Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2016

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 28/2016

Kosning stjórnar. Umboð stjórnar

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 12. júlí 2016, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 15. ágúst 2016, lögð fyrir nefndin sem og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 3. október 2016 og athugasemdir gagnaðila, dags. 23. október 2016. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. desember 2016.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar eru eigendur sinnar íbúðarinnar hvort í þriggja íbúða fasteign. Álitsbeiðandi telur að gagnaðili hafi orðið prókúruhafi húsfélagsins með ólögmætum hætti.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að forsvarsmaður gagnaðila hafi ekki prókúru á reikningi húsfélagsins.

Í álitsbeiðni kemur fram að forsvarsmaður gagnaðila sé með prókúru á reikningi húsfélagsins, sem hann hafi fengið með ólögmætum hætti.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að hann sé formaður húsfélagsins. Aðalfundur húsfélagsins hafi verið haldinn 21. janúar 2016 og framhaldsaðalfundur 31. mars 2016. Fundarritari á fundunum hafi verið lögmaður álitsbeiðanda. Forsvarsmaður gagnaðila hafi verið kjörinn formaður húsfélagsins með lögmætum hætti.

Í athugasemdum setja aðilar fram ýmsar ávirðingar hvor í annars garð sem hafa enga þýðingu í því máli sem hér er til umfjöllunar.

III. Forsendur

Í 66. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, segir að stjórn húsfélags skuli kosin á aðalfundi. Í 67. gr. segir að þegar um sé að ræða fjöleignarhús með sex eignarhlutum eða færri sé ekki þörf á að kjósa og hafa sérstaka stjórn og fara þá allir eigendur í félagi saman með það vald og þau verkefni sem stjórnin annars færi með. Þó er heimilt í slíkum húsum að fela einum eiganda að einhverju leyti eða öllu verkefni stjórnar og skal þá beita ákvæðum laganna um stjórn eftir því sem við á.

Aðalfundur var haldinn 21. janúar 2016 en honum frestað og framhaldið 31. mars 2016 samkvæmt fundarboðunum sem liggja fyrir í málinu. Undirritaðar fundargerðir eru ekki meðal gagna málsins en álitsbeiðandi mótmælir ekki þeirri fullyrðingu gagnaðila að á þeim fundum hafi hann verið kjörinn formaður. Þá hefur því hvorki verið haldið fram að boðun téðra húsfunda hafi verið ábótavant né kosning formannsins ólögmæt. Verður ekki annað ráðið en að þannig hafi einum eiganda verið falið að sinna þeim verkefnum sem stjórn almennt sinnir í stærri húsfélögum.

Um verkefni og skyldur stjórnar er fjallað í 69. gr. fjöleignarhúsalaga. Meðal verkefna stjórna húsfélaga er innheimta hússjóðsgjalda og varðveisla fjármuna. Þá annast hússtjórn almennt greiðslu útistandandi reikninga. Gjaldkera, eða formanni ef gjaldkera er ekki til að dreifa, er þannig nauðsynlegt að hafa prókúru á bankareikningum húsfélags. Því er ekki unnt að fallast á að forsvarsmaður gagnaðila hafi fengið prókúru á bankareikninga félagsins með ólögmætum hætti svo sem haldið er fram af hálfu álitsbeiðanda.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að forsvarsmanni gagnaðila sé óheimilt að hafa prókúru á bankareikningi húsfélagsins.

Reykjavík, 20. desember 2016

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum