Hoppa yfir valmynd

Ísafjörður - frávísunarkrafa, ákvörðun varðandi efni og aðgang á fréttasíðu: Mál nr. 8/2008

Ár 2008, 2. júní er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 8/2008

Ólína Þorvarðardóttir og Bryndís Friðgeirsdóttir, f.h. vefsíðunnar skutull.is

gegn

Ísafjarðarbæ

I. Aðild kærumáls, kröfur og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru, dags. 18. desember 2007, til félagsmálaráðuneytisins, kærðu Ólína Þorvarðardóttir og Bryndís Friðgeirsdóttir, f.h. vefsíðunnar skutull.is (hér eftir nefndar kærendur) ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar (hér eftir nefnt kærði) að hafna beiðni kærenda um:

· Að vefmiðilinn skutull.is fengi sama rými á heimasíðu kærða og vefmiðilinn bb.is, þ.e. að síðan verði tengd þangað beint með RSS-veitu, líkt og gert væri nú þegar við bb.is.

· Að auglýsingar þær sem kærði birtir á vefsíðunni bb.is yrðu boðnar vefsíðunni skutull.is á sambærulegu verði.

Er þess krafist af hálfu kærenda að ráðuneytið úrskurði um lögmæti þeirrar ákvörðunar kærða að hafna ofangreindum beiðnum. Kærendur óska úrskurðar á grundvelli 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærði krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá en til vara að kærunni verði hafnað.

Samkvæmt lögum nr. 167/2007 um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands sem samþykkt voru á Alþingi þann 14. desember s.l. er í I. þætti laganna kveðið á um flutning á forræði sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins þann 1. janúar 2008. Samkvæmt framangreindu framsendi félagsmálaráðuneytið erindið til samgögnuráðuneytisins, þann 16. janúar 2008, og er mál þetta því afgreitt í samgönguráðuneytinu.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 18. desember 2007, ásamt fylgigögnum:

a. Bréf skutuls.is til bæjarráðs kærða, dags. 2. nóvember 2007.

b. Bréf bæjarritara til skutuls.is, dags. 15. nóvember 2007.

c. Afrit af viðtali svæðisútvarps Vestfjarða við bæjarstjóra kærða, dags. 10. desember 2007.

d. Af vefsíðunni skutull.is: Stefna skutuls / ritnefnd og fréttastjórn skutuls.

nr. 2 Bréf ráðuneytisins til kærða, dags. 20. desember 2007.

nr. 3 Umsögn kærða, dags. 10. janúar 2008.

nr. 4 Bréf ráðuneytisins til kærenda, dags. 17. janúar 2008.

nr. 5 Athugasemdir kærenda, dags. 23. janúar 2008, ásamt eftirfarandi fylgigögnum

a. Fundargerð 557. fundar bæjarráðs kærða, dags. 14. janúar 2008.

b. Stofnfundargerð einkahlutafélagsins Rauðir pennar ehf.

c. Samþykktir fyrir Rauða penna ehf.

nr. 6 Upplýsingabréf kærða, dags. 25. janúar 2008.

nr. 7 Bréf ráðuneytisins til kærða, dags. 12. febrúar 2008.

nr. 8 Athugasemdir kærða, dags. 19. febrúar 2008.

nr. 9 Upplýsingabréf kærða, dags. 13. febrúar 2008, ásamt fylgiskjali.

a. Skrá úr fundargerðum bæjarráðs kærða.

Framangreind kæra barst félagsmálaráðuneytinu þann 20. desember 2007, er framsendi kæruna til samgönguráðuneytisins, þann 16. janúar 2008. Hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi dags. 15. nóvember 2007. Kæran barst því innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir á þá leið að með bréfi dags. 2. nóvember 2007, fóru kærendur þess á leit við kærða að vefsíðan skutull.is hlyti sama rými á heimasíðu kærða og bb.is, þ.e. að hún yrði tengd þangað beint með RSS-veitu, líkt og gert væri nú þegar við bb.is. Ennfremur var þess óskað að auglýsingar þær sem kærði birtir á bb.is yrðu boðnar vefsíðunni skutull.is til birtingar á sambærilegu verði. Þá var óskað samskonar styrkveitingar eða álíka væri um slíkt að ræða til bb.is

Beiðnina studdu kærendur við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 65. og 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Í svari kærða, dags. 15. nóvember 2007, segir að beiðnin hafi verið tekin fyrir á fundi kærða þann 12. nóvember sl. og þar hafi verið samþykkt að á heimasíðu kærða verði tengill sem vísi á vefsíðuna skutull.is, en að öðru leyti sé erindinu hafnað.

Kærendur lögðu fram stjórnsýslukæru dags. 18. desember 2007 þar sem framangreind ákvörðun er kærð og krafist úrskurðar ráðuneytisins um lögmæti hennar.

Kærða var með bréfi dags. 20. desember 2007 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau þann 16. janúar 2008.

Kærendum var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 17. janúar 2008 og bárust athugasemdir þann 25. janúar 2008.

Þann 29. janúar 2008, barst ráðuneytinu bréf frá kærða, þar sem upplýst var að umfjöllun hafði orðið í bæjarráði og bæjarstjórn kærða um kæruefnið frá því að kærði sendi ráðuneytinu umsögn sína.

Með bréfi dags. 12. febrúar 2008, óskaði ráðuneytið eftir því við kærða að atriði er komu fram í athugasemdum kærenda yrðu upplýst nánar og bárust þær upplýsingar þann 21. febrúar 2008.

Þann 15. febrúar 2008, barst ráðuneytinu bréf frá kærendum ásamt upplýsingum úr fundargerðum bæjarráðs kærða, er varðaði afgreiðslu kærða á óskum um viðskipti og/eða fyrirgreiðslu á síðastliðnum tveimur árum.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur telja synjun kærða á beiðninni vera brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hamli hún því að skutull.is fái notið jafnræðis á við annan áþekkan fréttamiðil á Vestfjörðum, þ.e. bb.is. Beiðnin hafi byggst á jafnræðissjónarmiðum og von um óbeinan stuðning og hafi frekar verið búist við jákvæðum viðbrögðum þar sem kærði hafi lýst yfir vilja til að efla og styrkja atvinnulíf og frumkvöðlastarf í bænum. Kærendur taka fram að ekki hafi verið óskað neinna greiðslna frá kærða fyrir fréttastreymið, enda hafi kærendum ekki verið kunnugt um að kærði greiddi bb.is. fyrir fréttastreymi þeirra. Hins vegar var farið fram á að kærendur fengju að sitja við sama borð og bb.is varðandi beina fjárstyrki, ef um slíkt væri að ræða.

Kærendur telja að meðferð kærða á beiðninni hafi ekki verið í samræmi við venjur sem viðhafðar hafa verið í bæjarráði kærða, þar sem það sé nær ófrávíkjanleg regla að vísa erindum sem berast bæjarráði til meðferðar viðeigandi nefnda ellegar að bæjarstjóra sé falið að ræða við bréfritara. Kærendur benda á að í því tilviki sem hér um ræðir hefði verið eðilegt að vísa beiðninni til tölvunefndar kærða eða fela bæjarstjóra að ræða við kærendur. Kærendur telja að kærði hafi beitt meirihlutavaldi sínu og þannig knúið fram fyrirvaralausa synjun erindis, enda hafi bæjarráðið og síðan bæjarstjórn klofnað í afstöðu sinni.

Kærendur benda á að beiðnin til kærða hafi öðrum þræði snúist um aðgengi að ákveðnum ,,gæðum” eða aðstöðu sem kærði hafði yfir að ráða og annar vefmiðil, fullkomlega sambærilegur við miðil kærenda, naut góðs af þá þegar. Með ,,gæðum” í þessu sambandi sé m.a. átti við það að vera sýnilegur á heimasíðu bæjarins, eiga von um auglýsingaviðskipti við kærða og jafnvel fjárstyrk ef fordæmi væru fyrir slíku, en öllu þessu var hafnað af kærða.

Kærendur mótmæla þeirri málsástæðu sem fram kemur í svari kærða að skutull.is sé ekki sambærilegur fréttamiðil og bb.is, enda sé sú staðhæfing órökstudd. Einungis er vísað til þess að bb.is hafi starfað lengur en skutull.is Þá telja kærendur það ekki tæk rök sem kærði beitir að bera því við að um fleiri svæðisbundnar vefsíður sé að ræða sem ekki njóti sérstakra styrkja eða fríðinda frá kærða enda hafi ekki verið óskað eftir slíku af þeirra hálfu.

Þá taka kærendur fram að ekkert í beiðninni til kærða gefi tilefni til breytinga á afstöðu kærða til viðskipta við bb.is, hvorki varðandi fréttaveituna né kaup á auglýsingarými, eins og bæjarstjóri kærða hafi gefið í skyn í bréfi sínu til ráðuneytisins.

Kærendur telja synjun kærða byggða á pólitískum ástæðum en ekki málefnalegum og vitna í því sambandi til ummæla bæjarstjóra kærða í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða, þar sem fram kom að hann teldi að um pólitískan vefmiðil væri að ræða, er ynni fyrir Í-listann í bæjarstjórn. Þannig hafi bæjarstjóri kærða veist að trúverðugleika hins nýstofnaða vefmiðils sem hefur yfirlýsta stefnu um faglega og óhlutdræga fréttamennsku. Kærendur telja jafnframt að bæjarstjóri kærða hafi með orðum sínum beinlínis brugðið fæti fyrir fréttasíðuna skutull.is á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra sem að vefmiðlinum standa. Kærði hafi þannig ekki aðeins synjað vefmiðlinum skutull.is jafnræðis á við aðra fréttamiðla án haldbærs rökstuðnings heldur hafi beinlínis veist að trúverðugleika vefmiðilsins á opinberum vettvangi.

Kærendur benda á að það sjónarmið komi fram í úrskurðum umboðsmanns Alþingis að þegar þau tilvik komi upp að stjórnsýslulögin gildi ekki beint um ákvörðun í máli, þá gildi engu að síður ákveðnar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar sem sum ákvæði stjórnsýslulaga eru byggð á. Kærendur telja að sömu sjónarmið komi fram í tilmælum Ráðherraráðs Evrópusambandsins um stjórnsýslu sveitarfélaga. Þá telja kærendur það ekki felast í sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga né stjórnarskrá að neyta sveitarstjórnarvalds til þess að skerða athafna- og félagafrelsi almennra borgara á þann hátt sem kærði gerir gagnvart vefsíðunni skutull.is.

Kærendur segja að beiðni þeirra um rými á heimasíðu bæjarins hafi að hluta til verið viðskiptalegs eðlis, þar sem mikilvægt hefði verið fyrir nýstofnaða síðu að vera sýnilega og áberandi og hafi þeim þótt heimasíða kærða vera kjörinn vettvangur til þess, enda fordæmi til slíks, sbr. fréttastreymi frá bb.is.

IV. Málsástæður og rök kærða

Kærði styður kröfu sína um frávísun á því að erindi kærenda eigi ekki undir 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 102. gr. séu fyrirmæli um almennt eftirlit ráðuneytisins um að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum skv. sveitarstjórnarlögum eða öðrum lögmætum fyrirmælum og í 103. gr. laganna sé fjallað um úrskurðarvald ráðuneytisins er varði ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Kærði telur að heimild ráðuneytisins sé til þess að endurskoða og úrskurða um ákvarðanir sveitarfélagsins, þ.e. hvort þær hafi verið lögformlega rétt teknar, en hins vegar eigi ekki að fara fram endurskoðun sem byggi á frjálsu mati sveitarstjórna, sbr. 78. gr. stjórnarskrár Íslands, en synjun á erindi kærenda byggi einmitt á svokölluðu frjálsu mati, sem ekki komi til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi vegna sjálfstæðis sveitarfélaga.

Hvað tilvísun kærenda til 26. gr. stjórnsýslulaga varðar þá bendir kærði á að samkvæmt því ákvæði komi fram að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Í stjórnsýslurétti sé hins vegar stjórnvaldsákvörðun skilgreind á þann veg að um sé að ræða ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds, en í umræddu tilviki sé hins vegar um að ræða einkaréttarlega og viðskiptalega ákvörðun, en slíkar ákvarðarnir falla almennt ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga.

Kærði bendir á að kærendur hafi ekki vísað til þess að brotið hafi verið gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga eða annarra lögmætra fyrirmæla, sem um ákvarðanatöku gildi hjá kærða, við töku umræddar ákvörðunar. Ákvörðun kærða um synjun á erindi kærenda sé því ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar og því séu ekki lagaskilyrði til að ráðuneytið beiti úrskurðarvaldi sínu í málinu og beri að vísa því frá.

Kærði bendir á að synjun á erindi kærenda hafi verið tekin á málefnalegum og hlutlægum forsendum og hafi því fráleitt falið í sér einhver brot á jafnræði svo sem kærendur halda fram. Ákvörðuninni verði því ekki haggað eða hún felld úr gildi.

Kærði vísar til þeirra meginreglna sem gilda um jafnræði borgaranna að það sé almennt ekki talið að brotið hafi verið gegn jafnræði, nema að farið hafi verið með sambærileg tilvik á ólíkan hátt og að sú ákvörðun hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Kærði ítrekar þá afstöðu að ekki hafi verið um sambærilegt tilvik að ræða og því fráleitt að vísa til sjónarmiða um brot á jafnræði. Kærði hafnar því að erindi kærenda hafi fengið aðra málsmeðferð en tíðkist hjá sveitarfélaginu. Á heimasíðu kærða er gerð grein fyrir almennu fyrirkomulagi um afgreiðslu erinda, þar er m.a. tekið fram að erindi sem séu sérstaklega stíluð á nefndir eða bæjarráð fari til þeirra aðila. Það fari síðan eftir aðstæðum í hverju máli hvernig afgreiðslu þess sé háttað í bæjarráði, þ.e. hvort erindi sé vísað til frekari meðferðar hjá bæjarstjóra, vísað til bæjarstjórnar eða vísað til nefndar.

Kærði segir að þær ákvarðanir að semja við bb.is um fréttaveitu inn á vefsíðu kærða og um kaup á auglýsingarými hjá vefsíðunni bb.is hafi verið teknar á viðskiptalegum forsendum og með tilliti til hagsmuna kærða, en fréttamiðilinn Bæjarins Besta og bb.is hafi starfað á Ísafirði um árabil sem óháð fréttablað og fréttamiðill á Vestfjörðum og hafi mikla útbreiðslu. Kærði bendir á að lítil reynsla hafi verið komin á vefmiðilinn skultull.is, en hann hafi starfað í innan við viku þegar beiðni hans um viðskipti við kærða var lögð fram. Lítil reynsla hafi því verið komin á gildi miðilsins sem auglýsinga- og fréttamiðils þegar ákvörðun kærða um að hafna beiðni kærenda var tekin. Beiðnin hafi ekki gefið tilefni til breytinga á afstöðu kærða til viðskipta við bb.is, hvorki varðandi kaup á fréttaveitu né kaup á auglýsingarými. Kærði telur það hafa verið fullkomlega málefnalegt að synja að svo stöddu beiðni um viðskipti við svo ungan og óreyndan fjölmiðil en halda áfram samstarfi við miðil sem löng reynsla var af.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningsefni máls þessa er tvíþætt, þ.e. annars vegar það hvort ráðuneytið hafi úrskurðarvald í málinu og hins vegar lögmæti þeirrar ákvörðunar kærða að hafna beiðni kærenda um að vefmiðilinn skutull.is fengi sama rými á heimasíðu kærða og vefmiðilinn bb.is og að auglýsingar þær sem kærði birtir á vefsíðunni bb.is yrðu boðnar vefsíðunni skutull.is á sambærulegu verði. Í beiðni kærenda fólst m.a. ósk um að kærendur nytu þess sama og bb.is gagnvart kærða þ.e. að fá aðgang að heimasíðu kærða með svokölluðu fréttastreymi. Hins vegar var hvorki óskað breytinga á viðskiptasambandi kærða við bb.is. né gerð krafa um greiðslu af hendi kærða fyrir fréttastreymi.

Beiðni kærenda til kærða laut einnig að því að væri um það að ræða að kærði veitti bb.is styrk eða álíka þá óskuðu kærendur slíks hins sama. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað þá er ekki um neina styrki að ræða af hálfu kærða til bb.is og ljóst af stjórnsýslukæru þeirri sem ráðuneytinu barst að deila aðila stendur ekki um höfnun kærða á þeirri beiðni.


Með sérstökum lagaheimildum hefur verið komið á fót eftirliti ráðherra eða annarra stjórnvalda ríkisins með sveitarfélögum landsins. Slíkar eftirlitsheimildir eru m.a. í 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laganna skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Þannig er það lögbundið hlutverk ráðuneytisins að úrskurða um lögmæti ákvarðana sveitarfélaga á grundvelli kæru frá þeim sem nægjanlegra hagsmuna eiga að gæta nema annað verði leitt af lögum. Erindi sem berast ráðuneytinu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga teljast stjórnsýslukærur þótt kærusamband frá sveitarfélagi til ráðuneytisins verði til að mynda ekki byggt á almennri reglu 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið lítur svo á að skilyrðum þess að mál þetta sé tekið til meðferðar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga sé fullnægt og því beri skylda til að kveða upp úrskurð í málinu, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 3. mgr. 1. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tekið fram að ákvæði II. kafla laganna um sérstakt hæfi gildi einnig um gerð samninga einkaréttarlegs eðlis. Af þessu lagaákvæði hefur verið dregin sú ályktun að lögin taki ekki að neinu öðru leyti til þeirra ákvarðana stjórnvalds sem teljast einkaréttarlegs eðlis, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4478/2005. Þetta styðst einnig við athugasemd við fyrrgreinda grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga en þar segir að lögin taki ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalds er teljast einkaréttarlegs eðlis, svo sem kaup á vörum og þjónustu, þar með talin gerð samninga við verktaka.

Samningur kærða við vefmiðilinn bb.is um fréttastreymi inn á heimasíðu kærða telst vera samningur einkaréttarlegs eðlis. Að sama skapi er sú ákvörðun bæjarráðs kærða að hafna áðurgreindri beiðni kæranda ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu 1. gr. stjórnsýslulaga, heldur einkaréttarleg ákvörðun um að hafna ákveðnum viðskiptum sem í boði voru.

Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að stjórnsýslulögin gildi ekki beint um ákvörðun þá sem um er deilt, þá gildi um málsmeðferðina ákveðnar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1489/1995. Þessar óskráðu meginreglur taka t.d. til undirbúnings og rannsóknar máls, þeirrar skyldu stjórnvalds að ákvarðanir þess séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta þarf jafnræðis á milli borgaranna. Stjórnvaldi ber m.ö.o. að gæta þess grundvallarsjónarmiðs að athafnir þess séu ávallt málefnalegar og lögmætar.

Sjálfstjórn íslenskra sveitarfélaga er tryggð í 78. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, en greinin hljóðar svo:

,,Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.
Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að

ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.”

Telja verður að sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga sem tryggður er með þessum hætti, takmarki að einhverju leyti valdheimildir ráðuneytisins, skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, er varði endurskoðun matskenndra ákvarðana.

Kærði hafði á grundvelli sjálfstjórnar sveitarfélaga, rétt til þess að ákveða að semja við bb.is um fréttastreymi inn á heimasíðu kærða og kaupa af vefmiðlinum auglýsingar og verja til þess fé úr bæjarsjóði, enda ekki um það deilt. Í lögum er ekki að finna nein fyrirmæli um á hvaða grunni sveitarfélag skuli velja sér viðsemjanda, ekki verður því annað ráðið en sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga í eigin málum og reglan um frjálst mat gildi. Frjálst mat sveitarstjórnar sætir sem slíkt ekki endurskoðun ráðuneytisins, hins vegar ber ráðuneytinu að endurskoða hvort ákvörðun sé lögmæt, svo sem hvort gætt hafi verið réttrar málsmeðferðar og ákvörðunin sé byggð á lögmætum sjónarmiðum.

Telja verður að svo framarlega sem sveitarfélagið byggir val sitt á málefnalegum sjónarmiðum sé því frjálst að velja aðila til einkaréttarlegra viðskipta.

Jafnræðisreglan felur í sér að stjórnvöldum er almennt skylt að gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Röksemdir kærða fyrir höfnuninni lúta fyrst og fremst að því að vefmiðill kæranda sé ekki sambærilegur miðill við bb.is, en bb.is hefur starfað um árabil, sé óháður fréttamiðill og með mikla útbreiðslu, en miðill kærenda hafi starfað í innan við viku þegar beiðni hans um viðskipti við kærða var lögð fram. Lítil reynsla hafi því verið komin á gildi miðilsins sem auglýsinga- og fréttamiðils þegar ákvörðun kærða um að hafna beiðninni var tekin.

Ráðuneytið telur að þegar atvik og aðstæður eru metin á heildstæðan og hlutlægan hátt sé ekki unnt að fullyrða að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á þá ákvörðun kærða að hafna beiðni kærenda. Ráðuneytið telur, í ljósi alls framangreinds, að kærði hafi því ekki byggt höfnun sína á ómálefnalegum sjónarmiðum og hafi þar af leiðandi ekki brotið gegn óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um jafnrétti og reglunnar um valdníðslu eins og kærendur halda fram.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu Ólínu Þorvarðardóttur og Bryndísar Friðgeirsdóttur, f.h. skutuls.is, þess efnis að ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar um að hafna erindi þeirra vegna vefmiðilsins skutuls.is, þann 12. nóvember 2007, hafi verið ólögmæt.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum