Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2016

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 25/2016

Útgjöld félags um frístundabyggð.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 21. júlí 2016, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga um frístundabyggð og legiu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 15. ágúst 2016, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 29. september 2016, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 14. september 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi lóðar nr. xxxx, með fastanúmer sumarhúss xxx, í C. Gagnaðili er félag frístundahúsaeigenda á svæðinu. Ágreiningur er um ákvörðun gagnaðila um að standa straum af kostnaði við gerð nýs deiliskipulags.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að honum beri ekki að taka þátt í kostnaði við gerð nýs deiliskipulag.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi átt lóð og sumarhús í landi C, frá árinu 2004 á svokölluðu efra svæði. Það svæði hafi verið skipulagt árið 1999. Vegna fjölgunar lóða á svæðinu hafi verið ráðist í gerð nýs deiliskipulags sem samþykkt hafi verið af sveitastjórn í febrúar 2016. Á aðalfundi gagnaðila 25. apríl 2016 hafi fundarmenn verið upplýstir um að gagnaðili hefði greitt 740.000 kr. auk virðisaukaskatts í kostnað vegna skipulagsins, sveitarfélagið hafi greitt 25% og landeiganda hefði greitt eitthvað.

Gagnaðili sé fjármagnaður með gjöldum félgsmanna og álitsbeiðandi telji það ekki standast lög að þeir félagsmenn sem átt hafi lóðir á þegar skipulögðu svæði séu látnir, með félagsgjöldum sínum, taka þátt í kostnaði við nýtt skipulag, sem tilkomið sé vegna nýrra lóða. Sveitarfélaginu, landeigandanum og eigendum nýrra lóða hefði borið að kosta gerð nýs skipulags.

Í greinargerð gagnaðila segir að kostnaður sé sem um ræðir sé tilkominn vegna þess að árið 2004 hafi gagnaðli samþykkt að láta gera nýtt samræmt deiliskipulag af öllu því svæði sem væri innan marka félagsins og tilheyrði því. Ástæðan hafi verið sú að svæðið hafi verið að þróast í áratugi og aðeins hluti svæðisins á gildu deiliskipulagi. Svæðið sé samsett úr gömlu og nýrra (efra) svæði. Gamla svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt. Númer landa hafi verið mjög ruglingslegt svo og götuheiti. Ekki hafi verið hægt að framvísa heildardeiliskipulagi svæðisins ef lóðarleiguhafar vildu sæja um heimildir til bygginga og breytinga á hluta svæðisins. Hafi gagnðili því talið skynsamlegt að ráðast í þessa vinnu til að hafa eitt heildstætt deiliskipulag fyrir svæðið. Hafi tillaga þess efnis verið samþykkt á aðalfundi félagsins 26. maí 2004. Fundargerðin hafi þó ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Nýjar lóðir, eins og vísað sé til í álitsbeiðni, hafi bæst við á seinni stigum skipulagsvinnunar og greiddi núverandi landeiganda á C allan kostnað vegna þeirra viðbóta. Ekki hafi verið farið af stað í skipulagsvinnu vegna þessara lóða líkt og álitsbeiðandi haldi fram. Kostnaður vegna skipulagsvinnunnar hafi ekki verið innheimtur að fullu fyrr en árið 2016 eftir að skipulagið fékk lögformlegt samþykki. Þá rekur gagnaðili skipulagsferlið frá árinu 2004. Fjallað hafi verið um skipulagsvinnuna á nær hverjum aðalfundi frá 2004 og því hafi ekki átt að fara fram hjá neinum félagsmönnum að þessi vinna var í gangi eða út á hvað hún gekk. Aldrei hafi komið fram formleg mótmæli gegn þessari vinnu eða því að gagnaðili bæri kostnað af henni.

Í athugasemdum álitsbeiðanda er áréttað að hann hafi aldrei lagst gegn því að ráðist yrði í gerð deiliskipulagsins, Athugasemdir hans lúti eingöngu að þeirri ákvörðun gagnaðila að láta félagsmenn á þegar skipulögðu svæði greiða kostnað við skipulag þess hluta svæðisins sem áður hafði ekki verið skipulagður. Þannig sé álitsbeiðanda í raun gert að tvígreiða skipulagsgjald. Lóðarleiguhafar á þeim hluta sem ekki var skipulagður séu líklega um 70 talsins en aðeins 20 – 22 á nýja hlutanum, efra svæðinu. Þá hafi það fyrst komið fram á aðalfundi í april 2016 að til stæði að láta álitsbeiðanda og aðra lóðarleiguhafa á þegar skipulögðu svæði, greiða hluta af kostnaði við deiliskipulagið með félagsgjöldum sínum.

III. Forsendur

Aðila greinir á um hvort gagnaðila sé heimilt að nýta félagsgjöld gagnaðila til að greiða kostnað við nýtt deiliskipulag á sumarhúsasvæðinu. Óumdeilt er að á aðalfundi gagnðila 2004 hafi verið samþykkt tillaga um að láta gera nýtt samræmt deiliskipulag af öllu því svæði sem væri innan marka félagsins og tilheyrði því. Telur kærunefnd að með samþykki nefndrar tillögu hafi sömuleiðis verið samþykkt að gagnaðili myndi greiða fyrir deiliskipulagið, enda ekkert í gögnum málsins sem gefur tilefni til að ætla annað, og því ekki unnt að fallast á kröfu álitsbeiðanda.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að ekki sé hægt að fallast á kröfu álitsbeiðanda.

Reykjavík, 14. september 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum