Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 253/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 253/2017

Föstudaginn 8. september 2017

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. júlí 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar frá 9. maí 2017 um synjun á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Árborg með umsókn, dags. 20. febrúar 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði 3. tölul. a-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir í sveitarfélaginu. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til félagsmálanefndar Árborgar sem tók málið fyrir á fundi 9. maí 2017 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með kæru, dags. 3. júlí 2017. Með bréfi, dags. 10. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar vegna kærunnar. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 20. júlí 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um undanþágu frá skilyrði um skráð lögheimili vegna aðstæðna sinna en hún sé búsett í dreifbýli í óöruggu leiguhúsnæði. Vegna veikinda sinna og tómstunda barna hennar á B sé mun öruggara fyrir hana að vera búsett þar. Kærandi tekur fram að það sé mjög erfitt að kljást við veikindi og þurfa á sama tíma að hafa áhyggjur af því að verða húsnæðislaus. Kærandi hafi leitað að húsnæði á B, C og í D í tæplega tvö ár en án árangurs. Hún sé orðin ráðþrota með hugmyndir um hvað hún geti gert til að komast í húsnæði sem henti henni með tilliti til alls og því hafi hún sótt um félagslegt húsnæði hjá Árborg sem síðasta úrræði. Kærandi vísar til 45. og 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga til stuðnings kæru sinni.

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar kemur fram að ákvörðun um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið byggð á þeirri staðreynd að kærandi sé ekki með skráð lögheimili í sveitarfélaginu. Reglur sveitarfélagsins séu skýrar hvað það varði en einnig sé kveðið á um í 4. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga að sveitarfélög beri ábyrgð á félagsþjónustu innan sinna marka. Sveitarfélagið vísar einnig til 12. laganna þar sem fram kemur að það skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum sem og 1. mgr. 13. gr. þar sem áréttað sé að með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Ótvírætt sé að kærandi eigi því ekki rétt á félagslegu leiguhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Árborg.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Með íbúa sveitarfélags er í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir í Sveitarfélaginu Árborg kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra aðstæðna. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir úthlutun og leigurétti og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–c-liðum ákvæðisins.

Í 3. tölul. a-liðar 4. gr. framangreindra reglna er gert að skilyrði að umsækjandi hafi átt lögheimili samfellt í sveitarfélaginu síðastliðin tvö ár áður en umsókn er móttekin. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllti kærandi ekki það skilyrði þar sem hún átti lögheimili í öðru sveitarfélagi. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþáguheimildir vegna félagslegra leiguíbúða. Þar segir að heimilt sé að víkja frá skilyrði 3. tölul. a- liðar 4. gr. um búsetu hafi umsækjandi, sem búið hefur stóran hluta ævi sinnar í sveitarfélaginu, búið tímabundið utan sveitarfélagsins vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að aðstæður kæranda séu með þeim hætti. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að framangreint undanþáguákvæði eigi ekki við í málinu. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar frá 9. maí 2017 um synjun á umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum