Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 423/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 423/2016

Miðvikudaginn 16. nóvember 2016

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni

B lögfræðingi

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 27. október 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 10. október 2016, þar sem umsjónarmaður mælti gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi tók á móti ákvörðun umsjónarmanns 14. október 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. febrúar 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þann 22. febrúar 2013 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans. Umsjónarmaður sendi málið til baka til umboðsmanns skuldara í niðurfellingarferli 4. júní 2013 og í kjölfarið felldi umboðsmaður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Í ljósi nýrra gagna, sem fram komu við meðferð málsins fyrir kærunefndinni, ákvað umboðsmaður skuldara 5. janúar 2016 að afturkalla fyrri ákvörðun sína. Málið var því tekið til vinnslu á ný. Þrír umsjónarmenn hafa komið að greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda en núverandi umsjónarmaður var skipaður 19. maí 2016.

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið sent kröfuhöfum 30. ágúst 2016. Andmæli við frumvarpinu hafi borist frá Landsbankanum hf. Bankinn hafi meðal annars óskað eftir skýringum á þeim fjármunum sem komið hafi inn á bankareikning kæranda með tilliti til sparnaðar hans á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærandi hafi fengið 9.947.796 krónur greiddar inn á bankareikning sinn frá 26. júní 2015 til 13. september 2016. Einnig hafi Arion banki hf. mótmælt frumvarpinu vegna lítils sparnaðar kæranda. Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um mótmælin og gefið honum kost á að útskýra þann mun sem virtist vera á þeim tekjum sem legið hafi fyrir að hann hefði við vinnslu málsins og þeim peningum sem hann hefði fengið greidda inn á bankareikninga sína. Kærandi hafi látið í té skýringar fyrir sitt leyti. Eftir frekari samskipti við kæranda hafi umsjónarmaður tilkynnt honum 29. september 2016 að samningar samkvæmt IV. kafla lge. myndu ekki takast. Kærandi hafi aðspurður greint umsjónarmanni frá því 6. október 2016 að hann vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í kjölfar skoðunar málsins taldi umsjónarmaður sig ekki geta mælt með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 18. gr. lge kæmist á og tilkynnti hann kæranda um þá ákvörðun sína að mæla gegn slíkum samningi með bréfi 10. október 2016.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mæla skuli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignakrafa komist á skuli meðal annars litið til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafi látið málið til sín taka.

Kærandi sé þinglýstur eigandi fasteignarinnar að C, en fasteignamat eignarinnar sé 17.200.000 krónur vegna ársins 2016. Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun sé gert ráð fyrir því að verðmæti eignarinnar sé 2.000.000 króna en það sé í samræmi við verðmat fasteignasala sem unnið hafi verið á eigninni árið 2015 að beiðni kæranda. Samkvæmt verðmatinu sé eignin í núverandi ástandi óseljanleg sem íbúðarhúsnæði.

Kærandi búi ásamt eiginkonu sinni og X börnum þeirra í fyrrnefndu húsnæði. Hann eigi X önnur börn sem dvelji hjá honum aðra hvora helgi og sé honum skylt að greiða meðlag með X þeirra. Heildarkröfur á hendur kæranda séu 50.252.094 krónur. Þær skiptist þannig að 4.128.417 krónur séu utan greiðsluaðlögunar, 41.927.556 krónur séu veðkröfur á fasteign kæranda og 4.167.758 krónur séu samningskröfur. Tekjur kæranda séu alls 354.860 krónur á mánuði vegna örorkulífeyris frá Tryggingastofnun, greiðslna frá lífeyrissjóðum, barnabóta og barnalífeyris. Áætlaður framfærslukostnaður kæranda sé 274.943 krónur á mánuði miðað við að hann greiði helming framfærslukostnaðar á móti eiginkonu sinni og þurfi að greiða útgjöld vegna þeirra barna sem dvelja hjá honum aðra hvora helgi. Greiðslugeta hans sé samkvæmt því 79.917 krónur á mánuði.

Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda hafi verið gert ráð fyrir að sparnaður hans væri 670.000 krónur. Sú fjárhæð hafi byggst á því að kærandi myndi leggja til hliðar 460.358 krónur sem hann hefði fengið greiddar við álagningu opinberra gjalda 1. júlí 2016, auk þeirrar fjárhæðar sem kærandi ætti aflögu eftir að hafa greitt framfærslukostnað frá júlí til september 2016. Kærandi hafi greint umsjónarmanni frá því að hann hefði tekið 600.000 krónur af því sem hann hefði fengið greitt við álagningu inn á reikning sinn 30. júní 2016 og látið í umslag til að eiga fyrir eingreiðslu við upphaf greiðsluaðlögunartímabils. Kærandi kveðst þarna hafa sparað 650.000 krónur. Samkvæmt framangreindu hafi kærandi ekki lagt til hliðar sem nemi greiðslugetu sinni síðustu mánuði. Kærandi hafi því ekki staðið við skyldu til sparnaðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmanni sé ómögulegt að áætla hversu mikið kærandi hefði átt að leggja fyrir þar sem tekjur hans samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virtust ekki endurspegla raunverulegar tekjur hans miðað við veltu á bankareikningum.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. megi skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Kærandi hafi fengið greiddar 2.735.741 krónu inn á reikning sinn hjá Landsbankanum hf. 30. júní 2016. Greiðslan hafi komið frá D. Af þessu fé hafi kærandi greitt 2.206.365 krónur til einstaklinga sem að eigin sögn hafi aðstoðað hann við að koma félaginu á fót árið 2011. Að mati umsjónarmanns brjóti þessi ráðstöfun kæranda í bága við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skuli umsjónarmaður einnig líta til þess hvort skuldari hafi að öðru leyti staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður og kærandi hafi verið í tölvupóstsamskiptum frá 16. júní til 30. ágúst 2016 um gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar. Þar hafi verið farið vel yfir tekjur, framfærslukostnað, greiðslugetu kæranda og fjárhæð sparnaðar. Kæranda hefði verið í lófa lagið að upplýsa umsjónarmann um greiðsluna frá D. 30. júní 2016 en það hafi hann ekki gert. Þá hafi kærandi fengið fleiri greiðslur inn á reikning sinn hjá Landsbankanum hf. á meðan mál hans var til vinnslu hjá umsjónarmanni en hann hafi heldur ekki upplýst um þær. Þessar greiðslur hafi hann fengið helstar en fjárhæðir eru taldar í krónum:

Dagsetning Fjárhæð Greiðandi Skýring
12.9.2016 350.000 "F"
23.6.2016 250.000 E
18.5.2016 500.000
27.4.2016 650.000 "G"
15.4.2016 100.000 "H"
8.4.2016 332.675 J
10.2.2016 229.550 K.
9.12.2015 100.000

Að mati umsjónarmanns geti ofangreindar færslur ekki flokkast sem óverulegar fjárhæðir vegna smáhlutabrasks svo sem kærandi haldi fram. Í því ljósi sé það mat umsjónarmanns að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Yrði mælt með því að tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmist á fyrir kæranda þar sem lögð væri til 100% eftirgjöf á samningskröfum, myndu eftir sem áður hvíla á kæranda þær kröfur sem misst hefðu veðréttindi samkvæmt 12. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna nr. 50/2009. Á fasteign kæranda hvíli þrjár kröfur; tvær frá Íbúðalánasjóði samtals að fjárhæð 30.235.809 krónur og ein frá Landsbankanum hf. að fjárhæð 10.668.833 krónur. Við afmáningu veðs samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009 myndi fara um eftirstæðar kröfur frá Íbúðalánasjóði eftir reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hefðu veðtryggingu nr. 359/2010. Kærandi myndi því ekki þurfa að standa undir greiðslum þeirra krafna. Á hinn bóginn myndi krafa Landsbankans hf., sem líklega myndi glata veðtryggingu, enn hvíla á kæranda að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna lokinni. Auk þess hvíli á kæranda krafa frá Innheimtustofnun sveitarfélaga að fjárhæð 4.037.231 króna en sú krafa standi utan greiðsluaðlögunar. Greiðslugeta kæranda sé sem áður segi 79.917 krónur á mánuði. Eins og fram hafi komið í símtali kæranda og umsjónarmanns 23. september 2016 hafi kærandi talið áætlaðan framfærslukostnað of lágan. Megi því draga í efa að greiðslugeta hans sé svo mikil. Sé miðað við að verðmat fasteignar kæranda sé óbreytt, eða 2.000.000 króna, myndi afborgun af láni Íbúðalánasjóðs innan verðmats eignar vera 9.682 krónur á mánuði. Með vísan til ástands eignarinnar liggi fyrir að kærandi muni þurfa að leggja út mikla fjármuni til að geta haldið eigninni íbúðarhæfri. Að sögn kæranda séu litlar líkur á að hann fari aftur út á vinnumarkað í fyrirsjáanlegri framtíð. Tekjur eiginkonu kæranda hafi verið stopular og að sögn kæranda ríki nokkur óvissa um hverjar framtíðartekjur hennar verði. Að mati umsjónarmanns sé óraunhæft að gera ráð fyrir því að kærandi geti staðið í skilum með afborganir af 10.886.833 króna kröfu Landsbankans, auk þess að greiða af kröfu Íbúðalánasjóðs innan matsverðs fasteignar, kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga og enn fremur að sjá um viðhald eignarinnar. Markmiðum 1. mgr. 1. gr. lge. yrði því ekki náð væri mælt með því að tímabundin greiðsluaðlögun fasteigna-veðkrafna og nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmust á.

Við mat á því hvort heimilt sé að mæla með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, beri umsjónarmanni að líta til framkominna andmæla kröfuhafa. Umsjónarmaður geti ekki litið fram hjá þeim andmælum sem kröfuhafar hafi fært fram. Fyrir hafi legið að samningar myndu ekki nást.

Með vísan til framangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi telur rök umsjónarmanns byggð á lítt útfærðum gögnum og takmarkaðri eftirgrennslan. Einnig séu í ákvörðuninni þó nokkrar rangfærslur. Kærandi rökstyður þetta ekki nánar.

Í kæru kemur fram að frekari gögn og upplýsingar frá kæranda verði send innan tveggja vikna. Engin gögn bárust.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umsjónarmanns er byggð á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Umsjónarmaður skal þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka.

Í fyrirliggjandi gögnum sér þess ekki stað að umsjónarmaður hafi berum orðum gefið kæranda kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda lánardrottna svo sem honum bar að gera. Umsjónarmaður sendi kæranda á hinn bóginn tölvupóst 29. september 2016 þar sem 1. mgr. 18. gr. lge. er rakin. Umsjónarmaður beindi einnig ýmsum fyrirspurnum til kæranda í tilefni af athugasemdum kröfuhafa, sbr. tölvupóst 22. september 2016. Svör kæranda voru meðal annars þess efnis að innborganir á reikning hans mætti að einhverju leyti skýra með „smáhlutabraski“ og milligöngu hans um[...]. Kærandi lagði ekki fram gögn þessum fullyrðingum til staðfestingar og ekkert í fyrirliggjandi gögnum styður þessa frásögn kæranda. Í ljósi þessa verður að líta svo á að kæranda hafi í raun verið gefið tækifæri til að endurskoða fyrirliggjandi frumvarp með hliðsjón af athugasemdum kröfuhafa en kosið að gera það ekki.

Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á þar sem kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum um að leggja fé til hliðar samkvæmt 12. gr. lge., en samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun var gert ráð fyrir að kærandi legði til hliðar 670.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls eða frá 19. febrúar 2013 til 30. ágúst 2016. Á þeim tíma er frumvarpið var gert voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda 354.860 krónur og greiðslugeta hans að meðaltali 79.917 krónur. Við mat á þeirri fjárhæð var tekið tillit til skýringa kæranda um aukin útgjöld á tímabili greiðsluskjóls. Síðar kom í ljós að greiddar voru alls 9.947.796 krónur inn á bankareikning kæranda hjá Landsbankanum hf. frá desember 2015 til september 2016. Umsjónarmaður taldi samkvæmt þessu ómögulegt að áætla hversu mikið kærandi hefði átt að leggja fyrir þar sem tekjur hans miðað við veltu á bankareikningum virtust ekki endurspegla raunverulegar tekjur hans.

Samkvæmt fyrirliggjandi bankayfirliti frá Landsbankanum hf. fékk kærandi greiddar inn á reikning sinn hjá bankanum greiðslur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun. Einnig fékk hann greiðslur frá einstaklingum og fyrirtækjum á tímabilinu desember 2015 til september 2016. Neðangreind tafla sýnir þær greiðslur frá einstaklingum og fyrirtækjum sem voru hærri 50.000 krónur:

Dagsetning Fjárhæð
9.12.2015 100.000
10.2.2016 229.550
15.2.2016 60.000
8.4.2016 332.675
15.4.2016 100.000
27.4.2016 650.000
18.5.2016 500.000
23.6.2016 250.000
30.6.2016 2.735.741
12.9.2016 350.000
Samtals: 5.307.966

Á tímabilinu desember 2015 til júlí 2016 greiddi kærandi neðangreindar fjárhæðir út af sama bankareikningi, til einstaklinga og fyrirtækja en aðeins eru taldar fjárhæðir sem eru yfir 50.000 krónum:

Dagsetning Fjárhæð
11.12.2015 100.000
10.2.2016 170.000
27.4.2016 150.972
27.4.2016 193.029
18.5.2016 57.482
1.7.2016 135.000
1.7.2016 500.000
1.7.2016 410.361
1.7.2016 250.000
Samtals: 1.966.844

Kærandi hefur að mati úrskurðarnefndarinnar ekki gefið viðhlítandi skýringar á ofangreindum inn- og útborgunum af bankareikningi sínum en eins og áður er rakið kvað hann að fyrrnefndar greiðslur mætti að einhverju leyti skýra með „smáhlutabraski“ og milligöngu hans um [...]. Þessar skýringar eiga sér ekki stoð í gögnum málsins og verður því ekki tekið tillit til þeirra við úrlausn málsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings er sparnaður kæranda 670.000 krónur. Sú fjárhæð samsvarar því sem gert er ráð fyrir að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar af launum sínum í rúmlega átta mánuði eftir að hafa staðið straum af framfærslukostnaði. Samkvæmt fyrrgreindum reikningsyfirlitum hafði kærandi umtalsverða fjármuni til ráðstöfunar umfram launatekjur sínar á níu mánaða tímabili frá desember 2015 til september 2016 en þessa fjármuni bar honum að leggja til hliðar. Nefnd reikningsyfirlit og málatilbúnað kæranda verður að skilja á þann veg að hann hafi ekkert lagt til hliðar af þessum peningum. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Þá bendir sú framganga kæranda að greina umsjónarmanni hvorki frá þeim greiðslum sem hann fékk inn á bankareikninga sína né þeim greiðslum sem hann greiddi til annarra aðila til þess að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunar-umleitanir.

Umsjónarmaður byggir ákvörðun sína einnig á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem segir að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Eins og komið er fram greiddi kærandi einstaklingum og fyrirtækjum töluverðar fjárhæðir af bankareikningi sínum hjá Landsbankanum hf. á tímabilinu desember 2015 til júlí 2016. Með þessu braut hann gegn ákvæðum c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjármunirnir hefðu ella gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Þá byggist ákvörðun umsjónarmanns á því að telja verði óraunhæft að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Eins og mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að byggja á þessu við úrlausn málsins.

Með vísan til þess sem komið hefur fram er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda, samkvæmt 18. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, lögfræðings, um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna A, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum