Hoppa yfir valmynd

Undanþágunefnd - synjun undanþágu til skipstjórnar: Mál nr. 20/2008

Ár 2008, 1. júlí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 20/2008

A

gegn

undanþágunefnd.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. febrúar 2008, kærði A (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun undanþágunefndar frá 16. janúar 2008 um að synja honum um undanþágu til skipstjórnar á B.

Gerð er sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðuninni verði hnekkt og kveðið á um það af hálfu ráðuneytisins að kærandi fái undanþágu til skipstjórnar á nefndu skipi í eitt til tvö ár.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 21. febrúar 2008

- Ákvörðun undanþágunefndar frá 16. janúar 2008.

Nr. 2 Bréf ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 3. mars 2008.

Nr. 3 Umsögn undanþágunefndar, dags. 5. mars 2008.

Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 17. mars 2008.

Nr. 5 Tölvupóstar kæranda til ráðuneytisins, dags. 5. og 7. maí 2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæruheimild í 26. gr. sömu laga, sbr. einnig 17. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa., nr. 30/2007.

III. Málsatvik

Kærandi sótti um undanþágu til að starfa sem skipstjóri á B. Undanþágunefnd hafnaði umsókn kæranda, 16. janúar 2008.

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. febrúar 2008, kærði kærandi framangreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins.

Undanþágunefnd var með bréfi, dags. 3. mars 2008, gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi kæruna. Ráðuneytinu bárust athugasemdir undanþágunefndar með bréfi, dags. 5. mars 2008, er barst ráðuneytinu 12. mars 2008.

Ráðuneytið gaf kæranda kost á því að koma athugasemdum sínum á framfæri við umsögn undanþágunefndar, með bréfi, dags. 17. mars 2008. Ráðuneytinu bárust tölvupóstar kæranda, dags. 5. og 7. maí 2008, þar sem kröfur kæranda voru ítrekaðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun undanþágunefndar frá 16. janúar 2008 verði hnekkt, og að hann fái undanþágu til skipstjórnar á B í eitt til tvö ár.

Kærandi vísar til þess að hafa fengið synjun undanþágunefndar til skipstjórnar á sama skipi árið 2007, en ráðuneytið hefði í sama máli snúið ákvörðun undanþágunefndar við. Kærandi kveðst hafa auglýst fjórum sinnum eftir skipstjóra en ekki fengið nein viðbrögð. Í ljósi þess leitaði kærandi til ráðuneytisins.

Kærandi bendir á að ekki sé lengur kennt til 80 brl. réttinda, auk þess sem einungis 4-5 menn hafi þessi réttindi.

Kærandi kveðst hafa verið til sjós í 40 ár á togurum og bátum bæði sem skipstjóri og stýrimaður og óskar eftir undanþágu í eitt til tvö ár.

V. Málsástæður og rök undanþágunefndar

Í umsögn undanþágunefndar kemur fram að A sé með skipstjórnarréttindi á 30 brl. fiskiskip í innanlandssiglingum (A1), en skv. lögum nr. 112/1984 sem féllu úr gildi 31. desember 2007 voru lágmarksréttindi til að vera skipstjóri á B 200 brl. réttindi (A4). Vanti kæranda því þrjá réttindaflokka til að hafa tilskilin réttindi.

Skv. nýjum lögum um áhafnir skipa nr. 30/2007, sem tóku gildi 1. janúar sl. og reglugerð um sama efni nr. 175/2008 þarf skipstjóri á skipi að þeirri stærð sem B er að hafa skipstjórnarréttindi á fiskiskip styttra en 45 metrar að skráningarlengd (Bb). Þar sem B er lengra en 24 metrar skilja enn að þrír réttindaflokkar, þar með talið réttindi sem skipstjóri á skipum styttri en 24 metrar.

Í 14. gr. laga nr. 30/2007 er miðað við að í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin réttindi vantar til starfa getur undanþágunefnd veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi umsækjandi ekki tilskilin réttindi, sbr. 5. og 6. gr., enda telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og að viðkomandi sé hæfur til að annast starfið á öruggan hátt. Jafnframt segir að undanþágu megi aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfyllir kröfur reglugerðar um undanþágur. Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.

Undanþágunefnd telur með vísan til framangreinds lagaákvæðis að skort hafi lagaskilyrði til að veita undanþáguna af eftirfarandi ástæðum:

  1. Lögum samkvæmt megi ekki veita undanþágu til að gegna stöðu skipstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er. Hvorki sé skilgreint í lögunum né í reglugerðinni hvað felist í neyðartilviki, en skv. reglugerð 416/2003 sé neyðartilvik skilgreint sem atvik þar sem bráð hætta, slys, hamfarir eða þess háttar reki til skjótra aðgerða. Ekki verði talið að þetta skilyrði laganna sé uppfyllt í þessu tilviki.
  2. Lögum samkvæmt skuli sá sem veitt hafi verið undanþága, að hafa skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfylla kröfur reglugerðar um undanþágur. Í þessu máli hafi það skilyrði laganna ekki verið uppfyllt.
  3. Lögum samkvæmt sé það skilyrði undanþágu að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og að viðkomandi sé hæfur til að annast starfið á öruggan hátt. Í tilviki sem þessu þegar verulega vanti á að viðkomandi uppfylli tilsettar kröfur standa öryggissjónarmið því í vegi að veita undanþáguna að mati nefndarinnar.


VI. Álit og niðurstöður ráðuneytisins

Samkvæmt gögnum málsins lýtur ágreiningsefni þessa tiltekna og fyrirliggjandi máls að því hvort kærandi geti fengið undanþágu til skipstjórnar á 104 brl. skipi, en kærandi hefur 30 brl. réttindi til skipstjórnar.

Kærandi vísaði til þess í stjórnsýslukæru sinni að ráðuneytið hefði snúið sambærilegri ákvörðun undanþágunefndar við, þegar honum var synjað um undanþágu til skipstjórnar á B, sbr. úrskurð ráðuneytisins í máli nr. 18/2007.

Í ljósi þess að kærandi vísar til eldra máls verður að hafa í huga að þá voru í gildi önnur lög er kváðu á um meginreglur um atvinnuréttindi skipstjóra. Þessar meginreglur var að finna í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 (hér eftir nefnd atvinnuréttindalögin) sbr. einnig reglugerð nr. 118/1996 með síðari breytingum.

Þrátt fyrir meginreglur framangreindra atvinnuréttindalaga hafði undanþágunefnd sérstaka heimild til þess að víkja frá ákvæðum laganna og veita mönnum undanþágu til starfa um borð í skipi, sbr. ákvæði 21. gr. laganna.

Líkt og fram hefur komið í úrskurðum ráðuneytisins, sbr. t.d. úrskurð ráðuneytisins í máli nr. 18/2007 var 21. gr. þágildandi atvinnuréttindalaga heimildarákvæði er fól undanþágunefnd mat á því í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi aðili gæti gegnt tiltekinni stöðu, sem hann hefði ekki öðlast réttindi til að gegna lögum samkvæmt, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Undanþágunefnd var með ákvæðinu eftirlátið mat á því hvenær ástæður gátu leitt til veitingar undanþágu til starfa um borð á skipi og í því sambandi bar undanþágunefnd að meta hvert og eitt tilvik hverju sinni. Í því sambandi hafði undanþágunefnd tilteknar starfsreglur til viðmiðunar við mat á hæfni tiltekinna einstaklinga.

Lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007 (áhafnalögin) leystu af hólmi framangreind atvinnuréttindalög er þau tóku gildi 1. janúar 2008. Í áhafnalögunum, auk reglugerðar nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum er að finna meginreglur um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Þá er í 14. gr. laganna að finna heimildir undanþágunefndar til þess að víkja frá framangreindum meginreglum.

Ákvæði 14. gr. áhafnalaga mælir ekki fyrir um slíkt mat og eldra ákvæði undanþágunefndar. Hendur nefndarinnar eru því í verulegum mæli bundnar við fyrirmæli 14. gr. áhafnalaganna. Í 2. mgr. 14. gr. kemur fram að í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin réttindi vantar til starfa geti undanþágunefnd veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi umsækjandi ekki tilskilin réttindi, enda telji undanþágunefnd að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og að viðkomandi sé hæfur til að annast starfið á öruggan hátt.

Þá kemur fram í 3. mgr. 14. gr. að undanþágu megi aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfyllir kröfur reglugerðar um undanþágur. Í 4. mgr. 14. gr. er að finna það nýmæli að ekki megi veita undanþágu til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.

Skip það sem hér um ræðir er 25,40 metrar að skráningarlengd og kærandi hefur 30 brl. réttindi til skipstjórnar. Samkvæmt reglugerðinni þarf skipstjóri á skipi að þeirri stærð sem B er að hafa skipstjóraréttindi á fiskiskip styttra en 45 metrar að skráningarlengd (Bb).

Ráðuneytið fellst á það með undanþágunefnd að ekki sé skilyrði um neyðartilvik uppfyllt í því máli sem hér um ræðir, sbr. sömu skilgreiningu er varðar farþega- og flutningasskip, þannig að heimilt sé að veita undanþágu til skipstjórnar. Þá er ekki véfengd niðurstaða undanþágunefndar um að öryggissjónarmið standi því í vegi að fallast megi á kröfuna. Í ljósi framangreinds, auk þess sem kærandi hefur ekki næsta réttindastig sem krafist er getur ráðuneytið ekki fallist á þá kröfu kæranda að veita honum undanþágu til skipstjórnar á B.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun undanþágunefndar frá 16. janúar 2008 um að synja kæranda undanþágu til skipstjórnar á B.

Dregist hefur að úrskurða í málinu vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun undanþágunefndar um að hafna umsókn A, um undanþágu til skipstjórnar á B er staðfest.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Karl Alvarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum