Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20mennta-%20og%20menningarm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Brottvikning úr skóla

Ár 2017, miðvikudaginn 5. júlí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneyti svofelldur

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið

Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst með bréfi, dags. 24. október 2016, kæra  A og B (hér eftir nefnd kærendur) fyrir hönd ólögráða sonar síns, C, þáverandi nemanda í skóla D.  Kærð er sú ákvörðun skólastjóra skólans að heimila C ekki að koma í skólann næstu daga eftir atvik sem átti sér stað í skólaferðalagi skólans í september 2016, og hafi þeir dagar teygst yfir rúmlega fimm vikna tímabil þar sem drengurinn fékk ekki annað kennsluúrræði meðan á brottvikningunni stóð. Telja kærendur að brottvikning sonar þeirra úr skólanum hafi verið ólögmæt.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2016, var óskað eftir umsögn skóla D um framangreinda kæru og barst umsögnin með bréfi skólastjóra, dags. 23. nóvember 2016. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 29. nóvember 2016, var umsögn skólans send kærendum og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 5. desember 2016, var óskað eftir því að M svið [sem fer með málefni grunnskóla] sveitarfélagsins N veitti umsögn um kæruna, auk upplýsinga um feril málsins og önnur þau gögn er kynnu að varpa frekara ljósi á mál þetta. Að beiðni sveitarfélagsins var svarfrestur framlengdur til 9. janúar 2017 þar sem láðst hafði að senda fylgigögn með bréfi ráðuneytisins. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. janúar 2017, var kærendum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn sveitarfélagsins, dags. 12. janúar 2017, en engar athugasemdir bárust frá þeim. Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dags. 24. febrúar 2017, var kærendum tilkynnt að þar sem engar athugasemdir hefðu borist frá þeim yrði málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. mars 2017, var kærendum tilkynnt um að vegna mikilla anna í ráðuneytinu yrðu fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins en leitast yrði við að ljúka afgreiðslu kærumáls þessa eins fljótt og unnt væri.

 

Málavextir og málsástæður

I.

Í framkominni kæru er kærð brottvikning C úr skóla D, sem kærendur telja að hafi verið ólögmæt. Fram kemur að þegar kærendur sóttu um skólavist fyrir son sinn í skólann, sem þau hafi talið henta honum vel þar sem þau höfðu heyrt vel látið af skólanum, einkum er kæmi að áþekkum röskunum og C glímir við, hafi þau talið að stjórnendur skólans myndu skoða umsóknina m.a. með því að heyra í fyrri skóla, M sviði sveitarfélagsins og fleiri aðilum í kerfinu. Telja kærendur að fyrsta vika sonar þeirra í skólanum hafi gengið vel, þar til hann fór með skólanum í skólaferðalag yfir nótt. Hins vegar hafi C því miður endað í kasti í skólaferðalaginu og hann fari í mikið uppnám þegar þessi köst koma og eigi þá til að nota líkamlega tjáningu. Faðir drengsins hafi sótt hann um leið og hringt var. Frá þeim tíma hafi mikið óvissuástand hafist fyrir fjölskylduna og ekki síst drenginn sem sé greindur með kvíðaröskun og sé í teymi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) þar sem m.a. sé verið að athuga með röskun á einhverfurófi. Greina kærendur frá því að vegna þeirrar uppákomu sem varð í skólaferðalaginu hafi skólastjóri skólans metið það svo að syni þeirra væri ekki heimilt að koma í skólann næstu daga. Þeir dagar hafi endað á að teygjast yfir rúmlega fimm vikna tímabil þar sem C hafi ekki fengið annað kennsluúrræði meðan á brottvikningunni stóð. Lítil hreyfing hafi komist á málið þó málafulltrúi BUGL væri í daglegum samskiptum við skólann. Fundað hafi verið tvisvar á tímabilinu og óskað eftir heimakennslu sem félagsþjónustan hafi ekki viljað veita. Þegar faðir C hafði sjálfur haft samband við og fundað með sviðsstjóra M sviði sveitarfélagsins hafi boltinn farið að rúlla og fyrir mikinn þrýsting föður og samvinnu við sviðsstjórann hafi drengurinn loks fengið inngöngu í nýjan skóla í sínu heimahverfi. C hafi þó borið nokkurn andlegan skaða af þessari uppákomu og forðist í enn meira mæli öll félagsleg samskipti, sjálfsmat og sjálfsálit hafi borið þó nokkra hnekki, hann þjáist af miklum kvíða og miklum áhyggjum í nýjum aðstæðum og sé með vott af þunglyndi. Því finni kærendur sig knúin til að leggja fram kæru á hendur skóla D fyrir ólöglega brottvikningu C úr skólanum og vísa í því sambandi til 15. gr. reglugerðar nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

II.

Í umsögn skóla D er tekið fram að áhersla sé lögð á hagsmuni C, aðstandenda sem og samnemenda og starfsfólks skólans, sem skólastjóri telur að hafa þurfi að leiðarljósi í málinu. Enn fremur kemur fram sú afstaða skólans í framangreindri umsögn að skólinn hafi sinnt nemendum með sérþarfir afar vel í gegnum tíðina, en um leið þurfi skólinn að fá fullnægjandi upplýsingar um nemendur þegar óskað er eftir innritun í skólann, til að geta metið hvort skólanum sé unnt að þjónusta einstaklinga og bregðast við sérþörfum þeirra. Í því samhengi er í umsögninni jafnframt bent á þær húsnæðisaðstæður sem þar um ræðir, þar sem skólinn starfi í gömlu og þröngu húsnæði, sem sé heimilislegt og einstakt umhverfi, en þar sé þó engin lyfta og stigar milli hæða nokkuð þröngir og snúnir. Bendir skólinn á að það kast sem C fékk í framangreindu skólaferðalagi þann í september 2016, hafi komið af mjög litlu tilefni þar sem sýnd hafi verið alvarleg og ofbeldisfull hegðun gagnvart bæði nemanda og starfsmönnum, og líklegt sé að endurtaki sig. Það sé því mat skólans að aðstæður í skólahúsnæðinu gætu orðið honum, öðrum nemendum, starfsmönnum og foreldrum líkamlega hættulegar. Einnig kunni við slíkar aðstæður að skapast vandkvæði við að finna aðrar vistarverur fyrir nemendur sem kynnu að þurfa að yfirgefa skólastofu sína við slíkar aðstæður og færi skólastarf þá í óæskilegt uppnám. Kemur fram í umsögninni að kast C hafi staðið yfir í um tvær klukkustundir og hafi faðir drengsins þurft að beita sér við að koma honum út úr húsi í skólaferðalaginu. Bent er á í umsögninni að ekki yrði hættulaust að koma drengnum úr húsnæði skólans ef á þyrfti að halda. Bendir skólinn á að við þær aðstæður þurfi einnig að líta á rétt annarra aðila í skólanum, þ.m.t. annarra nemenda skólans, sbr. 1.-3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla. Lögð er áhersla á það af hálfu skólans að veittar séu fullnægjandi upplýsingar með eins ítarlegum hætti og kostur er í umsókn og aðdraganda umsóknar, sem sé viðkomandi umsækjanda fyrir bestu og forsendur þess að hægt sé að koma sem best til móts við þarfir hans, en það hafi ekki verið gert í því máli sem hér um ræðir. Mikilvæg gögn hafi svo borist frá skóla E, þar sem C stundaði áður nám, eftir að kallað hafi verið eftir þeim frá skóla D. Samkvæmt þeim gögnum lágu fyrir mun ítarlegri upplýsingar um ástand C en gefið hafi verið til kynna af kærendum og hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem veittar voru í umsókn þeirra um skólavist fyrir son sinn. Telur skóli D að þar hafi verið um mikilvægar grundvallarupplýsingar að ræða sem nauðsynlegt hefði verið að greina frá strax í umsókn svo unnt væri að leggja mat á það með hvaða hætti skólanum væri unnt að bregðast við sérþörfum C með fullnægjandi hætti, og hafi kærendum mátt vera það ljóst og borið að koma þeim upplýsingum á framfæri vegna umsóknar drengsins um skólavist. Vísar skóli D í því sambandi til ákvæða reglugerðar nr. 897/2009, um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Þá kemur fram í umsögninni að strax næsta dag eftir atburðinn í skólaferðalaginu hafi verið haft samband við kærendur og þeim tjáð að atvikið kallaði á nánari skoðun á því hvort og hvernig unnt væri fyrir C að stunda nám við skólann í ljósi allra aðstæðna ef búast mætti við álíka köstum í skólanum og að dómgreindarlaust hafi verið af hálfu kærenda að gefa ekki fullnægjandi upplýsingar um ástand drengsins. Í kjölfarið hafi verið ráðist í umfangsmikla gagnaöflun ásamt því sem kallað hafi verið eftir ráðgjöf í málinu. Telur skólinn að miðað við framkomin gögn þá kalli ástand hans á mun meiri sérfræðiþjónustu en skólanum sé unnt að veita. Þá hafi verið boðað til fundar í skólanum eins fljótt og aðstæður leyfðu, þann 14. september 2016 og greinir kærði frá því að þar hafi verið lögð áhersla á að leita leiða til að finna lausn á málinu í þágu drengsins. Jafnframt er í umsögninni vísað í svar kærenda í framhaldi af fundinum, þess efnis að sonur þeirra fengi heimakennslu og að þrýst verði á að hann kæmist í innlögn á BUGL eins fljótt og auðið væri, þar sem hann fengi þá kennslu í útibúi frá skóla F auk góðrar þjálfunar í félagsfærni sem leggja þyrfti mikla áherslu á. Af hálfu skóla D hafi því verið svarað að kærendur hefðu markað sér ábyrga og góða stefnu í málinu og því yrði heimakennsla sett af stað án tafar, og hafi hún hafist strax mánudaginn 19. september 2016.  Hins vegar hafi komið upp ný staða í málinu er BUGL hafi neitað að skrifa upp á heimild fyrir sjúkrakennslu sem og að leggja drenginn inn á BUGL eins og kom í ljós þann 22. september 2017. Einnig hafi komið fram að skólavist í skóla F kæmi ekki til greina fyrr en í fyrsta lagi næsta haust. Skólastjóri skóla D hafi hringt í kærendur en símhringingum ekki verið svarað og vísar skólinn til 1. og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 í því sambandi. Þá er tekið fram í umsögninni að kærendur hafi sýnt litla samvinnu hvað varðar heimanám C og fyrirspurnum skólans þar að lútandi sjaldnast svarað. Þá er greint frá því í umsögninni að staðið hafi til að boða til fundar vegna þessa máls eftir samtal skólastjóra og sviðsstjóra M sviðs sveitarfélagsins, kærendur hafi þó óskað eftir því að þeim fundi yrði frestað en sviðsstjóri sviðsins lagt til við skólastjóra að unnið yrði áfram að því að koma á fundi aðila, sem hafi strax hafist handa við að koma þeim fundi á. Fundarfært hafi verið orðið þann 30. september 2017, en fundurinn þá verið blásinn af samdægurs að ósk fulltrúa M sviðs. Í svari við fyrirspurn skólastjóra þann 5. október 2017 kom fram að drengurinn hefði fengið skólavist í skóla G og leit skólastjóri svo á að hans þætti í málinu væri lokið og að farsæl niðurstaða hefði náðst. Í umsögninni segir að skólastjóri hafi verið í góðri trú um að unnið væri að lausn málsins, m.a. á grundvelli yfirlýsinga kærenda og fulltrúa M sviðs, og að heimanám C væri samkvæmt áætlun. Upplýsingar hafi borist frá fulltrúa M sviðs þess efnis að sviðið væri að vinna að innritun drengsins í skóla G og aðkoma skóla D takmörkuð í málinu, að öðru leyti en að tryggja áframhaldandi samfellu í heimanámi drengsins. Þá hafi sá dráttur sem varð á afgreiðslu málsins verið óumflýjanlegur og ekki á valdi skólastjóra að stýra, og hafi ónóg upplýsingagjöf kærenda við umsókn um skólavist haft áhrif á framgang málsins. Þá hafnar skólastjóri því að um brottvikningu hafi verið að ræða, eins og haldið sé fram í kæru, heldur unnið í samræmi við verkferla sem gefnir hafa verið út af M sviði sveitarfélagsins. Þess í stað hafi aðilar málsins leitað allra leiða til að finna viðeigandi úrræði fyrir C og á meðan þeirri vinnu stóð hafi drengurinn, að frumkvæði kærenda, stundað heimanám sem hafi verið skipulagt af skólanum. Telur skólastjóri að skóli D hafi í einu og öllu gætt að hagsmunum allra viðkomandi í málinu og í samræmi við upplýsingar frá kærendum og M sviði sveitarfélagsins verið í góðri trú um að innritun í skóla G fæli í sér sátt allra hlutaðeigandi aðila, enda hafi engar upplýsingar borist skólanum um annað. Mál þetta hafi oftar en einu sinni tekið óvænta stefnu og þá telur skólinn að upplýsingaskylda kærenda hafi brugðist og verði sá dráttur sem varð á málinu einnig heimfærður á ófullnægjandi upplýsingagjöf kærenda þegar sótt var um skólavist. Loks er það ítrekað af hálfu skóla D að ekki hafi verið um brottvísun úr skólanum að ræða heldur hafi verið lögð áhersla á samvinnu við foreldra um að finna bestu leiðina fyrir drenginn í ljósi sérþarfa hans. Höfnun á áframhaldandi skólavist í skóla D hafi aldrei verið afdráttarlaus heldur hafi verið reynt að draga fram bestu lausnina með samráði allra sem að málinu komu.

III.

Við meðferð málsins í ráðuneytinu var jafnframt kallað eftir umsögn M sviðs sveitarfélagsins N um framkomna kæru og er þar lýst aðkomu þess að málinu. Fram kemur í umsögninni að þann 5. september 2016 hafi skólastjóri skóla D haft samband við ráðgjafa O á M sviði sveitarfélagsins vegna máls C. Hafi skólastjóri lýst upphafi skólagöngu drengsins og þeim atvikum er áttu sér stað í framangreindu skólaferðalagi og hafi þá verið upplýst um að C hafi, í samráði við foreldra, verið haldið heima frá því atburðurinn átti sér stað. Hafi M svið sveitarfélagsins komið því á framfæri að skóla D bæri skylda til að veita C þjónustu í samræmi við sérþarfir hans, óháð því hvort skólastjóri teldi hafa verið staðið að umsókn hans um skólavist með eðlilegum hætti. Þann 14. september hafi verið haldið fundur vegna málsins og skólastjóri boðað ráðgjafa sviðsins samdægurs á þann fund, sem hafi ekki átt þess kost að mæta með svo skömmum fyrirvara. Um viku síðar hafi sviðsstjóri M sviðs fundað með föður C og hafi sviðsstjóri haft samband við skólastjóra næsta dag og ítrekað að skólanum væri óheimilt að halda drengnum heima. Í kjölfarið hafi hafist viðræður sviðsstjóra og föður drengsins um möguleika á nýjum skóla, hafi skóli G orðið fyrir valinu og C hafið nám þar í fyrstu viku októbermánaðar, en hafði þá verið án skólagöngu í alls fimm vikur. Jafnframt kemur fram í umsögninni að mál þetta sé til skoðunar á M sviði sveitarfélagsins.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

I.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess. Það er hins vegar mat ráðuneytisins að dagbókarfærslur þær, sem skólastjóri skóla D hefur boðið ráðuneytinu að kynna sér í húsakynnum skólans, og málaskrá hjá Þjónustumiðstöð H og J hafi ekki þýðingu fyrir það úrlausnarefni sem úrskurður þessi lýtur að. Afmörkun úrlausnarefnisins í úrskurði þessum lýtur að því hvort af hálfu skóla D hafi í reynd verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli C í kjölfar þess atburðar er átti sér stað í fyrrgreindu skólaferðalagi og, hafi svo verið, hvort fylgt hafi verið reglum stjórnsýslulaga við þá ákvörðun og hvort þær fimm vikur er drengurinn var án skólavistar geti talist lögmæt forföll á grundvelli laga nr. 91/2008, um grunnskóla.

II.

Í 1. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla er mælt fyrir um það að nemendur beri ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. ber nemendum að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda, sbr. 3. mgr. 14. gr. Þá er kveðið á um það að meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Samkvæmt sömu málsgrein er skólanefnd skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði. Þá er mælt fyrir um skólaskyldu í 15. gr. laga um grunnskóla, en þar segir í 1. mgr. að  nemendum sé skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. laganna, en skólaskyldu sé unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti skv. lögum um grunnskóla.

Af umsögn skóla D má ráða að sá atburður er átti sér stað í framangreindu skólaferðalagi hafi verið litinn alvarlegum augum af hálfu skólans og ekki hafi verið talið unnt að taka C aftur inn í skólann strax eftir að heim var komið. Jafnframt segir í umsögninni að höfnun á áframhaldandi skólavist í skóla D hafi aldrei verið afdráttarlaus heldur reynt að draga fram bestu lausnina með samráði allra sem að málinu komu. Samkvæmt 3. gr. laga um grunnskóla er skólaskylda að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri, sbr. 32. gr. laganna. Eins og mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. er öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, skylt að sækja grunnskóla. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu nemenda til að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum þessum. Þá er í 14. gr. laganna er mælt fyrir um ábyrgð nemenda. Í 4. mgr. 14. gr. er mælt fyrir um það að á meðan mál samkvæmt 3. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólanefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.

Ráðuneytið fellst á það sjónarmið sem fram kemur í umsögn skóla D að kærendur hafi í máli þessu ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni með fullnægjandi hætti er þau sóttu um skólavist þar fyrir son sinn, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um grunnskóla og reglugerðar nr. 897/2009, sem og að samverkandi þættir hafi orðið til þess að endanleg úrlausn í máli C, er hann fékk inngöngu í skóla G, dróst eins og raun bar vitni. Fyrir liggur að á þeim tímapunkti er sótt var um skólavist fyrir C í skóla D lágu fyrir ítarlegri upplýsingar um drenginn, sem höfðu þýðingu hvað varðar umsókn hans um skólavist, aðlögun hans í skólann og þær ráðstafanir sem gera þyrfti með tilliti til sérþarfa hans, en sem kærendur veittu skólanum ekki samhliða umsókn þeirra um skólavist fyrir C.

Í gögnum máls þessa kemur fram að það kast er C fékk í framangreindu skólaferðalagi, er hann sýndi alvarlega og ofbeldisfulla hegðun gagnvart bæði samnemanda og starfsmönnum samkvæmt lýsingu á atburðinum í umsögn skólans, sem kærendur hafa ekki gert athugasemdir við, hafi leitt til þess að strax næsta dag hafi skólastjóri haft samband við kærendur og tjáð þeim að atvikið kallaði á nánari skoðun á því hvort og hvernig unnt væri fyrir drenginn að stunda nám við skólann í ljósi allra aðstæðna ef búast mætti við álíka köstum í skólanum. Tekur ráðuneytið undir það sjónarmið að við slíkar aðstæður beri skólastjórnendum jafnframt að taka réttmætt tillit til réttar annarra aðila skólasamfélagsins, þar með talið annarra nemenda, við úrlausn mála. Í kjölfar atburðarins hafi skólastjóri hafið umfangsmikla gagnaöflun ásamt því að kalla eftir ráðgjöf í málinu, eins og nánar er lýst í umsögn skólans. Verður ekki annað ráðið af framkomnum upplýsingum í málinu en að C hafi þannig í reynd ekki átt þess kost að stunda nám við skóla D í samtals fimm vikur frá þeim tíma, þó svo höfnun um skólavist hafi aldrei verið afdráttarlaus, eins og segir í umsögn skólans. Á grundvelli 4. mgr. 14. gr. bar skólastjóra skóla D hins vegar að taka skýra og afdráttarlausa stjórnvaldsákvörðun í máli C, að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga, svo kærendum gæti þannig verið réttarstaða sín ljós og notið um leið þeirra lögbundnu úrræða sem þeim eru tryggð lögum samkvæmt, óháð þeim misbresti er varð á upplýsingagjöf kærenda eins og áður hefur verið fjallað um. Verður því litið svo á að C hafi í reynd verið vísað úr skólanum á framangreindu tímabili án þess að ákvæða stjórnsýslulaga hafi verið gætt við þá brottvísun.

III.

Í 17. gr. sömu laga er fjallað um nemendur með sérþarfir og er þar mælt fyrir um í 1. mgr. að nemendur eigi rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar eiga nemendur, sem erfitt eiga með nám af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Reglugerð nr. 585/2010, með síðari breytingum, sem sett hefur verið með heimild í 17. gr. laga um grunnskóla, tekur til  nemenda með sérþarfir í grunnskóla. Þá er mælt fyrir um það í a) lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 585/2010 að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu reglugerðar hefur skólastjóri forgöngu um að skipuleggja stuðning í námi fyrir nemendur sem hefja nám og hafa sérþarfir samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar skal, við skipulag stuðnings við einstaka nemendur eða nemendahópa, stuðla að því að hann fari fram innan skólans án aðgreiningar. Þá er í aðalnámskrá grunnskóla, kafla 7.2 í almennum hluta frá 2011, kveðið á um jafnan rétt og tækifæri allra nemenda til að stunda nám í grunnskóla við sitt hæfi, óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Í kafla 7.3 er kveðið á um rétt allra nemenda til að stunda skyldunám í almennum grunnskólum án aðgreiningar, sem öll börn eiga rétt á að sækja.

Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla eiga þeir nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda rétt til sjúkrakennslu annað hvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags. Eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 585/2010, um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, á nemandi, sem að mati læknis getur ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda, rétt á sjúkrakennslu annað hvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á nemandi rétt á sjúkrakennslu um leið og hann að mati læknis getur lagt stund á nám og skal lengd daglegrar eða vikulegrar sjúkrakennslu miðast við ástand hans og þrek. Skólastjóri ákveður, í samráði við lækna og foreldra, umfang og nánara fyrirkomulag kennslunnar. Skólastjóri ber ábyrgð á því að viðeigandi sjúkrakennsla sé veitt og ber jafnframt ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár til lengri eða skemmri tíma þar sem tekið er mið af aðstæðum, veikindum og þörfum nemanda.

Í máli þessu liggur fyrir að C var án skólavistar í samtals fimm vikur frá því að fyrrgreindur atburður átti sér stað í skólaferðalagi skóla D og þar til hann hóf inngöngu í skóla G. Á þeim tíma naut C ekki sjúkrakennslu á grundvelli 3. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla og 23. gr. reglugerðar nr. 585/2010 þar sem mat læknis, sem áskilið er í framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, fékkst ekki fyrir sjúkrakennslunni. Þá er jafnframt ljóst að C naut heldur ekki heimakennslu á grundvelli 2. mgr. 46. gr. laga um grunnskóla og reglugerðar nr. 531/2009, um heimakennslu á grunnskólastigi, þar sem tilskild skilyrði og heimild sem framangreind laga- og reglugerðarákvæði áskilja voru ekki uppfyllt í máli þessu. Samkvæmt framansögðu verður því að líta svo á að C hafi verið fjarverandi frá skóla án lögmætra forfalla í þær fimm vikur sem áður greinir, án þess að hafa verið tryggt annað lögbundið kennsluúrræði meðan á brottvísuninni stóð.

Á grundvelli þess sem að framan er rakið verður því ekki litið öðruvísi á en svo að af hálfu skóla D hafi í reynd verið tekin ákvörðun um brottvísun C úr skólanum daginn eftir atburð þann er átti sér stað í skólaferðalagi skólans, þann í september 2016, og telst sú ákvörðun haldin verulegum annmörkum, eins og rökstutt hefur verið hér að framan. Á þeim forsendum verður ekki hjá því komist að fella þá ákvörðun úr gildi eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra skóla D um brottvísun C úr skólanum þann 2. september 2016, er felld úr gildi.

Fyrir hönd ráðherra


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum