Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. júlí 1997

Þriðjudaginn 15. júlí 1997 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 1/1997

Einar Kristmundsson

gegn

Huldu Bjarnadóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Málavextir:

Með beiðni dags. 12. mars 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. apríl 1997, fór matsbeiðandi, Einar Kristmundsson þess á leit við matsnefndina að hún mæti til verðs eignarhluta matsþola, Huldu Bjarnadóttur, í jörðinni Smyrlabergi, Torfalækjarhreppi, A-Húnavatnssýslu, á grundvelli 13. gr. jarðalaga nr. 65/1976, en matsbeiðanda var veitt heimild Landbúnaðarráðuneytisins til innlausnar á jarðahluta matsþola með bréfi ráðuneytisins dags. 25. febrúar 1997, sem einnig var lagt fram í matsnefndinni þann 4. apríl 1997.

Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kvaddi formaður matsnefndarinnar þá Vífil Oddsson, verkfræðing og Magnús Leópoldsson, löggiltan fasteignasala, til starfa í nefndinni í málinu. Þá var, með vísan til 5. gr. síðastnefndra laga, boðað til fyrstu fyrirtöku málsins sem fram fór þann 7. apríl 1997.

Við fyrstu fyrirtöku málsins lagði matsbeiðandi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu sem fram fór þann 26. maí 1997. Við vettvangsgönguna lýstu aðilar því sérstaklega yfir að þeir gerðu ekki athugasemd við skipan matsnefndarinnar í málinu. Að vettvangsgöngunni lokinni var málinu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu matsþola til 26. júní 1997. Að beiðni lögmanns matsþola var fyrirtökunni þann 26. júní frestað til 2. júlí 1997, en þá lagði hann fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess til 16. júlí 1997.

Í greinargerð matsþola kemur fram krafa um að Vífill Oddsson, verkfræðingur, víki sæti úr matsnefndinni og annar verði skipaður í hans stað, þar sem hann sé vanhæfur til að fjalla um málið, vegna tengsla hans við Jón Höskuldsson, skrifstofustjóra Landbúnaðarráðuneytisins, sem mest allra hafði með málið að gera við ákvarðanatöku um innlausnarheimildina. Þá bendir matsþoli á að Vífill sé einnig formaður stjórnar Veiðimálastofnunar, skipaður af landbúnaðarráðherra.

Matsþoli gerir í greinargerð sinni þá aðalkröfu að málinu verði vísað frá matsnefndinni á þeim forsendum að mistök hafi verið gerð við meðferð málsins í Landbúnaðarráðuneytinu og því sé Vífill Oddsson vanhæfur skv. 2.mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sbr. grunnreglur 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að fjalla um málið.

II. Álit matsnefndar:

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram að Matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Valdsvið nefndarinnar er því, samkvæmt framangreindu lagaákvæði, eingöngu bundið við ákvörðun um bótafjárhæð þegar eignarnámsheimild liggur fyrir.

Fyrir liggur í máli þessu heimild Landbúnaðarráðuneytisins til innlausnar matsbeiðanda á eignarhluta matsþola í jörðinni Smyrlabergi skv. 13. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Það er ekki á valdi eða verksviði Matsnefndar eignarnámsbóta að fjalla um lögmæti heimildarinnar sérstaklega eða þeirrar málsmeðferðar sem viðhöfð var við veitingu hennar. Slíkt á undir almenna dómstóla í landinu. Af þessum sökum kemur ekki til skoðunar við meðferð málsins hjá matsnefndinni undirbúningur eða aðdragandi að leyfisveitingunni hjá Landbúnaðarráðuneytinu. Nefndin mun einungis fjalla um mat á verðmæti hins innleysta eignarhluta svo sem fram hefur komið.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram að um hæfi matsmanns til meðferðar einstaks máls skuli fara eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála. Í 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála koma fram reglur um hæfi dómara til meðferðar mála. Af hálfu matsnefndarinnar er ekki talið að ákvæði nefndrar lagagreinar standi í vegi fyrir því að Vífill Oddsson, verkfræðingur, sitji áfram í nefndinni, enda er hann ekki í neinum þeim tengslum við aðila málsins sem þar er fjallað um.

Með vísan til ofanritaðs er kröfu matsþola um að Vífill Oddsson, verkfræðingur, víki sæti hafnað.

ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu matsþola, Huldu Bjarnadóttur, um að Vífill Oddsson, verkfræðingur, víki sæti úr matsnefnd eignarnámsbóta í málinu nr. 1/1997 og annar skipaður í hans stað er hafnað.

_______________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

___________________________

________________________________

Vífill Oddsson, verkfræðingur

Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum