Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 60/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 60/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Reykjanesbæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur. Með kæru, dags. 26. október 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 23. september 2015, á umsókn um fleiri liðveislutíma fyrir son hennar, B.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

I. Málavextir og málsmeðferð

Í október 2014 var gerður samningur um liðveislu fyrir son kæranda þar sem hann fékk samþykktar tíu klukkustundir á mánuði í liðveislu frá Reykjanesbæ á grundvelli þágildandi reglna sveitarfélagsins um félagsþjónustu. Gildistími samningsins var til 1. júní 2015. Við endurnýjun samningsins í ágúst 2015 var samþykktum tímum fækkað í átta klukkustundir á mánuði. Kærandi óskaði þá eftir að fá liðveislu í 16 klukkustundir á mánuði fyrir son hennar.

Erindi kæranda var synjað með bréfi Reykjanesbæjar, dags. 23. september 2015, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum sveitarfélagsins. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 26. október 2015. Með bréfi, dags. 29. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. nóvember 2015, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Fram kemur í kæru að ákvörðun velferðarsviðs Reykjanesbæjar sé mótmælt. Skilja verður kæruna þannig að þess sé krafist að synjun Reykjanesbæjar, dags. 10. nóvember 2015, um 16 klukkustunda liðveislu á mánuði fyrir son kæranda, verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið liðveislu fyrir son sinn veturinn 2014 til 2015. Hún hafi óskað eftir að liðveitandinn myndi vera með syni hennar á [...] æfingum þar sem hann ætti í miklum félagslegum erfiðleikum. Samþykktar hafi verið tíu klukkustundir á mánuði í liðveislu en það hafi ekki dugað fyrir öllum æfingum og því hafi foreldrarnir þurft að sitja þær æfingar sem eftir stóðu. Haustið 2015 hafi hún fengið þær upplýsingar að minnka ætti liðveislutímana niður í átta klukkustundir á mánuði. Sonur kæranda geti því einungis mætt á eina æfingu í viku á meðan jafnaldrar hans æfi þrisvar sinnum í viku.

Kærandi tekur fram að sonur hennar sé með stuðningsaðila í skólanum allan daginn og hann þurfi einnig á stuðningi að halda á íþróttaæfingum. Hann eigi enga vini og því þyrfti hann einnig að fá aukatíma með liðveitanda sínum fyrir utan æfingar. Ef vel ætti að vera þyrfti hann að lágmarki 14 klukkustundir á mánuði.

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að samningur um liðveislu fyrir son kæranda hafi fyrst verið gerður í október 2014. Þá hafi hann fengið samþykktar tíu klukkustundir á mánuði í samræmi við þágildandi reglur sveitarfélagsins. Samningurinn hafi gilt til 1. júní 2015. Í janúar 2015 hafi verið gerðar breytingar á reglum um liðveislu þar sem heimiluðum tímum hafi verið fækkað í átta klukkustundir. Breytingarnar hafi verið staðfestar af bæjarstjórn Reykjanesbæjar í febrúar 2015.

Við endurnýjun samningsins í ágúst 2015 hafi kærandi verið upplýst um nýjar reglur og samningur útbúinn í samræmi við þær. Liðveitandi hafi skrifað undir nýja samninginn en kærandi hafi ekki enn undirritað samninginn. Þrátt fyrir það hafi sveitarfélagið greitt liðveitanda fyrir sína vinnu, átta klukkustundir á mánuði.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort sonur kæranda eigi rétt á fleiri liðveislutímum á mánuði en Reykjanesbær hefur samþykkt. Reykjanesbær hefur vísað til þess að sonur kæranda hafi fengið samþykktar átta klukkustundir á mánuði í liðveislu í samræmi við reglur sveitarfélagsins.  

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk.  

Í 24. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Reykjanesbær hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um liðveislu sem samþykktar voru í bæjarstjórn 3. febrúar 2015. Í gr. 7.2.2 reglnanna kemur fram að liðveisla sé fyrir fatlað fólk, á aldrinum 6 til 66 ára með lögheimili í Reykjanesbæ, sem þurfi persónulegan stuðning og aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun. Þá megi veita liðveislu börnum á aldrinum 6 til 17 ára sem hafi vægari þroskaraskanir og uppfylla framangreind skilyrði um félagslega einangrun.

Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal skv. 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Í gr. 7.2.4 reglna sveitarfélagsins er greint frá mati á þjónustuþörf vegna liðveislu og vísað til þess að sérstaklega skuli skoða félagslega stöðu umsækjanda og fjölskylduaðstæður. Þá kemur fram í gr. 7.2.5 reglnanna að almennt sé veitt samþykki fyrir átta klukkustundum á mánuði en við sérstakar aðstæður og að fengnu samþykki Fjölskyldu- og félagsmálaráðs sé heimilt að veita fleiri tíma. Kærandi óskaði þess sérstaklega að sonur hennar fengi fleiri en átta liðveislutíma á mánuði en af gögnum málsins verður ekki séð að sveitarfélagið hafi lagt mat á þjónustuþörf hans með vísan til sérstakra aðstæðna hans, sbr. gr. 7.2.4 og 7.2.5 reglna Reykjanesbæjar um liðveislu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. Stjórnsýslulaga, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort veita skyldi undanþágu frá almennu ákvæði um liðveislu. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar um synjun á umsókn A um fleiri liðveislutíma fyrir son hennar, B, er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

 

 

 

 

 

 

 

                                         


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum