Hoppa yfir valmynd

Caroline Kerstin Mende kærir ákvörðun Matvælastofnunar um að synja kæranda um að sameina hjarðir innan sama varnarhólfs.

Atvinnuvega- og nýsköpurnarráðuneytið hefur hinn 30. nóvember 2015 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Með stjórnsýslukæru dags. 21. október 2015 kærði Caroline Kerstin Mende, kt. 140570-2739, hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. september 2015 um að synja kæranda um að sameina hjarðir innan sama varnarhólfs.
Kæranda er heimilt að kæra ákvörðun Matvælastofnunar með vísan til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærufrestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga er 3 mánuðir. Kæra barst innan kærufrest.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Kærandi sótti um, þann 23. ágúst 2015, leyfi til að sameina hjarðir milli bæja í Skagahólfi. Um var að ræða fimm gemlinga frá bænum Steini á Reykjaströnd ásamt tveimur lömbum þeirra. Sótti kærandi um að flytja búféð á nýbýli í landi Mánaskálar í Laxárdal frá Nesi á Hegranesi, en búféð var flutt þangað frá Steini á Reykjaströnd. Umsókn kæranda var hafnað með ákvörðun Matvælastofnunar. Stjórnsýslukæran var send Matvælastofnun til umfjöllunar. Matvælastofnun skilaði inn umsögn um kæruna þann 17. nóvember 2015. Umsögn Matvælastofnunar var send til kæranda sem skilaði inn athugasemdum til ráðuneytisins 27. nóvember 2015.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Kærandi sótti um flutning á búfé frá Nesi til Mánaskála í sama varnarhófli, Matvælastofnun hafnaði þeim flutningi á grundvelli þess að þeir bæir myndu ekki liggja saman. Í stjórnsýslukæru frá 21. október síðastliðinn var fyrrgreind ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Þar kemur fram á hvaða grundvelli ákvörðunin er kærð. Í lok kærunnar óskar kærandi eftir því að málið hljóti flýtimeðferð hjá ráðuneytinu því kærandi sé að flytja í Hvammshlíð í síðasti lagi um mánaðamót. Í umsögn Matvælastofnunar koma fram röksemdir fyrir ákvörðun stofnunarinnar frá 10. september 2015. Þar vísar Matvælastofnun til meginreglu um að á sýktum svæðum sé óheimilt að flytja sauðfé til lífs úr hjörðum, í hjarðir eða á milli bæja sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 651/2001. Matvælastofnun byggir sína umsögn að einhverju leyti á þessari meginreglu og að kærandi sé að flytja búfé sitt að Mánaskála. Í ákvörðun Matvælastofnun frá 10. september 2015 var einnig byggt á fyrrgreindri meginreglu. Í umsögn kæranda frá 27. nóvember 2015 koma enn frekari rök frá kæranda af hverju ráðuneytið eigi að leyfa flutning á búfénu frá Nesi í Hegranesi til Hvammshlíðar. Kærandi breytti þannig kröfugerðinni, ekki er um flutninga á búfé frá Nesi í Hegranesi til Mánaskála að ræða, heldur frá Nesi til Hvammshlíðar.
Kæranda er almennt heimilt að tefla fram nýjum rökum, sjónarmiðum og gögnum fyrir æðra setta stjórnvaldinu. Gildir einu í því sambandi þótt kæranda hefði verið í lófa lagið að koma þeim á framfæri við lægra setta stjórnvaldið þegar það fjallaði um málið á sínum tíma. Ef hins vegar hin nýju sjónarmið og hin nýju gögn sem aðili leggur fram í kærumáli leiða til grundvallarbreytingar á öllum málatilbúnaði kæranda fyrir stjórnvöldum kann æðra stjórnvaldinu að vera rétt að heimvísa málinu til nýrrar meðferðar hjá lægra settu stjórnvaldi. Er það gert til að tryggja að þau álitaefni sem reynir á í málinu fái efnislega umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum en ekki aðeins á æðra stjórnsýslustigi. Einnig ber að hafa í huga að Matvælastofnun í ákvörðun og umsögn sinni vísaði til meginreglu reglugerðar sem er ekki lengur til staðar. Í reglugerð nr. 726/2004 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar var meginregla í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. að „[…Á sýktum svæðum er óheimilt að flytja sauðfé til lífs úr hjörðum, í hjarðir eða á milli bæja.]“ felld úr gildi og meginreglunni breytt þannig að hún hljóðar svo: „Af sýktu svæði og innan þess er óheimilt að flytja sauðfé til lífs milli hjarða.“ Matvælastofnun ber því að hafa í huga hvort sé um að ræða flutning á milli bæja eða á milli hjarða.
Í ljósi alls þessa, sérstaklega með vísan til þeirra nýju sjónarmiða og með hliðsjón af þeim réttaröryggissjónarmiðum sem kæruheimild stendur vörð um, að kærandi geti fengið ákvörðun lægra sett stjórnvalds endurskoðað á æðra stjórnsýslustigi, þá er eðlilegt að hið lægra setta stjórnvald skoði málið á grundvelli hinna nýju upplýsinga. Að öðrum kosti fengi málið í raun aðeins meðferð á einu stjórnsýslustigi. Með vísan til framangreinds er máli þessu heimvísað til Matvælastofnunar til nýrrar meðferðar og fyrri ákvörðun Matvælastofnunar ógild.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 10. september 2015 er ógild og Matvælastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Rebekka Hilmarsdóttir
Baldur Sigmundsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum