Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 7/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 27. júní 2018
í máli nr. 7/2018:

Gísli Rafn Jónsson
gegn
Skútustaðahreppi,
Snow Dogs ehf. 

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. júní 2018 kærir Gísli Rafn Jónsson útboð sveitarfélagsins Skútustaðahrepps (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um skólaakstur fyrir Reykjahlíðarskóla í Skútustaðahreppi. Kærandi krefst þess að „felld verði niður ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að ganga að tilboði Snow Dogs ehf. í leið 2 samkvæmt útboðslýsingu og tilboð félagsins verði úrskurðað ógilt.“ Þá er þess jafnframt krafist að kærunefnd stöðvi samningsgerð um stundarsakir. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í apríl 2018 auglýsti Skútustaðahreppur útboð á skólaakstri fyrir Reykjahlíðarskóla. Í útboðsgögnum var óskað tilboða í tvær nánar tilgreindar akstursleiðir, leiðir 1 og 2. Gert var ráð fyrir samningsgerð um akstur til þriggja ára og að báðum aðilum yrði heimilt að segja samningnum upp á tímabilinu maí/júní ár hvert. Þá kom fram að tilboðum skyldi skilað á sérstökum tilboðseyðublöðum og heimilt væri að skila með tilboðum nánari skýringum á sérstöku blaði óskuðu bjóðendur þess. Kom fram að aksturinn byggði á reglum Skútustaðahrepps um skólaakstur í dreifbýli. Hinn 8. maí 2018 voru tilboð opnuð og bárust tilboð frá kæranda, sem bauð í báðar leiðir, Snow Dogs ehf., sem bauð einungis í leið 2, og Agli Freysteinssyni sem bauð einungis í leið 1. Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. maí 2018 var samþykkt að taka tilboði Egils Freysteinssonar í leið 1 og tilboði Snow Dogs ehf. í leið 2 þar sem tilboð þeirra hefðu verið lægst að fjárhæð. Var þó sá fyrirvari gerður að bjóðendurnir uppfylltu kröfur reglugerðar Skútustaðahrepps um skólaakstur í dreifbýli sem og reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi óskað eftir afriti af þeim tilboðum sem bárust í útboðinu og fengið þau send 28. maí 2018. Sama dag upplýsti kærandi varnaraðila að annað tilboðsblað í tilboði Snow Dogs ehf. hafi vantað en með tölvubréfi 30. maí 2018 staðfesti varnaraðili að kærandi hafi fengið öll gögn sem skilað hafi verið af hálfu bjóðenda.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að tilboð Snow Dogs ehf. í hinu kærða útboði hafi verið ógilt þar sem það hafi ekki verið í samræmi við útboðsgögn, sbr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Hafi fyrirtækið einungis skilað inn einu tilboðsblaði af tveimur í útboðinu. Þá uppfylli fyrirtækið ekki skilyrði útboðsgagna þar sem það hafi ekki yfir neinum bifreiðum að ráða sem nýta megi í verkið. Þá riti aðeins einn vottur undir tilboð fyrirtækisins en ekki tveir eins og áskilið hafi verið.

Niðurstaða

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu hefur varnaraðili upplýst að komist hafi á bindandi samningur á milli hans og Snow Dogs ehf. hinn 14. júní 2018 og hefur sá samningur verið lagður fyrir nefndina. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Gísla Rafns Jónssonar, um að útboð varnaraðila, Skútustaðahrepps um skólaakstur fyrir Reykjahlíðarskóla verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað. 

 

Reykjavík, 27. júní 2018

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum