Hoppa yfir valmynd

Mönnunarnefnd skipa - heimild til fækkunar vélstjóra í vélarrúmi skips: Mál nr. 54/2007

Ár 2008, 2. júlí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 54/2007

Félag vélstjóra og málmtæknimanna

gegn

mönnunarnefnd.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 6. desember 2007, kærði Jónas Þór Jónasson hdl. f.h Félags vélstjóra og málmtæknimanna (hér eftir nefndur kærandi) þann úrskurð mönnunarnefndar skipa frá 6. nóvember 2007, þar sem heimilað var að fækka vélstjórum um borð í A úr þremur í tvo.

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurður mönnunarnefndar skipa verði felldur úr gildi.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra dags. 6. desember 2007, ásamt fylgigögnum.

Nr. 2 Bréf ráðuneytisins til mönnunarnefndar, dags. 14. desember 2007.

Nr. 3 Bréf mönnunarnefndar til ráðuneytisins, ásamt fylgigögnum, dags. 1. febrúar 2008.

Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 15. febrúar 2008.

Nr. 5 Bréf kæranda til ráðuneytisins, dags. 27. febrúar 2008.

Nr. 6. Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 17. apríl 2008.

Nr. 7 Bréf kæranda til ráðuneytisins, dags. 5. maí 2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan tímafrests 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. (hér eftir ssl.)

III. Málsatvik

Með umsókn, dags. 18. september 2007, sótti B (hér eftir nefndur umsækjandi) um frávik frá ákvæði f-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum (hér eftir atvinnuréttindalaganna), varðandi fjölda vélstjórnarmanna. Sótt var um að heimilað yrði, skv. 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, að fækka vélstjórum um einn, þannig að í áhöfn yrðu tveir vélstjórar, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri.

Þess ber að geta að ný lög nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, felldu framangreind lög úr gildi 1. janúar 2008 en hafa ekki áhrif á þetta mál.

Kærði tók umsóknina til úrskurðar 6. nóvember 2007 og samþykkti beiðni umsækjanda um frávik frá mönnunarreglum, enda lægju fyrir gögn því til staðfestingar að sjálfvirkni vélarrúms væri slík að það gæti starfað tímabundið ómannað.

Með stjórnsýslukæru dags. 6. desember 2007, kærði kærandi framangreindan úrskurð mönnunarnefndar til samgönguráðuneytisins.

Ráðuneytið sendi kæruna til umsagnar mönnunarnefndar með bréfi, dags. 14. desember 2007. Ráðuneytinu barst umsögn mönnunarnefndar með bréfi, dags. 1. febrúar 2008.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2008, óskaði ráðuneytið eftir því við kæranda að sýna fram á aðild sína með skriflegu umboði þess einstaklings/einstaklinga sem hin kærða ákvörðun beindist að áður en málinu yrði fram haldið.

Ráðuneytinu barst bréf kæranda, dags. 27. febrúar 2008, þar sem kærandi hafnaði þeim tilmælum ráðuneytisins um að leggja fram skriflegt umboð.

Með bréfi, dags. 17. apríl, ítrekaði ráðuneytið tilmæli sín um að leggja fram skriflegt umboð til að sýna fram á kæruaðild kæranda. Jafnframt var kæranda boðið að leggja fram frekari rökstuðning fyrir því að umstalsverður hluti félagsmanna ætti einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Ráðuneytinu barst bréf kæranda, dags. 5. maí 2008, þar sem hann hafnaði á ný að leggja fram skriflegt umboð.

Málið hefur fengið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í bréfum kæranda, dags. 6. desember 2007, 27. febrúar og 5. maí 2008, telur kærandi að kæruaðild sín sé óumdeild í málum er varða úrskurði mönnunarnefndar skipa og sé jafnframt viðurkennd, sbr. úrskurð ráðuneytisins í stjórnsýslumáli nr. 5/2006, sbr. úrskurð nr. 33/2007.

Í bréfi kæranda, dags. 27. febrúar 2008, kveður kærandi að einhliða ákvörðun ráðuneytisins, að telja að stéttarfélög sjómanna hafi ekki lengur aðild til að kæra ákvarðanir mönnunarnefndar skipa, fái ekki staðist án þess að annað og meira komi til. Í ljósi þess telur kærandi að ráðuneytið geti ekki breytt venjuhelgaðri stjórnsýsluframkvæmd upp á sitt eindæmi og standi til þess m.a. réttmætar væntingar kæranda og þær kröfur sem gerðar eru til stjórnvalda varðandi breytingu á stjórnsýsluframkvæmd. Geti það heldur ekki talist til góðra og vandaðra stjórnsýsluhátta að meina kæranda nú um kæruaðild, án þess að nokkuð nýtt hafi komið til.

Þá kveður kærandi að um augljósa og viðurkennda staðreynd sé um að ræða, að stéttarfélagið og um leið félagsmenn þess, hafi verulega hagsmuni af því að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Fái úrskurðurinn að standa óhaggaður væri hann væntanlega fordæmisgefandi fyrir síðari ákvarðanatöku mönnunarnefndar. Kærandi hafi augljósa hagsmuni í máli þessu, þar sem heimiluð fækkun vélstjóra á fiskiskipum, eins og í tilviki þessu, stefni atvinnuöryggi vélstjóra í verulega hættu, auk þess sem vinnuálag aukist til muna á þá vélstjóra sem eftir séu. Einnig sé það augljóst að heimild til fækkunar vélstjóra á fiskiskipum, eins og í tilviki A, leiði án efa til þess að aðrar útgerðir sigli í kjölfarið og óski eftir samskonar undanþágu, er leiði til uppsagna og fækkunar á störfum vélstjóra á íslenskum fiskiskipum, sem sé að mati kæranda mjög varhugarverð þróun út frá öryggissjónarmiði sjómanna. Það sé brýnt hagsmunamál fyrir kæranda að fá úrskurði mönnunarnefndar hnekkt. Vísar hann í því sambandi til 2. gr. félagslaga sinna, þar sem segir að tilgangur félagsins sé að semja um kaup og kjör félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra og vinna að atvinnumálum og bættu vinnuumhverfi félagsmanna. Þá vísar kærandi í úrskurð ráðuneytisins í máli þess nr. 5/2006 þar sem vísað sé til tilgangs kæranda og að skýra yrði allan vafa kæranda í hag varðandi kæruaðildina. Kæranda þykir fróðlegt að vita hvers vegna ráðuneytið vilji ekki, í því máli sem hér sé til umfjöllunar, skýra allan vafa kæranda í hag.

Þá vísar kærandi til greinargerðar með stjórnsýslulögum þar sem segir um VII. kafla laganna að ekki sé hægt að kveða á um það í eitt skipti fyrir öll hverjir eigi kæruaðild, heldur verði að meta það ávallt eftir atvikum hverju sinni. Við ákvörðun á því hvort tiltekinn maður eða lögaðili eigi aðild verði að líta til þess hvort sá hinn sami eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Kveður kærandi því, líkt og ráða megi af framangreindu, sig hafa verulega lögvarða hagsmuni af því að fá hinum kærða úrskurði hnekkt. Einnig verði að telja að kærandi eigi að njóta vafans, sé hann til staðar varðandi það hvort hann hafi hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Með vísan til alls framangreinds megi ljóst vera að kæruaðild kæranda í málinu sé sjálfstæð og ótakmörkuð. Sé af þeim sökum hafnað að skilyrði fyrir kæruaðild kæranda sé háð umboði frá einhverjum ótilgreindum vélstjórum á A. Er þess því krafist að ráðuneytið taki fyrirliggjandi kæru í málinu til efnislegrar meðferðar, muni kærandi annars leita til umboðsmanns Alþingis.

Í bréfi kæranda frá 5. maí 2008, er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 420/2003 þar sem segir að samtök útvegsmanna, útgerð varðskipa og annarra skipa eða stéttarfélag geti lagt fyrir nefndina til úrskurðar beiðni um breytingu á mönnun skips frá ákvæðum laganna. Af því megi ráða að það sé hlutverk kæranda að gæta félagsmanna sinna, vélstjóra, vélfræðinga og vélavarða, að því er varðar lögbundna mönnun skipa. Í ljósi þess fái það ekki staðist að félaginu sé meinað að skjóta úrskurði mönnunarnefndar skipa til ráðuneytisins telji félagið úrskurðinn ekki samræmast lögum eða hagsmunum félagsmanna sinna.

Kveðst kærandi frá upphafi hafa átt fulltrúa í mönnunarnefnd skipa, vegna þeirra augljósu hagsmuna sem félagsmenn þess hafa af úrskurðum nefndarinnar. Þessa lögbundnu hagsmunaaðild félagsins, í vel á þriðja áratug í málum er varða úrskurði nefndarinnar, geti ráðuneytið ekki haft af félaginu með einu pennastriki, svo sem augljós ætlun ráðuneytisins sé að gera.

Kærandi telur að vegna stöðu hans samkvæmt framangreindum lagaákvæðum um setu fulltrúa félagsins í mönnunarnefnd skipa, og með vísan til 4. gr. reglugerðar nr. 420/2003, þar sem kveðið sé á um það að kærandi geti einn og óstuddur lagt fyrir nefndina til úrskurðar beiðni um breytingu á mönnun skips, sem og með vísan til áðurgreinds hlutverks og tilgangs félagsins, að líta verði á félagið sem beinan aðila að úrskurðum mönnunarnefndar skipa og af þeim sökum verði að telja að félagið hafi, hvað sem öðru líður, fulla og ótakmarkaða heimild til þess að kæra úrskurði nefndarinnar til ráðuneytisins. Með vísan til framangreinds eru kröfur kæranda ítrekaðar.

Í bréfi kæranda, dags. 6. desember 2007, kemur fram að A sé með 5400 kw aðalvél. Samkvæmt f-lið 1. mgr. 2. gr. atvinnuréttindalaganna, sbr. samhljóða ákvæði í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, er tóku gildi 1. janúar 2008, skulu vélstjórar og vélaverðir á íslenskum skipum vera að lágmarki þrír þegar vélastærð skips er stærri en 1800 kw. Kærandi telur að þegar löggjafinn hafi metið það svo að skip með vél stærri en 1800 kw þurfi þrjá vélstjóra, verði að ætla að veigamikil rök þurfi að vera fyrir hendi til að veita undanþágu frá meginreglu 1. mgr. 2. gr. atvinnuréttindalaganna og leyfa fækkun vélstjóra úr vélarúmi A með því að fækka vélstjórum úr þremur í tvo. En mönnunarnefnd hafi heimilað slíka fækkun á grundvelli þess að útgerðin hefði staðfestingu flokkunarfélags um tímabundið mannlaust vélarrúm.

Til þess að fallast megi á það að veita undanþágu sem þessa á grundvelli þessa eins, án þess að upplýsa málið frekar, sbr. 10. gr. ssl., hefði þurft að vera kveðið á um slíkt í lögunum með skýrum hætti, að mati kæranda.

Þá sé það mat kæranda með vísan til framangreinds löggjafarvilja og að teknu tilliti til stærðar aðalvélar A sé vart hægt, þrátt fyrir að vélarrúm skipsins kunni að vera vaktfrítt, en áfram virðist þó verða staðnar vaktir allan sólarhringinn, að heimila frávik á grundvelli f-liðar 1. mgr. 2. gr. atvinnuréttindalaganna. Í því sambandi vísar kærandi í úrskurð mönnunarnefndar í máli Ms19/2005 þar sem sagði m.a. í niðurstöðu meirihluta nefndarinnar að „veigamikil rök þurfi að liggja fyrir til grundvallar frávikum sérstaklega ef um umtalsvert stærra skip sé að ræða“. Er það mat kæranda að framangreind sjónarmið eigi að fullu við í því máli sem hér er til úrlausnar, enda fái það vart staðist að einvörðungu tveir vélstjórar manni vélarrúm A, sem sé með 5400 kw vél, þegar löggjafinn gerir ráð fyrir að jafnaði þremur vélstjórum í skipum með vélar sem ekki séu nema þriðjungur að nefndri vélarstærð.

Kærandi vísar til skyldu mönnunarnefndar um að leita álits Siglingstofnunar Íslands (SÍ) um öryggi og búnað skips áður en ákvörðun um fækkun vélstjóra og vélavarða á skipum er tekin, sbr. 2. mgr. 6. gr. atvinnuréttindalaganna. Í umsögn SÍ frá 24. október 2007 sagði m.a. að mat stofnunarinnar taki samkvæmt 6. gr. atvinnuréttindalaganna til mats á öryggismönnun að teknu tilliti til verkefna skipsins og þess búnaðar sem er til viðbótar þeim búnaði sem lögboðinn er. Var það mat SÍ að sá búnaður sem geri vélarrúm skipsins vaktfrítt minnki vinnuálag á vélstjórum, a.m.k. hvað vöktun vélarrúmsins varðar. Þá kom einnig fram í umsögn SÍ að nauðsynlegt væri að skoða hverju sinni hvort tveir vélstjórar dugi, sama hversu stór aðalvél sé, ef skip er búið tímabundnu vaktfríu vélarrúmi. Í ljósi þess að slík skoðun hafi ekki farið fram hafi SÍ ekki getað mælt með fækkun vélstjóra um borð í A.

Kærandi kveður að meirihluti nefndarinnar hafi ákveðið að taka ekki mark á umsögn SÍ og fyrir liggi að engin sjálfstæð rannsókn hafi farið fram af hálfu mönnunarnefndar skipa á því hvort tveir vélstjórar dygðu eða ekki út frá öryggissjónarmiði o.fl., til þess að manna vélarrúm skipsins, eða hvort annar búnaður vélarrúmsins væri í raun og veru nýttur þannig að vélarrúmið teldist vera vaktfrítt og drægi þá í raun og veru úr vinnuálagi þeirra tveggja vélstjóra sem eftir væru og skerði ekki öryggi skipsins og skipverja þess. En það sé forsenda þess að veita megi undanþágu frá 6. gr. atvinnuréttindalaganna.

Jafnframt kveður kærandi að mönnunarnefnd hafi talið sér óskylt að afla upplýsinga til þess að ganga úr skugga um framangreint, auk þess sem þeirri spurningu sé ósvarað hvaða tímafreku eftirlitsstörf það nákvæmlega séu sem létt sé af vélstjórum A með tilkomu búnaðar sem heimilar tímabundið vaktfrítt vélarrúm. Kærandi vísar til tölvupósts fulltrúa B frá 30. október 2007 er svari ekki framangreindri spurningu og ekki heldur því hvort vélarrúm skipsins verði í raun vaktfrítt og þá hversu lengi eða þá hvort vaktir verði eftir sem áður staðnar allan sólarhringinn. Er það mat kæranda á grundvelli tölvupóstsins að það verði ekki betur séð en að svo verði áfram og vinnusparnaður vélstjóranna því enginn.

Kærandi telur að með því að ganga ekki úr skugga um allt framangreint hafi nefndin brotið gegn rannsóknar- og upplýsingaskyldu sinni, sbr. 10. gr. ssl., og af þeim sökum beri að fella úrskurð nefndarinnar úr gildi.

Það er mat kæranda, að undanþáguheimild mönnunarnefndar til B, um fækkun vélstjóra á skipinu úr þremur í tvo, sé samkvæmt úrskurði nefndarinnar háð því skilyrði að gögn verði að liggja fyrir því til staðfestingar að sjálfvirkni vélarrúms sé slíkt að það geti starfað tímabundið ómannað. Það sé jafnframt mat kæranda að slíkur skilyrtur úrskurður fái ekki staðist lög. Annað hvort beri að veita heimildina til fækkunar vélstjóra að fengnum fullnægjandi gögnum og upplýsingum eða hafna umsókn B hafi ekki verið sýnt fram á að lögbundin skilyrði hafi verið fyrir hendi og/eða málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt. Vandséð sé hver ætti að meta og hafa eftirlit með því hvort fullnægjandi gögn liggi því til staðfestingar að sjálfvirkni vélarrúms skipsins sé slíkt að það teljist geta starfað tímabundið ómannað. Úrskurðarorð nefndarinnar verði að vera hægt að framkvæma samkvæmt efni sínu og geti niðurstaða hennar ekki verið háð túlkunum. Af þessum ástæðum einnig, er það mat kæranda, að fella beri úrskurðinn úr gildi.

V. Málsástæður og rök kærða

Í umsögn mönnunarnefndar kom fram að meirihluti nefndarinnar teldi að mönnunarnefnd væri ekki aðili að kærumálinu og vísaði að öðru leyti í úrskurð sinn frá 6. nóvember 2007.

Einnig kom fram að ekki fór fram sérstök könnun á því hvort tveir vélstjórnarmenn dygðu til vélstjórnarstarfa á skipinu heldur byggði ákvörðunin á mati nefndarinnar eins og í fyrri sambærilegum tilvikum (t.d. Mv03/2007 5420kw og Mv08/2007 5520kw).

VI. Álit og niðurstöður ráðuneytisins

Kærður er úrskurður mönnunarnefndar frá 6. nóvember 2007 þar sem fallist er á fækkun vélstjóra um borð í A.

Fram kemur í 1. mgr. 26. gr. ssl. að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra setts stjórnvalds. Í því máli sem hér um ræðir er kæruheimild aðila máls að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 420/2003 sbr. 4. mgr. 7. gr. atvinnuréttindalaganna, sbr. einnig 26. gr. ssl.

Í kæru sinni færir kærandi rök fyrir kæruaðild sinni. Í því sambandi vísar kærandi til þess að um augljósa og viðurkennda staðreynd sé að ræða, að kærandi sem stéttarfélag og um leið félagsmenn þess, hafi verulega hagsmuni af því að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi þar sem einkum sé verið að stefna atvinnuöryggi vélstjóra í verulega hættu, auk þess sem vinnuálag aukist til muna á þá vélstjóra sem eftir séu í A. Þá vísar kærandi til þess að ráðuneytið hafi áður viðurkennt aðild sína, sbr. úrskurð ráðuneytisins í stjórnsýslumáli nr. 5/2006, sbr. úrskurð nr. 33/2007.

Ekki kemur fram í atvinnuréttindalögunum né í reglugerð nr. 420/2003, hver hafi rétt til þess að beina kæru til ráðuneytisins vegna úrskurða mönnunarnefndar. Verður því að telja að horfa beri til almennra sjónarmiða stjórnsýsluréttar við afmörkun á því hverjir hafi rétt til að beina kæru til ráðuneytisins.

Almenna reglan er sú að sá sem á einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls á lægra stjórnsýslustigi eigi rétt til þess að beina kæru til æðra setts stjórnsvalds og fá ákvörðun endurskoðaða. Í því sambandi þarf að meta heildstætt hversu verulegir hagsmunirnir séu og hversu náið þeir tengjast úrlausn málsins hverju sinni.

Í því máli sem hér um ræðir var kærandi ekki aðili máls fyrir mönnunarnefnd. Í því máli var um ræða fyrirtæki sem sótti, á grundvelli ákvæða atvinnuréttindalaganna, um frávik frá fjölda vélstjóra um borð í A. Meginreglan er sú að þeir sem teljist vera aðilar máls á lægra stjórnsýslustigi hafi kæruaðild að sama máli. Hins vegar er kæruaðild ekki einvörðungu bundin við þann aðila. Í því sambandi kann ákvörðun að vera þess eðlis að aðrir hafi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Í því máli sem hér um ræðir verður að telja að það eigi við um þá vélstjóra sem störfuðu um borð í skipinu áður en mönnunarnefnd féllst á frávik frá ákvæðum laganna, þó einkum þann sem missti veru sína um borð sem vélstjóri á skipinu á grundvelli ákvörðunar mönnunarnefndar. Ráðuneytið vill þó árétta að meta þarf hvert og eitt mál hverju sinni heildstætt og hvort hlutaðeigandi eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Umboðsmaður Alþingis hefur sett fram þá almennu reglu, t.d. í áliti sínu í máli nr. 4902/2007 að það sé sjálfstætt athugunarefni hvort játa eigi félögum eða samtökum manna kæruaðild á stjórnsýslustigi. Í því sambandi hefur umboðsmaður sagt að félag geti komið fram fyrir hönd einstakra félagsmanna sinna samkvæmt sérstöku umboði frá aðila máls en auk þess sé það viðurkennt á sviði stjórnsýsluréttar að félag geti átt kæruaðild vegna félagsmanna sinna ef umtalsverður hluti félagsmanna telst eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls og gæsla þessara hagsmuna teljist til yfirlýsts tilgangs og markmiða félagsmanna.

Í þessu sambandi er það mat ráðuneytisins að úrlausn þessa tiltekna og fyrirliggjandi máls varði ekki umtalsverðan hluta félagsmanna kæranda. Meginreglan um mönnun vélstjórnarmanna á skipi í stærðarflokki A er í þág. f. lið 1. mgr. 2. gr. atvinnuréttindalaganna. Þar segir að þrír vélstjórar skulu vera um borð á skipi með 1801 kw vél og stærri, þ.e einn yfirvélstjóri, einn 1. vélstjóri og einn 2. vélstjóri. Líkt og fram hefur komið er A með 5400 kw vél.

Frá framangreindri meginreglu er hins vegar að finna ákveðnar undantekningar. Mönnunarnefnd hefur m.a heimild til þess eftir því sem tilefni gefst til, að ákveða frávik frá ákvæðum atvinnuréttindalaganna, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips sbr. þág. 1. tölul. 1. mgr. 6. laganna.

Í ljósi þess að um frávik frá ákvæðum laga er að ræða, sem almennt ber að skýra þröngt, sbr. þá almennu reglu sem ráðuneytið hefur lagt fram í úrskurði sínum í máli nr. 33/2007, er það mat ráðuneytisins að úrlausn þessa tiltekna og fyrirliggjandi máls varði ekki umtalsverðan hluta félagsmanna kæranda, enda ber að meta hvert og eitt mál hverju sinni. Hins vegar varði það mál sem hér um ræðir, auk útgerðarfélagsins, þá vélstjóra sem um borð voru áður en mönnunarnefnd kvað upp úrskurð sinn um frávik frá meginreglum atvinnuréttindalaganna.

Í því sambandi telur ráðuneytið að kæranda bresti kæruaðild að málinu þar sem ákvörðunin varðar ekki umtalsverðan hluta félagsmanna hans. Hins vegar er það mat ráðuneytisins að kærandi geti komið fram fyrir hönd tiltekins félagsmanns eða félagsmanna á grundvelli umboðs.

Í ljósi þess, og á grundvelli leiðbeiningarskyldu 7. gr. ssl., gaf ráðuneytið kæranda í tvígang tækifæri til þess að leggja fram umboð þess einstaklings/einstaklinga er ákvörðunin beindist að, en kærandi hafnaði því.

Að öllu framangreindu sögðu, er það niðurstaða ráðuneytisins að kæranda bresti kæruaðild í máli þessu, þar sem kærð ákvörðun mönnunarnefndar varðar ekki umtalsverðan hluta félagsmanna kæranda auk þess sem kærandi hefur ekki sýnt fram á umboð þess/þeirra sem ákvörðunin beindist að. Í ljósi þess er málinu vísað frá ráðuneytinu á grundvelli aðildarskorts.

Dregist hefur að úrskurða í málinu vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá ráðuneytinu á grundvelli aðildarskorts.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum