Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 69/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Garðabæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. desember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Garðabæjar, dags. 10. desember 2015, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. ágúst 2015, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Garðabæ. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskyldusviðs Garðabæjar, dags. 6. nóvember 2015, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskylduráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. desember 2015 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 17. desember 2015. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Garðabæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Garðabæjar barst með bréfi, dags. 22. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 28. janúar 2016, var bréf Garðabæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski eftir því að synjun Garðabæjar verði felld úr gildi og umsókn hans um fjárhagsaðstoð samþykkt. Kærandi tekur fram að hann fái styrk frá Tryggingastofnun ríkisins vegna fangelsisvistar að fjárhæð 53.000 kr. á mánuði. Aðrar fjárhæðir sem hann fái séu ekki tekjur heldur þóknun frá fangelsinu en að jafnaði sé hún um 5.000-6.000 kr. á viku.

III. Sjónarmið Garðabæjar

Í greinargerð Garðabæjar kemur fram að umsókn kæranda hafi ekki borið með sér hvers konar félagslegri aðstoð hann væri að leita eftir og engin gögn hafi fylgt með umsókninni. Því hafi verið ákveðið að óska eftir upplýsingum um fjárhag og aðstæður kæranda. Að lokinni gagnaöflun hafi legið fyrir að kærandi væri að óska eftir styrk til framfærslu, fatakaupa og skólagöngu. Umsókn kæranda hafi verið synjað á grundvelli reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð en í þeim sé ekki kveðið á um heimild til að veita framfærslustyrk vegna umbeðinna atriða kæranda.

Tekið er fram að kærandi hafi aðgang að húsnæði og fæði sem séu veigamestu þættirnir í framfærslu. Hann fái að meðaltali um 120.000 kr. í tekjur á mánuði en um sé að ræða laun frá B vegna vinnu/náms og vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 53.354 kr. Í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð séu ekki nein sérákvæði sem eigi við um aðstæður fólks sem afpláni í fangelsi. Í máli kæranda gildi því almennar reglur en framfærslugrunnur þeirra, sem ekki hafi kostnað af húsnæði, sé 124.995 kr. Fatakaup kæranda séu hluti af venjulegri framfærslu. Hvað varði umsókn kæranda um styrk til náms verði ekki séð að hann hafi lagt fram gögn í málinu er sýni fram á kostnað vegna skólagöngu. Kærandi hafi upplýst um að hann væri í almennu námi og fengi laun á sama tíma.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Garðabæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ er kveðið á um mat á fjárþörf og útreikningi fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 9. gr. að við ákvörðun um fjárhagsaðstoð skuli grunnþörf til framfærslu, sbr. 10. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 11. gr. Í 10. gr. reglnanna kemur fram að framfærslugrunnur fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem búi með öðrum, leigi húsnæði án þinglýsts húsaleigusamnings eða hafi ekki aðgang að húsnæði geti numið allt að 124.995 kr. á mánuði. Í 11. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur umsækjenda í þeim mánuði sem sótt sé um og tveimur undangengnum mánuðum séu taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda, þ.e. atvinnutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Samkvæmt framangreindu teljast því allar greiðslur sem kærandi fær vegna fangelsisvistar honum til tekna.   

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 13. ágúst 2015. Bar því að miða við tekjur kæranda í júní, júlí og ágúst 2015. Miðað við fyrirliggjandi gögn voru meðaltekjur kæranda framangreinda mánuði 126.398 kr. Tekjur kæranda voru því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð og kærandi hafi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2015. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Garðabæjar um synjun á umsókn A um fjárhagaðstoð er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum