Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2016

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 32/2016

Endurgreiðsla tryggingarfjár

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2016, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 30. ágúst 2016, lögð fyrir nefndina sem og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 16. september 2016, og athugasemdir gagnaðila, dags. 19. september 2016. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 11. janúar 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi tók á leigu herbergi af gagnaðila. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár í lok leigutíma.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða ásamt vöxtum tryggingarfé sem álitsbeiðandi lagði fram við upphaf leigutíma.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi tók á leigu herbergi í eigu gagnaðila frá 22. desember 2015 til 31. mars 2016. Gagnaðili hafi hvorki skilað tryggingarfé, kr. 200.000, við lok leigutíma né gert kröfu í tryggingarféð.

Í greinargerð gagnaðila segir að álitsbeiðandi hafi ekki þrifið herbergið við leigulok svo sem áskilið hefði verið og hún hafi valdið tjóni með því að skilja eftir bletti á rúmdýnu og rispur á gólfi og veggjum líkt og sjá megi af myndum sem fylgdu greinargerð hans. Hann hafi því gert kröfu í 100.000 kr. af tryggingarfénu en álitsbeiðandi hafi ekki samþykkt það.

Í athugasemdum álitbeiðanda segir að hún hafni því að hafa valdið skemmdum á hinu leigða húsnæði eða innanstokksmunum.

Í athugasemdum gagnaðila segir að vinkona hans geti staðfest fullyrðingar hans um slæman viðskilnað álitsbeiðanda.

III. Forsendur

Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé að fjárhæð 200.000 kr. ásamt vöxtum. Gagnaðili neitar endurgreiðslu á þeim forsendum að álitsbeiðandi hafi ekki þrifið húsnæðið við lok leigutíma og að skemmdir hafi orðið á eigninni.

Í 39. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusala sé heimilt að krefja leigjanda um tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningnum, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða húsnæði sem leigjandi ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum laganna eða almennum reglum. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. sömu laga er leigusala óheimilt að ráðstafa tryggingarfé eða taka hluta af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Þó er leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans. Að leigutíma loknum skal leigusali segja til um svo fljótt sem verða má hvort hann geri kröfu í tryggingarfé eða hafi uppi áskilnað um það. Ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu án ástæðulauss dráttar. Leigusala er aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðis.

Álitsbeiðandi hefur hvorki viðurkennt bótaskyldu né hefur dómur gengið þar um auk þess sem meira en tveir mánuðir liðu frá leigulokum og þar til gagnaðili gerði kröfu í tryggingarféð sem hann virðist fyrst gera í greinargerð sinni í máli þessu. Bar honum því að skila tryggingarfénu án ástæðulauss dráttar sem hann gerði ekki.

Að mati kærunefndar er ekki unnt að fallast á skyldu gagnaðila til greiðslu vaxta á tryggingarfé en með vísan til 4. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, líkt og ákvæðið var í gildistíð þess leigusamnings sem um ræðir, skal tryggingarfé í vörslu leigusala vera verðtryggt. Samkvæmt þessu ber gagnaðila að endurgreiða tryggingarfé auk verðbóta.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé, 200.000 kr., auk verðbóta.

Reykjavík, 11. janúar 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum