Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 25/2016

Fimmtudaginn 28. apríl 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. janúar 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurbogar, dags. 9. september 2015, á umsókn hans um greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið 10. apríl til 30. júní 2015.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 15. júlí 2015, og var samþykkt að greiða honum húsaleigubætur frá 1. júlí 2015. Með umsókn, dags. 5. ágúst 2015, sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið 10. apríl til 30. júní 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dagsettu sama dag, með þeim rökum að umsóknin hafi ekki borist á tilsettum tíma, sbr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. september 2015 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun velferðarráðs og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 18. nóvember 2015.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. janúar 2016. Með bréfi, dags. 26. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 12. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. febrúar 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á að synjun Reykjavíkurborgar um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert skylt að greiða honum húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. apríl til 30. júní 2015. 

Kærandi greinir frá því að hann hafi skrifað undir húsaleigusamning við Félagsstofnun stúdenta þann 25. mars 2015 og fengið þar upplýsingar um rétt til húsaleigubóta frá Reykjavíkurborg. Í samræmi við þær leiðbeiningar hafi hann farið með samninginn í þinglýsingu hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 30. mars 2015. Vegna verkfalls hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi samningnum ekki verið þinglýst fyrr en 15. júní 2015. Þann 15. júlí 2015 hafi hann sótt um húsaleigubætur og afhent þinglýstan húsaleigusamning líkt og kveðið sé á um í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Kærandi bendir á að hann hafi ekki getað afhent þinglýstan húsaleigusamning fyrr en 15. júní 2015 vegna verkfallsins. Undir venjulegum kringumstæðum taki að hámarki um tvær vikur frá móttöku að þinglýsa skjölum hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem húsaleigusamningurinn hafi verið móttekinn til þinglýsingar 30. mars 2015 hefði kærandi að öllu óbreyttu getað afhent Reykjavíkurborg þinglýstan húsaleigusamning eigi síðar en 16. apríl 2015 og þá fengið greiddar húsaleigubætur frá 1. apríl 2015, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997.

Kærandi byggir á því að hann eigi ekki að bera ábyrgð á framangreindum töfum hjá sýslumannsembættinu. Verkfallið feli í sér force majeure ástand sem geri það að verkum að skylda til að greiða húsaleigubætur haldist þann tíma sem hafi tekið að þinglýsa samningnum. Kærandi hafi þannig ekki getað uppfyllt skilyrði laga nr. 138/1997 vegna þessa ástands sem hann hafi ekki borið ábyrgð á. Að mati kæranda beri að líta til þess að markmið laga nr. 138/1997 sé að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði til að hljóta húsaleigubætur en óviðráðanleg ytri atvik hafi komið í veg fyrir að hann gæti uppfyllt formskilyrði umsóknar í lögum. Þá vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. nóvember 2015 í máli nr. E-1819/2015 og telur hann hafa fordæmisgildi í málinu.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur en þar komi fram að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Í 1. tölul. 11. gr. laganna komi fram að með umsókn skuli fylgja húsaleigusamningur, gerður á staðfest samningseyðublað, undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur. Framangreindar reglur séu einnig ítrekaðar í 4. gr. reglugerðar nr. 118/2003 um húsaleigubætur.

Reykjavíkurborg bendir á að kærandi hafi ekki leitað eftir leiðbeiningum frá þjónustumiðstöðvum borgarinnar um hvernig beri að standa að umsókn um húsaleigubætur en þær sjái um afgreiðslu umsókna. Sveitarfélagið geti ekki borið ábyrgð á röngum leiðbeiningum annarra aðila. Þeir sem hefðu leitað til þjónustumiðstöðvanna hefðu fengið þær upplýsingar að skila bæri inn umsókn um húsaleigubætur ásamt staðfestingu á því að húsaleigusamningi hafi verið skilað inn til þinglýsingar. Með því að skila inn umsókn hefðu umsækjendur fengið frest í tvo mánuði til að skila inn nauðsynlegum gögnum, þar með talið þinglýstum húsaleigusamningi, sbr. 12. gr. laga um húsaleigubætur. Í þeim tilfellum þar sem lengri tími hafi liðið hefðu umsóknir verið afgreiddar þegar þinglýstum húsaleigusamningi hafi verið skilað. Umsókn kæranda um húsaleigubætur hafi ekki borist þjónustumiðstöð fyrr en 15. júlí 2015 og því hafi umsóknin verið samþykkt frá 1. júlí 2015. Reykjavíkurborg byggir á því að orðalag 3. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 feli það í sér að ekki sé heimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann ef umsókn berst seinna en ákvæðið kveður á um. Þrátt fyrir verkfallið hefði kærandi getað skilað inn umsókn um húsaleigubætur ásamt staðfestingu á að húsaleigusamningi hefði verið skilað inn til þinglýsingar.

Reykjavíkurborg fellst ekki á að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. nóvember 2015 hafi fordæmisgildi í máli kæranda. Um húsaleigubætur gildi lög nr. 138/1997 og Reykjavíkurborg sé skylt að fylgja þeirri löggjöf. Í 3. mgr. 10. gr. laganna sé skýrt kveðið á um það að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar en ekki sé að finna heimildir til undanþágu í sérstökum tilvikum.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið 10. apríl 2015, en þá tók kærandi við leiguhúsnæði sínu, til 30. júní 2015.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur segir að umsókn um húsaleigubætur skuli skilað til viðkomandi sveitarfélags sem annast afgreiðslu og útborgun bóta. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna skulu umsóknir hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta með umsókn, dags. 15. júlí 2015, og var samþykkt að greiða kæranda húsaleigubætur frá 1. júlí 2015. Kærandi byggir á því að hann hafi ekki getað sótt um húsaleigubætur fyrr vegna verkfalls hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og að hann eigi ekki að bera ábyrgð á þeim töfum. Verkfallið mun hafa staðið frá 7. apríl til 13. júní 2015.

Á umsóknareyðublaði Reykjavíkurborgar um húsaleigubætur, sem kærandi notaði bæði fyrir umsóknir sínar frá 15. júlí og 5. ágúst 2015, kemur fram að umsókn skuli berast eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Sömu upplýsingar koma fram á vef Reykjavíkurborgar. Þar kemur einnig fram að berist umsókn seinna verða húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn komi bætur ekki til greiðslu í næsta mánuði á eftir, en réttur til bóta miðist hins vegar við umsóknartíma, berist fullnægjandi gögn síðar. Samkvæmt framangreindu, sem og 12. gr. laga nr. 138/1997, glatast réttur til húsaleigubóta ekki þó að fullnægjandi gögn, t.d. þinglýstur húsaleigusamningur, fylgi ekki umsókn. Þrátt fyrir þetta skilaði kærandi umsókn um húsaleigubætur ekki til Reykjavíkurborgar fyrr en mánuði eftir að húsaleigusamningi hafði verið þinglýst hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið þann 15. júlí 2015. Verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættinu hafði því ekki áhrif á möguleika kæranda á að sækja um húsaleigubætur í tíma eða rétt hans til húsaleigubóta, heldur einungis að kærandi gat ekki strax í upphafi skilað inn fullnægjandi gögnum með umsókn sinni. Þær leiðbeiningar sem kærandi kann að hafa fengið frá Félagsstofnun stúdenta koma ekki til álita í þeim efnum.

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 3. mgr. 10. gr. er það skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta að að umsókn um húsaleigubætur berist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Kærandi skilaði umsókn sinni um húsaleigubætur til Reykjavíkurborgar 15. júlí 2015. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið 10. apríl 2015 til 30. júní 2015. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. september 2015, um synjun á umsókn A, um greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið 10. apríl 2015 til 30. júní 2015 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum