Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 10/2008, úrskurður 30. mars 2009

Mánudaginn 30. mars 2009 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 10/2008

 

Vegagerðin

gegn

Eigendum Móbergs og Ásgrímsstaða, Fljótsdalshéraði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Úrskurður:

 

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Benedikt Bogason, dómstjóri og Björn Þorri Viktorsson, hrl. og lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

 

Með matsbeiðni dags. 2. desember 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 12. desember 2008, fór Vegagerðin, kt. 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á landi og malarefni úr jörðunum Móbergi og Ásgrímsstöðum, Fljótsdalshéraði. Eignarnámsþoli er eigandi jarðanna, Friðrik V. Halldórsson, kt. 260651-7819.

 

Tilefni eignarnámsins eru fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema við endurbyggingu Borgarfjarðarvegar (94) frá Lagarfossi að Sandi í Hjaltastaðaþinghá, ásamt lagningu bundins slitlags á 900 m. kafla á Lagarfossvegi. Tilgangur framkvæmdarinnar að sögn eignarnema er að auka umferðaröryggi á Borgarfjarðarvegi og tryggja greiðari samgöngur.

Andlag eignarnámsins er 0,5 ha. lands úr landi Móbergs og 7,1 ha. lands úr landi Ásgrímsstaða. Þá er krafist mats á 2.400 m³ af jarðefni. Heildarflatarmál hins nýja vegsvæðis er samtals 12,6 ha., en hinn nýji vegur mun liggja á sama stað og núverandi vegur og telur því eignarnemi að draga eigi land sem undir honum er frá heildarflatarmáli vegsvæðisins og er því krafist bóta á framangreindum 7,6 ha. lands.

 

Eignarnámsheimildina er að finna í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 12. desember 2008. Eignarnemi lagði þá fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Miðvikudaginn 17. desember 2008 var farið á vettvang og aðstæður skoðaðar. Matsnefndin heimilaði þá eignarnema umráð hins eignarnumda þótt mati væri ekki lokið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

 

Miðvikudaginn 14. janúar 2009 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

 

Föstudaginn 6. febrúar 2009 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt öðrum gögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir matsnefndinni.

 

Föstudaginn 27. mars 2009 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því búnu.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Af hálfu eignarnema er þess krafist að metin verði til fjár 30 m. breið og 4200 m. löng spilda sem fer undir hinn nýja veg. Til frádráttar skuli þó koma 12 m. breið spilda þar sem eldri vegur er nú, enda mun hinn nýji vegur liggja í gamla vegstæðinu. Að mati eignarnema er því hið eignarnumda svæði 12,6 ha. en frá því skuli dagast 5,0 ha þannig að það sem til mats er séu 7,6 ha. lands auk malarefnis sem vikið verður að síðar.

 

Að mati eignarnema eru 0,6 ha. af því landi sem krafist er mats á tún en 7,0 ha. beitiland. Eignarnemi hefur gert grein fyrir tilraunum sínum til að ná samningum við eignarnámsþola um bæturnar, en telur öll tilboð sín í þeim samningatilraunum nú niður fallin og gerir því kröfu til þess að matsnefndin komist að niðurstöðu sinni án tillits til þeirra.

 

Eignarnemi telur að matsnefndin skuli með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar ákvarða fullar bætur vegna eignarnámsins og þannig sé honum skylt að bæta eignarnámsþola allt fjárhagslegt tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna framkvæmdanna og að eignarnámsþoli skuli vera eins settur fjárhagslega og hann var fyrir.

 

Varðandi 2400 m³ af malarefni sem tekið hefur verið eignarnámi og nú er krafist mats á kveður eignarnemi það hafa verið notað í efra burðarlag og telur eignarnemi að greiða eigi kr. 50 pr./m³ sbr. framlögð orðsending eignarnema nr. 2/2009. Eignarnemi telur efnið vera utan markaðssvæða og örðugt hafi verið að vinna það og því verði ekki annað séð en eignarnemi sjálfur sé eini raunhæfi kaupandi þess. Eignarnemi tekur sérstaklega fram að hann eigi ekki að þurfa að greiða fyrir 600 m³ malarefnis sem nú liggi á því 12 m. breiða svæði sem eldri vegur er, þar sem sá vegur sé eign eignarnema og þ.m.t. malarefnið sem í honum er og nýtist nú.

 

Hvað hið eignarnumda land varðar bendir eignarnemi á að nýji vegurinn liggur í gamla vegstæðinu. Rask vegna framkvæmdarinnar sé því óverulegt og mun minna en þegar nýtt land er brotið undir veg. Eignarnemi kveður jarðirnar vera landbúnaðarjarðir í eyði og ekkert liggi fyrir um breytta nýtingu þeirra.

 

Svo sem að framan greinir telur eignarnemi að ekki skuli litið til þeirra tilboða sem hann lagði fram við tilraunir til að ná sáttum í máli þessu. Þá hafi hann boðið fram kr. 200.000 pr./ha. fyrir beitiland en kr. 400.000 pr./ha. fyrir tún. Telur eignarnemi þetta allt of háar fjárhæðir og heldur því fram að líta eigi til orðsendingar hans nr. 2/2009 og landsölu á svæðinu við ákvörðun bótanna. Í þessu sambandi hefur eignarnemi vísað til ýmissa afsala og eldri úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta og telur með vísan til þessa að hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land séu kr. 100.000 pr./ha. Eignarnemi bendir sérstaklega á að fjárhagsástand hér á landi um þessar mundir hljóti að koma niður á landverði eins og öðru og því sé ekki raunhæft að líta til landverðs eins og það var fyrir 2-3 árum.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega kröfum eignarnámsþola vegna girðinga, skurða og vegna heimreiðarhliðs. Kveðst eignarnemi muni setja upp nýjar girðingar samhliða hinum nýja vegi. Þá liggi ekkert fyrir um tjón á nefndu heimreiðarhliði, en hafi það átt sér stað sé það annað mál sem ekki geti átt undir eignarnámsmál þetta. Eignarnemi telur ekki að eignarnámsþoli hafi orðið fyrir neinu tjóni sem ekki verði lagfært í sambandi við skurðakerfi jarða hans vegna framkvæmdanna.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um að matsnefndin meti fullar bætur fyrir hið eignarnumda. Þá er þess krafist að matsnefndin ákvarði eignarnámsþola hæfilega fjárhæð vegna þess kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir vegna eignarnámsins.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því sérstaklega að litið sé svo á við afmörkun hins eignarnumda að gamli vegurinn sé 12 m. breiður. Hann sé í mesta lagi 6 m. breiður eins og sjá megi á myndum og við vettvangsgöngu. Telur því eignarnámsþoli að afmörkun andlagsins að þessu leyti sé ónákævæm. Því er ekki mótmælt í sjálfu sér af hálfu eignarnámsþola að það land sem raunverulega fer undir eldri veg skuli koma til frádráttar því landi sem fer undir hinn nýja veg, en eignarnámsþoli telur 5 ha. frádrátt af þessum sökum allt of mikið.

 

Eignarnámsþoli telur óraunhæft að miða við fasteignamatsverð jarða og söluverð annarra jarða við mat á bótum í máli þessu. Telur eignarnámsþoli að jarðir séu jafn misjafnar og þær eru margar og líta beri sérstaklega til landkosta og fegurðar landsins í þessu tilfelli. Telur eignarnámsþoli að vegurinn skeri landið með óheppilegum hætti í 3 hluta sem geri jarðirnar báðar verðminni.

 

Eignarnámsþoli telur að 1,872 ha. af hinu eignarnumda séu tún. Þá telur eignarnámsþoli að 1,1512 ha. af hinu eignarnumda hafi verið nýtt til skógræktar. Alls séu því 3,0232 ha. af hinu eignarnumda ræktað svæði og annað land sé vel gróið og hentugt til ræktunar.

 

Eignarnámþoli telur að við matið beri að taka tillit til kr. 282.000 pr./ha ræktunarkostnaðs vegna túnanna og kr. 80.000 pr./ha vegna jarðvinnslu fyrir skógræktarsvæðið. Eignarnámsþoli telur með vísan til tilvitnaðra fyrri úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta og þess sem að framan greinir að verðmæti landsins geti ekki talist minna en kr. 400.000 pr./ha.

 

Hvað hið eignarnumda malarefni varðar telur eignarnámsþoli að það sé innan markaðssvæða og gerir kröfu um að það verði metið sem slíkt. Telur eignarnámsþoli að verðmæti þess sé kr. 108 pr./m³.

 

Þá krefst eignarnámsþoli bóta fyrir tímabundin afnot eignarnema á landi hans og vegna rasks vegna framkvæmdarinnar. Fyrir liggi að eignarnemi hafi geymt malarefni á hans landi frá árslokum 2006. Haugsvæðið sé 250 m² að stærð og að mati eignarnámsþola sé hæfilegt leigugjald vegna þessa kr. 120 pr./ m² í 24 mánuði eða samtals kr. 900.000. Þá telur eignarnámsþoli að eignarnema beri að bæta honum heimreiðarhlið sem skemmst hafi við framkvæmdina. Telur hann að tjón vegna þessa nemi kr. 250.000.

 

Eignarnámsþoli krefst þess að eignarnema verði gert að greiða honum bætur fyrir nýjar girðingar og skurði vegna framkvæmdarinnar. Kveður eignarnámsþoli að í fyrri samningsdrögum milli aðila hafi verið við það miðað að eignarnámsþola yrðu greiddar  kr. 525 pr./m. fyrir girðingar og kr. 150 pr./m³ fyrir skurði. Með hliðsjón af hækkun kostnaðar við girðingarvinnu síðan það tilboð var lagt fram telur hann að hæfilegar bætur vegna þessa þáttar séu kr. 272 pr./m. fyrir girðingar eða samtals kr. 446.080. Þá telur eignarnámsþoli að girðing vestan vegar í Ásgrímsstaðalandi lendi hugsanlega innan hins eignarnumda svæðis og þvi verði að færa þá girðingu. Er gerð krafa til þess að litið verði til þessa við matið.

 

Samantekt á kröfu eignarnámsþola er sem hér segir:

 

Bætur fyrir land                                                           kr.             2.840.000

Bætur fyrir ræktunarkostnað                                       kr.                620.000

Bætur fyrir tímabundið óhagræði og rask                    kr.                100.000

Bætur fyrir tímabundin afnot lands                             kr.                900.000

bægtur fyrir skemmt hlið á heimreið að Móbergi         kr.                250.000

Bætur fyrir girðingar og skurð                                     kr.             1.733.805

Bætur fyrir efnistöku                                                   kr.                324.000

Samtals                                                                         kr.             6.767.805

 

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Fyrir liggur að hinn nýji vegur liggur í eldra vegstæði. Að þessu leyti eru áhrif hins nýja vegar í landinu minni en þau væru ef nýtt land væri brotið undir veg. Fallist er á það með eignarnema að land undir núverandi vegi skuli koma til frádráttar þeirri 30 m. breiðu og 2.400 m. löngu spildu sem fer undir nýja veginn. Fallist er á það með eignarnámsþola að breidd hins eldri vegar sé ekki 12 m. Miðað við skoðun á vettvangi, skoðun á myndum og aðstæðna allra þykir rétt að miða við að land sem undir hinn eldri veg sé að meðaltali 6 m. breiður og því skuli eignarnámið ná til 10,6 ha. lands (12,6 ha – 2,5 ha.). Af sömu sökum er talið að malarefni sem notað er í hinn nýja veg og eignarnemi er þegar eigandi að séu 300 m³ en ekki 600 m³. Fyrir ligur að 3.000 m³ malarefnis voru nýttir í hinn nýja veg. Tekur því matið nú til 2.700 m³. Vísað er til 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

Fyrir liggur að tún þau sem eignarnumin hafa verið vegna framkvæmdarinnar eru gömul tún sem ekki hafa verið nýtt um langa hríð. Við mat á markaðasverðmæti landsins þykja ekki efni til að gera sérstaka aðgreiningu á landinu að þessu leyti og telst því allt landið falla innnan sama verðflokks. Með hliðsjón af landgæðum, fjarlægð frá næstu þéttbýlisstöðum og hæð yfir sjávarmáli er talið að raunhæft verð fyrir spildur á þessum slóðum sé kr. 200.000 pr./ha. Á það ber hins vegar að líta að hið eignarnumda land er allt í nágrenni við veg sem verið hefur um langa hríð í landinu og dregur það verulega úr verðmæti þess lands sem næst er veginum. Með hliðsjón af þessu telur matsnefndin hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera kr. 150.000 pr./ha. eða samtals kr. 1.590.000.

 

Fallist er á það með eignarnema að hið eignarnumda malarefni sé ekki á markaðssvæði. Ber því að líta til orðsendingar eignarnema sjálfs við mat á því og teljast hæfilegar bætur fyrir það vera kr. 50 pr./ m³ eða samtals 135.000.

 

Hæfilegar bætur fyrir tímabundin afnot lands, m.a. vegna tímabundinnar geymslu  malarefnis á því og vegna rasks í tengslum við framkvæmd eignarnema, þykja kr. 100.000.

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að honum beri sérstakar bætur vegna lagningar girðinga vegna framkvæmdar eignarnema enda liggur fyrir að lagning nýrrar girðingar er þáttur í framkvæmd eignarnema. Þá á deila um hugsanlega bótakröfu vegna heimreiðarhliðs ekki undir matsnefndina og er þeim þætti málsins vísað frá nefndinni.

 

Hæfileg fjárhæð til greiðslu kostnaðar þess sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna eignarnámsins þykir kr. 1.451.047, þ.m.t. vsk. Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar í máli þessu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, . 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, eiganda jarðanna Móbergs og Ásgrímsstaða, Fljótsdalshéraði, Friðriki V. Halldórssyni, kt. 260651-7819, kr. 1.825.000 í eignarnámsbætur og kr. 1.451.047 í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

 

________________________________

Helgi Jóhannesson

 

______________________________                      ___________________________

Benedikt Bogason                                                     Björn Þorri Viktorsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum