Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 269/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 269/2016

Miðvikudaginn 7. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 21. júlí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. júlí 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. ágúst 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. ágúst 2016. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 16. ágúst 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Gögn bárust frá kærendum 7. september 2016. Voru þau send umboðsmanni skuldara með bréfi 8. september 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 15. september 2016. Hún var send kærendum til kynningar með bréfi 19. september 2016 og þeim boðið að koma á framfæri athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1954 og 1955. Þau búa í eigin húsnæði að C.

Kærendur starfa hjá eigin félagi.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 25. júní 2016 eru heildarskuldir kærenda 43.595.762 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. mars 2015. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. júní 2015 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. maí 2016 lagði sá fyrrnefndi til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Í bréfinu kom fram að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hefði verið sent kröfuhöfum 8. október 2015. Í frumvarpinu hafi verið gert ráð fyrir 24 mánaða greiðsluaðlögunartímabili og að 90% samningskrafna yrðu felldar niður að því loknu. Mótmæli bárust frá Arion banka hf. en eftir samningaumleitanir umsjónarmanns og bankans hafi verið fallist á óbreytt greiðsluaðlögunartímabili en að engar samningskröfur yrðu gefnar eftir. Þegar komið hafi verið að undirritun samnings komu kærendur nýjum upplýsingum á framfæri við umsjónarmann um að talsverðar skuldir væru til staðar vegna lögveða en þær kröfur hefðu stofnast bæði fyrir og eftir að kærendur komust í greiðsluskjól. Umsjónarmaður hefði gefið kærendum kost á að greiða þær lögveðskröfur sem stofnað hefði verið til í greiðsluskjóli og greiddu kærendur þær. Þegar umsjónarmaður hefði farið að vinna við nýtt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun kom í ljós að kærendur hefðu einungis gefið upp til skatts tekjur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða að fjárhæð rúmlega 13.000 krónur frá september 2015. Kærendur hefðu ekki gefið upp tekjur frá fyrirtæki sínu D frá því að frumvarp þeirra var sent kröfuhöfum. Einnig hafi komið í ljós að á skattframtali vegna ársins 2015 hefðu kærendur aðeins gefið upp tekjur alls að fjárhæð 186.446 krónur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og höfðu þau því ekki talið fram til skatts allar tekjur sem fram komu í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra á árinu 2015. Með tölvupósti 19. apríl 2016 hefði umsjónarmaður gefið kærendum færi á að telja allar tekjur sínar fram, auk þess að leggja fram skýringar á því hvers vegna þær tekjur sem fram hefðu komið á staðgreiðsluskrá, hefðu ekki verið tilgreindar í skattframtali fyrir árið 2015. Ómögulegt væri fyrir umsjónarmann að gera frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings nema allar tekjur kærenda lægju fyrir. Með svari þeirra til umsjónarmanns 5. maí 2015 hafi þau greint frá því að tekjur þeirra kæmu ekki fram í fyrrnefndu skattframtali þar sem ekki hefði verið gengið frá skattframtali einkahlutafélags þeirra. Ætlunin hafi verið að leiðrétta skattframtalið eftir að framtali félagsins hefði verið skilað. Þá hafi komið fram af hálfu kærenda að tekjur þeirra í október, nóvember og desember 2015 yrðu örugglega í samræmi við tekjur þeirra mánuðina á undan. Umsjónarmaður hafi ítrekað við kærendur að upplýsingar um tekjur þyrftu að liggja fyrir og innti þau eftir því hvenær uppgjör félagsins lægi fyrir. Engin svör hafi borist frá kærendum.

Í ljósi þess er að framan greinir hafi það verið mat umsjónarmanns að fyrirliggjandi upplýsingar gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda. Með vísan til þess sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 13. júní 2016 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur svöruðu símleiðis.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júlí 2016 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn þættu ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra, samkvæmt 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir endurskoðun á þeirri ákvörðun að fella niður heimild þeirra til að leita eftir greiðsluaðlögun. Verður að skilja þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að þau hafi nú gert grein fyrir launum af eigin rekstri og lagt fram gögn þar um.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Eigi umsjónarmanni að reynast unnt að vinna frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun sé nauðsynlegt að upplýsingar um tekjur skuldara liggi fyrir. Kærendur séu launþegar í eigin félagi en kærandi B fái einnig um 13.000 krónur á mánuði eftir greiðslu skatta frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi launatekjur kærenda síðast verið taldar fram í september 2015. Kærandi B hafi gefið þá skýringu að rekstraruppgjöri fyrir félag kærenda vegna ársins 2015 væri enn ekki lokið. Því lægi ekki fyrir hvaða tekjur kærendur gætu reiknað sér í laun úr félaginu. Stærsti hluti tekna félagsins berist á haustmánuðum og hafi uppgjör undanfarinna ára verið unnið í októbermánuði næsta árs. Vegna sumarfrís endurskoðanda félagsins verði uppgjörinu ekki flýtt.

Af málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði að ákvörðun í stjórnsýslumáli skuli tekin svo fljótt sem unnt sé. Embætti umboðsmanns skuldara geti ekki annað en tekið mið af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum þegar ákvörðun sé tekin. Í máli þessu liggi ekki fyrir hverjar launatekjur kærenda séu.

Í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. er skylt að synja skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans. Þar sem upplýsingar um launatekjur kærenda skorti sé umsjónarmanni ógerlegt að meta greiðslugetu kærenda.

Samkvæmt framangreindu hafi greiðsluaðlögunarheimildir kærenda verið felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara 15. september 2016 kemur fram að við ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana hafi ekki legið fyrir staðfestar upplýsingar skattyfirvalda um launatekjur kærenda. Því hafi skort forsendur til að meta greiðslugetu þeirra. Í athugasemdum kærenda vegna greinargerðar umboðsmanns skuldara komi fram að þau hafi nú gert grein fyrir tekjum af eigin rekstri frá október 2015 til og með ágúst 2016. Á þeim grundvelli hafi kærendur óskað eftir endurskoðun á þeirri ákvörðun að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar.

Athugun umboðsmanns skuldara á tekjum kærenda samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi leitt í ljós að tekjur þeirra hafi verið taldar fram. Því séu ekki lengur til staðar þær aðstæður sem áður hafi leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana kærenda.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunar-umleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 8. júlí 2016 byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem kærendur hafi ekki talið fram tekjur sínar úr eigin félagi frá október 2015.

Fyrir úrskurðarnefndinni hafa kærendur lagt fram umbeðnar skilagreinar staðgreiðslu af launum D fyrir tímabilið október 2015 til ágúst 2016. Ekki eru því lengur til staðar þær aðstæður sem niðurfelling umboðsmanns skuldara var byggð á. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga, er samkvæmt framansögðu felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar, er felld úr gildi.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum