Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 265/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 265/2015

Miðvikudaginn 23. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 21. júlí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. júlí 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 12. ágúst 2016.

Með bréfi 16. ágúst 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. ágúst 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 24. ágúst 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 22. september 2016. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 26. september 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 29. september 2016 tilkynnti embættið að það teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins. Viðbótar- athugasemdir og gögn bárust frá kæranda 29. september og 14. október 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1975. Hann er kvæntur og býr ásamt eiginkonu sinni og X börnum í eigin fasteign að B sem er 265,9 fermetra parhús með bílskúr. Kærandi og eiginkona hans eiga fasteignina að jöfnu.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. mars 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kæranda.

Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. ágúst 2013. Sú ákvörðun var í framhaldinu kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kærunefndin felldi ákvörðun umboðsmanns niður með úrskurði 5. nóvember 2015 og tók umboðsmaður skuldara málið til efnislegrar meðferðar á ný.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. júní 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldara beri að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann hafi þurft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 25. febrúar 2016. Þar hafi verið óskað eftir gögnum um hvað kærandi hefði lagt fyrir á um það bil fjögurra ára tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, eða frá 28. mars 2012. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður átt fund með kæranda. Komið hefði í ljós að kærandi hefði ekkert lagt til hliðar á tímabilinu en samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði hann átt að geta lagt fyrir alls 6.213.479 krónur.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 21. júní 2016 var honum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli bárust frá kæranda 5. júlí 2016.

Með bréfi til kæranda 8. júlí 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að greiðsluaðlögun verði lokið.

Kærandi vísar til 1. gr. lge. þar sem fram kemur að markmið laganna sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Kærandi kveðst hafa fengið greiðsluaðlögunarsamning árið 2009 í tíð eldri laga hjá Héraðsdómi [...]. Samningurinn hafi hljóðað upp á greiðsluaðlögun í fimm ár og hafi samningsskuldir átt að falla niður að öllu leyti í lok samningstíma. Kærandi kveður greiðslur sínar aldrei hafi brugðist og hafi hann meðal annars tekið út séreignarsparnað sinn til að tryggja skil á greiðslum. Í nóvember 2011 hafi kæranda verið sagt upp störfum. Þá hafi hann farið á fund kröfuhafa og lagt til að samningsgreiðslum yrði frestað þar til hann fengi starf að nýju. Þessu hafi Arion banki hf., einn kröfuhafa, hafnað. Af þeim sökum hafi kærandi þurft að sækja aftur um greiðsluaðlögun. Hann hafi ekki fengið að vita fyrr en síðar að þegar hann sótti um aftur hafi fyrri samningur sjálfkrafa fallið úr gildi. Enginn kröfuhafi hafi krafist riftunar á samningnum og honum sé enn þinglýst á fasteign kæranda. Sannarlega hafi kærandi aldrei klárað að greiða af samningnum en hann hafi engu um það ráðið, telji sig hreinlega fórnarlamb aðstæðna.

Eftir þetta hafi byrjað langt ferli með umsjónarmanni þar sem reynt hafi verið að setja upp nýjan samning. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi að lokum verið felldar niður en hann hafi kært niðurstöðuna til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Það ferli hafi tekið 27 mánuði og hljóti sá málsmeðferðartími að vera brot á málshraðareglu stjórnsýslulaga. Kærunefndin hafi á endanum tekið undir sjónarmið kæranda. Þá hafi ferlið hafist í þriðja skiptið, rétt rúmlega sjö árum eftir að fyrsta greiðsluaðlögunin var samþykkt. Þá hafi nýr kafli hafist í málinu. Nýr umsjónarmaður hafi byrjað á því að kalla eftir upplýsingum um hver sparnaður kæranda væri. Kærandi hafi lagt fram gögn til að skýra hvers vegna lítill sem enginn sparnaður lægi fyrir. Þar sem mikið hafi gerst á þessu langa tímabili væri ekki hægt að horfa á einhverja útreikninga og segja „svona eiga hlutirnir að vera“. Það verði að horfa á stóru myndina og fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi vilji láta skoða hvort lagaheimild hafi verið til þess að fella eldri samning úr gildi án þess að honum væri rift sérstaklega, en héraðsdómur hafi samþykkt þann samning á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Kærandi telur að sá samningur hafi alltaf verið í gildi og honum sé í raun lokið. Því telji hann eðlilegast og sanngjarnast að ljúka málinu þannig að farið sé eftir þeim samningi. Kærandi beri fyrir sig 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem segi: „Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hið sama á við um aðra löggerninga. Við mat samkvæmt 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.“ Kærandi telji að á grundvelli ákvæðisins skuli ávallt túlka samning neytanda í hag.

Kærandi vísar til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem segi að skuldara beri að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í lagaákvæðinu segi ekkert um það eftir hvaða framfærsluviðmiði skuli fara. Þegar horft sé á þá 27 mánuði sem beðið hafi verið eftir niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sé útilokað að gera ráð fyrir að kærandi hefði átt að lifa á þeim lágmarksframfærslukostnaði sem umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir allan þann tíma. Það sé mjög skýrt tekið fram í 8. gr. lge. að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu þar af leiðandi skammtímaviðmið þar sem nánast öllum útgjöldum heimilisins sé frestað í stuttan tíma. Þó svo að fram komi í lge. að miða eigi við þessi framfærsluviðmið í greiðsluaðlögun detti engum í hug að þeir sem samið hafi lögin hafi ætlast til að fólk lifði samkvæmt þessum viðmiðum í 27 mánuði, hvað þá lengur. Allan þann tíma hafi kærandi búið við mikla óvissu og í raun verið án almennra mannréttinda í nokkurs konar gæsluvarðhaldi. Ekkert megi gera án þess að skerða rétt kröfuhafa. Hver sé réttur einstaklingsins? Það sé kominn tími til þess að framfærsluviðmiðin séu rannsökuð nánar og stjórnvöldum beri í raun skylda til þess að komast að því hver sé raunverulegur framfærslukostnaður heimilanna svo að unnt sé að lögfesta raunframfærslukostnað og lágmarksframfærsluviðmið út frá þeim. Þessi krafa sé byggð á 25. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi gert töluverðar athugasemdir við starfsemi umboðsmanns skuldara og sent um þær erindi til velferðarnefndar Alþingis og velferðarráðuneytisins. Í svari sínu hafi embættið viðurkennt að margir einstaklingar hefðu lent í alvarlegum erfiðleikum vegna umsóknar um greiðslu-aðlögun, til að mynda þar sem vextir féllu á skuldir á meðan viðkomandi væri í greiðsluskjóli og málsmeðferðartími hafi verið langur. Embætti umboðsmanns skuldara hafi tekið undir þá skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þörf væri á heildarendurskoðun lge. í ljósi fenginnar reynslu. Nefndin vitni sérstaklega til 2. mgr. 11. gr. lge. og taki sérstaklega fram hvort æskilegt væri að gera breytingar á ákvæðinu og skýra það skuldara í hag.

Þar sem það liggi fyrir að lge. muni innan skamms verða endurskoðuð og sú vinna sé hafin í velferðarráðuneytinu, telur kærandi útilokað og í raun fráleitt að niðurstaða málsins verði miðuð við núgildandi lög.

Kærandi vísar til 34. gr. lge. sem mæli fyrir um að ráðherra setji reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Engin reglugerð hafi verið sett og spyr kærandi hvernig umboðsmaður skuldara geti tekið á málum með samræmdum hætti þegar starfsmenn embættisins hafi ekki samræmda leiðsögn af lögunum.

Að mati kæranda sé ekki lagaheimild til að nota það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara fari eftir. Í mörgum tilvikum sé í raun ekkert sem sé afgangs hjá fólki í lok mánaðar þegar það hafi séð sér og fjölskyldu sinni farborða.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 28. mars 2012 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 50 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. apríl 2012 til 31. maí 2016. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé lagt til grundvallar að mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar sé lagður saman. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Upplýsingar um laun kæranda byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, öðrum opinberum gögnum og skattframtölum og tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal barna- og vaxtabótum. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 2016 2015 2014 2013 2012 Tekjur alls
Launatekjur 2.481.493 5.561.539 5.217.472 5.122.158 3.277.089 21.659.751
Barna/vaxtabætur o.fl. 0 170.943 130.748 15.785 209.261 526.737
Samtals 2.481.493 5.732.482 5.348.220 5.137.943 3.486.350 22.186.488
Sparnaður 2016 2015 2014 2013 2012 Alls
Heildartekjur á árinu 2.481.493 5.732.482 5.348.220 5.137.943 3.486.350 22.186.488
Meðaltekjur á mán. 496.299 477.707 445.685 428.162 387.372
Framfærsluk. á mán. 231.868 231.868 231.868 231.868 231.868
Greiðslugeta á mán. 264.431 245.839 213.817 196.294 155.504
Áætlaður sparnaður 1.322.153 2.950.066 2.565.804 2.355.527 1.399.538 10.593.088

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 231.868 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt því sé miðað við helming framfærslukostnaðar júnímánaðar 2016 fyrir hjón/sambýlisfólk með X börn. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi verið með heildartekjur að fjárhæð 22.186.488 krónur á framangreindu tímabili og hefði átt að geta lagt fyrir 10.593.088 krónur á þeim tíma. Umsjónarmaður hafi dregið frá þeirri fjárhæð óvænt útgjöld vegna þakviðgerðar, viðgerðar á bifreið, lækniskostnaðar, o.fl., samkvæmt gögnum sem lögð hafi verið fram, samtals að fjárhæð 3.783.087 krónur. Í samræmi við þetta sé áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 6.353.176 krónur á tímabilinu. Kærandi eigi engan sparnað og hafi ekki lagt fram gögn um frekari útgjöld, þrátt fyrir ítrekaðar óskir umsjónarmanns þar að lútandi.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Skýringar kæranda varða aðeins hluta þeirrar fjárhæðar sem hann hefði átt að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Þannig verði að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem fallið hafi til umfram framfærslukostnað á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Með úrskurði Héraðsdóms [...] X. nóvember 2009 var beiðni kæranda um nauðasamning til greiðsluaðlögunar samþykkt. Beiðnin var veitt á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Greiðslur samkvæmt samningnum skyldu vera 30.000 krónur á mánuði í fimm ár. Kærandi telur að sá samningur hafi gilt allt til enda, eða til ársins 2014, þótt hann hafi aðeins greitt af samningnum í tvö ár og síðan fengið heimild til greiðsluaðlögunar 28. mars 2012.

Í 3. mgr. 7. gr. lge., sbr. 4. gr. laga nr. 135/2010, segir að hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun þegar skuldari hefur gildan nauðasamning til greiðsluaðlögunar, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr., falli nauðasamningur sjálfkrafa úr gildi. Í athugasemdum með 4. gr. laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og fleiri lögum nr. 135/2010 þar sem framangreint ákvæði kom inn í lge., segir að ákvæðinu sé ætlað að tryggja að þegar umboðsmaður skuldara heimili greiðsluaðlögun hjá einstaklingi sem fengið hefur staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar, sé ekki nauðsynlegt að ógilda slíkan samning fyrir dómi, enda sé slíkt ferli kostnaðarsamt og þungt í vöfum. Samþykki umboðsmaður greiðsluaðlögun í tilvikum sem þessum ógildi það sjálfkrafa nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt þessu féll nauðasamningurinn frá 2009 úr gildi þegar beiðni kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var samþykkt hjá Embætti umboðsmanns skuldara í mars 2012.

Kærandi telur það liggja fyrir að lge. muni innan skamms verða endurskoðuð og því telur hann útilokað og í raun fráleitt að niðurstaða málsins verði miðuð við núgildandi lög. Úrskurðarnefndin bendir á að það er ein af grundvallarreglum réttarríkisins að fara beri að gildandi lögum á hverjum tíma. Samkvæmt því verður leyst úr máli þessu á grundvelli lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. júní 2016 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður vísaði þar til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og taldi að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara þær niður 8. júlí 2016.

Að mati umboðsmanns skuldara vantaði 6.353.176 krónur upp á sparnað kæranda þegar hann hafði gert grein fyrir útgjöldum sínum eftir að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt, nánar tiltekið fyrir tímabilið 1. apríl 2012 til 31. maí 2016. Kærandi kveðst hafa þurft að greiða mikinn kostnað og hafi því ekki tekist að leggja til hliðar í samræmi við skyldur sínar. Auk þess telur hann að ekki sé lagaheimild til að nota það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara fari eftir.

Samkvæmt fyrirliggjandi álagningarseðlum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. apríl 2012 til 31. desember 2012: Níu mánuðir
Nettótekjur 3.277.089
Mánaðartekjur alls að meðaltali 364.121
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: Tólf mánuðir
Nettótekjur 5.122.158
Mánaðartekjur alls að meðaltali 426.847
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: Tólf mánuðir
Nettótekjur 5.217.472
Mánaðartekjur alls að meðaltali 434.789
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: Tólf mánuðir
Nettótekjur 5.561.539
Mánaðartekjur alls að meðaltali 463.462
Tímabilið 1. janúar 2016 til 31. maí 2016: Fimm mánuðir*
Nettótekjur 2.481.493
Mánaðartekjur alls að meðaltali 496.299
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 21.659.751

*Aðeins eru fyrirliggjandi gögn um tekjur 1. janúar til 31. maí 2016 þó að greiðsluskjól hafi staðið í sex mánuði á árinu eða til 30. júní.

Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara og tekjur kæranda var greiðslugeta hans þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. apríl 2012 til 31. maí 2016: 50 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 21.659.751
Bótagreiðslur 299.888
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 21.959.639
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 439.193
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 231.868
Greiðslugeta kæranda á mánuði 207.325
Alls sparnaður í 50 mánuði í greiðsluskjóli x 207.325 10.366.239

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 10.366.239 krónur á tímabilinu.

Kærandi álítur að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu skammtímaviðmið þar sem nánast öllum útgjöldum heimilisins sé frestað í stuttan tíma. Ekki hafi verið ætlast til þess að skuldarar lifðu samkvæmt þessum viðmiðum til lengri tíma Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærandi bendir á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en slíkir samningar fela að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Í málinu liggja fyrir eftirtaldar kvittanir:

Dags. Fjárhæð Greitt fyrir
25.10.2014 99.517 Þvottavél
24.7.2015 167.566 Bílaviðgerð
29.9.2015 3.488.199 Þakklæðing á fasteign
Samtals: 3.755.282

Enginn sparnaður er fyrir hendi hjá kæranda. Jafnvel þó að tekið yrði tillit til allra framangreindra útgjalda að fjárhæð 3.755.282 krónur vantar enn 6.610.957 krónur (10.366.239 – 3.755.282) upp á sparnað kæranda.

Þegar umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var samþykkt fékk hann sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum skuldara í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að skuldara bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem hann þyrfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Einnig fylgdi með skjal sem bar heitið. „Umsókn vegna greiðsluaðlögunar. Almennar upplýsingar.“ Þar var meðal annars yfirlit yfir tekjur, framfærslukostnað og þá fjárhæð sem kærandi hefði átt að hafa aflögu miðað við þáverandi forsendur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til framangreinds að honum hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Það hefur hann ekki gert í samræmi við þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt lagaákvæðinu, sbr. framangreinda útreikninga.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan hann naut greiðsluskjóls.

Loks álítur úrskurðarnefndin að ekki skipti máli fyrir niðurstöðu málsins þótt ráðherra hafi ekki sett reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt 34. gr. lge., en málsmeðferð umboðsmanns skuldara byggist bæði á stjórnsýslulögum og lge. og hefur ekki annað komið fram en að hún hafi verið í samræmi við ákvæði þeirra laga.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum