Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 91/2014

Mál nr. 91/2014

Fimmtudaginn 6. október 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 27. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 2. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. september 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 20. október 2014. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 28. október 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd X og X. Þau búa ásamt X börnum í eigin [...] að C.

Kærandi A er atvinnulaus en kærandi B starfar hjá D.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 10. febrúar 2011, eru 109.721.115 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2009.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína einkum til fjárskuldbindinga árið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 7. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. apríl 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns skuldara var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. janúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem kærendur hafi ekki lagt fjármuni til hliðar frá því að frestun greiðslna hófst og með því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Mikið vanti upp á sparnað kærenda. Þrátt fyrir útskýringar þeirra þá skorti um 1.500.000 krónur upp á sparnaðinn, en kærendur hafi verið í greiðsluskjóli frá 1. janúar 2011. Einnig hafi þau veitt rangar upplýsingar, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 10. júlí 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör bárust.

Með ákvörðun 12. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að umboðsmaður skuldara og umsjónarmanni sé ljóst að kærandi B glími við ólæknandi sjúkdóm. Læknir  hennar hafi hvatt kærendur til að búa til minningar fyrir börn þeirra tvö og auka lífsgæði hennar með því meðal annars að skipta um umhverfi og ferðast bæði innan lands og utan.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 101/2010 hafi umboðsmaður skuldara heimild kærenda til þess að afla gagna frá opinberum stofnunum, þar á meðal Tryggingastofnun ríkisins og Landsspítala háskólasjúkrahúsi. Þannig hafi umboðsmaður skuldara heimild til að afla upplýsinga um kostnað vegna veikinda kæranda B, en ekki sjáist af ákvörðun umboðsmanns skuldara að það hafi verið gert. 

Svo virtist sem umboðsmaður skuldara hefði tekið eingreiðslu tryggingafélags að fjárhæð 9.000.000 króna inn í þá fjárhæð sem kærendur hefðu að mati umsboðsmanns skuldara átt að leggja til hliðar. Eingreiðsla tryggingafélags til kæranda B, sem greidd hafi verið vegna illvígs sjúkdóms hennar, sé ekki tekjuskattskyld, sbr. 2. tl. 28. gr. laga um tekjuskatt. Um ástæðu þess að bæturnar teljist ekki til tekna vísa kærendur til samantektar Samtaka fjármálafyrirtækja frá desember 2010 og greinargerðar með lögum nr. 37/2011 um breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Ekki sé vitað til þess að umsjónarmaður eða umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir læknisvottorði frá kærendum til þess að staðreyna upplýsingar sem þau gáfu um veikindi  kæranda B. Þá hafi ekki verið óskað eftir upplýsingum frá læknum eða krabbameinsfélaginu um ætlaðan kostnað sjúklings með sama sjúkdóm og kærandi B glími við. Kærendur telji að umboðsmanni skuldara beri skylda til að taka hluti sem þessa til rannsóknar áður en ákvörðun sé tekin. 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 7. desember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Öllum er sótt höfðu um heimild til greiðsluaðlögunar og nutu greiðsluskjóls hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þær upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara www.ums.is. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 41 mánuð en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. maí 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. maí 2014 að frádregnum skatti 16.361.898
Barnabætur og barnalífeyrir 3.766.362
Leigutekjur 2.494.000
Arfur 1.633.902
Skattfrjálsar bætur 9.700.000
Samtals 33.956.162
Ofgreiddar bætur -492.987
Samtals 33.463.175
Meðaltekjur á mánuði 816.175
Framfærslukostnaður á mánuði 403.216
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 412.959
Samtals greiðslugeta í 41 mánuð 16.931.319.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 816.175 krónur í meðaltekjur á mánuði á 41 mánaðar tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Í bréfi kærenda hafi komið fram að þau hefðu farið til útlanda á tímabilinu, meðal annars til að leita lækninga. Þau hafi auk þess endurgreitt ofgreiddan örorkulífeyri að fjárhæð 1.300.000 krónur á tímabilinu. Umboðsmaður skuldara hafi engin gögn undir höndum sem staðfesti þetta en samkvæmt útreikningum embættisins hafi kærendur greitt alls 492.987 krónur á tímabilinu vegna ofgreidds örorkulífeyris.

Í kæru komi fram að kærendur telji umboðsmann skuldara hvorki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni né gætt meðalhófs við ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana þeirra. Kærendur telji enn fremur að sá frestur sem veittur hafi verið til andmæla hafi ekki verið í samræmi við andmælarétt kærenda samkvæmt stjórnsýslulögum. Umboðsmaður skuldara telji kærendur hafa fengið viðunandi frest til andmæla við meðferð málsins.  Bæði hafi kærendum verið ljóst allt frá 2013 að legðu þau ekki fyrir fjármuni í greiðsluskjóli gæti það leitt til niðurfellingar heimildar þeirra til greiðsluaðlögunar og að þau hefðu fengið 7 daga frest til að andmæla frá því að þau tóku við bréfi embættisins þar sem þeim var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Kærendur hafi ekki haft samband við embættið innan veitts frests og hafi ekki óskað eftir lengri fresti.

Í kæru komi fram að embættið hefði átt að afla gagna að eigin frumkvæði um lækniskostnað kæranda B samkvæmt heimild í 5. mgr. 4. gr. lge. Embættið telji það einungis vera á færi kærenda sjálfra að veita upplýsingar um heildarkostnað lækninga og lyfja, t.d. vegna kostnaðar frá sérfræðingum, lyfjakostnaðar sem og vegna lækninga erlendis, en fram komi í bréfi umsjónarmanns að kærandi B hafi meðal annars leitað sér lækninga erlendis. Að mati embættisins séu slík gögn þess eðlis að það sé á ábyrgð kærenda að veita fullnægjandi upplýsingar um slík útgjöld. Þá verði ekki séð að það hefði breytt niðurstöðu málsins þótt aflað hefði verið upplýsinga um hluta kostnaðarins. Auk þess telji embættið ekki liggja ljóst fyrir að umboð kærenda til upplýsingaöflunar veiti embættinu heimild til að sækja upplýsingar um viðkvæm persónuleg mál, svo sem læknismeðferðir og lyfjagjöf með tilliti til laga um persónuvernd, en það sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að afla svo viðkvæmra upplýsinga um umsækjendur um greiðsluaðlögun.

Í kæru komi enn fremur fram að kærendur telji eingreiðslu vátryggingabóta að fjárhæð 9.000.000 króna ekki teljast til tekna og hefði því ekki átt að reikna með þeirri fjárhæð í útreikningum á áætluðum sparnaði kærenda.  Kærendur vísi í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi skilgreiningu á tekjum sem og samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja frá desember 2010 og greinargerð með lögum nr. 37/2011 um breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Embættið bendi á að tekjuhugtak laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sé ekki það sama og tekjuhugtak laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun, enda sé í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. rakið að með tekjum sé átt við tekjur skuldara hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum og enn fremur skuli greina frá því hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Umboðsmaður skuldara hafi í öllu gætt meðalhófs við vinnslu málsins og ákvörðun um niðurfellingu heimildar til greiðsluaðlögunar en sérstaklega hafi verið litið til erfiðra félagslegra aðstæðna kærenda vegna veikinda kærandans B. Í ljósi þess hve há sú fjárhæð sé sem kærendum hafi borið að leggja fyrir í greiðsluskjóli, eða 16.931.319 krónur, hafi þrátt fyrir það ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Embættinu sé skylt að gæta jafnræðis í meðferð mála og telji það ekki samrýmast hinni almennu jafnræðisreglu að líta fram hjá svo verulegri fjárhæð sem talið sé að kærendur hefðu átt að leggja til hliðar, í samræmi við önnur sambærileg mál.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 7. janúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 12. ágúst 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur telja að eingreiðsla vátryggingabóta skuli ekki teljast til tekna og hefði því ekki átt að reikna með þeim í útreikningum á áætluðum sparnaði þeirra.

Kærunefndin vísar til þess að í 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. er kveðið á um að í umsókn skuldara skuli koma fram hverjar séu tekjur hans, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, svo og upplýsingum um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist og einnig hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Á þessu eru ekki undantekningar. Að mati kærunefndarinnar ber því að taka með þær vátryggingabætur sem kærandi B fékk greiddar á tímabili greiðsluskjóls þegar reiknað er út hve mikið kærendur hafi átt að geta lagt fyrir á fyrrnefndu tímabili.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við um leið og umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 16.931.319 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram og þar til heimild þeirra til greiðsluaðlögunar var felld niður. Kærendur hafa ekki lagt neitt fyrir á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.656.100
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 221.341
Nettótekjur B 1.816.739
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 151.395
Nettótekjur alls 4.472.839
Mánaðartekjur alls að meðaltali 372.736
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.958.778
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 246.565
Nettótekjur B 1.842.025
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 153.502
Nettótekjur alls 4.800.803
Mánaðartekjur alls að meðaltali 400.067
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.158.667
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 263.222
Nettótekjur B 2.136.518
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 178.043
Nettótekjur alls 5.295.185
Mánaðartekjur alls að meðaltali 441.265
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. júlí 2014: 7 mánuðir
Nettótekjur A 1.696.979
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 242.426
Nettótekjur B 1.007.500
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 143.928
Nettótekjur alls 2.704.479
Mánaðartekjur alls að meðaltali 386.354
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.273.306
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 401.705

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, barnabætur og barnalífeyri, örorkubætur, leigutekjur og arf, var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. júlí 2014: 43 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.273.306
Barnabætur og barnalífeyrir 3.766.362
Leigutekjur 2.494.000
Arfur 1.633.902
Örorkubætur 9.700.000
Ofgreiddar bætur -492.987
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 34.374.583
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 799.409
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 403.216
Greiðslugeta kærenda á mánuði 396.193
Alls sparnaður í 43 mánuði í greiðsluskjóli x 396.193 17.036.295

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldara beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur kveðast hafa farið utan á tímabilinu, meðal annars til að leita lækninga. Þá hafi þau auk þess endurgreitt ofgreiddan örorkulífeyri að fjárhæð 1.300.000 krónur á tímabilinu. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem staðfesta þessar greiðslur. Af gögnum málsins liggur einungis fyrir að kærendur greiddu 492.987 krónur á tímabilinu vegna ofgreidds örorkulífeyris sem tekið var tillit til. Þá hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn sem staðfesta og sýna fram á ferða- og lækningakostnað en þetta eru gögn sem kærendur verða að leggja fram svo hægt sé að taka tillit til þessa kostnaðar. Ekki verður því tekið tillit til hans.

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 17.036.295 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa enga fjármuni lagt til hliðar.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum