Hoppa yfir valmynd

Kópavogur - lögmæti ákvörðunar um hvaða vísitölu skuli nota við endurgreiðslu: Mál nr. 62/2009

Ár 2009, 1. apríl er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

Ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 62/2008
A og B
gegn
Kópavogsbæ

I. Kröfur og aðild kærumáls

Með erindi til ráðuneytisins dags. 26. ágúst 2008 fóru A og B (hér eftir nefnd kærendur) fram á það við ráðuneytið að ógilt yrði sú ákvörðun Kópavogsbæjar að endurgreiða þeim lóðagjald miðað við vísitölu neysluverðs og að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka nýja ákvörðun um endurgreiðslu samkvæmt byggingarvísitölu.

Ekki er vísað til kæruheimildar í erindi kærenda en ráðuneytið telur ljóst að um stjórnsýslukæru sé að ræða er grundvallist á 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 11. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald.

Kópavogsbær krefst þess að öllum kröfum verði hafnað.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

  • Nr. 1 Stjórnsýslukæra dags. 26. ágúst 2008 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
    a. Bréf til bæjarráðs Kópavogs, dags. 14. maí 2008.
    b. Tölvuskeyti annars kærenda til ráðuneytisins dags. 27. ágúst 2008.
    c. Tölvuskeyti frá innheimtufulltrúa Kópavogsbæjar til annars kærenda dags. 26. maí 2008, ásamt eftirfarandi fylgigagni:
    i. Tölvuskeyti frá skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogsbæjar til fjármálastjóra bæjarins dags. 22. maí 2008.
    d. Tölvuskeyti annars kærenda til fjármálastjóra bæjarins dags. 22. maí 2008.
    e. Tölvuskeyti annars kærenda til fjármálastjóra bæjarins dags. 21. maí 2008.
    f. Tvö tölvuskeyti frá innheimtufulltrúa bæjarins til annars kærenda dags. 20. nóvember 2007.
    g. Tölvuskeyti annars kærenda til innheimtufulltrúa bæjarins dags. 20. nóvember 2007.
  • Nr. 2 Bréf annars kærenda til ráðuneytisins dags. 8. september 2008 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
    a. Bréf Kópavogsbæjar til annars kærenda dags. 13. nóvember 2007
    b. 15 reikningsyfirlit vegna hreyfinga bankareiknings hjá Glitni.
  • Nr. 3 Bréf ráðuneytisins til annars kærenda dags. 11. september 2008.
  • Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til Kópavogsbæjar dags. 11. september 2008.
  • Nr. 5 Tölvuskeyti annars kærenda til ráðuneytisins dags. 13. október 2008 ásamt eftirfarandi fylgigagni:
    a. Tölvusamskipti aðila er varðar skil á lóðum í Úlfarsársdal í Reykjavík, dags. 25. september og 6. júní 2008.
  • Nr. 6 Tölvuskeyti ráðuneytisins til annars kærenda dags. 13. október 2008.
  • Nr. 7 Bréf ráðuneytisins til Kópavogsbæjar dags. 13. október 2008.
  • Nr. 8 Bréf Kópavogsbæjar til ráðuneytisins dags. 10. nóvember 2008.
  • Nr. 9 Tvö tölvuskeyti milli ráðuneytisins og Kópavogsbæjar dags. 16. október 2008.
  • Nr. 10 Tölvuskeyti ráðuneytisins til annars kærenda dags. 16. október 2008.
  • Nr. 11 Tölvuskeyti annars kærenda til ráðuneytisins dags. 11. nóvember 2008.
  • Nr. 12 Tölvuskeyti ráðuneytisins til annars kærenda dags. 12. nóvember 2008.
  • Nr 13 Bréf ráðuneytisins til annars kærenda dags. 13. nóvember 2008.
  • Nr. 14 Bréf annars kærenda til ráðuneytisins dags. 3. desember 2008.
  • Nr. 15 Bréf ráðuneytisins til annars kærenda dags. 11. desember 2008.
  • Nr. 16 Bréf ráðuneytisins til Kópavogsbæjar dags. 11. desember 2008.
  • Nr. 17 Bréf ráðuneytisins til annars kærenda dags. 3. mars 2009.
  • Nr. 18 Bréf ráðuneytisins til Kópavogsbæjar dags. 3. mars 2009.
  • Nr. 19 Tölvuskeyti ráðuneytisins til annars kærenda dags. 13. mars 2009.
  • Nr. 20 Tölvuskeyti annars kærenda til ráðuneytisins dags. 13. mars 2009.

Óumdeilt er að kærendur séu aðilar máls.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í nóvember 2007 fengu kærendur úthlutað lóð að X í Kópavogi til byggingar einbýlishúss. Vegna breyttra forsendna skiluðu þeir lóðinni um hálfu ári síðar eða í maí 2008. Óskuðu þeir endurgreiðslu miðað við byggingarvísitölu á því lóðagjaldi sem þau höfðu greitt en fengu hins vegar endurgreitt samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar þann 27. maí 2008.

Þann 26. ágúst 2008 kærðu kærendur fyrrgreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins.

Með bréfi dags. 11. september 2008 tilkynnti samgönguráðuneytið kærendum að það hefði móttekið erindi þeirra.

Með bréfi dags. sama dag var Kópavogsbæ gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust sjónarmið bæjarins þann 10. nóvember 2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Kópavogsbæjar með bréfi dags. 13. nóvember 2008 og bárust athugasemdir þann 3. desember 2008.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur styðja mál sitt þeim rökum að í bréfi bæjarstjóra til þeirra dags. 13. nóvember 2007, þar sem tilkynnt er að þeim hafi verið úthlutað lóð, segi: ,,Lóðagjöld eru miðuð við fermetra samkvæmt deiliskipulagsskilmálum og endurgreiðast ekki þó minna sé byggt. Gjöldin taka mið af byggingarvísitölu við úthlutun og breytast með henni. Lóðargjöld fyrir lóðina miðað við byggingarvísitölu (376,7 stig): er kr. 20.102.849.-“ Kærendur telja því rétt að miða endurgreiðslu einnig við byggingarvísitölu, enda hafi starfsmaður á fjármálasviði svarað kærendum því í tölvupósti að ef lóð yrði skilað væri endurgreiðsla miðuð við byggingarvísitölu án vaxta. Upplýsingar þær sem starfsmaðurinn veitti hafi verið skýrar og ótvíræðar og gefnar af þar til bærum aðila og þar af leiðandi hafi kærendur treyst því að endurgreiðslan yrði með þeim hætti. Fráleitt sé að Kópavogsbær geti losað sig undan ábyrgð hálfu ári seinna með því að bera fyrir sig mistök starfsmanns sveitarfélagins. Kærendur benda á að þeir hafi miðað alla sína útreikninga við þetta en kostnaður þeirra vegna fjármögnunar varð mikill og muni þar af leiðandi miklu hvora vísitöluna miðað sé við.

Þá benda kærendur á að nokkur losarabragur hafi verið hjá Kópavogsbæ varðandi lóðarmál þessi, t.d. hafi ekki verið gefnar út kvittanir fyrir greiðslum til bæjarins og ekki hafi verið gerður lóðarsamningur. Kærendur höfðu þar af leiðandi ekkert annað til að byggja á varðandi endurgreiðsluna en framangreindar upplýsingar.

Kærendur benda á að þeim hafi verið tjáð að Kópavogsbær hafi áður endurgreitt lóðaverð samkvæmt byggingarvísitölu þar til nýlega að farið var að endurgreiða samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Telja kærendur að það sé ekki óvarlegt að draga þá ályktun að það teljist til réttarvenju milli lóðahafa og Kópavogsbæjar að lóðargjöld séu endurgreidd miðað við byggingarvísitölu. Þá taka kærendur jafnframt fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem þeir hafi aflað sér þá endurgreiði Reykjavíkurborg lóðargjöld samkvæmt byggingarvísitölu.

Kærendur telja að ekki sé skilyrði til þess að beita lögjöfnun um endurgreiðslu á gjaldi vegna byggingarréttarins (yfirtökugjaldi) þar sem eitt skilyrði lögjöfnunar er að um lagalegt tómarúm sé að ræða á viðkomandi réttarsviði. Fyrir liggur að venja hefur verið að endurgreiða gjöldin samkvæmt byggingarvísitölu og þar af leiðandi er þetta skilyrði lögjöfunar ekki fyrir hendi og hún því ekki tæk sem réttarheimild í þessu tilviki.

Þá benda kærendur á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjald kemur fram að gatnagerðargjaldið sé skattur og af því megi m.a. ráða að lögjöfnun frá lögunum sé engan veginn tæk varðandi viðbótargjaldið enda byggt á því að skattheimildir verði að vera skýrar og ótvíræðar.

Kærendur segja að Kópavogsbær hafi ekki fært fram nein rök fyrir þeirri ályktun að beita lögjöfnun auk þess sem sveitarfélagið virðist vera að reyna að beita lögjöfnun á sum ákvæði laga um gatnagerðargjald en ekki önnur. Þannig virðist sveitarfélagið velja úr þau ákvæði sem séu kærendum óhagstæð en sleppi þeim sem eru þeim hagstæð svo sem ákvæði 4. gr. þar sem m.a. kemur fram að gatnagerðargjald sé 15% af byggingarkostnaði.

Kærendur telja það undarlegt og það standist ekki lögfræðilega skoðun að beita lögjöfnun þar sem réttarvenja er fyrir og einungis á valin ákvæði í viðkomandi lögum.

Loks benda kærendur á að vafi geti leikið á lagaheimild fyrir viðbótargjaldinu og sveitarfélagið sé ef til vill að reyna að fara framhjá lögum um gatnagerðargjald með því að nefna hluta gjaldsins einfaldlega viðbótargjald.

IV. Málsástæður og rök Kópavogsbæjar

Kópavogsbær bendir á að kærendur hafi í maí 2008 óskað eftir því einhliða að skila þeirri lóð sem þeir höfðu fengið úthlutað. Sveitarfélagið hafi samþykkt skilin og endurgreitt lóðargjöldin í samræmi við 9. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald.

Kópavogsbær bendir á 3. gr. laga um gatnagerðargjald þar sem fjallað er um álagningu gjaldsins en þar segir að gatnagerðargjöld skuli lögð á við úthlutun lóða eða við samþykkt byggingarleyfis. Í 4. gr. laganna er síðan fjallað um tengingu gatnagerðargjalda við byggingarvísitölu en greinin hljóðar svo:

,,Gatnagerðargjald er 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987,um vísitölu byggingarkostnaðar, nema sveitarstjórn hafi mælt fyrir um lægra gjald í samþykkt sinni, sbr. 2. mgr.
Sveitarstjórn skal í samþykkt sinni, sbr. 12. gr., ákveða hundraðshluta gatnagerðargjalds sem leggst á gjaldstofn þann sem mælt er fyrir um í 3. gr. Gjaldið má aldrei vera hærra en mælt er fyrir um í 1. mgr.

Kópavogsbær telur að samkvæmt framangreindu sé ljóst að gatnagerðargjöld séu lögð á við úthlutun lóða og taki gjöldin mið af byggingarvísitölu hverju sinni, sbr. 4. gr. og hafi kærendum verið tilkynnt þetta með bréfi dags. 13. nóvember 2007, en í bréfinu komu fram upplýsingar um greiðslu lóðargjalda og tengingu þeirra við byggingarvísitölu í samræmi við 3. gr. laga um gatnagerðargjald.

Kópavogsbær bendir á að í 9. gr. laga um gatnagerðargjald sé fjallað um endurgreiðslu gatnagerðargjalda en greinin hljóðar svo:

,,Sveitarfélagi ber að endurgreiða gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við samþykkt byggingarleyfis, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr., en í þeim tilvikum skal endurgreiða gatnagerðargjaldið innan 30 daga frá því að byggingarleyfishafi hefur sannanlega krafist greiðslu. Fjárhæð gatnagerðargjalds sem greidd var skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Við greiðsludrátt reiknast dráttarvextir á fjárhæðina samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.”

Samkvæmt beinni orðskýringu skuli það lóðargjald sem greitt hefur verið verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Í ákvæðinu komi hins vegar ekki fram að endurgreiða skuli gatnagerðargjald miðað við byggingarvísitölu frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.

Kópavogsbær telur að álagning lóðargjalda sem og endurgreiðslur á lóðargjöldum hafi verið í fullu samræmi við ákvæði 9. gr. laga um gatnagerðargjald og þar af leiðandi eigi ákvörðunin um endurgreiðslu skýra lagastoð.

Kópavogsbær mótmælir þeirri fullyrðingu kærenda að skapast hafi venja í endurgreiðslu lóðargjalda í þá veru að lóðargjöld skuli endurgreidd miðað við byggingarvísitölu. Bendir sveitarfélagið á að áður en lóðum í Vatnsendahlíð var úthlutað í nóvember 2007 hafi það verið fáheyrt að lóðum væri skilað. Engin venja gat því hafa skapast um afgreiðslu slíkra mála. Mikil ásókn hafi verið í byggingarlóðir og var eftirspurn langt umfram framboð.

Kópavogsbær bendir á að lög nr. 153/2006 um gatnagerðargjald hafi tekið gildi í júli 2007 og hafi endurgreiðsla lóðargjalda verið í samræmi við ákvæði laganna frá þeim tíma. Kærendum var úthlutuð lóð í nóvember 2007, þ.e. fjórum mánuðum eftir gildistöku laganna. Við auglýsingu og úthlutun lóðarinnar lá því ávallt fyrir með hvaða hætti álagning lóðargjalda væri sem og endurgreiðslur lóðargjalda en lóðinni var skilað í maí 2008 eða tæpu ári eftir að lögin tóku gildi.

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að í sveitarfélaginu skiptist lóðaverð annars vegar í gatnagerðargjöld og hins vegar í byggingarréttargjald (yfirtökugjald). Í lögum um gatnagerðargjald er fjallað um endurgreiðslu gatnagerðargjalda en í 9. gr. þeirra segir að gjöldin skuli endurgreidd og verðbætt miðað við neysluvísitölu. Í lögunum er hins vegar ekki fjallað um endurgreiðslu byggingarréttargjalda en Kópavogsbær hefur með lögjöfnun beitt ákvæðum 9. gr. um þau gjöld en í því felst að lagaákvæði er beitt um ólögákveðið tilfelli sem svarar efnislega til þeirra sem heyra undir lagaákvæðið. Í ljósi þess að gjöldin eru nátengd og eru bæði endurgjald vegna sömu lóðar hefur verið litið svo á að heimilt sé að beita ákvæðinu um síðarnefndu gjöldin.

Kópavogsbær bendir á að sum sveitarfélög t.d. Garðabær hafa túlkað fyrrgreint ákvæði þröngt og ekki talið sér skylt að verðbæta yfirtökugjöld (byggingarréttargjöld) þar sem þeirra er ekki getið í lagaákvæðinu.

Kópavogsbær segir að í tölvupósti þeim sem kærendum var sendur þann 20. nóvember 2007 hafi því miður komið fram rangar upplýsingar um skilmála við endurgreiðslu gjalda. Kópavogsbær hafi viðurkennt þau mistök um leið og hann varð þeirra var og þau þá leiðrétt.

Kópavogsbær mótmælir því að sveitarfélaginu sé skylt að víkja frá ákvæðum laga og gildandi venju um endurgreiðslu lóðargjalda vegna einna mistaka við veitingu upplýsinga um endurgreiðslur lóðargjalda.

Þá bendir Kópavogsbær jafnframt á að kærendum hafi mátt vera kunnugt um gildandi lög og að þeir geti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á lögum enda sé annar kærenda lögmaður.

Að lokum tekur Kópavogsbær fram að af öllum lóðum sem skilað hafi verið inn frá gildistöku gatnagerðarlaganna frá 2007 hafi lóðargjöld verið endurgreidd í samræmi við ákvæði 9. gr. þeirra.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Aðilar deila um það hvort Kópavogsbæ hafi verið heimilt að miða endurgreiðslu á þegar greiddu lóðargjaldi við vísitölu neysluverðs. Kærendur telja að sú ákvörðun hafi verið ólögmæt og miða hafi átt endurgreiðsluna við byggingarvísitölu. Ekki er deilt um fjárhæð gjaldsins eða samsetningu.

Þann 15. desember 2006 voru samþykkt lög nr. 153 um gatnagerðargjald er tóku gildi þann 1. júlí 2007. Kærendur fengu úthlutað lóð í nóvember 2007 og óumdeilt er að lögin voru í gildi þegar úthlutunin átti sér stað.

Um endurgreiðslu gatnagerðargjalds er fjallað í 9. gr. laganna þar sem segir að sveitarfélagi beri að endurgreiða gatnagerðargjald við tilteknar aðstæður. Þá segir í ákvæðinu að fjárhæð þess gatnagerðargjalds sem greitt var skuli verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.

Í athugasemdum við frumvarpið, sem varð að fyrrgreindum lögum, segir um 9. gr.:

,,Samkvæmt greininni ber sveitarfélagi að endurgreiða áður innheimt gatnagerðargjald ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð skilað. Gjalddagi endurgreiðslunnar er 30 dögum síðar. Í ákvæðinu er jafnframt tekið á því hvernig beri að verðbæta þá fjárhæð sem greidd var vegna gatnagerðargjalds og skal miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Loks skal við drátt á endurgreiðslu sveitarfélags reikna dráttarvexti frá gjalddaga samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur.”

Rétt er að taka fram að með lögum nr. 6/2009 er samþykkt voru á Alþingi þann 2. mars 2009 var verðtryggingarákvæði framangreindrar 9. gr. fellt niður. Í 4. gr. laganna segir þó að sveitarfélag skuli við endurgreiðslu gatnagerðargjalds, vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfi var veitt á fyrir gildistöku laganna, verðbæta endurgreiðsluna miðað við vísitölu neysluverðs. Ljóst er að fyrrgreind lagabreyting hefur ekki þýðingu í máli þessu, en ráðuneytið telur þrátt fyrir það rétt að geta þessa.

Með lögum nr. 153/2006 féllu úr gildi eldri lög um gatnagerðargjald nr. 17/1996. Í 6. gr. þeirra laga sagði að lagsmálaráðherra skyldi setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna og skyldi í henni m.a. kveðið nánar á um álagningu gatnagerðargjalds og endurgreiðslu þess, að öðru leyti var ekki fjallað um endurgreiðslu gjaldsins í lögunum. Á grundvelli þessa ákvæðis var sett reglugerð nr. 543/1996. Í 9. gr. hennar er fjallað um endurgreiðslu gatnagerðargjalds en þar segir:

,,Gatnagerðargjald skal endurgreitt og verðbætt miðað við vístölu byggingarkostnaðar eftir því sem kveðið er á um í gjaldskrá skv. 11. gr. reglugerðar þessarar.”

Fyrrgreind reglugerð hefur ekki verið felld úr gildi en ljóst er að 9. gr. hennar er í andstöðu við ákvæði 9. gr. laga nr. 153/2006.

Sú meginregla er óumdeild í íslenskum rétti að ef saman lýstur reglugerðarákvæði og lagareglu þá víkur reglugerðarákvæðið fyrir lagaákvæðinu.

Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 153/2006 segir að sveitarstjórn skuli setja sér samþykkt um gatnagerðargjald þar sem eftir atvikum er kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga gjaldsins, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess.

Þann 26. júní 2007 samþykkti bæjarstjórn Kópavogsbæjar gjaldskrá um gatnagerðargjald er taka skyldi gildi þann 1. júlí 2007, þ.e. sama dag og lög nr. 153/2006. Gjaldskráin var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 25. september 2007. Í 7. gr. gjaldskrárinnar segir að Kópavogsbær endurgreiði gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð skilað og skuli fjárhæð gatnagerðargjalds sem greitt var verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Gjaldskrá Kópavogsbæjar er því í samræmi við ákvæði laga nr. 153/2006.

Í gögnum málsins kemur fram að lóðarverð það sem kærendur greiddu fyrir lóð þá sem þeir fengu úthlutað skiptist annars vegar í gatnagerðargjald og hins vegar í byggingarréttargjald. Í greinargerð Kópavogsbæjar segir að frá því að lög nr. 153/2006 tóku gildi hafi lóðagjöld, þ.e. gatnagerðargjald og byggingarréttargjald, verið endurgreitt í samræmi við ákvæði 9. gr. laganna. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á annað.

Umfjöllunarefni úrskurðar þessa tekur ekki til skyldu sveitarfélagsins til þess að endurgreiða áður greitt byggingarréttargjald, enda ekki um það deilt, einungis er deilt um hvort miða eigi endurgreiðslu lóðargjalds við vísitölu neysluverðs eða vísitölu byggingarkostnaðar.

Ráðuneytið telur ljóst að endurgreiðsla Kópavogsbæjar á gatnagerðargjaldinu sé í samræmi við lög nr. 153/2006 og gjaldskrá sveitarfélagsins nr. 850/2007 um gatnagerðargjald í Kópavogi.

Ráðuneytið telur engin þau atriði komin fram sem réttlæti það að víkja skuli frá hinu skýra lagaákvæði hvað gatnagerðargjaldið varðar. Þó svo að starfsmaður Kópavogsbæjar hafi gefið kærendum þær upplýsingar að endurgreiðsla væri miðuð við vísitölu byggingarkostnaðar þá hefur það ekki í för með sér að sett lagaregla víki. Þá verður einnig að telja að kærendur hafi ekki á grundvelli hinna röngu upplýsinga getað haft réttmætar væntingar til þess að sveitarfélagið myndi víkja frá gildandi réttarreglu eða endurgreiða í andstöðu við gildandi lög enda liggur fyrir í málinu að annar kærenda er löglærður.

Í bréfi Kópavogsbæjar til kærenda, þar sem þeim er tilkynnt um úthlutun lóðarinnar, kemur fram að gjöldin taki mið af byggingarvísitölu við úthlutun og breytast með henni. Ráðuneytið getur ekki tekið undir þau rök kærenda að af orðalagi bréfsins sé unnt að draga þá ályktun að endurgreiðsla lóðargjaldanna taki einnig mið af byggingarvísitölunni.

Í málinu liggur fyrir að Kópavogsbær innheimtir gatnagerðargjaldið og byggingarréttargjaldið saman og sé lóð skilað þá endurgreiðir sveitarfélagið bæði gjöldin. Í greinargerð bæjarins kemur fram að sú ákvörðun að endurgreiða byggingarréttargjaldið í samræmi við ákvæði 9. gr. laganna, hafi grundvallist á lögjöfnun. Kærendur hafna því að unnt sé að beita lögjöfnun í þessu tilviki.

Í fyrri úrskurðum ráðuneytisins hefur ekki verið fjallað um skyldu sveitarfélaga til þess að endurgreiða hið svokallaða byggingarréttargjald og er ljóst, eins og áður er komið fram, að ágreiningsefni máls þessa lýtur ekki að því. Ráðuneytið telur, eins og máli þessu er háttað, að lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarfélagsins að miða endurgreiðslu byggingarréttargjaldsins við vísitölu neysluverðs velti ekki á því hvort lögjöfnun frá 9. gr. laga 153/2006 hafi verið tæk eða ekki. Hins vegar liggur fyrir að Kópavogsbær endurgreiddi kærendum byggingarréttargjald það sem þeir höfðu þegar greitt og hlýtur sú ákvörðun ávallt að vera til hagsbóta fyrir kærendur, burtséð frá því á hvaða grundvelli hún byggist. Sú ákvörðun Kópavogsbæjar að endurgreiða byggingarréttargjaldið miðað við vísitölu neysluverðs, eins og gert var varðandi gatnagerðargjaldið, byggðist á þeim sjónarmiðum að um nátengd gjöld var að ræða sem bæði voru endurgjald vegna sömu lóðar og verður ekki annað talið en að þau sjónarmið séu málefnaleg og ákvörðunin því lögmæt.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu A og B um að ógilt verði sú ákvörðun Kópavogsbæjar að endurgreiða þeim lóðargjald miðað við vísitölu neysluverðs og að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka nýja ákvörðun um endurgreiðslu samkvæmt byggingarvísitölu.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Hjördís Stefánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum