Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 12/2004:

A

gegn

dómsmálaráðherra

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 28. janúar 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru B hrl. og D hdl., fyrir hönd A, dags. 29. október 2004, óskaði kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort dómsmálaráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með skipan í embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá sýslumanninum í Kópavogi, sem kunngerð var hinn 11. mars 2004.

Kærunni fylgdu eftirtalin gögn: 1) Málskot til kærunefndar jafnréttismála, dags. 12. október 2004, 2) greinargerð E sf. í málinu, dags. 12. október 2004, 3) frétt af lögregluvefnum um stöðu kvenna innan lögreglunnar, dags. 18. ágúst 2004, 4) stjórnskipurit lögreglusviðs lögreglustjórans í Reykjavík, ódagsett, 5), samantekt kæranda á menntun og starfsreynslu kæranda og þess er fékk stöðuna, ódagsett, 6), bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis til forstöðumanna stofnana ráðuneytisins, óskað eftir jafnréttisáætlun og tilnefningu tengiliðar, dags. 26. júlí 2004, 7) bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis til kæranda, svar jafnréttisfulltrúa, dags. 10. maí 2004, 8) bréf kæranda til jafnréttisfulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fyrirspurn um afskipti og aðkomu jafnréttisfulltrúa, dags. 29. apríl 2004, 9) bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis til kæranda, rökstuðningur fyrir ákvörðun, dags. 2. apríl 2004, 10) bréf kæranda til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, ítrekuð beiðni um rökstuðning, dags. 31. mars 2004, 11) bréf kæranda til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, óskað eftir rökstuðningi, dags. 15. mars 2004, 12) bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis til kæranda, tilkynnt um skipun í stöðu, dags. 11. mars 2004, 13) bréf sýslumannsins í Kópavogi til dómsmálaráðherra, athugasemdir um umsögn ríkislögreglustjóra, dags. 8. mars 2004, 14) bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis til sýslumannsins í Kópavogi, óskað eftir athugasemdum, dags. 4. mars 2004, 15) auglýsing nr. 5/2004 um lausa stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns, dags. 4. febrúar 2004, 16) bréf ríkislögreglustjóra til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, umsögn um umsækjendur, dags. 27. janúar 2004, 17) starfsmannastefna lögreglunnar, dags. 1. janúar 2004, 18) umsókn kæranda um lögreglustarf, dags. 17. desember 2003, 19) umsókn F um lögreglustarf, dags. 15. desember 2003, 20) auglýsing nr. 38/2003 um lausar stöður lögreglumanna og aðstoðaryfirlögregluþjóns, dags. 4. desember 2003, 21) launabreyting frá sýslumanninum í Kópavogi, dags. 14. mars 2003, 22) bréf sýslumannsins í Kópavogi til dómsmálaráðherra, umsækjendur og mat, dags. 21. janúar 2003, 23) bréf lögreglunnar í Kópavogi um starfsferil kæranda hjá lögreglunni, dags. 4. júní 2002, 24) vottun Lögregluskóla ríkisins um námskeiðsþátttöku kæranda, dags. 4. júní 2002, 25) staðfesting Félagsþjónustu Kópavogs um samstarf við kæranda, dags. 4. júní 2002, 26) vottorð vegna námskeiðs um réttindi barna, dags. 19. mars 2002, 27) bréf ríkislögreglustjóra til allra lögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins, dags. 18. febrúar 2002, 28) reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar, dags. 14. janúar 2002, 29) viðurkenning vegna námskeiðs í eigin atvinnurekstri, haustönn 2000, 30) skipulag löggæslunnar í Kópavogi og starfslýsingar, dags. 1. október 1997 og 31) vottorð Lögregluskóla ríkisins, dags. 14. maí 1981.

Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt dómsmálaráðherra með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 29. október 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað umsagnar dómsmálaráðherra um erindi kæranda auk þess sem þess var farið á leit að ráðuneytið legði fram þau gögn sem það teldi til upplýsinga fyrir málið.

Kærunefnd jafnréttismála barst svar dómsmálaráðuneytisins með bréfi dagsettu 23. nóvember 2004.

Með bréfi, dags. 3. desember 2004, var lögmönnum kæranda kynnt umsögn dómsmálaráðherra og óskað frekari athugasemda kæranda ef einhverjar væru. Athugasemdir bárust með bréfi lögmannanna, dags. 20. desember 2004. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 27. desember 2004, var dómsmálaráðherra sent til kynningar síðastnefnt bréf lögmanna kæranda, dags. 20. desember 2004.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Hinn 4. desember 2003 auglýsti ríkislögreglustjóri starf aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi laust til umsóknar á Starfatorgi, í Morgunblaðinu og á vef ríkislögreglustjóraembættisins. Í auglýsingunni kom fram að gerð væri krafa um að umsækjendur hefðu lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Auk kæranda sóttu 20 karlar um stöðuna, en umsókn hennar er dagsett 17. desember 2003. Vegna formgalla á auglýsingunni var staðan auglýst að nýju hinn 4. febrúar 2004 með umsóknarfresti til 26. febrúar 2004.

Í bréfi sýslumannsins í Kópavogi til dómsmálaráðherra, dags. 21. janúar 2004, er gerð grein fyrir umsækjendum um stöðuna. Fram kemur að samkvæmt skipuriti lögreglunnar í Kópavogi sé umrædd staða yfirmannsstaða í rannsóknardeild. Þess hafi ekki verið getið sérstaklega í auglýsingu en umsækjendum bent á það í viðtölum. Í bréfinu eru tilgreindir átta umsækjendur sem eru sagðir hafa margra ára reynslu við rannsóknir mála og einhverja reynslu við stjórnun rannsókna og rannsóknardeilda. Fjórir þeirra hafi mesta reynslu við stjórnun rannsókna og rannsóknardeilda og taldi sýslumaður einn þeirra vera hæfastan til að gegna stöðunni og fór þess á leit að hann yrði skipaður í hana. Kærandi var meðal þessara fjögurra umsækjenda.

Dómsmálaráðuneytið sendi framangreint bréf sýslumannsins í Kópavogi og umsóknir til ríkislögreglustjóra og óskaði umsagnar hans um umsækjendurna. Í bréfi ríkislögreglustjóra til dómsmálaráðherra, dags. 27. janúar 2005, kemur fram að hann telji alla umsækjendur hæfa og sé sammála sýslumanni um þá átta umsækjendur sem hann telji skara fram úr öðrum og jafnframt um þá fjóra sem hann tilgreini til lokavals. Ríkislögreglustjóri taldi valið standa á milli þess sem fékk stöðuna og kæranda og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi væri hæfari eða að minnsta kosti jafnhæf þeim sem fékk stöðuna og lagði til að hún yrði skipuð í hana.

Sýslumanninum í Kópavogi var sent áðurnefnt bréf ríkislögreglustjóra, dags. 27. janúar 2005 og óskað athugasemda hans við umsögn ríkislögreglustjóra. Sýslumaðurinn sendi dómsmálaráðherra athugasemdir sínar í bréfi, dags. 8. mars 2004. Þar ítrekaði hann fyrra álit sitt þess efnis að sá sem síðar hlaut stöðuna skyldi skipaður í hana.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 11. mars 2004, til kæranda var henni tilkynnt að dómsmálaráðherra hafi skipað F í embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá sýslumanninum í Kópavogi frá 11. mars 2004 að telja.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni með bréfi sínu til dómsmálaráðherra, dags. 15. mars 2004. Í bréfi dómsmálaráðherra til kæranda, dags. 2. apríl 2004, er rakinn starfsferill þess, sem stöðuna hlaut, innan íslensku lögreglunnar. Í bréfinu kemur eftirfarandi einnig fram: „Samkvæmt ofangreindu er reynsla F mjög fjölbreytt og hefur hann m.a. rannsakað og stjórnað rannsóknaraðgerðum í mjög stórum lögreglumálum. Það er mat ráðuneytisins að F hafi forskot þegar litið er til reynslu af ólíkum viðfangsefnum lögreglurannsókna en hann hefur mjög víðtæka reynslu af rannsóknum mála í nærfellt öllum tegundum afbrota og hefur aukinheldur mikla reynslu af rannsóknum erfiðari og flóknari mála, s.s. áður er um getið. Jafnframt er reynsla hans af stjórnun fjölmennari rannsóknardeilda mikil.

Einnig er í bréfi dómsmálaráðherra bent á að sá sem stöðuna hlaut hafi sótt námskeið á vegum Lögregluskóla ríkisins og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Hann hafi auk þess lokið stúdentsprófi árið 1996, stundað nám við B-háskóla og sótt námskeið í Noregi á vegum Interpol.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að hún hafi verið hæfasti umsækjandinn um embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá sýslumanninum í Kópavogi og með því að skipa hana ekki í embættið hafi dómsmálaráðherra brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Í greinargerð lögmanna kæranda er ferill málsins ítarlega rakinn frá því að staða aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi var auglýst laus til umsóknar og þar til skipað var í hana.

Kærandi hóf störf hjá lögreglunni í Kópavogi árið 1978 og vann á almennum vöktum allt til ársins 1982 en þá hóf hún störf sem rannsóknarlögreglumaður við sama embætti og vann sem slík þar til hún var skipuð rannsóknarlögreglumaður við embættið árið 1986. Fram kemur að þá hafi kærandi starfað í fjóra mánuði árið 1982 sem rannsóknarlögreglumaður hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins við rannsóknir í flestum þeim málaflokkum sem það embætti hafi haft með höndum. Árið 1987 hafi kærandi verið skipuð lögreglufulltrúi við rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi og frá þeim tíma hafi kærandi farið með stjórn deildarinnar. Kærandi hafi verið í leyfi frá embættinu frá 1997 til 1998 er hún flutti tímabundið til G-lands en hafi eftir það verið staðgengill og aðstoðarmaður stjórnanda deildarinnar frá 1998 og hafi í forföllum stýrt deildinni, bæði skipulagi vinnutíma, skiptingu verkefna milli starfsmanna og séð um framgang mála. Á tímabilinu frá 1998 hafi lögreglumönnum deildarinnar fjölgað úr fimm í sex. Þá hafi kærandi stýrt rannsóknardeildinni frá því aðstoðaryfirlögregluþjónninn lét af störfum í maí 2003 þar til henni hafi verið tilkynnt skipun í stöðuna með bréfi ráðuneytisins 11. mars 2004.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi unnið nær allan sinn starfsaldur hjá embætti lögreglunnar í Kópavogi og gjörþekki alla staðhætti og vinnsluhætti embættisins. Þá staðarþekkingu skorti þann sem stöðuna hlaut. Eins og fram komi í bréfi ríkislögreglustjóra frá 27. janúar 2004 beri að horfa til langrar reynslu kæranda sem skipaðs lögreglufulltrúa og jafnframt til þess að hún hafi mjög langa reynslu í stjórnun hjá embætti lögreglunnar í Kópavogi. Sé það álit ríkislögreglustjóra að hin langa starfsreynsla kæranda í stjórnunarstöðu vegi upp á móti menntun þess sem stöðuna hlaut og geri hana hæfari eða að minnsta kosti jafn hæfa til að hljóta stöðuna. Auk þessa bendir kærandi á að ekkert hafi komið fram í umsóknargögnum eða umsögn sýslumannsins í Kópavogi um að kærandi hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hennar hafa verið gerðar eða að hún hafi ekki sinnt sínum starfsskyldum heldur ljúki sýslumaður lofsorði á starfseril og trúmennsku kæranda.

Dómsmálaráðherra rökstyðji ekki að hvaða leyti sá sem stöðuna hlaut sé hæfari til að hljóta hana en kærandi. Dómsmálaráðherra vísi til reynslu hans af ólíkum málum og mikillar reynslu hans af stjórnun fjölmennari rannsóknardeilda. Það séu óstaðfestar fullyrðingar. Ekkert liggi fyrir um stjórnun þess sem stöðuna hlaut annað en fullyrðing í umsókn um starfið að hann hafi stjórnað rannsóknum morðmála árið 1998. Því mótmæli kærandi sem röngu. Þó svo að sá sem stöðuna hlaut hafi komið að rannsóknum morðmála hafi hann ekki sinnt því starfi sem stjórnandi. Hann hafi ekki haft stöðu til þess samkvæmt skipulagi lögreglunnar. Slíkum rannsóknum stjórni aðstoðaryfirlögregluþjónar eða yfirlögregluþjónar en ekki almennir lögregluþjónar eða lögreglufulltrúar.

Dómsmálaráðherra haldi því fram að sýslumaðurinn í Kópavogi hafi fært að því málefnaleg rök að sá sem stöðuna hlaut hafi verið hæfastur umsækjenda. Í gögnum málsins komi fram að sýslumaður hafi að verulegu leyti byggt á munnlegum upplýsingum sem eðli málsins samkvæmt hafi ekki verið lagðar fram í málinu. Það sé ekki í samræmi við þær reglur á sviði stjórnsýslunnar sem beri að fara eftir samkvæmt lögum.

IV

Sjónarmið dómsmálaráðherra

Af hálfu dómsmálaráðherra er á því byggt að fyrir vali sínu á manni í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá sýslumanninum í Kópavogi hafi hann skýrar málefnalegar ástæður og hafi að hans mati engar líkur verið leiddar að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við veitingu á embætti aðstoðaryfirlögregluþjóns við sýslumannsembættið í Kópavogi.

Vegna athugasemda kæranda um að ríkislögreglustjórinn annist veitingu langflestra embætta innan lögreglunnar og nauðsynlegt sé að horfa til þess við úrlausn þessa kærumáls, sem og vegna orða kæranda um að mat ríkislögreglustjóra vegi þyngra heldur en mat sýslumannsins í Kópavogi við ákvörðun dómsmálaráðherra um skipunina þar sem ríkislögreglustjórinn sé æðra stjórnvald og fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra, þykir dómsmálaráðherra rétt að benda sérstaklega á að samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 5. gr. laga nr. 29/1998, skipi dómsmálaráðherra aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Engin lagaskylda hvíli á dómsmálaráðherra til að leita umsagnar ríkislögreglustjórans um einstaka umsækjendur er sækist eftir embætti yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Í þessu tilviki hafi verið um að ræða frjálsa álitsumleitan og í henni felist að veitingarvaldi sé frjálst að meta hvernig og með hvaða hætti, þ.á m. í samanburði við önnur atriði er máli skipti, sjónarmið álitsgjafa komi til skoðunar við meðferð máls. Það sé algerlega á verksviði dómsmálaráðherra að forgangsraða sjónarmiðum við mat á hæfni og starfsreynslu á þann hátt sem hann kjósi að leggja til grundvallar við undirbúning ákvarðana um skipun í embætti, svo fremi sem slík tilhögun gangi ekki í berhögg við skýr lagafyrirmæli.

Það hafi verið niðurstaða dómsmálaráðherra að umsögn sýslumannsins í Kópavogi ætti að vega þungt í mati á umsækjendum enda sé það sýslumaðurinn í Kópavogi sem marki embætti sínu stefnu í einstaka málaflokkum, setji fram mælanleg markmið og árangursmælikvarða á afmörkuðum verkefnasviðum og móti framtíð embættisins. Ríkislögreglustjórinn sem stjórnunar- og samhæfingaraðili löggæslunnar komi eðlilega að slíkri stefnumótun og markmiðasetningu og hafi eðli málsins samkvæmt jafnframt yfirgripsmikla reynslu af því að meta hæfni umsækjenda um embætti innan lögreglunnar, en það sé hlutaðeigandi lögreglustjóri sem standi næst þeim hagsmunum og sjónarmiðum sem ráða eigi för við embætti hans, þ.á m. við mat á hæfni umsækjenda forstöðumanns stofnunar að meta hvers eðlis þörf viðkomandi vinnustaðar sé fyrir starfsfólk og hann beri auk þess ábyrgð á því að náð verði markmiðum stofnunarinnar.

Í máli þessu hafi ríkislögreglustjóri komist að annarri niðurstöðu í umsögn sinni um umsækjendur en sýslumaðurinn í Kópavogi. Sökum þess hafi ráðuneytið gefið sýslumanni tækifæri til þess að koma á framfæri athugasemdum við umsögn ríkislögreglustjórans. Í svari sýslumannsins ítreki hann fyrri niðurstöðu sína varðandi mat á umsækjendum. Þessi viðbótarumsögn sýslumanns hafi ekki verið send ríkislögreglustjóranum og hafi ríkislögreglustjórinn því ekki haft jafn ítarleg gögn undir höndum við umsögn sína og ráðherra við töku ákvörðunar sinnar. Fyrir liggi að sýslumaðurinn í Kópavogi hafi ótvírætt komist að þeirri niðurstöðu að hann teldi þann sem stöðuna hlaut hæfastan umsækjenda og hafi sýslumaður fært fyrir því málefnaleg rök að mati dómsmálaráðherra.

Það hafi verið niðurstaða dómsmálaráðherra að sá sem stöðuna hlaut hafi staðið öðrum umsækjendum framar og væri hæfasti umsækjandinn. Ráðuneytið sé samþykkt því mati sýslumanns, að við mat á starfsreynslu beri ekki eingöngu að líta til þess tíma sem tiltekinn umsækjandi hafi sinnt starfi heldur beri einnig að líta til þess hvort líkur séu á því að starfið hafi aukið starfshæfni viðkomandi og jafnframt hvort líkur séu á því að sú starfsreynsla nýtist í því starfi sem sótt sé um. Sá sem stöðuna hlaut hafi gegnt stöðu rannsóknarlögreglumanns í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík á árunum 1982 til 1986, hafi verið rannsóknarlögreglumaður í auðgunarbrotum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins á árunum 1987 til 1988, hafi kennt skýrslugerð, lögreglurannsóknir og annast lögregluæfingar við lögregluskólann á árunum 1988 til 1992, uns hann hafi aftur farið til starfa hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins þar sem hann hafi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í auðgunarbrotum, skatta- og efnahagsbrotum, ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og mannslátum fram til ársins 1998 uns hann hafi verið skipaður lögreglufulltrúi við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Upp frá því hafi hann annast rannsóknir innbrota- og auðgunarbrota. Hann hafi víðtæka starfsreynslu og hafi komið að stjórnun fjölmennra og fjölþættra rannsóknardeilda. Hann hafi hafið störf í lögreglunni árið 1969 og hafi annast kennslu við Lögregluskóla ríkisins um nokkurra ára skeið og jafnframt kennt á námskeiðum fyrir rannsóknarlögreglumenn. Hann hafi orðið lögregluvarðstjóri þegar árið 1974, rannsóknarlögreglumaður árið 1982 og lögreglufulltrúi árið 1998. Það sé niðurstaða dómsmálaráðherra að hann sé hæfastur umsækjenda, hvort heldur sé litið til menntunar eða starfsreynslu.

  

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Með auglýsingu ríkislögreglustjórans nr. 38/2003 var auglýst laus til umsóknar staða aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi, en það er dómsmálaráðherra sem skipar í stöðuna. Samkvæmt skipuriti löggæslunnar í Kópavogi var um að ræða aðstoðaryfirlögregluþjónsstöðu í rannsóknardeild, en þess var ekki getið sérstaklega í auglýsingunni.

Samkvæmt starfslýsingu löggæslunnar í Kópavogi varðandi störf aðstoðaryfirlögregluþjóns í rannsóknardeild, frá 1. október 1997, sem fyrir liggur í málinu, hefur aðstoðaryfirlögregluþjónn í rannsóknardeild með höndum verkstjórn í rannsóknardeild, skipuleggur, stjórnar og tekur þátt í venjubundnum störfum deildarinnar og samræmir störf undirmanna. Þá er þess meðal annars getið að aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi umsjón með og annist rannsóknir mála, geri tillögur um rannsóknaraðgerðir og útdeili rannsóknarverkefnum auk annarra skyldra verkefna. Samkvæmt starfslýsingu sinnir lögreglufulltrúi störfum aðstoðaryfirlögregluþjóns í rannsóknardeild í forföllum hans.

Kærandi var eina konan sem sótti um starfið en um það sóttu að auki 20 karlar. Dómsmálaráðherra skipaði karl í stöðuna í mars 2004. Í greinargerð kæranda til kærunefndar jafnréttismála er á því byggt, að kærandi hafi verið hæfasti umsækjandinn um stöðuna og að dómsmálaráðherra hafi með því að skipa kæranda ekki í stöðuna brotið gegn lögum nr. 96/2000. Í greinargerð kæranda er tiltekið nánar, að kærandi hafi unnið nær allan sinn starfsferil hjá embætti lögreglunnar í Kópavogi og sé því gerkunnug aðstæðum. Er til þess vísað að kærandi hafi langa reynslu sem skipaður lögreglufulltrúi hjá embættinu og að hin langa starfsreynsla kæranda í stjórnunarstöðu geri kæranda hæfari eða að minnsta kosti jafn hæfa til að hljóta skipun í stöðuna. Í gögnum málsins er starfsferill kæranda ítarlega rakinn, en fyrir liggur meðal annars að kærandi hefur starfað sem almennur lögreglumaður hjá lögreglunni í Kópavogi frá 1978 til 1982, frá 1982 gegndi hún stöðu rannsóknarlögreglumanns og var skipuð í þá stöðu á árinu 1986. Kærandi starfaði um skeið á árinu 1982 hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Á árinu 1987 var kærandi skipuð lögreglufulltrúi við rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi og frá þeim tíma og til 1997 fór kærandi með stjórn deildarinnar. Eftir ársleyfi það ár hóf kærandi á ný störf hjá lögreglunni í Kópavogi, en nú sem aðstoðarmaður og staðgengill stjórnanda deildarinnar (aðstoðaryfirlögregluþjóns), þ.e. eftir skipulagsbreytingar sem þá áttu sér stað með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins. Frá 2003–2004 mun kærandi hafa stýrt rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi, þ.e. eftir að aðstoðaryfirlögregluþjónn lét af störfum í maí 2003.

Í erindi dómsmálaráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála er til þess vísað, að ráðuneytið hafi vegna skipunar í stöðuna leitað umsagnar sýslumannsins í Kópavogi og embættis ríkislögreglustjóra. Niðurstaða dómsmálaráðherra hafi verið sú að umsögn sýslumannsins í Kópavogi ætti að vega þungt í mati á umsækjendum enda sé það sýslumaðurinn í Kópavogi sem marki embættinu stefnu í einstaka málaflokkum og móti framtíð þess. Reynsla undanfarinna ára beri þess merki að umsagnir hlutaðeigandi lögreglustjóra hafi vegið þungt við skipanir í stöður yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Það hafi verið niðurstaða dómsmálaráðherra að sá sem skipaður var hafi staðið öðrum umsækjendum framar og hafi verið hæfasti umsækjandinn. Ráðherra hafi þannig verið samþykkur því mati sýslumannsins að við mat á starfsreynslu hafi ekki einungis borið að líta til þess tíma sem umsækjandi hefur sinnt starfi, heldur bæri einnig að líta til þess hvort líkur væru á að starfið hafi aukið starfshæfni viðkomandi og hvort sú starfsreynsla nýttist í því starfi sem sótt var um. Sá sem ráðinn var hafi, auk almennra lögreglustarfa allt frá árinu 1969, meðal annars gegnt stöðu rannsóknarlögreglumanns í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík frá 1982–1986, verið rannsóknarlögreglumaður í auðgunarbrotum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins frá 1987–1988, annast kennslu í Lögregluskóla ríkisins frá 1988–1992, en þá hafi viðkomandi á ný hafið störf hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins í auðgunar-, skatta- og efnahagsbrotum, ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og mannslátum fram til 1997. Árið 1998 hafi hann verið skipaður lögreglufulltrúi við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, fyrst við rannsóknir ofbeldisbrota, kynferðisbrota og mannsláta og frá árinu 2002 við rannsóknir innbrota og auðgunarbrota.

Í umsögn sýslumannsins í Kópavogi til dómsmálaráðuneytisins frá 21. janúar 2004 er látið í ljós það álit, að sá sem skipaður var í stöðuna hafi verið hæfastur til að gegna stöðunni, og til þess vísað að sá hafi víðtæka reynslu af rannsókn mála í nær öllum tegundum afbrota, hafi tekist á við stjórnun erfiðra og flókinna rannsóknarverkefna og hafi stjórnað tveimur stórum rannsóknardeildum undir stjórn aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík.

Ef litið er til starfsferils kæranda og þess sem skipaður var kemur fram að frá 1982 og til 1997, er Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður, hafa þau bæði starfað sem rannsóknarlögreglumenn, kærandi hjá lögreglunni í Kópavogi, sem á þeim tíma annaðist einkum rannsókn minniháttar afbrota, en sá sem skipaður var hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og síðar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, fyrir utan það tímabil (1988–1992) sem hann annaðist kennslu hjá Lögregluskóla ríkisins. Kærandi tók á ný við    starfi lögreglufulltrúa hjá lögreglunni í Kópavogi á árinu 1998 og hefur sinnt því starfi síðan, auk þess sem kærandi hefur sinnt afleysingum fyrir aðstoðaryfirlögregluþjón í rannsóknardeildinni. Frá sama tíma hefur sá sem skipaður var gegnt starfi lögreglufulltrúa í Reykjavík og mun hann hafa gegnt þar stjórnunarstöðu, þ.e. haft með höndum stjórn undirdeilda í rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík, annars vegar deild sem rannsakar ofbeldisbrot og hins vegar deild sem rannsakar auðgunarbrot, sbr. nú 2. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 49/2002 um starfsstig innan lögreglunnar.

Í tilvísaðri reglugerð nr. 49/2002 er kveðið á um verksvið og ábyrgð starfsmanna lögreglu sem fara með lögregluvald. Er þar meðal annars mælt fyrir um verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns og lögreglufulltrúa. Reglugerðin var sett með heimild í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í 2. tl. 8. gr. reglugerðarinnar er tilgreint, að verksvið og ábyrgð lögreglufulltrúa sé meðal annars að stjórna rannsóknardeildum þar sem ekki sé aðstoðaryfirlögregluþjónn og stjórn einstakra undirdeilda eða verkefna í lögregluliðum með fleiri en 35 lögreglumenn. Þá er tekið fram í niðurlagi 8. gr. reglugerðarinnar að lögreglufulltrúi sé staðgengill aðstoðaryfirlögregluþjóns, þar sem talin er þörf á slíku.

Samkvæmt stjórnskipuriti lögreglunnar í Reykjavík, sem fyrir liggur í málinu, er rannsóknardeild embættisins skipt í þrjár undirdeildir, og stjórna lögreglufulltrúar einstökum undirdeildum, sbr. til hliðsjónar nú 2. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 49/2002. Deildirnar ná yfir þrjá megin málaflokka, ofbeldis- , auðgunar- og fíkniefnabrot. Mun þetta stjórnskipulag og það að lögreglufulltrúar stjórni undirdeildum hafa tíðkast um árabil hjá embættinu.

Svo sem fram kemur í erindi sýslumannsins í Kópavogi til dómsmálaráðherra dags. 8. mars 2004 hafði kærandi með höndum stjórn rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi frá 1987 til 1997, en þá voru starfsmenn deildarinnar fáir og fékkst deildin við einfaldari rannsóknarverkefni, svo sem umferðarmál. Á þeim tíma heyrðu öll meiri háttar rannsóknarverkefni undir Rannsóknarlögreglu ríkisins. Eftir að kærandi tók á ný við lögreglufulltrúastöðu hjá embættinu árið 1998 fór aðstoðaryfirlögregluþjónn með stjórn deildarinnar, en rannsóknir kynferðisafbrota munu þá að mestu hafa hvílt á herðum kæranda. Rétt er að taka fram að kærandi gegndi stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi frá því í maí 2003 þegar aðstoðaryfirlögregluþjónn við embættið lét af störfum og til mars 2004.

Í samræmi við það sem að framan er rakið er það hins vegar álit kærunefndarinnar að fallast megi á það með dómsmálaráðherra að sá sem skipaður var hafi haft víðtæka reynslu af rannsóknum mála í nær öllum tegundum afbrota, þ.m.t. í störfum sínum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þá hafi hann jafnframt haft umtalsverða stjórnunarreynslu á þessu sviði er hann sem lögreglufulltrúi, allt frá árinu 1998, stjórnaði undirdeildum hjá rannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík, sbr. til hliðsjónar 2. tl. 8. gr. reglugerðar 49/2002, og að þessi reynsla hafi skipað viðkomandi framar kæranda að því leyti til. Með vísan til þessa, svo og þess sem fram er komið um menntun þess sem skipaður var, eru ekki efni til að líta svo á að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns við rannsóknardeild sýslumannsins í Kópavogi.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála, að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

  

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Þuríður Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum