Hoppa yfir valmynd

Mál nr. IRR14120274

 Ár 2015, þann 25. júní, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14120274

 

Kæra [JN]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 23. desember 2014 barst ráðuneytinu kæra [JN], (hér eftir nefndur JN), á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 25. september 2014 um að synja umsókn JN um leyfi til aksturs leigubifreiðar sem forfallabílstjóri. Krefst JN þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Þann 23. september 2014 barst SGS umsókn JN um leyfi til aksturs leigubifreiðar sem forfallabílstjóri en slíkt atvinnuleyfi er skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur. Með ákvörðun SGS þann 25. september 2014 var umsókn JN synjað þar sem JN hefði verið dæmdur til refsingar og uppfyllti því ekki skilyrði fyrir leyfisveitingunni.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi JN mótteknu þann 23. desember 2014.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 5. janúar 2015 var óskað eftir umsögn SGS um kæruna og stofnuninni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bárust athugasemdir SGS ráðuneytinu með bréfi dags. 26. janúar 2015. 

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. febrúar 2015 var JN gefinn kostur á að gæta andmælaréttar. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. mars 2015 var JN tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.

 

III.       Málsástæður og rök JN

Í kæru vísar JN til þess að þau skilyrði sem þurfi að uppfylla til að fá atvinnuleyfi séu tilgreind í 5. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001. Í 4. tl. 1. mgr. 5. gr. segi að umsækjandi megi ekki hafa verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Í ákvæðinu segi jafnframt að hafi brot verið smávægilegt eða langt sé um liðið frá því að brot var framið geti umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.

Í ákvörðun SGS sé vísað til tveggja dóma sem JN hafi fengið, annars vegar dóms Hæstaréttar frá […] og hins vegar dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá […]. Í fyrra málinu hafi JN verið dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í fimm ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í seinna málinu hafi JN verið dæmdur í sjö mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga en þau brot hafi rofið skilorð samkvæmt fyrri dómnum.

JN kveðst ekki vera sammála túlkun SGS á að tilgreindir dómar valdi því að hafna beri umsókn hans. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. sé ljóst að umsækjandi þurfi að hafa brotið gegn þeim lögum og reglum sem tengjast starfsgreininni, þ.e. leigubifreiðaakstri. JN hafi verið dæmdur fyrir sölu og vörslu lyfja og peningaþvætti sem snerti ekki þau lög og reglur sem gildi um leigubifreiðaakstur. Þá vísar JN til þess að verði litið svo á að 1. ml. töluliðarins eigi við geti umsækjandi öðlast leyfi hafi brot verið smávægilegt, sbr. 2. ml. ákvæðisins. Refsirammi fyrir brot gegn lyfjalögum sé tvö ár og fyrir peningaþvætti sex ár. JN hafi einungis verið dæmdur samanlagt í sjö mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Líta verði svo á að brot JN hafi verið smávægilegt og því eigi undanþáguheimild 2. ml. við. Sé vafi á túlkun á því ákvæði beri að skýra það JN í hag samkvæmt almennum túlkunarsjónarmiðum. Einnig vegi þungt að um atvinnuréttindi sé að ræða sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar um frelsi manna til stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.

Þá bendir JN á það að hann hafi tekið út sína refsingu og að henni lokinni eigi hún ekki að verða til þess að hann njóti ekki jafnréttis á við aðra að öðru leyti. Það að skerða atvinnuréttindi út af alls óskyldu broti sé brot á tilgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá verði ekki litið framhjá því við mat á því hvort meðalhófs sé gætt við skerðingu atvinnuréttinda að dómar JN varði ekki brot þar sem brotið er á rétti einstaklinga. Skiljanlegt kunni að vera að takmarkað sé aðgengi manna sem hafi verið dæmdir fyrir ofbeldi eða kynferðisbrot til að aka með ókunnuga gegn gjaldi. Vandséð sé hins vegar hvaða hagsmuni sé verið að verja með því að hafna umsækjanda á grundvelli brota hans. Gangi skerðingin því of langt og sé ólögmæt.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að skilyrði atvinnuleyfis sem forfallabílstjóri sé að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur. Við mat á umsókn JN sé horft til skilyrða sem tilgreind eru í 5. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001. Sé SGS heimilt að veita umsækjanda slíkt atvinnuleyfi ef hann uppfyllir þau skilyrði að hafa fullnægjandi starfshæfni, þ.m.t. fullnægjandi ökuréttindi og tilskilin námskeið sem fjallað sé um í reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003, vera 70 ára eða yngri og hafa ekki verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda.

Á sakavottorði sem fylgt hafi umsókn JN komi fram að hann hafi með dómi Hæstaréttar þann […] verið dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar. Þá liggi fyrir dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá […] þar sem JN sé dæmdur til að sæta sjö mánaða fangelsi. Þyki ekki vera fyrir hendi skilyrði 2. ml. 4. tl. 1. mgr. 5. gr.

Í dómi héraðsdóms sé fjallað um skilorðsrof og hafi málin því verið dæmd í einu lagi. Er það niðurstaða SGS að JN uppfylli ekki skilyrði 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar til að mega öðlast atvinnuleyfi til leiguaksturs. Ekki þyki forsendur fyrir því að veita undanþágu vegna þess að brot teljist smávægilegt eða langt sé um liðið frá því að það var framið. Sé umsókninni því hafnað.

Í umsögn SGS kemur fram að stofnunin telji skýrt að skilyrði um að umsækjandi hafi ekki verið dæmdur til refsivistar standi sjálfstætt og óháð því hvaða lögum og reglugerðum brotin beinist gegn. Í ákvæðinu segi að umsækjandi skuli ekki hafa verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot gegn lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Um sé að ræða aðskilda þætti sem annars vegar segi að umsækjandi hafi ekki verið dæmdur til refsivistar, almennt og óháð broti, og hins vegar að hann hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Að mati SGS sé um að ræða skýra afstöðu löggjafans um að þeir sem sæki um leyfi til aksturs leigubifreiða hafi ekki verið dæmdir til refsivistar. Þá tekur SGS ekki undir þá túlkun JN að brot hans teljist smávægileg enda hafi hann verið dæmdur til óskilorðsbundinnar refsivistar. Sé um að ræða brot gegn lyfjalögum og almennum hegningarlögum og hafi JN verið gert að afplána sjö mánaða óskilorðsbundna refsivist. Varðandi atvinnufrelsi 75. gr. stjórnarskrárinnar vísar SGS til þess að atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra séu aðeins veitt að því gefnu að skilyrði 5. gr. laga um leigubifreiðar séu uppfyllt. Um sé að ræða skilyrði sem sett eru með lögum. Telur SGS að ákvæði stjórnarskrár hafi engin áhrif á ákvörðun stofnunarinnar um að hafna umsókn JN enda liggi skýr lagaákvæði fyrir því hvaða skilyrði umsækjendur þurfi að uppfylla. Séu þau ekki uppfyllt af hálfu JN.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um leigubifreiðar gilda lög nr. 134/2001. Um skilyrði fyrir atvinnuleyfi er fjallað í 5. gr. laganna. Samkvæmt 4. tl. ákvæðisins er það skilyrði sett að umsækjandi má ekki hafa verið dæmdur til refsivistar eða hafa framið alvarlegt eða ítrekað brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skal forfallabílstjóri m.a. uppfylla skilyrði 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar. Byggðist synjun SGS á því að umrætt ákvæði stæði í vegi fyrir því að unnt að væri að veita JN umrætt leyfi.

Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar frá […] var JN dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundinnar í fimm ár, fyrir brot gegn lyfjalögum og 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann […] var JN dæmdur til sjö mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brot gegn lyfjalögum. Með þeim brotum rauf JN skilorð samkvæmt fyrri dómnum og voru málin því dæmd í einu lagi.

Það er mat ráðuneytisins að ákvæði 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar sé afdráttarlaust með það að umsækjandi megi ekki hafa verið dæmdur til refsivistar eigi að veita honum leyfi til aksturs leigubifreiðar. Telur ráðuneytið þannig ljóst að ákvæðið verði ekki skilið öðru vísi en svo að hafi umsækjandi annað hvort verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot gegn lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda uppfylli hann ekki skilyrði ákvæðisins. Hafi umsækjandi þannig verið dæmdur til refsivistar gildi einu hvers eðlis brotið sé, nema því aðeins að undanþáguákvæði 2. ml. 4. tl. 1. mgr. 5. gr. eigi við. Þar sem JN hefur verið dæmdur til sjö mánaða óskilorðsbundinnar refsivistar uppfyllir hann því ekki skilyrði 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar.

Þá er það mat ráðuneytisins að brot JN geti ekki talist smávægilegt í skilningi ákvæðis 2. ml. 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar. Er þá til þess að líta að um er að ræða m.a. brot gegn almennum hegningarlögum auk þess sem JN var gert að sæta sjö mánaða óskilorðsbundinni refsivist. Þá sé ekki það langt um liðið síðan brot JN var framið að ákvæðið geti átt við.

Þá verður ekki fallist á þau sjónarmið JN að ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar eigi að leiða til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Er þá til þess að líta að atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra eru aðeins veitt að uppfylltum þar til greindum skilyrðum sem tilgreind eru í 5. gr. laga um leigubifreiðar. Er því skýr lagaheimild fyrir hendi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 25. september 2014 um að synja umsókn [JN] um leyfi til aksturs leigubifreiðar sem forfallabílstjóri

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum