Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2013

Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Úrskurður er kveðinn upp 5. mars 2014 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 26/2013: A gegn barnaverndarnefnd Bvegna beiðni um fjárstyrk til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð. Á fundi kærunefndarinnar 5. febrúar síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærð er ákvörðun forstöðumanns barnaverndar B frá 30. október 2013 varðandi beiðni um styrk til að greiða fyrir lögmannskostnað samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga vegna aðstoðar C hdl. við kæranda í barna­verndarmáli.

Kveðinn var upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar veitingu fjárstyrks á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, vegna barnaverndarmáls C hjá barnaverndarnefnd D, en hann hafði krafist rýmri umgengni við dóttur sína, E. Kærunefnd barnaverndarmála kvað upp úrskurð í því máli 8. janúar 2014.

Í framangreindum úrskurði kemur fram að dóttir kæranda er fædd 21. janúar 2013 og er því eins árs gömul. Móðir stúlkunnar fór ein með forsjá hennar og var stúlkunni að ósk móðurinnar ráðstafað í varanlegt fóstur.

Forstöðumaður barnaverndar féllst á að kærandi fengi styrk í máli þessu til greiðslu lögmannsaðstoðar sem nemur 16 klukkustundum. Í greinargerð barnaverndarnefndar B frá 20. desember 2013, sem kom fram í tilefni af kærunni, var fallist á að tímagjald í málinu skyldi vera 14.000 krónur, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda var umrætt vinnuframlag 34 klukkustundir.

Kæra F hdl., fyrir hönd kæranda, er dagsett 29. nóvember 2013. Þar er kærð ákvörðun barnaverndar B frá 30. október 2013 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kærandi krefst þess að sú ákvörðun um að greiða einungis fyrir 16 tíma af 34 verði afturkölluð og nefndinni gert að greiða fyrir alla þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda. Auk þess er þess óskað að viðmiðunarfjárhæðin verði endurskoðuð í tengslum við hagsmuni málsins. Þá er þess krafist, verði ekki fallist á tímaskýrslu lögmanns, að fá rökstudda útskýringu fyrir hverjum lið hvers vegna hann heyri ekki undir 47. gr. barnaverndarlaga.

Barnaverndarnefnd B hafnar því að greiða kæranda fyrir fleiri tíma en þá 16 sem þegar hafi verið greitt fyrir. Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar 20. desember 2013 kemur fram að fallist hafi verið á að greiða 14.000 króna tímagjald í stað 10.000 króna en fram kemur að eftir að kæran var lögð fram hafi verið fjallað um tímagjaldið á fundum nefndarinnar og samþykkt að hækka það.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kærunni bendir lögmaður kæranda á að engin gögn hafi legið fyrir í upphafi máls þessa þannig að nauðsynlegt hafi verið að fá allar upplýsingar frá kæranda í byrjun. Kærandi vilji líka vera vel upplýstur um stöðu mála og réttarstöðu sína og þurfi að vita hvaða úrræði séu í boði og fleira, sem sjálfsagt þyki að veita, enda sé um mikið hagsmunamál fyrir kæranda að ræða. Fram komi að barnaverndarnefnd B telji að önnur atriði en þau sem nefndin samþykki falli ekki undir 47. gr. barnaverndarlaga eða reglur barnaverndarnefndar Bum styrk vegna lögmannsaðstoðar, en því er mótmælt að verulegur hluti vinnunnar hafi snúið að forsjármáli kæranda, en lítil vinna hafi farið í það, eða samtals 4,25 klukkustundir.

Með tilliti til efnahags kæranda, eðlis og umfangs málsins sé engin ástæða til að takmarka þóknun lögmanns svo að einungis séu greiddar 16 klukkustundir af 34 klukkustundum sem unnar hafi verið í málinu 30. október 2013. Vinnu lögmannsins sé þó hvergi lokið.

Lögmaður kæranda bendir á að barnaverndarnefnd B vilji greina á milli umgengnisþáttar máls þessa og annarra þátta og vísi til þess að kærandi hafi ekki verið aðili málsins þegar ákvörðun um að setja barnið í fóstur var tekin. Því sé spurt hvernig geti staðið á því að faðir barns sem verið sé að setja í fóstur geti ekki talist aðili máls, en við túlkun á því hver sé aðili máls að stjórnvaldsákvörðun beri að túlka það rúmt. Teljist ekki aðeins sá sem ákvörðun beinist gegn vera aðili máls, heldur einnig sá sem hefur beina, verulega eða sérstaka lögvarða hagsmuni af stjórnvaldsákvörðun, sbr. H 2003:2685. Lögmaður kæranda geti því ekki samþykkt það að kærandi geti ekki talist aðili máls vegna þess að hann hafi beina, verulega og sérstaka lögvarða hagsmuni af þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar að vista dóttur hans hjá fósturforeldrum.

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki sé hægt að fallast á að öll þau atriði sem séu tiltekin í tímaskýrslu lögmanns kæranda falli undir ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga eða reglur barnaverndarnefndar B um styrk vegna lögmannsaðstoðar. Fram kemur að fallist er á að greiða sem nemur fimm klukkustundum fyrir undirbúning málsins í júlímánuði, fjórar klukkustundir vegna greinargerðar fyrir fundinn 14. ágúst 2013 og eina klukkustund vegna fundarins sjálfs. Þá er fallist á að greiða eina klukkustund vegna yfirferðar á úrskurði barnaverndarnefndar, fjórar klukkustundir fyrir kæru til kærunefndar og tvær klukkustundir aukalega vegna samskipta í málinu. Samtals nemi þetta 16 klukkustundum sem sé nokkuð ríflegt, meðal annars þar sem augljóst sé að verulegur hluti vinnu lögmanns hafi snúið að forsjármáli kæranda. Þá sé skráður í tímaskýrslunni mikill tími í samskipti sem ekki geti talist nauðsynlegur í því skyni einu að bregðast við tillögum barnaverndarnefndar um umgengni og undirbúa kröfur af því tilefni.

Barnaverndarnefnd B vekur athygli á því að styrkur vegna lögmannsaðstoðar nái einungis til andmæla vegna umgengnismálsins enda sé kærandi ekki aðili að öðrum þáttum barnaverndarmálsins í skilningi barnaverndarlaga. Hins vegar megi vera augljóst af málflutningi kæranda og þeim gögnum sem lögmenn hans hafi lagt fram að í stórum hluta samskiptanna sé verið að fjalla um vinnslu barnaverndarmálsins að öðru leyti.

Fram kemur að barnaverndarnefnd B hafi fjallað um greiðslu tímagjalds til lögmanna og sé nefndin sammála um að tímabært sé að endurskoða núverandi tímagjald. Þeirri endurskoðun sé ekki lokið en nefndin hafi, í þessu máli, fallist á að greiða 14.000 krónur á klukkustund í stað 10.000 króna á klukkustund.

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar B samkvæmt bréfi frá 30. október 2013 um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar verði afturkölluð og að nefndinni verði gert að greiða fyrir alla þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda. Í gögnum málsins kemur fram að ákveðið hafi verið að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar sem nemi 16 klukkustundum á 14.000 króna tímagjaldi, en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda var vinnuframlagið 34 klukkustundir. Tímagjaldið var þó ekki ákveðið af hálfu barnaverndarnefndarinnar fyrr en eftir að hin kærða ákvörðun var tekin eins og áður hefur komið fram.

Kæru í máli þessu fylgdi hin kærða ákvörðun en hún kemur fram í tölvubréfi forstöðumanns barnaverndar D frá 30. október 2013 til lögmanns kæranda í tilefni af tímaskýrslu sem lögmaðurinn hafði sent forstöðu­manninum 28. sama mánaðar vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda. Í bréfinu kemur fram að ekki sé hægt að fallast á að öll þau atriði sem tiltekin eru í tímaskýrslunni falli undir ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga eða reglur barnaverndar­nefndarinnar um styrk vegna lögmanns­aðstoðar. Þar segir enn fremur að í stað þess að fara yfir hvert einstakt atriði vilji forstöðumaðurinn koma með tillögu sem hann setur fram í bréfinu. Þar er fallist á að greiða fyrir samtals 16 klukkustundir en tímafjölda samkvæmt tímaskýrslunni var að öðru leyti hafnað. Málsatvik eru ekki rakin í bréfinu og engin fjárhæð er þar ákveðin en óskað eftir nýrri tímaskýrslu frá lögmanninum ásamt reikningi sem miði við 16 klukkustunda vinnu vegna lögmannsaðstoðar. Hin kærða ákvörðun ber ekki með sér að með henni hafi verið tekin endanleg ákvörðun í málinu um fjárhæð styrksins.

Krafa kæranda um greiðslu lögmannskostnaðar er byggð á 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga en þar segir að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem sé aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setur. Í 4. gr. reglna barnaverndarnefndar B frá 14. október 2003 um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum kemur fram að lögmanni, sem taki að sér mál samkvæmt reglunum, beri að hafa samband við framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar eða þann ráðgjafa sem fer með viðkomandi mál. Þar segir enn fremur að gera skuli samning um vinnslu málsins þar sem fram komi hvert hlutverk lögmannsins sé í málinu og á hvern hátt hann hyggist sinna hagsmunum umbjóðenda sinna. Í 5. gr. reglnanna segir að umsókn um fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar ásamt kostnaðaráætlun þess lögmanns sem hafi tekið málið að sér skuli lagðir fyrir barnaverndarnefnd til samþykktar. Ekki kemur fram í gögnum málsins að forstöðumaður barnaverndar D hafi haft heimild til að taka endanlega ákvörðun í málinu eða á hverju slík heimild væri byggð.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnsýslu­ákvörðunum barnaverndarnefnda til kærunefndar barnaverndarmála eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2011. Eins og mál þetta er lagt fyrir kærunefndina er ekki unnt að sjá að fyrir liggi úrskurður eða stjórnsýsluákvörðun barnaverndarnefndar B sem kæranleg er til kærunefndar barnaverndarmála samkvæmt framangreindu lagaákvæði eða öðrum kæruheimildum. Samkvæmt því svo og með tilliti til þess sem áður segir um efni hinnar kærðu ákvörðunar verður að líta svo á að málið hafi ekki verið endanlega til lykta leitt en ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en það hefur verið gert samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þessa ber að vísa málinu frá kærunefnd barnaverndarmála.

Ú r s k u r ð a r o r ð

 Máli A vegna lögmannsaðstoðar er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður


 Málið var endurupptekið og úrskurðað á ný 25. september 2014


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum