Hoppa yfir valmynd

Lögreglustjórinn á Eskifirði - synjun endurveitingu ökuréttinda: Mál nr. 38/2007

Þann 19. mars 2008 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 38/2007

A

gegn

Lögreglustjóranum á Eskifirði

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, sem barst þann 29. ágúst 2007, kærði A (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun Lögreglustjórans á Eskifirði (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar, sbr. bréf kærða dags. 18. júní 2007.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kæranda til kærða, dags. 18. júní 2007.

Nr. 2. Bréf kærða til kæranda, dags. 11. júlí 2007.

Nr. 3 Bréf kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 27. ágúst 2007

Nr. 4. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Austurlands, dags. 22. október 2007.

Nr. 5. Bréf kærða til samgönguráðuneytis, dags. 25. september 2007.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði veittur ökuréttur að nýju. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Málavextir eru þeir að þriðjudaginn 8. nóvember 2005 kl. 14.05 stöðvaði lögregla för kæranda á bifreiðinni X þar sem kærandi ók frá Hótel Höfn í Hornafirði að Lónsvegamótum við þjóðveg 1. Skammt austan þeirra hafði lögregla afskipti af akstri kæranda og færði hann síðar á lögreglustöð. Niðurstöður rannsóknar sýndi að kærandi hafi verið með 1.74 promill vínandamagn í blóði við akstur bifreiðarinnar.

Með dómi Héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum þann 8. febrúar 2006 var kærandi sviptur ökurétti í þrjú ár vegna ölvunaraksturs á grundvelli 1. og 3. mgr. 45. gr. umfl., sbr. endurrit úr dómabók Héraðsdóms Austurlands, dags. 22. október 2007.

Með bréfi kæranda til kærða, dags. 18. júní 2007 var farið fram á endurveitingu ökuréttar.

Með bréfi kærða til kæranda, dags. 11. júlí 2007 var ósk kæranda um endurveitingu ökuréttar hafnað.

Með bréfi kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 27. ágúst 2007 kærði kærandi synjun Lögreglustjórans á Eskifirði á beiðni um endurveitingu ökuréttar honum til handa.

Í bréfi kærða, dags. 25. september 2007 eru ítrekuð sjónarmið kærða vegna synjunar á endurveitingu ökuréttar til handa kæranda.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í bréfi sínu dags. 18. júní 2007 leggur kærandi áherslu á mikilvægi þess að honum verði veittur ökuréttur að nýju. Kærandi stefni að því að gerast virkari þátttakandi í samfélaginu, enda hafi kærandi sökum langvarandi veikinda verið frá vinnu í um 10 mánuði. Svipting ökuréttar hafi enn fremur verið kæranda fjötur um fót í atvinnuleit, þó svo að hann hafi að lokum fengið atvinnu.

Kærandi telur að þær sérstöku aðstæður sem réttlæti endurveitingu ökuleyfis, sbr. 2. mgr. 106. gr. umfl. eigi við um hann. Ökurétt hafi kærandi misst í kjölfar þess að hann neytti áfengis eftir 13 ára áfengisbindindi. Kærandi hafi gengist undir aðgerð vegna heilablæðingar nokkrum vikum eftir að hann ók undir áhrifum áfengis, en að mati læknis hafi blæðingin hugsanlega staðið yfir í litlum mæli í nokkrar vikur. Það hafi að öllum líkindum leitt til þess að kærandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir ástandi sínu þegar umrætt atvik átti sér stað.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 11. júlí 2007 vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. umfl. ákvörðun sinni til stuðnings. Þar segir að hafi ökumaður verið sviptur ökurétti í lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Þar sem kærandi var sviptur ökurétti í þrjú ár komi ekki til álita að stytta þann tíma, enda standi ekki lagaheimild til þess.

Kærði líti því svo á að ekki hafi verið heimilt að verða við beiðni kæranda og að endurveiting ökuréttar komi því fyrst til álita að þremur árum liðnum frá sviptingu ökuréttar að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. umfl.

Eins og fram hefur komið er kveðið svo á 1. gr. 106. gr. umfl. að veita megi þeim ökurétt að nýju sem sviptur hefur verið ökurétti lengur en þrjú ár, hafi svipting staðið í þrjú ár. Ekki er í lögunum svigrúm til að stytta sviptingartímabil ökuréttar sem ákveðið hefur verið í þrjú ár eða skemur.

Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði skv. 1. mgr. 106. umfl. til endurveitingar ökuréttar kemur því ekki til skoðunar í máli þessu hvort atvik skv. 2. mgr. 106. gr. umfl. eigi við, en þar segir að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Í ljósi þess sem að ofan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 106. gr. umfl. um endurveitingu ökuréttar eigi við í máli þessu.

Vegna anna í ráðuneytinu hefur efnismeðferð máls þessa dregist. Beðist er velvirðingar á því.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu A um endurveitingu ökuréttar.

Unnur Gunnarsdóttir

Birna Hreiðarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum