Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 23. september 1994

Föstudaginn 23. september 1994 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 13/1991

Gunnar Oddsson
gegn
Landbúnaðarráðherra o.fl.

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipuðu í fyrstu þeir Ragnar Aðalsteinsson hrl., fyrrv. formaður nefndarinnar, auk Stefáns Svavarssonar endursk. og Stefáns Tryggvasonar bónda, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. l. 11/1973. Eftir að skipunartíma fyrrv. formanns nefndarinnar lauk, þann 23. ágúst 1993, tók Helgi Jóhannesson hdl., núverandi formaður nefndarinnar, hans sæti í máli þessu.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dagsettri 31. október 1991 og lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 9. janúar 1992 óskaði Gunnar Oddsson, kt. 110334-2469, Flatatungu, Akurhreppi, Skagafjarðarsýslu (eignarnámsþoli) eftir því að matsnefndin ákvarðaði bætur til hans vegna niðurskurðar á fjárstofni hans sem framkvæmd var að kröfu sauðfjárveikivarna. Eignarnemi er landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Nánar tiltekið óskar eignarnámsþoli eftir mati á tjóni hans vegna niðurskurðarins, eftirfarandi fjárleysis og tekjumissis, fóðurkostnaði, heyi sem ekki nýttist honum, framtíðartekjumissis auk alls útlagðs kostnaðar vegna niðurskurðarins.

Aðilar málsins eru sammála um að heimild til meðferðar málsins sé að finna í 42. gr. l. nr. 23/1956 og að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um að nota þá heimild. Matsnefnd eignarnámsbóta fellst á að skilyrði meðferðar málsins fyrir nefndinni séu uppfyllt.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta fimmtudaginn 9. janúar 1992. Á þeim fundi lagði eignarnámsþoli fram matsbeiðni og óskaði eftir fresti til framlagningar greinargerðar og annarra gagna. Að því búnu var málinu frestað til 13. febrúar 1992.

Fimmtudaginn 13. febrúar 1992 var málið tekið fyrir. Á fundinum lagði eignarnámsþoli fram greinargerð ásamt 34 fylgiskjölum. Að því búnu var málinu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnema til 12. mars 1992.

Fimmtudaginn 12. mars 1992 var málið tekið fyrir. Á fundinum lýsti eignarnemi því yfir að af hálfu eignarnema sé fallist á meðferð málsins fyrir matsnefndinni. Matsnefndin lýsti því yfir að hún teldi skilyrði málsmeðferðarinnar vera uppfyllt. Eignarnemi óskaði eftir fresti til að skila greinargerð og skjölum og var málinu því frestað til 30. apríl 1992.

Fimmtudaginn 30. apríl 1992 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt 7 fylgiskjölum. Að því búnu var málinu frestað um ótiltekinn tíma.

Þriðjudaginn 16. mars 1993 var málið tekið fyrir. Á fundinum lagði matsnefndin fram bréf til lögmanna aðila dags. 8. mars 1993. Sættir voru reyndar án árangurs. Ákveðið var að stefna að því að fara á vettvang í fyrstu viku maí og flytja málið þar.

Fimmtudaginn 24. september 1993 var málið tekið fyrir að Flatatungu í Skagafirði. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Á fundinum óskaði matsnefndin eftir því við eignarnámsþola að hann legði fram í málinu gögn er sýni raunverulegan útlagðan kostnað hans vegna niðurskurðarins auk kaupverðs nýs fjárstofns og flutningskostnað hans.

Miðvikudaginn 29. júní 1994 var málið tekið fyrir. Samkomulag hafði verið með aðilum um að bíða með frekara framhald þessa máls þar til úrskurðir í tveimur öðrum málum í matsnefndinni lægju fyrir þ.e. málunum nr. 11/1991, Jón Guðmundsson gegn landbúnaðarráðherra o.fl. og nr. 12/1991, Einar Ó. Björnsson gegn landbúnaðarráherra o.fl. Úrskurðir þessir lágu fyrir á fundinum. Á fundinum samþykktu aðilar að reyna sættir í málinu á þeim nótum að matsnefndin leggði fram útreikning á tekjutapi eignarnámsþola, reiknaður út frá sömu forsendum og gert var í þeim málum sem þegar hefur verið úrkurðað í hjá matsnefndinni. Málinu frestað til frekari sáttaumleitana til 5. júlí 1994.

Þriðjudaginn 5. júlí 1994 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram nr. 47 afrit af reikningum vegna útlagðs kostnaðar. Sættir reyndar án árangurs og var málinu frestað til 25. ágúst 1994 og skyldi þá fara fram munnlegur flutningur í því.

Miðvikudaginn 29. ágúst 1994 var málið tekið fyrir, en af fyrirtöku þann 25. ágúst gat ekki orðið vegna veikinda lögmanns eignarnámsþola. Af hálfu aðila voru lögð fram nokkur skjöl og að því búnu fór fram munnlegur málflutningur í málinu. Að því búnu var málið tekið til úrskurðar.

IV. Málavextir:

Málavextir eru í stuttu máli þeir að í október 1987 kom fram riða í fé eignarnámsþola. Ekki varð af niðurskurði þá, m.a. vegna þess að niðurskurður á fé var þá komin fram úr áætlun og fjármagn vantaði til að greiða bætur. Engu að síður var 21 kind úr stofni eignarnámsþola fargað þá.

Í janúar 1988 fannst aftur riða í fé eignarnámsþola og fékk hann síðla í maí 1988 sendan staðlaðan samning varðandi riðuniðurskurð. Ekkert heyrðist meira frá Sauðfjárveikivörnum vegna þessa og ákvað eignarnámsþoli því að bera á tún vorið 1988. Síðasta vetrardag 1989 var haft samband við eignarnámsþola og honum tilkynnt að á fundi Sauðfjárveikivarna í september 1988 hefði verið ákveðið að haustið 1989 skyldi farga fé á öllum bæjum þar sem riða hefði verið staðfest frá 1983 eða síðar. Eignarnámsþoli og fulltrúar Sauðfjárveikivarna héldu nokkra fundi um málið án þess að samkomulag næðist.

Með bréfi dags. 27. október 1989 var eignarnámsþola tilkynnt formlega sú ákvörðun að fé hans skyldi fargað eigi síðar en 21. nóvember 1989. Eignarnámsþoli vildi ekki una þessu og stefndi því landbúnaðarráðherra til ógildingar á fyrirmælum um niðurskurð. Dómur gekk í Hæstarétti þann 6. nóvember 1990 um það mál, eignarnámsþola í óhag.

Með bréfi dagsettu 16. nóvember 1990 ítrekaði landbúnaðarráðherra fyrirmæli sín um niðurskurð í Flatatungu og var öllu fé eignarnámsþola slátrað á Sauðárkróki þann 5. desember 1990 utan 5 kinda sem heimtust síðar. Ekki tókust samningar með eignarnema og eignarnámsþola um bætur vegna niðurskurðarins og var mál þetta því sent Matsnefnd eignarnámsbóta til úrlausnar.

V. Kröfur og sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um að eignarnemi bæti honum tjón er hann varð fyrir vegna niðurskurðar á bústofni hans og eftirfarandi fjárleysi og tekjumissi, alls kr. 18.025.826-. Þá gerir eignarnámsþoli kröfu um að eignarnemi bæti honum allan útlagðan kostnað sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna niðurskurðarins, alls að fjárhæð kr. 1.322.435-. Þá krefst eignarnámsþoli vaxta á kröfufjárhæð og að við útreikning vaxta sé sérstakt tillit tekið til þess langa tíma sem mál þetta hefur verið til meðferðar hjá matsnefndinni. Að lokum gerir eignarnámsþoli kröfu um málskostnað. Að frádregnum ofangreindum kröfum skulu koma til frádráttar þær fjárhæðir sem eignarnámsþoli hefur þegar fengið greiddar vegna málsins.

Eignarnámsþoli rökstyður kröfugerð sína með því að honum beri að fá að fullu bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna niðurskurðar fjárstofns hans. Eignarnemi kveður þá meginreglu að finna í 67. gr. stjórnarskrárinnar um að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, þurfi til þess lagafyrirmæli og fullt verð fyrir. Eignarnámsþoli samþykkir að lagaheimild til niðurskurðarins sé fyrir hendi í 42. gr. l. 23/1956. Eignarnámsþoli kveður kröfur sínar byggja á eftirfarandi rökum:

Að matsnefndin hafi í úrkskurðum sínum í málunum nr. 2 og 3/1990 úrskurðað að slík mál ættu undir nefndina og jafnframt sett efnisreglur um fjárhæðir bóta.

Að almenn lög geti ekki vikið til hliðar sjórnarskrárákvæði þar sem kveðið sé á um fullar bætur við eignarnám og því sé krafa um fullar bætur gerð í máli þessu.

Að vitneskja um riðuveiki og smitleiðir hennar sé lítil og það eigi ekki að bitna á eignarnámsþola einum og fjárhag hans ef bústofn hans er skorinn niður vegna almannahagsmuna, einkum þegar vitað er að riðuveiki hefur ekki valdið tjóni á fjárstofni hans. Lítið sé vitað um þessa veiki og alls óvíst hvort nauðsyn bar til að skera allan fjárstofn eignarnámsþola niður.

Að niðurskurður riðufjár sé notaður til að ná fram öðrum markmiðum en útrýmingu veikinnar, þ.e. því markmiði að fækka sauðfé í landinu. Slík markmið eigi ekki að valda eignarnámsþola tjóni umfram aðra bændur.

Kröfugerð eignarnámsþola og sjónarmið sundurliðast nánar þannig:

1. Felldur fjárstofn: Eignarnámsþoli bendir á að þegar niðurskurðurinn átti sér stað hafi hann átt 389 einsvetra og eldri kindur. Eignarnámsþoli krefst þess að eignarnemi bæti hverja kind með greiðslu á kr. 11.200,00. Byggir eignarnámsþoli þessa kröfurgerð á því að hér sé um framleiðslutæki að ræða sem gefi að meðaltali af sér um 24-25 kg. af kjöti á ári hverju. Miðað við verðlagsgrundvöll frá Framleiðsluráði landbúnaðarins frá 29. nóvember 1991 þá sé verð á hverju kg. í 2. verðflokki með gæru og slátri kr. 479,00. Samkvæmt þessu gefur hver kind af sér heildartekjur að fjárhæð kr. 11.075,52. Eignarnámsþoli mótmælir því að verðgildi fjárins rýrni við það að bannað sé að selja féð, enda sé verðmæti þess að finna í framleiðslugetunni, ekki söluverðinu. Eignarnámsþoli bendir á að hjörð hans hafi verið sérstaklega ræktuð og því sérlega verðmæt og beri að hafa þetta til hliðsjónar við mat á bótum til hans. Samkvæmt framansögðu gerir eignarnámsþoli þá fjárkröfu vegna þessa liðar að eignarnemi greiði honum kr. 4.356.800,00, þ.e. 389 kindur x 11.200 kr.

Til vara krefst eignarnámsþoli þess að eignarnemi greiði honum þá fjárhæð sem samsvari þeirri upphæð sem eignarnámsþoli þarf að leggja út við kaup á líflömbum. Kröfu þessa byggir eignarnámsþoli á því að hann fái eitt lamb fyrir hverja kind. Kaupverð á líflömbum kveður eignarnámsþoli vera kr. 218,40 á hvert kíló og kveður eignarnámsþoli reikna með því að meðallamb sé 38 kg. að þyngd. Varakrafan er því kr. 3.228.388,80, þ.e. 389 lömb x 38 kg. x 218,40 kr.

2. Líflömb sem var fargað: Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að honum verði bætt 58 líflömb sem hann þurfti að lóga með kr. 10.000,00 á hvert lamb. Lömbin hafi verið sérstaklega valin með tilliti til frjósemi, byggingar, þroska og ullargæða. Heildarkrafa eignarnámsþola vegna þessa liðar nemur því kr. 580.000,00.

Til vara er sú krafa gerð að eignarnemi greiði eignarnámsþola þá fjárhæð sem hann þarf að leggja út við kaup á líflömbum, þ.e. 58 lömb x 38 kg. x 218,40 kr. eða kr. 481.353,60.

3. Umframbirgðir heys: Þar sem eignarnámsþoli þurfti að afla heyja sumarið 1990, en gat ekki nýtt sér það vegna niðurskurðarins, telur hann að eignarnema beri að bæta sér það tjón. Á framlögðu skjali nr. 11 kemur fram að heybirgðir eignarnámsþola þann 2. maí 1991 hafi verið 1899 m³. Í hverjum m³ af heyi eru um 100 kg. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarfélagi Íslands sem liggur frammi í málinu á skjali nr. 28 er framleiðslukostnaður við framleiðslu þess heymagns kr. 2.810.520,00, þ.e. 189.900 kg. x. 14,80 kr.

4. Bætur vegna tekjumissis á fjárleysistíma: Eignarnámsþoli kveðst hafa látið reiknað út hreinar tekjur hans árin 1988, 1989 og 1990. Eignarnámsmþoli telur ekki vera vafa á að hann hefði haft sambærilegar tekjur af rekstrinum á fjárleysistímanum, ef ekki hefði komið til niðurskurðarins. Þar sem eignarnámsþoli má ekki taka fé aftur fyrr en tveimur árum eftir að því var fargað telur hann að bæta þurfi honum tekjumissinn í tvö ár eftir niðurskurðinn. Eignarnámsþoli kveður heildartekjur hans vegna kindakjötsframleiðslu í hæsta gæðaflokki vera kr. 3.964.449,00 að frádregnum kostnaði kr. 1.005.643,00. Hreinar meðaltalstekjur eignarnámsþola nema því kr. 2958.806,00 á ári. Með vísan til þessa gerir eignarnámsþoli kröfu til að eignarnemi bæti honum þann tekjumissi næstu tvö ár eftir niðurskurðinn, þ.e. árin 1991 og 1992, samtals kr. 5.917.612,00.

5. Afurðatjón vegna nýs fjárstofns fyrir árið 1993: Eignarnemi telur að tekjur hans af nýjum fjárstofni fyrsta árið eftir að nýtt fé er tekið séu aðeins helmingur af því sem ella hefði orðið, ef ekki hefði komið til niðurskurðar. Af þessum sökum kveðst eignarnámsþoli gera kröfu um bætur vegna þessa að fjárhæð kr. 1.982.225,00.

6. Afurðatjón vegna nýs fjárstofns fyrir árin 1994-1996: Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að nýr fjárstofn gefi ekki sömu heildartekjur og náðust fyrir niðurskurðinn. Telur eignarnámsþoli að á öðru til fjórða ári geti munurinn verið að meðaltali 20% lægri en á tímanum þar á undan. Ástæður þessa eru nokkrar, en eignarnemi bendir á að vinna við nýjan fjárstofn sé meiri en áður, fóðurkostnaður verður meiri og í þriðja lagi tekur það ákveðinn tíma að rækta upp kosti sem gera fjárstofninn arðmeiri. Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að honum verði bættur upp þessi mismunur vegna áranna 1994 til 1996 með krónum 2.378.669, þ.e. heildartekjur á ári margfaldað með 20% og fjölda ára.

7. Flutningur á líflömbum: Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að eignarnemi bæti honum kostnað við flutning á líflömbum frá seljanda í hús að Flatatungu. Á framlögðu skjali nr. 30 má sjá að flutningskostnaður á lamb komið í hús sé kr. 1.020,00 pr. lamb. Krafa eignarnámsþola vegna þessa liðar nemur því kr. 455.940,00 þ.e. 447 lömb x 1.020,00.

8. Sótthreinsun, hreinsun, málning o.fl: Eignarnámsþoli gerir ekki fjárkröfu vegna þessa liðar, en áskilur sér rétt til að gera gagnkröfur til skuldajafnaðar ef fram koma greiðslukröfur frá Sauðfjárveikivörnum fyrir málningu, fúavörn og sótthreinsiefni.

9. Jarðvegsskipti: Eignarnemi kveðst þurfa að leggja út í mikla vinnu við jarðvegsskipti í kring um fjárhús sín vegna niðurskurðarins. Hreinsa þarf upp jarðveg og setja möl í hans stað. Eignarnámsþoli gerir kröfu að fjárhæð kr. 360.000,00 vegna þessa liðar.

10. Endurnýjun fjárhúsa: Við þrif og sótthreinsun fjárhúsa þurfti að rífa út og henda hluta af innréttingum og görðum í fjárhúsi. Eignarnámsþoli áætlar að kostnaður við kaup á nýju timbri vegna þessa nemi kr. 128.000- og er gerð krafa um þá fjárhæð.

11. Bólusetning: Eignarnámsþoli bendir á að þar sem hann tekur sér nýtt fé sé nauðsynlegt að bólusetja hvert lamb tvisvar. Eignarnemi kveður heildarkostnað við þetta nema kr. 110.124,00 sem hann gerir kröfu um að fá bættan.

12. Lögmannskostnaður: Með vísan til 11. gr. l. 11/1973 gerir eignarnámsþoli kröfu til að eignarnema verði gert að greiða lögmannskostnað eignarnámsþola.

13. Útlagður kostnaður vegna matsmálsins: Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að eignarnemi greiði kostnað sem eignarnámsþoli hefur þurft að leggja út fyrir vegna vinnu endurskoðanda við útreikning afurðatjónsbóta, kostnað vegna öflunar gagna o.fl. Eignarnámsþoli kveður þennan kostnað nema kr. 148.371,00 og vísar til 11. gr. l. 11/1973 um rökstuðning fyrir að fá hann greiddan.

14. Ferðakostnaður og dagpeningar eignarnámsþola: Eignarnámsþoli gerir kröfu um að eignarnemi bæti honum kostnað sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna ferða hans frá heimili til Reykjavíkur vegna málsins. Eignarnámsþoli vísar enn til 11. gr. l. 11/1973 og gerir kröfu um greiðslu kr. 120.000,00 vegna þessa liðar.

15. Vaxtakrafa: Eignarnámsþoli gerir kröfu um greiðslu vaxta sbr. lög nr. 25/1987. Varðandi vaxtakröfuna bendir eignarnámsþoli á að mál þetta hafi dregist úr hömlu hjá matsnefndinni og það hafi valdið honum verulegu óhagræði og miskatjóni.

16. Miskabótakrafa: Við munnlegan flutning málsins reifaði eignarnemi kröfu til miskabóta sem hann gerir í málinu. Ástæður þessa kveður eignarnemi vera þær að hinn mikli dráttur sem orðið hefur á máli þessu hefur valdið honum verulegu hugarangri. Eignarnámsþoli kveður öll samskipti sín við eignarnema hafa verið hin erfiðustu í málinu og beri að líta til þessa við ákvörðun bótanna.

17. Innborganir: Eignarnámsþoli bendir á að hann hafi fengið greitt inn á bæturnar og beri að draga þær greiðslur frá endanlegum bótum. Greiðslurnar eru sem hér segir:

31.10.92.   kr.   2.500.000-
31.12.92.   kr.   2.000.000-
30.09.93   kr.   1.500.000-
Samtals   kr.   6.000.000-

Eignarnámsþoli kveður óraunhæft að hann hafi getað takmarkað tjón sitt vegna niðurskurðarins með vinnu utan heimilis. Í fyrsta lagi sé hann með blandað bú sem kalli á viðveru hans á staðnum. Í öðru lagi séu 47,1 km. frá heimili hans til Sauðárkróks, næsta þéttbýliskjarna, og lokast þessi vegur með reglulegu millibili vegna ófærðar. Þá liggur fyrir að atvinnuleysi hefur verið á Sauðárkróki og þar sem eignarnámsþoli sé kominn undir sextugt á hann enn erfiðara með að fá vinnu en ella.

VI. Kröfur og sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi gerir þær kröfur að eignarnámsþola verði ekki metnar bætur umfram þær, sem eignarnemi viðurkennir að eignarnámsþoli geti frekast átt rétt til miðað við fyrri úrskurði Matnsnefndar eignarnámsbóta í sambærilegum málum. Þá er þess krafist að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins, en til vara að sérstaklega verði litið til nánar tilgreindra sjónarmiða varðandi lækkun málskostnaðar til handa eignarnámsþola. Eignarnemi telur hámarksbætur til eignarnámsþola geta orðið eftirfarandi:

a) Eignarnemi telur að bætur fyrir felldan fjárstofn geti í hæsta lagi numið kr. 2.060.375-, en til vara kr. 2.716.540-. Eignarnemi krefst þess jafnframt að til frádráttar komi svonefnd sjóðagjöld og flutningskostnaður á sláturstað, en samkvæmt skjali nr. 46 nemur sá kostnaður kr.113.050-. Þá krefst eignarnemi þess að bætur fyrir hinn fellda fjárstofn verði lækkaðar vegna þess að verðmæti hinnar sýktu fjárhjarðar í Flatatungu var ótvírætt lægra en frálagsverðmæti fjárins.

b) Afurðartjónsbætur fyrir árið 1991 verði að hámarki ákveðnar kr. 2.599.897-

c) Afturðartjónsbætur fyrir árið 1992 verði að hámarki ákveðnar kr. 1.877.590-

d) Eignarnemi fellst á að eignarnámsþola verði ákveðnar bætur vegna þess að tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi verði minni en ella hefði orðið. Eignarnemi telur rétt að leggja til grundvallar að brúttótekjur það árið verði aðeins helmingur af því , sem ella hafði mátt búast við.

e) Greiðsla vegna vélarvinnu við jarðvegsskipti verði ákveðin kr. 30.000-

f) Kostnaður við flutning á líflömbum verði bættur með kr. 72.000-.

Eignarnemi mótmælir algerlega frekari bótum vegna útlagðs kostnaðar en getið er um í liðum e) og f) hér að ofan. Eignarnemi mótmælir einnig öllum öðrum kröfum eignarnámsþola með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Eignarnemi telur að umfarmbirgðir af heyi hefðu átt að nýtast eignarnámsmþola til að gefa hrossum. Þá bendir eignarnemi á að eignarnámsþola hefði verið í lófa lagið að selja heyið, enda liggi Flatatunga nærri þjóðvegi nr. 1 og um þann veg fari daglega flutningabílar, bæði norður og suður.

2. Eignarnemi hafnar því að eignarnámsþola séu greiddar hærri bætur en kr. 30.000- fyrir hreinsun og jarðvegsskipti. Eignarnemi telur eignarnámsþola hafa átt að takmarka tjón sitt eftir mætti og nota þannig t.d. eigin vélar meira en raun sýnist bera vitni til hreinsunarstarfsins. Eignarnemi fellst ekki á sérstakar launagreiðslur til eignarnámsþola eða fjölskyldu hans vegna framkvæmdar þessa verks.

3. Eignarnemi mótmælir alfarið ferðakostnaði eignarnámsþola og dagpeningakröfu.

4. Eignarnemi mótmælir algerlega sérstakri bótakröfu á grundvelli þess að málin hafi dregist hjá Matsnefnd eignarnámsbóta. Þá mótmælir hann alfarið miskabótakröfu eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að telji eignarnámsþoli sig hafa orðið fyrir tjóni vegna seinagangs í matsnefndinni, þá sé landbúnaðarráðuneytið ekki rétti aðilinn til að beina slíkri kröfu að. Eignarnemi telur að við ákvörðun vaxta í málinu skuli litið til þeirra mála sem áður hafa verið úrskurðuð í nefndinni og nefnd voru að framan.

Eignarnemi vísar til þess á í ársbyrjun 1991 hafi verið kveðnir upp þrír úrskurðir í Matnsnefnd eignarnámsbóta í matsmálunum nr. 1/1990, Þorgeir E. Þórarinsson gegn landbúnaðarráðherra o.fl, nr. 2/1990, Haukur Magnússon gegn landbúnaðarráðherra og nr. 3/1993, Hjalti Jósefsson gegn landbúnaðarráðherra. Eignarnemi kveður þá afstöðu hafa verið tekna af hans hálfu að sætta sig við þau sjónarmið og forsendur sem Matsnefnd eignarnámsbóta lagði til grundvallar úrskurðum sínum í þessum þremur málum. Málin hafi þar af leiðandi ekki verið borin undir dómstóla og bætur greiddar í samræmi við úrskurði nefndarinnar í þeim.

Eignarnemi kveður að í þeirri afstöðu hafi að sjálfsögðu falist að síðari mál af þessu tagi, sem kynni að verða beint til Matsnefndar eignarnámsbóta, fengju þar samskonar afgreiðslu. Eignarnemi telur að mál þetta sé í eðli sínu eins og þau þrjú mál sem nefnd voru hér að ofan, og vísar því að meginstefnu til til áðurnefndra úrlausna nefndarinnar varðandi sjónarmið sín í málinu, að teknu tilliti til atvika sem síðar hafa gerst. Er þá einkum hafður í huga búvörusamningur á skjali nr. 39, sem gerður var hinn 11. mars 1991.

Af hálfu eignarnema er lögð á það áhersla að eignarnámsþoli hefði átt að takmarka tjón sitt með vinnu utan heimilisins á fjárleysisárunum. Eignarnemi bendir á að fjarlægð til Sauðárkróks sé ekki nema tæpir 50 km. og það séu um það mörg dæmi að menn sæki vinnu daglega um lengri veg. Eignarnemi telur eignarnámsþola ekki hafa gert neinn reka að því að takmarka tjón sitt með þessum hætti.

Varðandi málskostnaðarkröfu eignarnámsþola bendir eignarnemi á að málatilbúnaður eignarnámsþola taki ekkert mið af þeim úrskurðum sem matsnefndin hefur áður kveðið upp í sambærilegum málum. Eignarnemi telur kröfugerð eignarnámsþola úr öllu hófi og í engu samræmi við fyrri úrskurði nefndarinnar. Þetta hafi valdið því að eignarnámsþoli hafi gert sér og eignarnema mun meiri vinnu í máli þessu heldur en eðilegt gat talist og þörf var á. Þá bendir eignarnemi á að mál þetta sé sambærilegt öðrum sem lögmaður eignarnámsþola hefur flutt fyrir matsnefndinni og vinna í einu geti þannig nýst í öðru. Gerir eignarnemi þá kröfu að tekið verði tillit til þessa við ákvörðun málskostnaðar í málunum.

VII. Álit Matsnefndar eignarnámsbóta:

Um varnir gegn sauðfjársjúkdómum giltu lög nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra með síðari breytingum er atburðir þeir gerðust, sem eignarnámsmál þetta er risið af. Í apríl 1993 tóku gildi lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og fella þau úr gildi framangreind lög nr. 23/1956. Engu breytir þetta þó um úrslit þessa máls, enda fer um það að lögum nr. 23/1956. Lögin eru að stofni til eldri og voru áður nr. 44/1947 með sama nafni. Gerðar voru nokkrar breytingar á lögnum árið 1956 og lögin nr. 44/1947 endurútgefin sem lög nr. 23/1956.

Í lögunum eru ákvæði um sjúkdóma þá er lögin ná til og aðgerðir til útrýmingar sauðfjársjúkdóma svo sem um sauðfjárvarnarsvæði, fjárskiptafélög og fjárskipti. Þá eru og í VI. kafla laganna ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskipta. Framkvæmd laganna heyrði undir landbúnaðarráðherra, sem skipaði sauðfjársjúkdómanefnd til að hafa á hendi stjórn sauðfjársjúkdómamála.

Í 13. gr. 2. mgr. og 23. gr. 2. mgr. laganna eru sérákvæði um bætur fyrir kindur sem sleppa yfir varnarlínur og kindur sem eru sýktar eða grunur leikur á um að séu sýktar (sbr. og 17. gr. ). Í 13. gr. 2. mgr. er kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta kind með a.m.k. fullu niðurlagsverði (haustverði). Í 23. gr. 2. mgr. er aðeins ákveðið að sauðfjárskúkdómanefnd ákveði bætur fyrir sauðfé, sem skorið er, án frekari skilgreiningar. Í þessum tilvikum er einungis fjallað um slátrun einstakra kinda, sem svo er ástatt um sem lýst er í lögunum.

Í VI. kafla laganna (37. gr. - 42. gr.) er hinsvegar fjallað um fjárframlög og bætur vegna fjárskipta, þ.e. þegar skorið er niður sauðfé á ákveðnum landsvæðum og nýtt fé fengið í staðinn, annað hvort þegar í stað eða að liðnu einu eða fleiri sauðleysisárum.

Í 37. gr. og 38. gr. er um það fjallað hvernig ríkissjóður skuli bæta fjáreigendum tjón vegna niðurskurðarins og á hvern hátt skuli greiða bætur. Þá er í 41. gr. fjallað um svonefndan uppeldisstyrk, sem greiða skal fjáreigendum sem missa fé vegna vanhalda, og geta ekki búist við fjárskiptum næstu tvö ár. Í 42. gr. er svohljóðandi ákvæði:

"Nú telur sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sauðfjársjúkdómi með niðurskurði á sýktu fé eða grunuðu svæði, skal hún þá senda landbúnaðarráðherra rökstuddar tillögur þar um. Getur ráðherra þá fyrirskipað niðurskurð, hvort sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram á svæðinu eða ekki. Bætur skal greiða fjáreigendum samkvæmt ákvæðum þessara laga. Verði krafizt mats vegna niðurskurðarins, eftir gildandi lögum um eignarnám, er matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu."

Þetta ákvæði var efnislega áður að finna í 41. gr. l. nr. 44/1947 þar sem segir m.a. að telji sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sjúkdómi með niðurskurði, þar sem fjárskiptafélag telst ekki stofnað, þá geti hún látið útrýminguna fara fram með samþykki ráðherra. Bætur skuli þá greiða fjáreigendum samkvæmt mati eftir gildandi lögum um eignarnám, en matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu.

Eignarnemi vísar til fyrri úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta um túlkun ákvæða l. nr. 23/1956 og telur að sömu sjónarmið eigi við í máli þessu og þar voru lögð til grundvallar.

Matsnefndin lítur svo á, að ákvæði 42. gr. l. nr. 23/1956 beri að skilja þannig, að fjáreigandi, sem þola verður heildarniðurskurð sauðfjár síns, eigi tveggja kosta völ. Annars vegar geti hann gert samning við ríkissjóð um bætur á grundvelli efnisreglna VI. kafla laga nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem settar hafa verið með heimild í þeim lögum, en hins vegar geti hann krafist eignarnámsmats samkvæmt lögum um eignarnám. Sé síðari leiðin valin beri matsnefnd að leggja til grundvallar reglur stjórnskipunarlaga um fullar bætur eins og þær hafa verið tíðkaðar í löggjöf og lagaframkvæmd. Þessi túlkun matsnefndarinnar styðst bæði við orðalag 42. gr. l. nr. 23/1956 og við samanburð á ákvæðinu í 41 gr. l. nr. 44/1947. Niðurstaða þessi er og í samræmi við túlkun umboðsmanns Alþingis í áliti frá 8. júní 1989 (mál nr. 36/1988).

Af framangreindri túlkun leiðir, að matsnefndin telur sig með engum hætti bundna af ákvæðum í 37.- 40. gr. l. nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 hvorki að því er varðar fjárhæð bóta né heldur hvenær þær komi til greiðslu. Matsnefndin telur rétt að taka fram, að í þessari afstöðu felst, að hún líti svo á, að sá sem velur þá leið að krefjast mats skv. lögum um eignarnám afsali sér þar með rétti til þeirra lögákveðnu bóta vegna niðurskurðarins sem ákvarðaðar eru í lögum og reglugerð og meti matsnefnd tjón hans minna en greindar reglur gera ráð fyrir, þá ráði matið.

Matsnefndin telur skv. framansögðu að það sé hlutverk hennar að meta eignarnámsþola bætur fyrir það tjón sem hann verður fyrir við það að fjárstofn hans var felldur og honum gert skylt að búa við sauðleysi frá desember 1990 til hausts 1992. Eignarnámsþoli hafi ekki haft neinar tekjur af sauðfénu haustin 1991 og 1992. Haustið 1991 hefði eignarnámsþoli átt að hafa tekjur sem nema frálagsverði sláturlamba og þarf því að meta honum afurðartjón að teknu tilliti til sparaðs kostnaðar. Sama gildi um tekjur af sauðfé haustið 1992. Þá þurfi að líta til þess hvort sá kostnaður, sem eignarnámsþoli hafði frá vori 1990 til vors 1991 og ekki nýttist honum skuli bætast að einhverju leyti eða hvort hann teljist þegar bættur. Að auki þurfi að meta hvort eignarnámsþoli beri einhvern þann kostnað sem er bótaskyld afleiðing af niðurskurðinum. Ennfremur ber að meta hvort það, að hey sem til var í fyrningum vorið 1991, teljist tjón eignarnámsþola, sem eignarnema beri að bæta. Þá beri óhjákvæmilega að meta til frádráttar bótum allan beinan sparnað eignarnámsþola árin 1991-1992 sem rakin verður til þess að ekkert sauðfé var á bænum og því til viðbótar þarf að meta hvort það vinnuafl, sem sauðfjárræktin hefði krafist, nýttist ekki annarsstaðar og komi til lækkunar á bótum. Þá beri matsnefndinni að taka tillit til vaxta við matið. Að lokum telur matsnefndin að reikna þurfi áhrif svonefndra beingreiðslna frá ríkissjóði skv. búvörusamningi og niðurfærslna á fullvirðisrétti.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðum Matsnefndar eignarnámsbóta um tjón eignarnámsþola og þykir rétt að leggja til grundvallar kröfugerð eignarnámsþola eins og hún er sundurliðuð í V. hér að framan. Aðilar eru sáttir við að miða bætur við 389 kindur.

1. Felldur fjárstofn: Eins og fram kom í IV. hér að framan var staðfest að riða fannst í fé eignarnámsþola á árinu 1987 og 1988. Matsnefndin telur óhjákvæmilegt að taka tillit til þess við mat á bótum til handa eignarnámsþola, að ekki var um heilbrigt fé að ræða. Matsnefndin telur að verðgildi sauðfjárins lækki verulega við það að riðusýking finnst í fénu. Matsnefndin telur, að verðmæti fjárins á fæti sé verulega minna vegna sýkingarinnar en frálagsverðmæti fjárins. Nefndin telur að aðrir sauðfjárbændur myndu sniðganga sýkt fé við kaup á sauðfé. Matsnefndin hefur og litið til annarra matssjónarmiða en markaðsverðs, einkum hugsanlegs endurkaupaverðs og afnotaverðmætis fjárins í hendi eignarnámsþola. Matsnefndin telur, að ekki komi til álita að miða endurkaupsverð við heilbrigðan fjárstofn, heldur fjárstofn sem er sambærilegur fjárstofni þeim, sem skorinn var niður. Sú athugun leiðir óhjákvæmilega til sömu niðurstöðu og að framan greinir um markaðsverðmæti sauðfjárins, þ.e. að endurkaupsverðmæti nýrrar fjárhjarðar, sem svipað er ástatt um og þá hjörð, sem niður hefur verið skorin, sé lægra en frálagsverðmæti fjárins. Þá kemur til álita, að líta á verðmæti fjárins í hendi eignarnámsþola með það sjónarmið í huga, að það muni duga honum til sauðfjárræktar um langa hríð, enda þótt stofninn sé sýktur. Matsnefndinni er kunnugt, að sýking getur leynst nokkuð lengi í harðgerðum fjárstofnum. Matsnefndin telur verulegar líkur á, að sýking leiði til vanhalda, sem muni aukast og að lokum gera fjárstofninn arðminni. Enda þótt matsnefndin treysti sér ekki til að segja til um á hversu löngum tíma slíkt gerist, þá telur hún nægjanlega sýnt fram á slíka þróun. Þetta telur matsnefndin leiða til þess, að verðmæti fjárstofnsins í hendi eignarnámsþola sé skert og fari minnkandi. Þar sem ofangreindir matskostir leiða allir til lægri niðurstöðu en mat á frálagsverðmæti fjárins þykir rétt að leggja það til grundvallar.

Matsnefndin hefur reiknað út frálagsverðmæti sauðfjárins að Flatatungu í desember 1990 og fært til verðlags í október 1994. Þannig metið nemur verðmætið kr. 2.467.816- áður en dregin eru frá svonefnd sjóðagjöld, en þau eru 2,1% og nema því 51.824-. Að teknu tilliti til þessara atriða telur matsnefndin hæfilegt að meta tjón eignarnámsþola kr. 2.415.992-.

2. Líflömb sem var fargað: Fram kom undir rekstri málsins að eignarnámsþoli hafi þegar fengið bætur vegna þessa liðar með greiðslu á kr. 322.083- sem innt var af hendi í febrúar 1991. Um frekari bætur vegna þessa liðar verður ekki að ræða.

3. Umframbirgðir heys: Nefndin hefur áætlað fóðurþörf hins fellda fjárstofns veturinn 1990 til 1991 og áætlað kostnað við heyöflunina þ.m.t. áburðarkostnað og vélakostnað, en ekki er tekið tillit til mannakaups. Þá telur nefndinni sýnt að eignarnámsþoli hefði getað komið heyinu að einhverju leyti í lóg t.d. með því að fóðra hesta á því. Nefndin telur hæfilegar bætur vegna þessa liðar, að teknu tilliti til ofanritaðs, vera kr. 600.000-

4. Bætur vegna tekjumissis á fjárleysistíma: Matsnefndin hefur kynnt sér skattskýrslur eignarnámsþola ásamt viðeigandi landbúnaðarskýrslum. Matsnefndin hefur á grundvelli þessara gagna, sem hún telur trúverðug, reiknað út meðaltekjur eignarnámsþola af sauðfjárræktinni og jafnframt hefur nefndin reiknað út breytilegan kostnað sömu ára af sauðfjárræktinni.

Þau ár sem um er að ræða eru árin 1988, 1989 og 1990. Tekjurnar hefur nefndin reiknað til verðlags á fjárleysisárunum tveimur miðað við breytingar á grundvallarverði kindakjöts í hæsta verðflokki. Að auki eru þannig verðbættar tekjur framreiknaðar til verðlags á miðju árinu 1994 og er þá miðað við lánskjaravísitölu. Við framreikning kostnaðar hefur verið haft mið af vísitölu lánskjara. Með þessum hætti er framlegðin á fjárleysisárunum færð til verðlags á árinu 1994.

Meðaltekjur áranna 1988-1990 eru reiknaðar með eftirfarandi hætti og er þá tekið tillit til tekna af sauðfé úr landbúnaðarskýrslum eignarnámsþola:

Ár   Tekjur af sauðfé   Framreiknistuðull   Framreiknaðar tekjur:

1988   3.019.875-   1,48   4.465.304-
1989   3.174.606-   1,23   3.901.584-
1990   3.393.224-   1,17   3.956.266-
         12.323.154-

         Meðaltalstekjur 4.107.718-

Breytilegur kostnaður áranna 1988-1990 er fundinn með eftirfarandi hætti:

Skýring   1988   1989   1990

Fóður   105.192-   153.389-   116.851-
Sáðvörur   289.890-   272.556-   405.645-
Búvélar   133.196-   158.019-   142.354-
Rekstrarvörur   65.464-   60.065-   71.127-
Laun   157.850-   114.660-   0-
Aðkeypt þjónusta   161.227-   165.299-   146.446-
Ýmis gjöld   32.220-   129.535-   57.153-
Bústofnsbreytingar   26.270-   -62.325-   224.835-
Samtals   971.310-   991.198-   1.164.411-

Framreiknað    x 1,57    x 1,33    x 1,16
   1.523.252-   1.318.215-   1.354.003-

Niðurstaðan af framangreindum útreikningi er eftirfarandi á verðlagi í október 1994:

Meðaltekjur á ári   kr.   4.107.718-
Meðalútgjöld á ári   kr.   1.398.490-
Mismunur   kr.   2.709.228-

Með hliðsjón af þessum útreikningi reiknast afuðartjónsbætur fyrir árin 1991 og 1992 á eftirfarandi hátt:

Bætur fyrir árið 1991   kr.   2.709.228-
Bætur fyrir árið 1992   kr.   2.606.535-

Niðurfærslan fyrir árið 1992 reiknast 2,5% og fyrir árið 1993 22,75% skv. upplýsingum landbúnaðarráðuneytisins, sbr. samning landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda frá 11. mars 1991. Niðurfærslan 1991 reiknast skv. því 2,5% af brúttótekjum, en ekki verður talið að svo lítil skerðing á tekjum hafi áhrif á gjöld.

Matsnefndin telur því tjón eignarnámsþola vegna afurðamissis í tvö ár hæfilega metið á kr. 5.315.763-.

5. og 6. Afurðatjón vegna nýs fjárstofns fyrir árið 1993 og fyrir árin 1994-1996: Matsnefndin fellst á, að afurðatjón eignarnámsþola sé ekki að fullu bætt fyrr en tekið hefur verið tillit til þess, að tekjur af nýbyrjaðri sauðfjárrækt, skili sér ekki með eðlilegum hætti fyrr en á öðru ári og tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysið því mjög skertar. Sá tekjumissir sé afleiðing af niðurskurðinum. Telur matsnefndin að við mat á þeirri bótaskyldu skerðingu beri að hafa eftirfarandi í huga: Tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi, þar sem stofnað er til sauðfjárbúskapar með kaupum á líflömbum að hausti, verða verulega minni en ella. Stafar þetta m.a. af því að afföll verða meiri en venjulega og frjósemi minni. Skv. II. kafla reglugerðar nr. 336/1992 eru nú greiddar svokallaðar beingreiðslur til bænda sem nema 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts samkvæmt verðlagsgrundvelli sauðfjárafurða 1. september 1993.

Í úrskurðum matsnefndar frá 1990 voru metnar bætur fyrir tjón vegna tekjumissis á fyrsta ári eftir fjárleysi. Hæfilegt þótti að miða við að 50% af viðmiðunartekjum þyrfti að bæta. Í Flatatungu er fyrsta ár eftir fjárleysi 1993. Á því ári er ákveðið að greiða bændum beingreiðslur sem fyrr segir og nema þær 50% af grundvallarverði afurða. Þá greiðslu fá einnig bændur sem orðið hafa að sæta niðurskurði sauðfjár vegna riðusýkingar svo fremi sem þeir hafa náð 20% framleiðslu miðað við afköst fyrir niðurskurð. Þetta á við í Flatatungu.

Með hliðsjón af þessu telur matsnefndin rökrétt að bætur vegna tekjumissis á fyrsta ári eftir fjárleysi nemi 50% af helmingi viðmiðunarverðs, þ.e. 25% af viðmiðunartekjum. En hér verður einnig að líta til þess að í tvígang er búið að skerða framleiðslurétt sauðfjárbænda. Á árinu 1992 var rétturinn skertur um 2,5% en á árinu 1993 um 22,75%. Leiðréttar viðmiðunartekjur verða því kr. 3.173.212-, þ.e. skerðingin 22,75% hefur verið dregin frá fullum viðmiðunartekjum. Samkvæmt þessu verða bætur til eignarnámsþola vegna skertra tekna á fyrsta ári eftir fjárleysi 25% af kr. 3.173.212- eða 793.303-.

Matsnefndin fellst hins vegar ekki á, að víst sé eða líklegt að fjárstofnin verði arðminni á öðru ári og síðar eftir sauðleysi en hinn niðurskorni fjárstofn var.

7. Flutningur á líflömbum: Matsnefndin telur rétt að meta eignarnámsþola bætur fyrir þennan lið. Með hliðsjón af framlögðum gögnum varðandi flutningskostnað á líflömbum þykir kostnaður þessi hæfilega metinn á kr. 220.000- í máli þessu.

8. Sótthreinsun, hreinsun, málning o.fl.: Af hálfu matsnefndar er litið svo á að ekki séu deilur um þennan lið og að eignarnámsþoli hafi þegar fengið þennan þátt bættann úr hendi eignarnema.

9. Jarðvegsskipti: Matsnefndinni þykir rétt að miða við að eignarnámsþoli reyni eftir fremsta megni að takmarka tjón sitt og framkvæma það sem þarf á búinu, vegna niðurskurðarins, með sem minnstum tilkostnaði t.d. með notkun eigin véla og vinnuafls. Með hliðsjón af þessu sjónarmiði þykir nefndinni kröfugerð eignarnámsþola vegna þessa liðar nokkuð hár, enda gert ráð fyrir aðkeyptu vinnuafli o.fl. í kröfugerðinni. Matnsnefndinni þykir hæfilegar bætur vegna þessa liðar vera kr. 150.000-.

10. Endurnýjun fjárhúsa: Matsnefndin hafnar bótakröfu vegna þessa liðar, enda var ekki gerð krafa til endurnýjunar innréttinga í fjárhúsum af hálfu eignarnema. Rétt þykir að eignarnámsþoli beri sjálfur kostnað af slíkum viðhaldsverkefnum.

11. Bólusetning: Matsnefndin fellst ekki á að kostnaður við bólusetningu sé vávæn afleiðing af niðurskurðinum og hafnar því kröfulið þessum.

12., 13. og 14: Lögmannskostnaður, útlagður kostnaður vegna matsmálsins og ferðakostnaður og dagpeningar eignarnámsþola: Með vísan til 10. og 11. gr. l. 11/1973 þykir rétt að úrskurða eina fjárhæð, málskostnað, vegna framangreindra liða. Af hálfu matsnefndar þykir hæfilegur málskostnaður í máli þessu kr. 250.000- auk virðisaukaskatts.

15. Vaxtakrafa: Matsnefndin telur það utan hlutverks síns að kveða á um vexti af matsfjárhæð eftir uppkvaðningu úrskurðar. Vexti á tímabilinu frá niðurskurði til matsdags hefur nefndin reiknað og við þann útreikning var tekið mið af bótafjárhæðum og innborgunum til eignarnámsþola. Niðurstaðan er sú að hæfilegir vextir séu kr. 511.000-.

16. Miskabótakrafa: Af hálfu matsnefndarinnar þykja ekki lagaskilyrði vera fyrir hendi til að taka kröfu þessa til greina og er henni því hafnað.

Til álita kemur hvort lækka beri metið tjón eignarnámsþola með hliðsjón af því að honum hefði verið í lófa lagið að takmarka tjón sitt með vinnu utan heimilis á fjárleysisárunum, svo sem eignarnemi hefur haldið fram í málinu. Að teknu tilliti til staðsetningar Flatatungu, aldurs eignarnámsþola, og atvinnuástands á svæðinu þykir matsnefndinni óraunhæft að eignarnámsþoli hefði getað dregið úr tjóni sínu með vinnuframlagi utan heimilis. Þykja því ekki efni til að lækka bætur til hans vegna þessa.

Samandregin niðurstaða:

Heildarniðurstaða matsnefndarinnar vegna liða 1-16 hér að framan eru sem hér segir:

Bætur fyrir felldan fjárstofn   kr.   2.415.992-
Umframbirgðir af heyi   kr.   600.000-
Bætur vegna tekjumissis á fjárleysistíma   kr.   5.315.763-
Afurðartjón vegna nýs fjárstofns árið 1993   kr.   793.303-
Flutningur á líflömbum   kr.   220.000-
Jarðvegsskipti   kr.   150.000-
Málskostnaður m. vsk.   kr.   311.250-
Vextir   kr.   511.000-
Samtals   kr.   10.317.308-

Eftirtaldar innborganir dragast frá:

Innborgun 31.10.92.   (   kr.   2.500.000-   )
Innborgun 31.12.92.   (   kr.   2.000.000-   )
Innborgun 30.09.93   (   kr.   1.500.000-   )
Verðbætur á innborganir   (   kr.   217.961-   )
Samtals til frádráttar      kr.   6.217.961-   

Óbætt tjón      kr.   4.099.347-   

Samkvæmt framanrituðu telur matsnefndin eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola úr hendi eignarnema hæfilega metnar kr. 4.099.347-, þ.m.t. málskostnaður og vextir. Fjárhæðin miðast við verðlag á matsdegi og greiðist í einu lagi. Auk ofangreinds skal eignarnemi bera kostnað af starfi Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu, samtals kr. 542.875-.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, greiði eignarnámsþola, Gunnari Oddssyni, kt. 110334-2469, Flatatungu, Skagafjarðarsýslu, kr. 4.099.347- í eignarnámsbætur þ.m.t. kr. 250.000- auk vsk. í málskostnað.

Eignarnemi greiði kr. 542.875- til ríkissjóðs vegna kostnaðar af starfi Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu.

______________________________
Helgi Jóhannesson hdl.

___________________________            ___________________________
Stefán Svavarsson endursk.            Stefán Tryggvason, bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum