Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2013

Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 5. mars 2014 var tekið fyrir mál nr. 27/2013, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Óskað er eftir því að kærunefnd barnaverndarmála skeri úr því hvort ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur 13. nóvember 2013 um að loka máli kæranda hafi verið rétt.

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

Ú R S K U R Ð U R

 

I. Málavextir og kröfugerð

Kæra þessi varðar lokun barnaverndarmáls A, en málið var til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á grundvelli 35. gr., sbr. 1. mgr. 23. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Barnaverndarmálið snýst um meint einelti kæranda, sem var kennari í B, í garð nemanda þar. Kæranda var tilkynnt um lokun málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur með bréfi 13. nóvember 2013.

Forsaga máls þessa er sú að móðir nemandans í B, sem talinn var hafa orðið fyrir einelti af hálfu kæranda, tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur 17. maí 2013 um eineltið auk þess sem fleiri aðilar tilkynntu um einelti kæranda í garð annarra nemenda. Var málið í kjölfarið tekið til meðferðar fyrir Barnavernd Reykjavíkur.

Í skjali sem hefur að geyma hina kærðu ákvörðun og nefnist „Niðurstaða könnunar“ frá 13. nóvember 2013 segir að í kjölfar tilkynningar vegna framkomu kæranda í garð umrædds nemanda hafi verið hafin könnun máls hjá Barnavernd Reykjavíkur á grundvelli 35. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en í ljósi alvarlegra ásakana foreldra nemandans og með tilliti til líðanar nemandans hafi þeim fyrirmælum verið beint til Skóla- og frístundasviðs að tilefni væri til að kanna betur hvort um einelti í garð barnsins hefði verið að ræða. Í niðurstöðu skjalsins kemur eftirfarandi fram:

,,Málið varðar tilkynningar sem bárust Barnavernd Reykjavíkur um að kennari í Vesturbæjarskóla hafi lagt nemendur í bekk sem hún kenndi ensku í einelti og beitt þau harðræði auk þess að hafa verið með óviðeigandi og niðurlægjandi framkomu við börnin algjörlega að tilefnislausu. Tilkynningar hafa borist um tvö börn í þessum bekk. Einnig hafa borist upplýsingar frá barni í bekknum og foreldri barns í sama bekk. Bæði börnin hafa í viðtali við sálfræðing Barnaverndar Reykjavíkur lýst framkomu kennarans í sinn garð.

Auk þess skal áréttað að hlutverk Barnaverndar Reykjavíkur í málum sem þessum sem varða 35. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er að hefja könnun máls ef talið er tilefni til og kynna ákvörðun könnunar máls til starfsmanns og vinnuveitanda hans og setja fram tillögur til úrbóta. Barnaverndarstarfsmönnum eru ekki veittar heimildir samkvæmt þessari grein til að grípa til sérstakra úrræða eða þvingunarráðstafana heldur nær heimildin einungis til þess að kanna málið. Það er síðan vinnuveitanda að taka frekari ákvarðanir eftir því sem hann telur tilefni til, svo sem áminningu, tilflutning í starfi eða eftir atvikum brottrekstur ef ávirðingar eru taldar nægilega miklar.

Niðurstaða Barnaverndar Reykjavíkur er að í ljósi fyrirliggjandi gagna s.s. viðtala við börnin að um ámælisverða framkomu kennarans hefur verið að ræða í garð þessara tveggja barna sem hefur valdið börnunum sem um ræðir vanlíðan í skóla sínum. Auk þess virðist sem að framkoma kennarans hafi reynst bekkjarfélögum þessara barna erfið að horfa upp á. Skóli ásamt Skóla- og frístundasviði virðast hins vegar hafa reynt af fremsta megni að leysa mál þetta á viðunandi hátt og lagt sig fram um að málið fari í sem réttastan farveg.

Málinu er lokið af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur.“

Kærandi telur að ekki hafi verið forsendur fyrir því að loka málinu eins og gert var áður en aflað hafi verið viðhlítandi upplýsinga um málið. Barnavernd Reykjavíkur hafi brotið málsmeðferðarreglur VIII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákvörðunin hafi því verið ólögmæt og beri að fella hana úr gildi samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru 18. desember 2013 er óskað eftir því að kærunefnd barnaverndarmála skeri úr því hvort ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að loka málinu, sbr. bréf 13. nóvember 2013, hafi verið rétt, sbr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fram kemur að telja verði að ekki hafi verið forsendur fyrir því að loka málinu eins og gert hafi verið áður en aflað hafi verið viðhlítandi upplýsinga um málið. Barnavernd Reykjavíkur hafi brotið málsmeðferðarreglur VIII. kafla barnaverndarlaga. Ákvörðunin hafi því verið ólögmæt og hana beri að fella úr gildi samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Að öðru leyti er vísað til andmælabréfs kæranda til Barnaverndar Reykjavíkur 17. nóvember 2013.

Í bréfi kæranda til kærunefndar barnaverndarmála 7. febrúar 2014 eru gerðar athugasemdir við greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur frá 17. janúar 2014. Niðurstaða könnunar 4. júlí 2013 sé meðal annars byggð á því að skólinn og samstarfsmenn kæranda hafi ekki séð neitt athugavert við kennsluhætti kæranda og hafi ekki verið talið að um ámælisverða hegðun hefði verið að ræða. Byggt hafi verið á sömu upplýsingum í seinni könnuninni en niðurstaðan hafi samt orðið á þá leið að um „ámælisverða framkomu kennarans“ hafi verið að ræða.

 

III. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 17. janúar 2014 er meðal annars svarað athugasemdum kæranda og málið reifað með vísan til barnaverndarlaga nr. 80/2002 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú meginregla er áréttuð að könnun máls eigi ekki að ganga lengra en þörf er á hverju sinni, sbr. 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Það sé hins vegar álitamál og huglægt mat hverju sinni hversu langt skuli ganga til að fullnægja markmiðum með könnun máls hverju sinni. Það mat sé falið starfsmönnum barnaverndarnefndar, sbr. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga og 21. gr. reglna um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur, sem samþykktar hafi verið af barnaverndarnefnd Reykjavíkur 11. desember 2012.

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Af hálfu kæranda er um kæruheimild vísað til 51. gr. barnaverndarlaga. Í þeirri lagagrein segir að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er heimilt að skjóta til kærunefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2011. Í 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 80/2011, sem einnig er vísað til af hálfu kæranda, er fjallað um áætlun um meðferð máls og hljóðar lagaákvæðið þannig:

Þegar mál hefur verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar skal nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. [Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.]

Eins og segir í lagaákvæðinu geta foreldrar skotið ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli til kærunefndar barnaverndarmála. Það eru því aðeins foreldrar sem hafa málskotsheimild samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarmála en ekki aðrir aðilar máls. Þar sem kæruheimild skortir fyrir því að málið verði kært af hálfu kæranda til kærunefndar barnaverndarmála er því vísað frá kærunefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kæru A á ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 13. nóvember 2013 um að loka máli hennar vegna fyrrverandi nemanda hennar í B, er vísað frá.

                   

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum