagasetningunni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafi einmitt verið sá að lækka tímabundið greiðslubyrðina á fasteignaveðkröfum með það fyrir augum að þeir sem væru með háa greiðslubyrði á fasteignaveðkröfum gætu fengið að greiða minna, en þó ekki minna en sem samsvaraði sanngjarnri leigu á almennum markaði, nema við sérstakar og tímabundnar aðstæður. Þá gæti afborgunin verið 60% af sanngjarnri leigu.

Það sé ljóst að hafi kærandi einungis greiðslugetu til að greiða sem nemi hæfilegri húsaleigu af eigninni, þá eigi hún að fá að greiða þá upphæð en eigi ekki að þurfa að geta staðið undir afborgunum veðkrafna innan matsverðs fasteignar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og miðað við framfærsluviðmið embættisins, auk upplýsinga frá kæranda sjálfri um útgjöld hennar, sé greiðslugeta kæranda 35.512 krónur í mánuði hverjum.

Kærandi hafi tilkynnt umsjónarmanni að hún hafi fengið vinnu frá og með október 2013 og fái 100.000 krónur á mánuði í laun. Umrædd laun komi ekki fram í staðgreiðsluskrá og að svo stöddu verði því ekki miðað við þau þegar greiðslugeta kæranda sé reiknuð. Taka skuli fram að þó svo að reiknað yrði með umræddri fjárhæð myndi greiðslugeta kæranda ekki nægja til að standa straum af afborgunum fasteignaveðkrafna innan matsverðs.

Kærandi hafi lagt fram tvo leigusamninga vegna útleigu á herbergi og bílskúr í fasteign hennar. Samkvæmt samningunum yrðu leigutekjur hennar alls 137.000 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts. Séu umræddir leigusamningar lagðir til grundvallar hækki ráðstöfunartekjur kæranda í 217.755 krónur á mánuði. Eins og áður hafi komið fram hafi umsjónarmaður talið afborganir veðkrafna innan matsverðs fasteignar alls 287.206 krónur og sé því ljóst að ofangreindar tekjur kæranda dugi ekki til afborgana af veðkröfum innan matsverðs. Eftir nánari athugun embættisins á greiðslubyrði fasteignaveðkrafna innan matsverðs hafi komið í ljós að afborganir yrðu í raun enn hærri en gert sé ráð fyrir í áætlun umsjónarmanns.

Með hliðsjón af ofangreindu verði ekki talið að kærandi geti staðið skil á afborgunum veðkrafna innan matsverðs eignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., og sé því fallist á mat umsjónarmanns um nauðsyn þess að selja fasteign kæranda. Þrátt fyrir að mögulegt sé að greiðslugeta kæranda dugi til greiðslu 60% hæfilegs leiguverðs eignarinnar, sbr. undanþágu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sé hvorki líklegt að aðstæður kæranda teljist tímabundnar í þeim skilningi að þær falli undir undanþágu frá greiðslu veðkrafna innan matsverðs né sé líklegt að við lok samnings geti kærandi staðið skil á föstum mánaðargreiðslum veðkrafna innan matsverðs eignarinnar til framtíðar. Ekki liggi fyrir að tekjur kæranda muni hækka í náinni framtíð. Aukinheldur telji embættið fasteign kæranda slíka að stærð og verðmæti að með sanngirni og hliðsjón af fjölskylduaðstæðum verði að telja kæranda geta verið án hennar, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge.

Af gefnu tilefni veki embættið sérstaklega athygli á því að framlögð frumvarpsdrög til greiðsluaðlögunarsamnings kæranda séu ófullbúin vinnuskjöl frá umsjónarmanni.

Ekki sé rétt sem fram komi í athugasemdum kæranda  að umboðsmaður skuldara telji kæranda ekki geta staðið við fastar mánaðarlegar afborganir af veðskuldum, sem nemi hæfilegri leigu fyrir íbúðina, vegna þess að hún geti ekki staðið undir fullum afborgunum eftir að greiðsluaðlögunartímabili ljúki. Hið rétta sé að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að ekki verði talið að tekjur kæranda dugi til að greiða af þeim veðkröfum sem falli innan matsverðs. Enn fremur komi fram að þrátt fyrir að mögulegt sé að kærandi geti greitt 60% hæfilegs leiguverðs eignarinnar, sbr. undanþágu 21. gr. lge., sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sé hvorki talið líklegt að aðstæður kæranda séu tímabundnar í skilningi ákvæðisins né að líklegt sé að hún geti staðið skil á fullum greiðslum innan matsverðs til framtíðar.

Í 21. gr. lge. komi fram að heimilt sé við sérstakar aðstæður að ákvarða tímabundið lægri mánaðargreiðslu en sem nemi hæfilegri fjárhæð leigu á almennum markaði. Þannig sé umsjónarmanni heimilt, en ekki skylt, að ákvarða tímabundið lægri mánaðargreiðslu að uppfylltu því skilyrði að um sérstakar og tímabundnar aðstæður skuldara sé að ræða, telji hann tilefni til. Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 sé kveðið á um hvernig reikna skuli mánaðargreiðslur skuldara og vísað til 1. mgr. 5. gr. sömu laga í því samhengi. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009, sem breytt hafi verið með lögum nr. 102/2010, komi fram að heimilt sé að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslur til greiðslu veðkrafna, en þó ekki lægri en sem nemi 60% af hæfilegri húsaleigu. Í athugasemdum um 5. gr. með frumvarpi til laga nr. 102/2010 komi fram að undanþáguheimildina beri að skýra þröngt. Miða verði við að ekki sé verið að auðvelda skuldara að halda húsnæði sem hann hafi ekki efni á að halda. Í athugasemdum við 21. gr. frumvarps til laga nr. 101/2010 sé að finna nær samhljóða texta og við 5. gr. laga nr. 102/2010. Sé þannig miðað við að um tekjufall skuldara sé að ræða, sem sé tímabundið og allverulegt. Ekki verði talið að atvik í máli kæranda falli undir tilvitnuð ákvæði, enda hafi tekjur hennar verið á svipuðu reiki og nú allt frá árinu 2008 samkvæmt skattframtölum.

Ekki sé að finna frekari heimildir en að ofan greini í lge. til að ákvarða lægri greiðslur af fasteign en sem nemi fullum greiðslum af veðkröfum sem hvíli á eigninni innan matsverðs og hvergi sé að finna heimild til að ákvarða greiðslur sem nemi hæfilegri leigu. Aftur á móti sé kveðið á um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. að fastar mánaðargreiðslur af fasteign, sem séu greiðslur af þeim kröfum sem falli innan matsverðs, megi ekki vera lægri en sem svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina. Kærandi vísi ítrekað til þess í athugasemdum sínum að greiðslubyrði veðkrafna skuli ekki vera hærri en sem nemi hæfilegri leigu á almennum markaði. Vilji embættið leiðrétta þann misskilning með vísan til ofangreinds.

Kærandi sé ellilífeyrisþegi. Ekki verði talið að um sérstakar tímabundnar aðstæður sé að ræða, þrátt fyrir að kærandi segist nú hafa hug á að hefja [...] á ný. Sé þar vísaðtil tekna hennar undanfarin ár. Kærandi hafi ítrekað rætt um að auka tekjur sínar með starfi hjá tilteknu fyrirtæki og hafi henni verið veitt færi á að sýna fram á að um launað starf sé að ræða sem auki greiðslugetu hennar. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að fyrrgreint tilboð um starf henni til handa sé annað en málamyndagerningur, enda hafi ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn um umrætt starf. Ekki sé að finna launagreiðslur frá fyrirtækinu til kæranda í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Vinnsla frumvarps fari fram hjá umsjónarmanni samkvæmt lögum nr. 101/2010. Ekki hafi verið um aðra framkvæmd að ræða í tilviki kæranda, þrátt fyrir óformlegt samráð við starfsmenn umboðsmanns skuldara. Þrátt fyrir að embættið geti í ljósi reynslu sinnar veitt ábendingar um frumvarpsvinnu, m.a. til að gæta samræmis og jafnræðis á milli skuldara og einnig til að gera líklegra að um raunhæf frumvörp verði að ræða, sé það ótvírætt hlutverk umsjónarmanns samkvæmt 16. og 17. gr. lge. að semja frumvarp til greiðsluaðlögunar í samráði við skuldara. Sé umsjónarmanni í sjálfsvald sett hvort hann taki tillit til athugasemda og ábendinga embættisins við slíkt samráð. Sé fullbúið frumvarp, sem samþykkt hafi verið af kröfuhöfum, lagt fyrir embættið til undirritunar skuli embættið engu að síður kanna hvort frumvarpið sé í samræmi við lög um greiðsluaðlögun áður en það sé undirritað og samþykkt af hálfu embættisins. Kærandi vísi til athugasemda greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 101/2010 varðandi túlkun og framkvæmd samkvæmt 21. gr. laganna. Ekki verði talið að slík lögskýringargögn gangi framar ákvæðum laga, en frumskilyrði þess að skuldari geti haldið fasteign sinni eftir sé það að hann hafi greiðslugetu til að greiða af þeim veðskuldum sem hvíli innan matsverðs fasteignar samkvæmt 1. mgr. 21. gr. lge. Hlutverk umsjónarmanna, sem og embættisins, sé meðal annars að gæta þess að greiðsluaðlögunarsamningar séu raunhæfir, í samræmi við aðstæður skuldara og enn fremur að þeir séu byggðir á þeim gögnum sem fyrir liggja en ekki málamyndagjörningum eða væntingum skuldara. Ekki geti talist raunhæft að leggja frumvarp fyrir kröfuhafa sem byggt sé á hinu síðastnefnda og sé það einmitt hlutverk umsjónarmanna að leggja fram frumvörp til greiðsluaðlögunar sem til þess séu fallin að koma á jafnvægi milli tekna og greiðslubyrði skuldara að greiðsluaðlögunartímabili loknu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Greiðslugeta kæranda er 35.512 krónur á mánuði að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Byggt er á upplýsingum um tekjur úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Mánaðarlegar afborgarnir af fasteign kæranda eru 287.206 krónur á mánuði. Kærandi hefur þannig ekki greiðslugetu til að halda fasteign sinni. Kærandi byggir á því að hún hafi aflahæfi þrátt fyrir aldur og ekki hafi verið leitað álits kröfuhafa varðandi sölu fasteignarinnar. Varðandi aflahæfi kæranda ber að miða við þær tekjur sem kærandi hefur þegar ákvörðun er tekin en ekki hugsanlegar eða óvissar framtíðartekjur. Þá getur umsjónarmaður samkvæmt 13. gr. lge., þyki honum ástæða til, leitað afstöðu kröfuhafa áður en ákvörðun um sölu fasteignar er tekin, en honum er ekki skylt að gera það. Kærunefndin telur þar af leiðandi að ekki sé hægt að fallast á þessar málsástæður kæranda.

Miðað við ákvæði  lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti en að kærandi hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni að B. Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella  greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum