Hoppa yfir valmynd

Lotna ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu um að svipta Margéti ÍS 147 (2340) úthlutun byggðakvóta á móti þeim afla sem landað var hjá Lotnu ehf. en var ekki unninn í fiskvinnslu fyrirtækisins heldur fluttur óunninn frá byggðarlaginu

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá CATO Lögmönnum ehf., Sigmundi Hannessyni, hrl. f.h. Lotnu ehf., dags. 27. nóvember 2013, sem barst ráðuneytinu 29. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013, um afturköllun úthlutunar af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til skipsins Margrétar ÍS-147, skipaskrárnúmer 2340 á móti þeim afla sem landað var hjá Lotnu ehf. en ekki var unninn í fiskvinnslu fyrirtækisins heldur fluttur óunninn frá byggðarlaginu.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013, um afturköllun úthlutunar af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til skipsins Margrétar ÍS-147 (2340) á móti þeim afla sem landað var hjá Lotnu ehf. en ekki var unninn í fiskvinnslu fyrirtækisins heldur fluttur óunninn frá byggðarlaginu.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 15. febrúar 2013, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 16. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 í Ísafjarðarbæ, m.a. á Flateyri, en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og 5. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2013. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 662 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 629/2012, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2012/2013, sem skiptust á byggðarlögin Hnífsdal, 181 þorskígildistonn, Þingeyri, 74 þorskígildistonn, Flateyri, 300 þorskígildistonn og Suðureyri, 107 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 19. október 2012.

Kærandi sótti um úthlutun byggðakvóta fyrir skipið Margréti með umsókn til Fiskistofu, dags. 17. febrúar 2013, en Lotna ehf. hafði tekið skipið á leigu af öðru félagi með leigusamningi, dags. 1. september 2012. Einnig sótti kærandi um úthlutun byggðakvóta fyrir skipin Kristbjörgu ÍS-177 (2338) og Unu ÍS-127 (239) sem félagið hafði einnig tekið á leigu af öðrum félögum, með umsóknum, dags. sama dag. Með öllum umsóknunum fylgdu samningar um vinnslu aflans á Flateyri hjá Lotnu ehf. sem vinnsluaðila, dags. 28. janúar 2013.

Hinn 6. mars 2013 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðaraðilum á Flateyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að skipinu Margréti yrði úthlutað 42.251 þorskígildiskílóum. Jafnframt var kæranda tilkynnt að úthlutað yrði til skipanna Kristbjargar, 54.485 þorskígildiskílóum og Unu, 34.426 þorskígildiskílóum. Skiptingin kom fram á yfirlitsblaði sem fylgdi ákvörðununum.

Einnig kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.

Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að úthlutun fari ekki fram fyrr en að kærufresti liðnum og að því tilskildu að skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 hafi verið uppfyllt.

Með tölvubréfi frá 27. mars 2013 óskaði Lotna ehf. eftir að byggðakvóti Kristbjargar og Unu yrði fluttur yfir á Margréti.

Með tölvubréfi frá 27. mars 2013 til Fiskistofu samþykkti ráðuneytið framangreinda beiðni Lotnu ehf. um flutning aflamarks að uppfylltum skilyrðum en samkvæmt því væri heimilt að aflamark byggðakvóta vegna þessara þriggja skipa yrði afhent á skipið Margréti eftir því sem skipin samtals uppfylltu skilyrði til afhendingar byggðakvótans.

Úthlutun framangreinds byggðakvóta til skipanna fór fram í nokkrum áföngum með bréfum, dags. 27. mars, 11. apríl, 3. maí, 19. júní og 9., 22. og 24. júlí 2013.

Með bréfi, dags. 30. júlí 2013, tilkynnti Fiskistofa kæranda að stofnunin hafi gögn sem gefi sterka vísbendingu um að afli sem landað hafi verið á Flateyri og lagður hafi verið til grundvallar við úthlutun byggðakvóta til skipsins hafi ekki verið unninn á Flateyri líkt og skylt sé og kom þar fram tiltekinn rökstuðningur um málið auk þess sem vísað var til tiltekinna gagna. Þá sagði í bréfinu að í ljósi þess að vel rökstuddur grunur væri um að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans og að yfirlýsingar aðila um vinnslu afla hafi verið rangar væri afturkölluð úthlutun byggðakvóta Margrétar á meðan málið væri til skoðunar. Með vísan til þess hafi aflaheimildirnar verið bakfærðar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þær verði nýttar frekar. Þar sem aflaheimildum sem hefði átt að úthluta á Kristbjörgu og Unu hafi verið úthlutað til Margrétar væru einnig bakfærðar millifærslur aflaheimilda til þeirra af Margréti.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir, sbr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi Fiskistofu, dags. 2. ágúst 2013, var kæranda greint frá frekari skoðun Fiskistofu á málinu og áformum um að afturkalla varanlega umrædda úthlutun byggðakvótans. Það var rökstutt með sama hætti og vísað til sömu gagna og í framangreindu bréfi, dags. 30. júlí 2013. Áður en ákvörðun verði tekin um það efni væri kæranda gefinn kostur á að koma skriflegum mótmælum, skýringum eða athugasemdum á framfæri við Fiskistofu.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2013, sendu CATO Lögmenn ehf., Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. kæranda athugasemdir til Fiskistofu. Þar segir m.a. að Lotna ehf. sé útgerðaraðili/leigutaki skipsins Margrétar og fiskverkandi en ekki eigandi skipsins. Kærandi telji að ekki hafi verið brotið gegn samningum Lotnu ehf. um löndun afla til vinnslu í byggðarlaginu en ef það komi í ljós að ekki hafi verið staðið rétt að málum varðandi vinnslu aflans verði Lotna ehf. að svara fyrir það en ekki eigandi skipsins. Eigandi Margrétar sé ekki aðili að samningum þessum. Ekki liggi fyrir staðfestar upplýsingar um rétta skráningu afla, á hafnarvog, til löndunar úr byggðakvóta skipsins. Kærandi telji að bæði sá hluti afla sem landað hafi verið á Flateyri og unninn hafi verið af kæranda á staðnum og afli sem hafi verið komið til vinnslu til annarra fiskverkenda í byggðarlaginu liggi til grundvallar útreiknuðum byggðakvóta skipsins. Kærandi sé að afla frekari upplýsinga um ráðstöfun afla sem félagið hafi tekið til vinnslu, þ.á.m. ráðstöfunarskýrslna sem áformað sé að skila um mánaðamótin ágúst/september 2013. Einnig telji kærandi að til að jafnræðis sé gætt sé nauðsynlegt að Fiskistofa skoði afla annarra skipa í byggðarlaginu Flateyri, þ.e. hvernig aflanum hafi verið ráðstafað og hvar landaður afli sem veiddur hafi verið úr úthlutuðum byggðakvóta hafi verið verkaður. Ennfremur telji kærandi að Fiskistofa hafi ekki lögformlega heimild til að svipta Margréti úthlutuðum byggðakvóta en stofnunin geti ekki einhliða tekið aftur ákvörðun sína um úthlutaðan byggðakvóta, m.a. í þessu tilviki byggðakvóta sem færður hafi verið á skipið af öðrum skipum, án samráðs og samþykkis eiganda skipsins. Þá sé búið að veiða úthlutaðan byggðakvóta og landa aflanum. Fiskistofa geti leiðrétt og/eða tekið til endurskoðunar skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til Margrétar við næstu úthlutun byggðakvóta en ekki svipt skipið þegar úthlutuðum byggðakvóta. Loks geri kærandi fyrirvara við útreikninga Fiskistofu í málinu. Með vísan til framanritaðs sé mótmælt áformum Fiskistofu um varanlega afturköllun úthlutunar byggðakvóta til Margrétar og þess krafist að Fiskistofa dragi til baka ákvörðun sína á meðan málið sé í skoðun og viðbótarupplýsinga aflað.

Með bréfi, dags. 5. september 2013, tók Fiskistofa ákvörðun um að afturkalla varanlega úthlutun hluta af byggðakvóta Margrétar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Þar segir m.a. að eitt af skilyrðum úthlutunar byggðakvóta sé að fiskiskip landi til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012. Úthlutun byggðakvóta skuli ekki fara fram nema að því leyti sem skilyrði um vinnslu afla sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Eigandi fiskiskips skuli gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verði til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem fram komi að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skuli bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar. Úthlutun byggðakvóta fari fram á grundvelli vigtarnóta sem borist hafi Fiskistofu og skuli úthlutun ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt. Hjá Fiskistofu liggi fyrir samningar um vinnslu byggðakvóta, dags. 28. janúar 2013, þar sem Lotna ehf., sem útgerðar- og vinnsluaðili, skuldbindi sig til þess að allur afli af skipunum Margréti, Kristbjörgu og Unu fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 sem landað sé á Flateyri verði unninn þar í fiskvinnslu Lotnu ehf. Á grundvelli þessara samninga og upplýsinga sem komu fram á hafnarvigtarnótum um að afli komi á móti byggðakvóta hafi Fiskistofa úthlutað Margréti byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, samtals 109.368 kg í þorskígildum talið. Í júlí 2013 hafi Fiskistofu borist ábendingar og gögn sem sýndu að hluti þess afla sem umrædd skip hafi landað sem afla á móti byggðakvóta á Flateyri hafi verið sendur þaðan óunninn og að skilyrði úthlutunar byggðakvóta hafi því ekki verið uppfyllt. Fiskistofa hafi í kjölfarið aflað gagna frá flutningafyrirtækjunum Eimskip flytjanda og Landflutningum Samskipa sem sýni flutninga á afla fyrir Lotnu ehf. á fiskveiðiárinu 2012/2013 og einnig yfirlitslista frá Reiknistofu fiskmarkaða um afla Lotnu ehf. sem seldur hafi verið á fiskmarkaði á sama tímabili. Auk þessa liggi fyrir yfirlýsingar frá eftirlitsmönnum Fiskistofu, starfsmanni Landflutninga Samskipa og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um að tiltekinn afli Margrétar hafi ekki verið unninn á Flateyri heldur seldur áfram óunninn. Starfsmaður Landflutninga Samskipa hafi staðfest að einungis ísaður afli hafi verið fluttur fyrir Lotnu ehf. í júní og júlí 2013. Einnig hafi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar rætt við starfsmann Lotnu ehf. sem hafi staðfest að a.m.k. hluti þess afla sem hafi komið á móti byggðakvóta hafi einungis verið slægður hjá fyrirtækinu. Auk þessa hafi fyrirsvarsmaður Lotnu ehf. staðfest í samtölum við starfsmenn Fiskistofu að hluti aflans hafi farið frá Lotnu ehf. óunninn. Fiskistofa hafi borið vörufylgibréf flutningsaðila og yfirlitslista Reiknistofu fiskmarkaða saman við afla sem tilkynntur hafi verið við vigtun á hafnarvog sem afli á móti byggðakvóta. Niðurstaða rannsóknar Fiskistofu sé sú að hluti þess afla sem tilkynntur hafi verið við vigtun á hafnarvog sem afli á móti byggðakvóta hafi verið fluttur óunninn frá Flateyri. Þar sem rannsókn Fiskistofu hafi leitt í ljós að hluti þess afla sem landað var á móti byggðakvóta hafi verið fluttur óunninn frá Flateyri hafi skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans ekki verið uppfyllt. Þá sé ekki fallist á að Fiskistofa hafi ekki lögformlega heimild til að afturkalla úthlutun byggðakvóta til Margrétar þrátt fyrir að búið sé að veiða byggðakvótann og landa aflanum. Aðilar beri sjálfir ábyrgð á því að skilyrði úthlutunar byggðakvóta séu uppfyllt. Úthlutun byggðakvóta til skipa sé annars vegar byggð á staðfestum samningi útgerðar- og vinnsluaðila um að afli verði unninn innan viðkomandi byggðarlags og hins vegar upplýsingum á vigtarnótum um að landaður afli komi á móti byggðakvóta. Útgerðaraðilar tilkynni sjálfir til hafnarvigtarmanns að afla sé landað á móti byggðakvóta og einnig komi fram á vigtarnótu hver sé viðtakandi eða kaupandi afla. Úthlutun byggðakvóta grundvallist á því að vigtarnóta beri með sér að tilteknum afla sé landað sem mótframlagi við úthlutun byggðakvóta og að viðtakandi eða kaupandi afla sé sá aðili sem útgerð hafi gert samning við um að vinna aflann. Í málinu hafi upplýsingar því einungis stafað frá Lotnu ehf. sem hafi bæði verið útgerðar- og vinnsluaðili aflans. Úthlutunin fari ekki fram á grundvelli vigtar- og ráðstöfunarskýrslna. Að mati Fiskistofu muni því skil umræddra skýrslna sem lögmaður kæranda hafi boðað ekki koma til með að hafa áhrif á meðferð eða niðurstöðu málsins. Kærandi hafi þegar verið upplýstur um þetta og hafi ekki gert frekari athugasemdir. Þá hafi ekki áhrif á úrlausn málsins hvernig meðferð mála hafi verið við úthlutun byggðakvóta til annarra skipa á Flateyri á umræddu fiskveiðiári. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi heimilt að eigin frumkvæði, að afturkalla ákvörðun sína sem hafi þegar verið birt aðila máls sé ákvörðun stjórnvalds ógildanleg. Þar sem upplýsingar sem Fiskistofu voru veittar af kæranda og voru lagðar til grundvallar úthlutun byggðakvóta til Margrétar hafi verið rangar væri ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til skipsins haldin slíkum annmarka að hún teljist ógildanleg, hvað varði þann afla sem hafi verið fluttur óunninn frá Flateyri. Fiskistofa afturkalli því ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta á móti þeim afla sem landað hafi verið hjá Lotnu ehf. en hafi ekki verið unninn í fiskvinnslu fyrirtækisins heldur fluttur óunninn frá byggðarlaginu. Um sé að ræða úthlutun byggðakvóta sem nemi samtals 72.357 kg í þorskígildum talið. Með vísan til framanritaðs eigi Margrét rétt á úthlutun byggðakvóta á móti lönduðum afla sem nemi helmingi þess afla sem landað hafi verið og unninn hafi verið af fiskvinnslu Lotnu ehf. á tímabilinu frá 1. september 2012 til 30. júlí 2013, samtals 37.011 kg í þorskígildum talið.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærufrestur væri þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. nóvember 2013, sem barst ráðuneytinu 29. sama mánaðar, kærðu CATO Lögmenn ehf., Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. Lotnu ehf. framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni er gerð grein fyrir málsatvikum og bréfaskiptum milli Fiskistofu og kæranda. Einnig kemur þar fram að búið sé að veiða úthlutaðan byggðakvóta og landa aflanum. Lotna ehf. sé ekki eigandi skipsins Margrétar heldur leigutaki. Margrét verði ekki svipt byggðakvótanum eða hann bakfærður vegna meintra brota þriðja aðila, þ.e. Lotnu ehf. Ákvörðun um úthlutun byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2012/2013 til Margrétar sé óafturkræf ákvörðun sem ekki verði afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 30. júlí 2013, ásamt fskj. um sérstaka úthlutun til Margrétar, yfirliti um úthlutun bóta til sama skips og stöðubréfum fyrir Margréti og Kristbjörgu. 2) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 2. ágúst 2013, ásamt fskj., þ.e. yfirliti um slægt aflamagn Margrétar. 3) Bréf kæranda til Fiskistofu, dags. 27. ágúst 2013, ásamt samningum um vinnslu afla vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2012/2013. 4) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 5. september 2013.

Með bréfi, dags. 10. desember 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2014, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið. Þar segir m.a. að á grundvelli 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 úthluti Fiskistofa byggðakvóta til skipa en af því leiði að þegar grundvöllur sé til að afturkalla slíka ákvörðun sé það Fiskistofu að framkvæma afturköllunina. Efnislega byggi afturköllun Fiskistofu á því að tiltekið magn afla hafi verið skráð sem afli á móti byggðakvóta en skipið hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun umrædds byggðakvóta þar sem aflanum hafi verið ráðstafað annað en til vinnslu í byggðarlaginu. Kærandi geri engar athugasemdir við niðurstöður athugunar Fiskistofu á því magni afla sem stofnunin telur að tilgreindur hafi verið sem afli sem landað hafi verið til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en fluttur óunninn úr byggðarlaginu. Því verði að líta svo á að kærandi viðurkenni þá háttsemi sem lá til grundvallar ákvörðun um afturköllun úthlutunar byggðakvótans. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 628/2012 sé það skilyrði sett fyrir úthlutun að skip sé í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi. Samkvæmt þinglýstum leigusamningi hafi kærandi tekið skipið Margréti á leigu frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Það hafi einnig verið kærandi sem hafi sótt um byggðakvóta þann sem fjallað sé um í þessu máli, sbr. meðfylgjandi umsókn, en ekki eigandi Margrétar. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun og ráðstöfun byggðakvóta hafi því ekki verið háðar samþykki eiganda Margrétar og hin formlega eignarheimild á Margréti skipti ekki máli fyrir úrlausn málsins. Kærandi sé samningsaðili um vinnslu afla sem að hluta til hafi myndað stofn til byggðakvóta vegna Margrétar. Það sé því kærandi sem hafi ekki uppfyllt skilyrði um vinnslu á lönduðum afla Margrétar í viðkomandi byggðarlagi. Það hafi verið Lotna ehf. sem hafi haft umræddan byggðakvóta til umráða og hljóti ákvörðun um afturköllun byggðakvótans því að beinast að Lotnu ehf. Að mati Fiskistofu hafi það ekki þýðingu hvort búið sé að veiða viðkomandi byggðakvóta. Við afturköllun sé viðkomandi aflamark fellt niður og hafi öllu aflamarki af skipinu verið ráðstafað verði aflamarksstaða þess neikvæð. Það að búið sé að veiða byggðakvótann komi ekki í veg fyrir að hægt sé að afturkalla byggðakvóta sem fenginn hafi verið með framlagningu rangra upplýsinga. Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu heimildir fyrir stjórnvald til að afturkalla ákvörðun sína og einnig komi þar fram hvaða skilyrði verði að vera fyrir hendi. Tvenn skilyrði séu tilgreind í ákvæðinu og sé nægilegt að afturköllunin falli undir annað skilyrðið. Annað þessara skilyrða sé að ákvörðun sé ógildanleg og telji Fiskistofa það eiga við í þessu tilviki. Skip Lotnu ehf. höfðu landað afla sem gefinn hafði verið upp sem afli á móti byggðakvóta. Á grundvelli þessarar skráningar landaðs afla hafi verið úthlutað byggðakvóta á skip í eigu og/eða umráðum Lotnu ehf. Lotna ehf. hafi hins vegar ekki ráðstafað afla sem landað hafi verið á móti byggðakvóta til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi, heldur ráðstafað aflanum með öðrum hætti. Með þessu hafi Lotna ehf. veitt Fiskistofu rangar upplýsingar sem hafi orðið grundvöllur að úthlutun byggðakvóta. Af þessum ástæðum telji Fiskistofa að ákvarðanir stofnunarinnar um úthlutun byggðakvóta til skips Lotnu ehf. hafi verið ógildanlegar í skilningi umrædds ákvæðis, sbr. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit, útg. 1994, bls. 248. Af öllu samanlögðu sé það mat Fiskistofu að málatilbúnaður kæranda sé svo óskýr að kærunni beri að vísa frá vegna vanreifunar en að öðrum kosti beri að staðfesta ákvörðun Fiskistofu.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu í ljósritum: 1) Umsókn um úthlutun byggðakvóta. 2) Leigusamningur um Margréti. 3) Tilkynningar um úthlutanir. 4) Tölvupóstur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna úthlutunar til skipa Lotnu ehf. 5) Listar yfir landanir. 6) Listar yfir sölur á fiskmarkaði. 7) Vörufylgibréf. 8) Minnisblað frá eftirlitsmönnum. 9) Samskipti við Ísafjarðarbæ.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2014, sendi ráðuneytið Sigmundi Hannessyni, hrl. f.h. Lotnu ehf., ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 27. janúar 2014, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2014, barst ráðuneytinu svarbréf frá Sigmundi Hannessyni, hrl. f.h. Lotnu ehf. Þar segir m.a. að áréttað sé að Fiskistofa hafi ekki lögformlega heimild til að afturkalla úthlutun byggðakvóta. Fiskistofa hafi úthlutað byggðakvóta til skipa Lotnu ehf. sem sé útgerðaraðili og fiskverkandi afla skipanna. Með samningi um vinnslu byggðakvóta hafi byggðakvóti sem úthlutað hafi verið til skipa kæranda með samkomulagi og samþykki Fiskistofu og ráðuneytisins verið færður yfir á skipið Margréti. Í stjórnsýslukæru og öðrum gögnum málsins hafi því verið mótmælt að upplýsingar Lotnu ehf. um vinnslu afla Margrétar hafi verið rangar jafnframt því sem kærandi staðhæfi að allur afli vegna úthlutaðs byggðakvóta hafi verið veiddur, honum landað á Flateyri, hann verkaður á staðnum af Lotnu ehf. og hafi verið gerður fyrirvari við útreikninga Fiskistofu. Það sé hins vegar fyrst með fylgiskjölum sem fylgdu umsögn Fiskistofu, dags. 27. janúar 2014, að kæranda hafi verið kynnt þau gögn sem Fiskistofa byggi ákvörðun sína á. Það sé fyrst nú sem kæranda sé mögulegt að gera efnislegar athugasemdir við niðurstöðu Fiskistofu um það magn afla sem kærandi eigi að hafa flutt frá byggðarlaginu óunninn. Með bréfi Fiskistofu, dags. 2. ágúst 2013, hafi fylgt samantekt um landaðan afla annars vegar vegna Margrétar og hins vegar vegna Unu. Fiskistofa virðist grundvalla ákvörðun sína á að bera saman landað magn skipanna við vörufylgibréf, sem liggi nú fyrir í gögnum málsins. Í samantekt um vörufylgibréf sem hafi fylgt umsögn Fiskistofu, sbr. fskj. 3-4 komi í ljós að upplýsingar samkvæmt þeim séu ónákvæmar og ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir ákvörðun Fiskistofu um afturköllun byggðakvóta skipsins. M.a. liggi ekki fyrir hvort í þeim fiskkörum sem flutt voru hafi verið unninn eða óunninn fiskur og eru þar nefnd tiltekin vörufylgibréf. Einnig hafi Lotna ehf. móttekið afla á Flateyri úr byggðakvóta fleiri útgerðaraðila. Það verði að skoða ákvörðun Fiskistofu um afturköllun byggðakvóta í því ljósi að það sé Fiskistofa sem úthluti byggðakvóta, hafi eftirlit með veiði byggðakvótans og vinnslu, rannsaki málið, ákvarði viðurlög vegna meintra brota, taki ákvarðanir um afturköllun byggðakvóta og framkvæmi með því einhliða að bakfæra byggðakvótann á skip sem ekki hafi fengið úthlutað byggðakvótanum og í framhaldinu ákvarði stofnunin fésektir. Með bréfi, dags. 19. desember 2013, hafi kæranda verið send tilkynning um umframafla og boðuð álagning vegna þess, sbr. fskj. 7. Tilkynningu þessari hafi verið mótmælt þar sem niðurstaða í máli þessu lá ekki fyrir, sbr. fskj. 8. Athugun/samantekt Fiskistofu samkvæmt framansögðu sé svo ónákvæm, misvísandi, að hluta til röng og slíkum annmörkum háð að ákvörðun um svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun verði ekki grundvölluð á slíkri rannsókn. Kærandi hafi ítrekað bent á að ákvörðun Fiskistofu beinist að eiganda Margrétar en ekki kæranda. Samkvæmt meginreglum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, leiði varnir sem byggðar séu á aðildarskorti til sýknu ef fallist sé á þær, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna en ekki til frávísunar máls. Kærandi hafi lögvarða hagsmuni af að leggja fram stjórnsýslukæru í málinu þar sem ákvörðun um afturköllun byggðakvóta sé ranglega beint að félaginu. Þá geti Fiskistofa ekki beitt svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að svipta skip aflamarki án þess að tilkynna eiganda viðkomandi skips um sviptinguna. Ákvörðunin sé ekki ógildanleg og sé því mótmælt að kærandi hafi gefið rangar eða villandi upplýsingar af ásetningi eða gáleysi sem hafi leitt til hinnar umdeildu ákvörðunar. Um sé að ræða óafturkræfa ákvörðun um úthlutun byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2012/2013 sem ekki verði afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu bréfi frá Sigmundi Hannessyni, hrl., f.h. Lotnu ehf., dags. 11. apríl 2014, í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 6. mars 2013. 2) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2012/2013. 3) Eimskip - samantekt. 4) Samskip - samantekt. 5) Vörufylgibréf. 6) Vigtarnótur. 7) Tilkynning um umframafla, dags. 19. desember 2013. 8) Bréf lögmanns kæranda - mótmæli, dags. 24. janúar 2014.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2014, sendi ráðuneytið Fiskistofu ljósrit af framangreindum athugasemdum lögmanns kæranda, dags. 11. apríl 2014, og óskaði eftir að Fiskistofa sendi ráðuneytinu svarbréf um það efni.

Með bréfi, dags. 8. mars 2016, barst ráðuneytinu svarbréf Fiskistofu en þar segir m.a. að byggðakvóta Margrétar hafi verið úthlutað til Lotnu ehf. til nýtingar en ekki til eiganda skipsins. Lotna ehf. hafi verið með skipið á leigu allt fiskveiðiárið 2012/2013 og verið skráður útgerðaraðili skipsins á þeim tíma. Ákvörðun um afturköllun byggðakvóta á því fiskveiðiári hafi því réttilega verið beint að Lotnu ehf. og leiði ákvörðunin til leiðréttingar á aflaskráningu á því skipi sem fyrirtækið hafi notað til veiða á byggðakvótanum. Það sé svo úrlausnarefni útgerðaraðila og eiganda skipsins, en ekki Fiskistofu, hvernig fari með aflamarksstöðu á skipinu við lok leigusamnings. Kærandi haldi því fram að forsendur útreikninga Fiskistofu á magni afla sem ekki hafi verið unninn í byggðarlaginu séu rangar. Því sé annars vegar haldið fram að a.m.k. hluti af þeim fiski sem tilgreindur sé á vörufylgibréfum sé í raun afurð en ekki óunninn afli. Þá sé látið að því liggja að afli sem fluttur hafi verið frá byggðarlaginu á vegum Lotnu ehf. geti verið af öðrum skipum en Margréti. Sérstaklega séu nefnd til sögunnar 4 vörufylgibréf frá Eimskip flytjanda dags. í október 2012 og því haldið fram að þau 23 kör sem tilgreind séu á bréfunum hafi innihaldið flattan þorsk og bein. Umrædd fylgibréf séu nr. 8514894, 8514896, 8514901 og 8514902. Kærandi leggi fram með umræddu bréfi afrit af handskrifuðum fylgibréfum þar sem tilgreining vöru sé með öðrum hætti en í þeim útprentunum sem Fiskistofa hafi fengið frá flutningsaðila. Á fylgibréfum þessum sem Fiskistofa hafi aflað frá flutningsaðila sé tilgreining vörunnar "fiskur", en á handskrifuðum fylgibréfum sem kærandi hafi lagt fram sé tilgreining sem bendi til þess að fiskurinn hafi að einhverju leyti verið unninn áður en hann var fluttur úr byggðarlaginu. Kærandi hafi ekki framvísað þessum gögnum á fyrri stigum málsins en vegna þessara nýju gagna, sem lögð hafi verið fram með bréfi, dags. 11. apríl 2014, hafi Fiskistofa kallað eftir upplýsingum frá Eimskip og hafi fyrirtækið staðfest að handskrifuðu fylgibréfin væru rétt en útskriftir sem Fiskistofa hafi fengið við rannsókn málsins væru ekki með nákvæmri tilgreiningu á vörunni. Að fengnum þessum upplýsingum geti Fiskistofa fallist á að ekki sé hægt að byggja á þeim gögnum sem upphaflega hafi fengist frá Eimskip og að sá hluti aflans sem þar hafi verið tilgreindur eigi ekki að koma til frádráttar byggðakvóta. Gögn frá Landflutningum Samskipa séu hins vegar handskrifuð fylgibréf og ekki sé ástæða til þess að efast um innihaldslýsingar þeirra auk þess sem Samskip hafi staðfest að fiskur sem fyrirtækið hafi flutt fyrir Lotnu ehf. frá Flateyri til Reykjavíkur hafi einungis verið slægður og ísaður. Þar með sé ljóst að sá fiskur hafi ekki uppfyllt skilyrði um vinnslu í byggðarlagi. Sama sé að segja um fisk sem hafi farið beint á fiskmarkað. Ljóst sé að þeim fiski hafi verið ráðstafað óunnum til sölu á uppboði en ekki til vinnslu í samræmi við reglur um byggðakvóta. Sá fiskur sem Fiskistofa hafi tekið með í útreikningum sínum sé einungis tengdur löndunum þeirra skipa sem hafi verið gerð út af Lotnu ehf. á þessum tíma. Því verði ekki fallist á að fiskur af öðrum skipum geti hafa haft áhrif á útreikningana. Þá hafi aðeins einn vinnslusamningur verið gerður vegna skipsins Margrétar en hann hafi verið við Lotnu ehf. sem þýði að afli sem kunni að hafa verið unninn annars staðar geti ekki talist með.

Með hliðsjón af ofangreindu telji Fiskistofa rétt að byggja á útreikningum stofnunarinnar um skerðingu byggðakvóta Margrétar að undanskildum þeim hluta sem fluttur hafi verið með Eimskip flytjanda. Í uppgjöri sem hafi komið fram í bréfi Fiskistofu, dags. 5. september 2013, sé afli samkvæmt fylgibréfi nr. 8514894 metinn til byggðakvótalöndunar, en afli hinna fylgibréfanna ekki. Miðað við þau gögn sem þá hafi verið lögð til grundvallar sé samanlagt magn hinna fylgibréfanna þriggja metin 5.187 þorskígildiskíló. Úthlutunarréttur byggðakvóta á grundvelli þessa afla sé 5.187/2 = 2.593,5 þorskígildiskíló.

Með bréfi, dags. 10. mars 2016, sendi ráðuneytið Sigmundi Hannessyni, hrl. f.h. Lotnu ehf. ljósrit af framangreindu bréfi Fiskistofu, dags. 8. mars 2016, og veitti félaginu kost á að tjá sig um bréfið. Frestur til þess var veittur til með 31. mars 2016.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá Sigmundi Hannessyni, hrl. f.h. Lotnu ehf. við framangreint bréf Fiskistofu, dags. 8. mars 2016.

Með tölvubréfum frá 3. og 11. nóvember 2016 bárust ráðuneytinu tiltekin viðbótargögn frá Fiskistofu sem óskað var eftir með símtölum sömu daga. Einnig bárust ráðuneytinu tiltekin viðbótargögn frá Fiskistofu með tölvubréfum frá 17., 18. og 28. nóvember og 2. desember 2016 sem óskað var eftir með tölvubréfum ráðuneytisins frá 17. og 18. nóvember 2016.

Rökstuðningur

I. Ráðuneytið hefur aflað þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að byggja á úrskurð en með vísan til þess og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telur ráðuneytið ekki ástæðu til að vísa frá stjórnsýslukæru í máli þessu vegna vanreifunar, sbr. umsögn Fiskistofu, dags. 27. janúar 2014. Stjórnsýslukæran verður því tekin til efnismeðferðar.

II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2012 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2012. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærileg ákvæði eru í 2. gr. reglugerðar nr. 628/2012.

Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 er sambærilegt ákvæði og framangreint ákvæði en þar kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ, m.a. á Flateyri, fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 með auglýsingu (VII) nr. 133/2013, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 628/2012 og auglýsingu (VII) nr. 133/2013.

III. Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort Fiskistofu hafi verið heimilt að afturkalla eldri ákvarðanir sínar, sem teknar voru á tímabilinu 27. mars - 24. júlí 2013, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til skipsins Margrétar.

Hin kærða ákvörðun í málinu, dags. 5. september 2013, er byggð á 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar: 1) það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða 2) ákvörðun er ógildanleg.

Með ákvörðuninni var afturkölluð úthlutun tiltekins aflamarks sem úthlutað hafði verið sem byggðakvóta til skipsins Margrétar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 á tímabilinu 27. mars - 24. júlí 2013 en úthlutunin fór fram á grundvelli vigtarnóta sem kærandi skilaði við löndun á hafnarvog þar sem kom fram að umræddum afla væri landað til vinnslu til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir umrætt fiskveiðiár, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012. Auk þess voru bakfærðar færslur aflamarks af Kristbjörgu og Unu sem höfðu verið fluttar á skipið.

Umrædd ákvörðun um afturköllun beindist að byggðakvóta sem var úthlutað til skipsins Margrétar og var skráð sem sérstök úthlutun í GAFL, aflaskráningarkerfi Fiskistofu og löndunarhafna. Ekki voru afturkallaðar aðrar aflaheimildir skipsins.

Ákvörðunin var byggð á því að afla sem landað var á Flateyri af skipunum Margréti, Kristbjörgu og Unu til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans, hafi ekki verið ráðstafað til vinnslu á Flateyri, heldur hafi aflinn verið fluttur úr byggðarlaginu óunninn.

Samkvæmt framanrituðu var ákvörðunin byggð á því að Fiskistofu hafi verið veittar rangar upplýsingar sem hafi leitt til þess að úthlutun hafi farið fram án þess að uppfyllt hafi verið skilyrði um löndun afla til vinnslu í byggðarlaginu Flateyri fyrir úthlutun umrædds byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, sbr. tilvitnuð ákvæði 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012.

Um lagaheimild fyrir ákvörðuninni var vísað til þess að umræddar eldri ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til skipsins Margrétar sem teknar voru á tímabilinu 27. mars - 24. júlí 2013 væru ógildanlegar samkvæmt framangreindu ákvæði 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV. Eins og kemur fram í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013, er það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að fiskiskip landi til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012. Úthlutun byggðakvóta skal ekki fara fram nema að því leyti sem skilyrði um vinnslu afla er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Eigandi fiskiskips skal gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verður til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem komi fram að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skal bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar. Úthlutun fer fram á grundvelli vigtarnóta sem borist hafa Fiskistofu og skal úthlutun ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt.

Í máli þessu liggja fyrir samningar, dags. 28. janúar 2013, um að afli skipanna Margrétar, Kristbjargar og Unu, sem veiddur var á grundvelli aflaheimilda og úthlutað var af byggðakvóta Flateyrar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, verði unninn í fiskvinnslu Lotnu ehf. á Flateyri.

Einnig liggur fyrir í málinu niðurstaða rannsóknar Fiskistofu þar sem kemur fram að hluti umrædds afla sem tilkynntur var við vigtun á hafnarvog og skráður var á vigtarnótur sem afli sem landað væri til vinnslu til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun umrædds byggðakvóta hafi verið fluttur óunninn frá Flateyri. Til grundvallar þeirri rannsókn liggja m.a. gögn frá flutningafyrirtækjunum Eimskip flytjanda og Landflutningum Samskipa sem sýna flutninga á fiski fyrir Lotnu ehf. á fiskveiðiárinu 2012/2013. Einnig aflaði Fiskistofa yfirlitslista frá Reiknistofu fiskmarkaða um afla Lotnu ehf. sem seldur var á fiskmarkaði á sama tímabili. Ennfremur liggja fyrir yfirlýsingar frá eftirlitsmönnum Fiskistofu, starfsmanni Landflutninga Samskipa og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar sem allar gefa til kynna að umræddur afli af skipinu Margréti hafi ekki verið unninn á Flateyri heldur fluttur óunninn úr byggðarlaginu. Þá hefur Fiskistofa borið vörufylgibréf flutningsaðila og yfirlitslista Reiknistofu fiskmarkaða saman við afla Margrétar sem tilkynntur var við vigtun á hafnarvog og skráður var á vigtarnótur sem afli á móti byggðakvóta en þessi samanburður bendir einnig til sömu niðurstöðu. Niðurstaða af framangreindri rannsókn Fiskistofu var að Margrét hafi fengið úthlutað fyrir umrætt fiskveiðiár samtals 72.357 kg í þorskígildum talið, í byggðakvóta umfram það sem réttur skipsins til úthlutunar byggðakvóta var.

Þar sem telja verður ljóst samkvæmt framangreindum gögnum að upplýsingar sem Fiskistofu voru veittar og voru lagðar til grundvallar úthlutun byggðakvóta til Margrétar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 hafi verið rangar fellst ráðuneytið á þá niðurstöðu Fiskistofu að eldri ákvarðanir stofnunarinnar sem teknar voru á tímabilinu 27. mars - 24. júlí 2013 um úthlutun byggðakvóta til skipsins séu haldnar slíkum annmörkum að þær séu ógildanlegar að því er varðar þann afla sem fluttur var óunninn frá Flateyri, sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati ráðuneytisins getur það ekki haft áhrif á úrlausn málsins þótt kærandi hafi verið búinn að veiða byggðakvótann þar sem úthlutun fór fram án þess að uppfyllt væru skilyrði um löndun afla til vinnslu fyrir úthlutun byggðakvótans, sbr. tilvitnuð ákvæði. Auk þess var úthlutunin byggð á röngum upplýsingum sem kærandi lagði fram, þ.e. í vinnslusamningi sem kærandi lagði fram með umsókn um byggðakvóta og á vigtarnótum sem kærandi skilaði við löndun aflans.

Einnig skal áréttað að kærandi var bæði útgerðar- og vinnsluaðili aflans og bar því ríka ábyrgð á að aflanum yrði ráðstafað til vinnslu í byggðarlaginu Flateyri.

Þá er því haldið fram af hálfu kæranda að Fiskistofa hafi ekki lögformlega heimild til afturköllunar byggðakvótans vegna þess að skipið Margrét sé í eigu annars aðila en byggðakvótanum var úthlutað til.

Lotna ehf. var með skipið Margréti á leigu allt fiskveiðiárið 2012/2013 samkvæmt leigusamningi, dags. 1. september 2012, og var skráður útgerðaraðili skipsins á umræddum tíma. Kærandi sótti um úthlutun byggðakvóta fyrir skipið fyrir umrætt fiskveiðiár og bar sem útgerðaraðili ábyrgð á aflaheimildum skipsins og nýtingu þeirra á gildistíma leigusamningsins. Ákvörðun um afturköllun úthlutunar byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári var því réttilega beint að Lotnu ehf. og leiðir til leiðréttingar á úthlutun til þess skips sem byggðakvótanum var úthlutað til.

V. Við meðferð málsins hefur kærandi haldið því fram að forsendur útreikninga Fiskistofu á því magni afla sem stofnunin telur að hafi verið fluttur óunninn frá Flateyri, séu ekki réttar, sbr. bréf lögmanns kæranda, dags. 11. apríl 2014. M.a. telur kærandi að upplýsingar frá flutningsaðila sem Fiskistofa byggði á við ákvörðunina um afturköllun byggðakvóta Margrétar hafi ekki verið réttar eða nægilega nákvæmar. Því er annars vegar haldið fram að a.m.k. hluti af þeim afla sem tilgreindur sé á vörufylgibréfum sé í raun afurð en ekki óunninn afli og hins vegar að afli sem fluttur hafi verið frá byggðarlaginu á vegum Lotnu ehf. geti verið af öðrum skipum en Margréti eða hafa verið unninn annars staðar. Í bréfi Fiskistofu, dags. 8. mars 2016, er að nokkru leyti fallist á sjónarmið kæranda varðandi þetta atriði á grundvelli þess að Eimskip hafi staðfest umræddar upplýsingar og er þar vísað í tiltekin vörufylgibréf í málinu. Með tölvubréfi, dags. 17. nóvember 2016, óskaði ráðuneytið eftir að Fiskistofa sendi ráðuneytinu ljósrit af svörum Eimskip við beiðni Fiskistofu um upplýsingar í málinu sem vísað var til í framangreindu bréfi stofnunarinnar, dags. 8. mars 2016. Með tölvubréfi, dags. 17. nóvember 2016, upplýsti Fiskistofa að ekki væru til hjá stofnuninni önnur gögn frá Eimskip í málinu en nótur, þ.e. vörufylgibréf og sendi Fiskistofa ráðuneytinu ljósrit af tilteknum vörufylgibréfum. Um var að ræða bæði handskrifuð vörufylgibréf sem kærandi hafði skilað og rafræn fylgibréf sem Eimskip flytjandi hafði gefið út um flutning vörunnar en tiltekinn mismunur var á texta vörufylgibréfanna og rafrænu fylgibréfanna. Engar skriflegar upplýsingar voru hins vegar til hjá stofnuninni um að Eimskip hafi staðfest að upplýsingar á tilteknum handskrifuðum vörufylgibréfum væru réttar eins og komið hafði fram í framangreindu bréfi Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 8. mars 2016. Með tölvubréfi, dags. 18. nóvember 2016, óskaði ráðuneytið eftir að Fiskistofa aflaði staðfestingar Eimskip á því að þær upplýsingar sem komu fram á handskrifuðu vörufylgibréfunum væru réttar og að svarið yrði sent ráðuneytinu fyrir lok tiltekins frests. Með tölvubréfi til Eimskip, dags. 21. nóvember 2016, óskaði Fiskistofa eftir að Eimskip afhenti stofnuninni umbeðnar upplýsingar. Með tölvubréfi frá Fiskistofu, dags. 2. desember 2016, barst ráðuneytinu svar við umræddri beiðni en því fylgdi tölvubréf frá Eimskip, dags. 2. desember 2016, þar sem kom fram að Eimskip gæti ekki staðfest umræddar upplýsingar heldur gæti félagið einungis staðfest að hafa flutt umræddar sendingar en ekki að vigtin sé nákvæmlega rétt. Verður því ekki byggt á þeim upplýsingum um magntölur sem komu fram í umræddu bréfi Fiskistofu, dags. 8. mars 2016, heldur miðað við að upplýsingar í rafrænum fylgibréfum Eimskip séu réttar.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda sem koma fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls. M.a. er ljóst að afli sem Fiskistofa tók með í útreikningum sínum er einungis tengdur löndunum skipanna Margrétar, Kristbjargar og Unu sem voru gerð út af Lotnu ehf. á umræddum tíma. Því verður ekki fallist á að afli af öðrum skipum geti hafa haft áhrif á útreikningana. Einnig er ljóst að aðeins sá afli sem vinnslusamningar vegna skipanna voru gerðir um telst til löndunar vegna umrædds byggðakvóta, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012. Aðeins einn vinnslusamningur var gerður vegna afla Margrétar fyrir umrætt fiskveiðiár en það þýðir að afli sem kann að hafa verið unninn annars staðar getur ekki talist með þar sem enginn samningur við aðrar vinnslur var til staðar.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. september 2013, um afturköllun úthlutunar aflamarks fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til skipsins Margrétar ÍS-147, skipaskrárnúmer 2340.

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann GuðmundssonSigríður Norðmann


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum