Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Mál nr. 163/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 163/2016

Þriðjudaginn 6. desember 2016

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. apríl 2016, kærir B hdl., f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 29. janúar 2016, um að segja kæranda upp störfum hjá leikskólanum C.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hóf störf sem leikskólaleiðbeinandi á leikskólanum Cí Kópavogi þann 2. nóvember 2015. Með bréfi kærða, dags. 29. janúar 2016, var kæranda sagt upp störfum og var uppsagnarfrestur sagður einn mánuður í samræmi við ráðningarsamning frá 20. október 2015. Með tölvupósti þann 31. janúar 2016 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir uppsögninni og var hann veittur með tölvupósti þann 3. febrúar 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 27. apríl 2016 og með bréfi, dags. 29. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Kópavogsbæjar til málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 8. júní 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júní 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 4. júlí 2016, og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. ágúst 2016. Viðbótar- athugasemdir bárust frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 1. september 2016, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. september 2016. Viðbótar- athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 2016, og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi telur að henni hafi verið sagt upp störfum vegna þungunar þar sem hún hafi greint frá fylgikvillum meðgöngunnar og fyrri meðgöngu sinnar. Kærandi bendir á að skriflegur rökstuðningur hafi ekki fylgt uppsögninni heldur hafi hún þurft að óska sérstaklega eftir honum. Kærandi telur því að uppsögnin brjóti gegn 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Kærandi bendir á að vinnuveitandi beri sönnunarbyrði fyrir því að uppsögn sé af gildum ástæðum hafi starfsmaður tilkynnt um þungun. Í því sambandi skipti ekki máli hvort starfsmenn hafi verið fastráðnir, á reynslutíma eða með tímabundinn ráðningarsamning. Kærandi vísar til dóms Hæstaréttar nr. 61/2004 sem hafi fordæmisgildi fyrir mál hennar en að mati kæranda hafi Kópavogsbæ ekki tekist að sanna að uppsögnin sé af gildum ástæðum.

Kærandi vísar til þess að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um vinnusamband hennar og sveitarfélagsins en gera verði ríka kröfu til ríkis og sveitarfélaga um vandaða málsmeðferð. Ljóst sé að mikið hafi skort upp á að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið vönduð en ekki hafi verið fundið að störfum hennar fyrir uppsögnina.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að henni hafi vissulega verið ljóst að fyrstu þrír mánuðir í starfi væri reynslutími. Kærandi hafi orðið þunguð á reynslutímabilinu og sagt sínum yfirmönnum frá því. Lög nr. 95/2000 gildi því um uppsögn hennar úr starfi, þrátt fyrir að um reynslutímabil hafi verið að ræða. Tilgangur ákvæðis 30. gr. laganna sé meðal annars sá að vernda þungaðar konur gegn uppsögnum og koma í veg fyrir að starfsmönnum sé sagt upp af þeirri ástæðu. Vinnuveitandi beri ávallt sönnunarbyrðina fyrir því að gildar ástæður séu fyrir uppsögn þungaðs starfsmanns. Í því sambandi skipti engu máli hvort starfsmaður sé á reynslutímabili eða ekki.

Kærandi hafnar því að uppsagnarbréfið uppfylli þá skyldu vinnuveitanda að láta rökstuðning fylgja uppsögn líkt og skýrt sé kveðið á um í 30. gr. laga nr. 95/2000. Það að veita leiðbeiningar um að hægt sé að óska eftir rökstuðningi og að benda starfsmanni á að honum sé sagt upp á reynslutíma feli ekki í sér rökstuðning. Þá sé það ekki ígildi rökstuðnings að leikskólastjóri telji sig hafa verið búinn að fara munnlega yfir það með kæranda af hverju henni hafi verið sagt upp störfum.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar er greint frá því að í ráðningarsamningi á milli kæranda og sveitarfélagsins komi fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé einn mánuður á reynslutíma sem sé fyrstu þrír mánuðir í starfi. Kæranda hafi því mátt vera ljóst að hún hafi verið ráðin til reynslu fyrstu þrjá mánuðina í starfi. Í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands komi fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur á fyrstu þremur mánuðum, sem sé reynslutími, sé einn mánuður. Kærandi vísar til heimilda fyrir því að mikil áhersla sé lögð á að reynslutíminn sé vel nýttur til þess að unnt sé að máta starfsmann í nýtt starf og kanna hvort viðkomandi valdi starfinu faglega. Vinnuveitandi þurfi ekki að áminna starfsmann fyrir uppsögn og starfsmaður eigi ekki rétt á að tjá sig um ástæður uppsagnar á reynslutíma. Óski starfsmaður eftir rökstuðningi vegna uppsagnar nægi að tilgreina að uppsögnin hafi átt sér stað á reynslutíma ráðningarsamnings og að hún hafi verið í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest. Þannig sé gert ráð fyrir að vinnuveitandi geti ákveðið að framlengja ekki ráðningu og/eða veita ekki fastráðningu innan reynslutímans standist starfsmaður ekki væntingar sem gerðar séu til hans, án þess að frekari skilyrði þurfi að vera uppfyllt af hálfu vinnuveitanda.

Kópavogsbær tekur fram að það hafi verið mat leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra að kærandi hafi ekki verið hæf til að gegna starfi leikskólaleiðbeinanda og taka á sig þá ríku ábyrgð sem fylgi því að starfa á leikskóla. Af þeirri ástæðu hafi verið tekin sú ákvörðun að segja kæranda upp. Í uppsagnarbréfi frá 29. janúar 2016 sé uppsögnin rökstudd skriflega en þar komi skýrlega fram að kæranda hafi verið sagt upp á reynslutíma. Skriflegu rökin fyrir uppsögninni séu því þau að kærandi hafi verið í starfinu til reynslu og henni hafi verið sagt upp á þeim tíma. Í uppsagnarbréfinu sé einnig skýrlega vísað til réttarreglna og á hverju ákvörðunin byggi, þ.e. kjarasamningi og ráðningarsamningi kæranda. Leikskólastjóri hafi afhent kæranda uppsagnarbréfið í lok vinnudags þann 29. janúar 2016 og farið yfir það með henni af hverju hún hafi ekki verið metin hæf til að sinna starfi á leikskólanum. Því verði ekki fallist á að málsmeðferð hafi verið ábótavant í máli kæranda.

Kópavogsbær bendir á að ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000 hafi ekki að geyma skilyrðislaust bann við uppsögn þungaðra kvenna en heimilt sé að segja þeim upp séu gildar ástæður fyrir hendi. Kærandi hafi ekki valdið starfi sínu á reynslutíma og ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið til hennar á þeim tíma. Það mat hafi ekki verið byggt á því að kærandi væri þunguð heldur á heildstæðu mati á störfum hennar á reynslutíma. Það hafi verið mat þaulreyndra aðila, þ.e. leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra, deildarstjóra og annarra stjórnenda skólans, að hún hafi ekki ráðið við starfið og því mati hafi ekki verið hnekkt. Af þeim sökum sé það ekki einungis gild ástæða fyrir uppsögn heldur jafnframt þáttur í þeirri faglegu skyldu sem felist í því að halda uppi faglegu starfi á leikskólanum. Í því samhengi vísar kærandi til dóms Hæstaréttar nr. 257/2011.

Kópavogsbær ítrekar að hinn skriflegi rökstuðningur fyrir uppsögn kæranda hafi verið sá að hún hafi verið ráðin til reynslu og henni hafi verið sagt upp á þeim tíma. Þá hafi leikskólastjóri farið yfir ástæður uppsagnarinnar við uppsögnina sjálfa og útskýrt hvers vegna kærandi fengi ekki áframhaldandi ráðningu eftir reynslutíma. Það hafi verið gert til að koma í veg fyrir óþarfa særindi. Með vísan til alls framangreinds og þeirrar ríku ábyrgðar sem hvíli á sveitarfélögum og leikskólum samkvæmt lögum að gæta að hagsmunum barna á leikskólum með þeim hætti að hafa þar hæft starfsfólk að störfum hafi verið gildar ástæður fyrir uppsögn kæranda í skilningi 30. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að lögmæti uppsagnar kæranda úr starfi hjá leikskólanum C í Kópavogi. Kærandi hóf störf sem leikskólaleiðbeinandi þann 2. nóvember 2015. Í byrjun janúar 2016 tilkynnti kærandi vinnuveitanda sínum að hún væri barnshafandi. Kæranda var sagt upp störfum þann 29. janúar 2016.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs samkvæmt 9. eða 26. gr. eða sé í slíku orlofi. Frá þessu má þó víkja ef gildar ástæður eru fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 95/2000 segir um 30. gr. að tilgangur ákvæðisins sé að vernda starfsmenn sem lagt hafi fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða séu í fæðingar- eða foreldraorlofi, gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo sé ástatt um beri honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Slíkt ákvæði sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Óumdeilt er að kærandi hafði tilkynnt að hún væri barnshafandi þegar henni var sagt upp störfum. Í uppsagnarbréfi, dags. 29. janúar 2016, kemur fram að kæranda sé sagt upp störfum á reynslutíma og uppsagnarfrestur tilgreindur einn mánuður. Af hálfu Kópavogsbæjar hefur komið fram að það sé hinn skriflegi rökstuðningur í skilningi 30. gr. laga nr. 95/2000. Þá hafi leikskólastjóri farið yfir ástæður uppsagnarinnar munnlega þegar hún afhenti kæranda uppsagnarbréfið.

Eins og að framan greinir þá hafði kærandi sem var barnshafandi tilkynnt vinnuveitanda, þ.e. Kópavogsbæ um þungun sína. Í 30. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um að atvinnurekanda sé óheimilt að segja upp starfsmanni sem þannig er ástatt um, nema gildar ástæður séu fyrir hendi og þá skuli skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Í athugasemdum með frumvarpi framangreindra laga segir að til þess að ákvæðið nái tilgangi sínum sé nauðsynlegt að gert sé skylt að láta skriflegan rökstuðning fylgja uppsögn í þeim tilvikum sem greinir í ákvæðinu.

Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefndin ekki á þá afstöðu Kópavogsbæjar að í uppsagnarbréfinu sé að finna skriflegan rökstuðning. Í bréfinu eru engar ástæður færðar fyrir uppsögninni en munnlegar skýringar leikskólastjóra við afhendingu uppsagnarbréfsins koma ekki þess í stað. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 30. gr. laga nr. 95/2000 hafi ekki verið uppfyllt við uppsögn kæranda úr starfi hjá leikskólanum C. Kópavogsbær braut því gegn ákvæðinu við uppsögn kæranda þann 29. janúar 2016.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kópavogsbær braut gegn ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof við uppsögn A úr starfi leikskólaleiðbeinanda hjá sveitarfélaginu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir

formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum