Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 142/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 142/2017

Miðvikudaginn 6. september 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 5. apríl 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. mars 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 10. apríl 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 19. apríl 2017. Var hún send kærendum með bréfi sama dag og þeim boðið að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1969 og 1964 og eru í sambúð. Þau búa ásamt X börnum sínum í eigin íbúð að C, sem er 176 fermetrar að stærð. Kærendur eiga einnig 141 fermetra íbúð að D.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara 1. mars 2017 eru 41.025.338 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til lægri tekna í kjölfar veikinda. Þá hafi þau selt yfirveðsetta jörð í sinni eigu árið 2010 og keypt aðra eign. Þau lán sem færð voru yfir á nýju eignina hafi hækkað mikið í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanns skuldara 25. júlí 2013. Með ákvörðun embættisins 12. febrúar 2014 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. ágúst 2014 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur kærðu þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem hnekkti ákvörðuninni með úrskurði 8. desember 2016 þar sem umboðsmaður þótti ekki hafa fullrannsakað fjárhag kærenda áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra. Mál kærenda barst því umboðsmanni skuldara til efnislegrar meðferðar á ný.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum tölvupóst 13. janúar 2017 þar sem óskað var eftir ýmsum upplýsingum um fjárhag þeirra. Í framhaldinu var embættið í frekari samskiptum við kæranda A. Umboðsmaður skuldara sendi kærendum síðan bréf 1. mars 2017. Með bréfinu var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Bréfið var einnig sent kærendum með tölvupósti sama dag. Engin svör bárust frá kærendum.

Með bréfi til kærenda 28. mars 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 28. mars 2017 um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Að mati kærenda sé niðurstaða umboðsmanns skuldara byggð á röngum forsendum og ekkert tillit tekið til raunverulegra aðstæðna þeirra. Með bréfi 1. mars 2017 hafi því verið haldið fram að kærendur hefðu ekki sparað jafn mikla fjármuni og þau hafi átt að geta. Allt sé þetta byggt á áætlunum sem hafi verið of háar og að hluta til séu fyrir hendi uppskáldaðar tölur af hálfu umboðsmanns skuldara. Í útreikningum sé ekkert tillit tekið til þess að kærendur eigi fasteign á D sem þau leigi út og þurfi að standa straum af fasteignagjöldum, holræsagjöldum o.fl. Aðeins tekjur séu teknar með í útreikningana sem valdi því að útkoman verði röng. Þá sé ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði við rekstur bifreiðar en kærendur eigi langveikt barn sem þurfi mikla umönnun og því þurfi þau að hafa bifreið til umráða. Þá hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna fasteignar þeirra að C.

Kærendur byggi einnig á því að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað andstætt skýru ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá gera kærendur athugasemdir við vinnubrögð skipaðs umsjónarmanns í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 12. febrúar 2014 sem hafi borist kærendum með ábyrgðarbréfi. Þær upplýsingar hafi verið og sé enn að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun framfærslukostnaðar og meðaltekna á mánuði. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta og segi til um áætlaðan sparnað:

Samkvæmt þessu sé áætlað að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 12.704.342 krónur í greiðsluskjóli. Kærendur hafi staðið straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna afborgana af láni sem hvílt hafi á fyrsta veðrétti eignarinnar að D, og vegna tannréttinga [barns] þeirra. Alls nemi þessi kostnaður 1.996.060 krónum. Kærendur hafi einnig sýnt fram á útgjöld að fjárhæð 229.050 krónur vegna sjúkraþjálfunar. Í útreikningum hafi þegar verið gert ráð fyrir læknis- og lyfjakostnaði að fjárhæð 676.305 krónur á tímabilinu. Þar sem fella megi kostnað vegna sjúkraþjálfunar í þann flokk þyki kostnaður vegna sjúkraþjálfunar ekki hafa verið umfram það sem útreikningar embættisins hafi þegar tekið tillit til. Sparnaður kærenda hefði því átt að geta numið 10.708.282 krónum (12.704.342 – 1.996.060). Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þau hafi lagt fé til hliðar frá því að þau komust í greiðsluskjól. Að mati umboðsmanns skuldara verði því að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað í greiðsluskjólinu.

Að því er varði d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. nemi skuldir kærenda vegna ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda samtals 5.700.963 krónum. Skuldirnar séu vegna áranna 2011 til 2016. Skuldir vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem fallið hafi í gjalddaga eftir að frestun greiðslna hófst 12. janúar 2014, nemi alls 252.787 krónum. Þá sé litið til þess að greiðslugeta kærenda hafi verið verulega jákvæð í mánuði hverjum og verði að telja að þau hefðu átt að hafa burði til að standa í skilum með framangreind gjöld. Með þessu þyki kærendur hafa brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Af kæru megi ráða að kærendur telji forsendur hinnar kærðu ákvörðunar rangar og að málið hafi ekki verið fullrannsakað áður en ákvörðun var tekin. Að mati þeirra séu þær fjárhæðir sem ákvörðunin byggi á of háar og að hluta til uppskáldaðar. Þau kveði ekki tekið tillit til þess að þau eigi fasteign á D sem sé í útleigu og að þau standi meðal annars straum af fasteigna- og holræsagjöldum vegna þeirrar eignar. Þá hafi heldur ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna fasteignarinnar að C eða kostnaðar við rekstur bifreiðar. Einnig bendi kærendur á að þau eigi langveikt barn og því þurfi þau að hafa bifreið til umráða.

Við meðferð málsins hafi kærendum verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn vegna þeirra atriða sem hafi þótt geta leitt til niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Þeim hafi verið sent bréf 1. mars 2017 en meðal fylgigagna hafi verið svokölluð greiðsluáætlun sem sýndi samsetningu tekna og útgjalda. Tekjur byggi á lífeyris- og launagreiðslum, barnalífeyri, barnabótum, verktakagreiðslum og leigutekjum vegna fasteignar kærenda á D. Í fjárhæð útgjalda sé meðal annars tekið tillit til fasteignagjalda og orkureikninga vegna beggja eigna kærenda. Upplýsingar um fasteignagjöld hafi fengist hjá viðkomandi sveitarfélögum en upplýsingar um fjárhæð orkukaupa frá kærendum sjálfum. Þá geri greiðsluáætlun ráð fyrir að kostnaður kærenda vegna reksturs bifreiðar sé 69.123 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu verði ekki fallist sjónarmið kærenda um að ekki hafi verið tekið tillit til kostnaðar vegna fasteigna þeirra eða reksturs bifreiða.

Kærendum hafi verið veitt færi á að sýna fram á að útgjöld þeirra væru önnur en þau sem umboðsmaður skuldara miðaði við en hafi ekki brugðist við því. Umboðsmaður skuldara hafi ekki önnur gögn að miða við en þau sem liggi fyrir í málinu en þau séu ýmist frá kærendum sjálfum eða opinberum aðilum. Ekki verði ráðið af kæru hvaða upplýsingar kærendur telji vera uppskáldaðar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti í samræmi við skýrt ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málatilbúnað kærenda verður að skilja þannig að þau telji umboðsmann hafa sleppt augljósum útgjaldaliðum, „hreinlega skáldað upp tölur“ og byggt ákvörðun sína á þeim.

Samkvæmt rannsóknarreglu 5. gr. lge., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í máli þessu byggði umboðsmaður skuldara ákvörðun sína um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda meðal annars á því að þau hefðu ekki lagt til hliðar í greiðsluskjóli í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Til grundvallar þessu mati umboðsmanns lágu þær upplýsingar sem embættið hafði sjálft aflað, auk upplýsinga sem kærendur höfðu veitt. Kærendum var boðið að koma athugasemdum sínum og viðhlítandi upplýsingum á framfæri með tölvupósti 7. febrúar 2017. Umboðsmaður lagði mat á þau gögn sem kærendur lögðu fram íí kjölfarið en um var að ræða gögn sem einungis var á færi kærenda sjálfra að afla. Einnig var kærendum veitt færi á að gera athugasemdir með bréfi 1. mars 2017 en engar athugasemdir bárust. Úrskurðarnefndin fellst samkvæmt framansögðu ekki á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. mars 2017 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður. Ákvörðunin byggðist annars vegar á því að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu átt að geta lagt til hliðar á því tímabili sem þau nutu frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Hins vegar byggði ákvörðunin á því að kærendur hefðu látið hjá líða að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld og þannig stofnað til vanskilaskulda á tímabilinu.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda samþykkt 12. febrúar 2014 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 10.708.282 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 12. febrúar 2014 til 31. janúar 2017 en þau hafi ekkert fé lagt til hliðar. Kærendur telja á hinn bóginn að hvorki sé tekið tillit til allra útgjalda þeirra né raunverulegra aðstæðna á tímabilinu.

Samkvæmt skattframtölum, álagningarseðlum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi á neðangreindu tímabili greiðsluskjóls:

Tímabilið 1. mars 2014 til 31. desember 2014: Tíu mánuðir
Nettótekjur A 3.597.822
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 359.782
Nettótekjur B 2.036.890
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 203.689
Nettótekjur alls 5.634.712
Mánaðartekjur alls að meðaltali 563.471
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: 12 mánuðir
Nettótekjur A 4.764.715
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 397.060
Nettótekjur B 2.277.294
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 189.775
Nettótekjur alls 7.042.009
Mánaðartekjur alls að meðaltali 586.834
Tímabilið 1. janúar 2016 til 31. desember 2016: 12 mánuðir
Nettótekjur A 5.017.334
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 418.111
Nettótekjur B 2.374.080
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 197.840
Nettótekjur alls 7.391.414
Mánaðartekjur alls að meðaltali 615.951

Tímabilið 1. janúar 2017 til 31. 31. janúar 2017: Einn mánuður
Nettótekjur A 332.807
Nettótekjur B 205.749
Nettótekjur alls 538.556
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 20.606.691
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 588.763

*Inni í launatekjum kærenda eru greiðslur frá lífeyrissjóðum og skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara 1. mars 2017, tekjur kærenda, bætur og leigutekjur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. mars 2014 til 31. janúar 2017: 35 mánuðir*
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 20.606.691
Bótagreiðslur 232.388
Skattfrjálsar tekjur frá Tryggingastofnun 2.542.674
Verktakagreiðslur 2015 og 2016 1.133.496
Leigutekjur nettó 1.548.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 26.063.249
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 744.664
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns 1.3.2017** 382.981
Greiðslugeta kærenda á mánuði 361.683
Alls sparnaður í 35 mánuði í greiðsluskjóli x 361.683 12.658.914

*Í málinu er ekki upplýst um ráðstöfunartekjur fyrir febrúar 2017 en greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður 28. mars 2017. Í samræmi við þetta er hér byggt á tekjum kærenda til 31. janúar 2017.

**Við útreikning á mánaðarlegum útgjöldum kærenda er miðað við að þau greiði rafmagn af báðum fasteignum, hita og fasteignagjöld.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í fylgiskjölum sem þau fengu í hendur með ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, að þeim hafi borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja fyrir af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kærenda að vera 12.658.914 krónur að frádregnum óvæntum en nauðsynlegum kostnaði. Kærendur hafa ekki sýnt fram á neinn sparnað.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er gert ráð fyrir að kostnaður vegna sjúkraþjálfunar að fjárhæð 228.218 krónur sé hluti af læknis- og lyfjakostnaði sem þegar hafi verið reiknaður inn í framfærsluviðmið kærenda. Að mati úrskurðarnefndarinnar er rétt að bæta kostnaði við sjúkraþjálfun við framfærslukostnað kærenda enda telst sjúkraþjálfun hvorki til lyfja eða kostnaðar við læknisþjónustu. Úrskurðarnefndin álítur þetta meðal annars vera í samræmi við það verklag umboðsmanns skuldara að bæta kostnaði vegna tannlæknaþjónustu við nauðsynlegan framfærslukostnað þeirra sem njóta greiðsluskjóls. Verða því dregnar 228.218 krónur frá þeirri fjárhæð sem kærendum bar að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Sama á við um kostnað við tannréttingar dóttur kærenda að fjárhæð 252.240 krónur.

Á árinu 2012 seldu kærendur íbúð sem þau áttu að E. Þau tóku ódýrari íbúð að D, upp í sem hluta söluverðs. Á eigninni við D hvíldi lán frá Íbúðalánasjóði sem kærendur ætluðu að yfirtaka en þau munu ekki hafa staðist greiðslumat hjá sjóðnum. Varð þá að samkomulagi að fyrri eigandi eignarinnar yrði áfram skráður greiðandi lánsins en kærendur greiddu af því. Kærendur greiddu samkvæmt þessu af láninu þar til það var uppgreitt síðla árs 2016. Á tímabili greiðsluskjóls nam sú fjárhæð 1.725.000 krónum. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir ekki rétt að taka tillit til þessara greiðslna við útreikning á sparnaði kærenda þar sem kærendum var óheimilt að greiða af skuldum sem þessari í greiðsluskjóli samkvæmt meginreglu 11. gr., sbr. 3. gr. lge.

Að mati kærenda tók umboðsmaður skuldara ekki tillit til þess að þau ættu tvær fasteignir þegar framfærslukostnaður þeirra var reiknaður út. Á þetta getur úrskurðarnefndin ekki fallist en í fyrirliggjandi útreikningi á framfærslukostnaði kemur fram að reiknuð eru fasteignagjöld af báðum fasteignunum og útgjöld vegna rafmagns og hita beggja eignanna. Fram kemur einnig að byggt er á opinberum gögnum og þeim gögnum sem kærendur lögðu sjálf fram um rekstur eignanna. Þá kveða kærendur ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði við rekstur bifreiðar. Þetta er ekki rétt en í fyrrgreindum útreikningi á framfærslukostnaði er gert ráð fyrir að kostnaður kærenda við rekstur bifreiðar sé 69.123 krónur á mánuði eða alls 2.419.305 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 12.178.456 krónur á tímabili greiðsluskjóls (12.658.914 - 228.218 - 252.240) en þau hafa ekki getað sýnt fram á neinn sparnað.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til vanskilaskulda í greiðsluskjóli í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða ekki þing- og sveitarsjóðsgjöld á tímabili greiðsluskjóls. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi ekki staðið í skilum með eftirtalin gjöld á tímabilinu:

Vanskil sem kærendur hafa stofnað til í greiðsluskjóli
Brunatrygging vegna Kirkjuvegs 2016 103.204
Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2014-2016 252.787
Bifreiðagjald 2014 55.513
Samtals 411.504

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja ofangreinda skuldasöfnun kærenda brjóta gegn skyldum skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af hálfu nefndarinnar er því fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum