Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 61/2014

Mál nr. 61/2014

Fimmtudaginn 22. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. maí 2014, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 4. júní 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. júní 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. júní 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd X og X. Þau eru í hjúskap og búa í eigin húsnæði að C, sem er X fermetra íbúð.

Kærendur eru ellilífeyrisþegar. Kærandi A fær lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og Gildi lífeyrissjóði og kærandi B fær lífeyrisgreiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði starfsmanna ríksisins. 

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 24. október 2012, eru 36.773.275 krónur.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til húsnæðiskaupa, ábyrgðaskuldbindinga og til efnahagshrunsins haustið 2008.

Umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er frá 30. júlí 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. október 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 17. mars 2014 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Umsjónarmaður greindi frá því að nauðsynlegt hefði verið að kveða á um sölu fasteignar kærenda í greiðsluaðlögun þar sem greiðslubyrði fasteignaveðkrafna væri mun hærri en áður hefði verið gengið út frá. Umsjónarmaður kvað kærendur ekki hafa fallist á sölu fasteignarinnar og yrði umsjónarmaður því að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður greindi einnig frá því að kærendur hefðu ekki greitt fasteignagjöld á tímabili greiðsluaðlögunar og hefðu þau því stofnað til nýrra skulda þrátt fyrir greiðslugetu og þannig brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 28. apríl 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi B kom á fund umboðsmanns skuldara 15. maí 2014 og tilkynnti að kærendur hefðu fallist á sölu fasteignar sinnar. Sendi hann tölvupóst 18. maí s.á. þar sem meðal annars kom fram að honum hefði mistekist að greiða fasteignagjöld fyrir 2013, meðal annars vegna þess að Orkuveitan hafi verið aðgangshörð og krafist fullrar greiðslu.

Með ákvörðun 20. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir að mál þeirra verði tekið til endurskoðunar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Skilja verður það svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að málsmeðferð umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð.

Í kærunni er vísað til þess að umsjónarmaður hefði haft samband við kærendur og talið rétt að kærendur settu fasteign sína á sölu þar sem skuldunautar þeirra hafi talið að þau gætu ekki staðið við afborganir. Í gögnum málsins kemur fram að kærendur hafi samþykkt að setja fasteignina á sölu á fundi hjá umboðsmanni skuldara 15. maí 2014.

Kærendur kveðast hafa greitt megnið af þeim skuldum sem söfnuðust vegna orkukaupa og frárennslisreikninga en eigi eftir að greiða um 60.000 krónur.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, nema skuldbindingar sem stofnað sé til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur stofnað til nýrra skulda á tímabili frestunar greiðslna með því að greiða ekki fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu. Alls séu 230.370 krónur í vanskilum vegna ársins 2013, en tekið hafi verið tillit til umræddra gjalda í framfærsluviðmiðum umsjónarmanns. Vanskilin séu frá febrúar 2013.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Með bréfi 17. mars 2014 lagði umsjónarmaður til að umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður á grundvelli 5. mgr. 13. gr. og d- liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í kjölfar tillögu umsjónarmanns felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 20. maí 2014 á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt 1. gr. lge. er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í þessu skyni er umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum heimilt að grípa til ýmissa úrræða svo sem að ákveða að selja þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án samkvæmt 13. gr. lge. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld á þeim tíma sem þau nutu greiðsluskjóls og hafi þau því stofnað til nýrra skulda á tímabilinu. Í kæru kemur fram að meirihluti skulda vegna orkukaupa og fráveitu hafi nú verið greiddur, en engin gögn um greiðslur hafi verið lögð fram af hálfu kærenda.

Í gögnum málsins kemur einnig fram að kærendur hafi fallist á sölu fasteignar á fundi hjá umboðsmanni skuldara 15. maí 2014.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er ekki tekin afstaða til þess að kærendur hafi fallist á sölu fasteignar, þrátt fyrir að tillaga umsjónarmanns um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana hafi fyrst og fremst byggt á andstöðu kærenda við sölu fasteignar. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að lagt hafi verið sjálfstætt mat af hálfu embættisins á það hvort vanskil kærenda vegna fasteigna-, vatns- og fráveitugjalda að fjárhæð 230.370 krónum hafi verið slík að þau gætu skaðað hagmuni lánardrottna, yrði fasteign þeirra seld.

Kærendur eru bæði ellilífeyrisþegar og er því ólíklegt að tekjur þeirra og aðstæður aðrar muni breytast á komandi árum. Við heildarmat á hagsmunum kærenda af áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum sem og á hagsmunum kröfuhafa telur kærunefnd að draga megi í efa að sú skuldasöfnun, sem hér um ræðir, sé líkleg til að skaða hagsmuni lánardrottna eða leiði til þess ein og sér að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verði felld niður án þess að látið verði reyna á sölu fasteignar, standi vilji kærenda til þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að leggja heildarmat á aðstæður kærenda í ljósi yfirlýsingar annars kærenda við meðferð málsins um samþykki til sölu fasteignar þeirra. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi voru fyrir kærendur bar umboðssmanni skuldara því að taka afstöðu til þess að kærendur hefðu skipt um skoðun og fallist á tillögu umsjónarmanns um sölu fasteignarinnar  á grundvelli 1. mgr. 13. gr. lge. Í ljósi þess telur kærunefndin nauðsynlegt að láta á það reyna hvort nú verði talin vera fyrir hendi skilyrði til að leita áfram greiðsluaðlögunar.

Verður samkvæmt því að telja að umboðsmaður skuldara hafi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, án þess að meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði lge. samkvæmt því sem hér að framan er lýst. Með vísan til þess ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir aog b er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum