Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 21/2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 22. desember 2016 í máli nr. 21/2016.
Fasteign: Helluhraun [ ], Skútustaðahreppi, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 22. desember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 21/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 29. september 2016, kærðu X, kt. [ ], og Y, kt. [ ], álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Helluhrauni [ ], Skútustaðahreppi, fnr. [ ], fyrir árið 2016.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 11. október 2016, eftir umsögn Skútustaðahrepps vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 28. október 2016.

Hinn 1. nóvember 2016 var umsögn sveitarfélagsins send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kærenda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu. Engar frekari athugasemdir bárust. Málið var tekið til úrskurðar 22. desember 2016.

Málavextir
Hinn 23. mars 2016 fékk kærandi, Y, útgefið leyfi til reksturs gististaðar í flokki I fyrir fasteignina að Helluhrauni [ ], Skútustaðahreppi, fnr. [ ].  

Þann 13. apríl 2016 sendi Skútustaðahreppur kærendum bréf þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði í hyggju að breyta gjaldflokkun fasteignaskatts á fasteign þeirra að Helluhrauni [ ], Skútustaðahreppi, þannig að fasteignin yrði frá og með 15. maí 2016 flokkuð sem eign samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við sveitarfélagið fyrir 15. maí 2016 skriflegum andmælum við fyrirhugaða ákvörðun sveitarfélagsins.

Kærendur mótmæltu fyrirhugaðri breytingu með bréfi, dags. 4. maí 2016, og óskuðu eftir því að þessari ákvörðun yrði breytt á þann veg að einungis sá hluti fasteignarinnar sem væri leigður út til ferðamanna yrði flokkaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og þá einungis fyrir þá mánuði ársins sem fyrirhugað væri að leigja þann hluta hússins út í því skyni.

Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 29. júní 2016, var kærendum tilkynnt að sveitarstjórn hefði ákveðið að helmingur af flatarmáli fasteignarinnar að Helluhrauni [ ] myndi falla í álagningarflokk samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þá kröfu að ákvörðun Skútustaðahrepps um álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Helluhrauni [ ] verði breytt þannig að við álagningu samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði annars vegar miðað við það hlutfall fasteignarinnar sem nýtt er sem gististaður og hins vegar fyrir skilgreint útleigutímabil. Jafnframt er þess krafist að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kærendum ofgreidd fasteignagjöld með hliðsjón af kröfu þeirra um leiðréttingu fasteignagjalda.

Kærendur vísa til þess að fasteignin að Helluhrauni [ ] sé íbúðarhús þeirra sem þau hafa búsetu í allt árið um kring. Þau nýti einungis afmarkaðan hluta hússins til reksturs gististaðar í  takmarkaðan tíma ársins, þ.e. yfir sumartímann. Útgefið rekstrarleyfi þeirra til reksturs gististaðar miðast við afmarkaðan hluta hússins. Þannig eigi við álagningu fasteignaskatts að taka til greina ákvæði 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga um hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Kærendur benda á að fasteign þeirra sé 197,7 m2 að stærð en einungis 58 m2 séu nýttir til reksturs gististaðar og því eigi einungis hluti eignarinnar að falla undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga við álagningu fasteignaskatts. Útgefið rekstrarleyfi miðast við þennan afmarkaða hluta fasteignarinnar og þá sé gististaðurinn einungis starfræktur frá 15. maí til og með 15. september ár hvert.

Samkvæmt framansögðu telja kærendur að hin kærða ákvörðun Skútustaðahrepps sé ekki rétt, hvorki varðandi prósentuskiptingu fasteignagjalda né varðandi tímabil.

Kærendur telja að málsatvik og forsendur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015 séu nokkuð sambærileg við það mál sem hér um ræðir. Ekki sé um að ræða heilsársleigu fasteignarinnar til ferðamanna og einungis afmarkaður hluti hennar sé nýttur til reksturs. Í framangreindu máli hafi yfirfasteignamatsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að flokka íbúð í notkun fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, allt árið, sem hafi verið leigð út í ferðaþjónustu að jafnaði frá júní til ágúst. Þann tíma sem eignin hafi ekki verið nýtt til rekstrar hafi fasteignagjöld verið lögð á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Ef afnotum fasteignar, sem metin er sem ein heild, sé þannig háttað að greiða beri fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, ákveði byggingarfulltrúi hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka, sbr. 6. gr. sömu laga, sbr. jafnframt ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt. Í síðarnefnda ákvæðinu komi einnig fram að ef fasteign sem notuð sé hluta úr ári til atvinnurekstrar, svo sem gistiþjónustu, beri sveitarstjórn að leggja fasteignaskatt á þann hluta eignarinnar sem notaður sé við starfsemina, í réttu hlutfalli við notkunartímann.

Með vísan til framangreinds telja kærendur að Skútustaðahreppur hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni við að mæla upp rekstrarhluta fasteignarinnar og að ólögmætt hafi verið að leggja fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga á fasteign þeirra að Helluhrauni [ ] í lengri tíma og á stærra rými en skilgreindur hafi verið til rekstursins.

Sjónarmið Skútustaðahrepps
Í umsögn Skútustaðahrepps, dags. 28. október 2016, er rakin forsaga málsins og gerð aðallega sú krafa að staðfest verði ákvörðun sveitarfélagsins um álagningu fasteignaskatts vegna ársins 2016, þannig að helmingur fasteignarinnar að Helluhrauni [ ] verði skattlagður frá 1. mars 2016 samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Til vara er þess krafist að fyrrgreind álagning miðist við 15. maí 2016. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka mál kærenda til meðferðar að nýju. Þá er þess krafist að krafa kærenda um endurgreiðslu álagðra fasteignagjalda ársins 2016 verði vísað frá nefndinni.

Að mati sveitarfélagsins er óumdeilt að fasteign kærenda að Helluhrauni [ ] hafi verið nýtt að hluta til fyrir ferðaþjónustu, nánar tiltekið til reksturs gististaðar gegn endurgjaldi. Vísar sveitarfélagið almennt til þeirra úrskurða yfirfasteignamatsnefndar þar sem fjallað hafi verið um hugtakið ferðaþjónustu. Í ljósi þess telur sveitarfélagið rétt að álagning fasteignaskatts miðist við að helmingur eignarinnar verði samkvæmt c-lið 3. mgr., sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Álagning samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna taki mið af því til hvers fasteignin sé raunverulega nýtt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 85/2006.

Af hálfu sveitarfélagsins er ekki fallist á þá kröfu kærenda að skipta skuli álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar milli a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Kærendur hafi fengið útgefið rekstrarleyfi í mars 2016 og það beri hvorki með sér að vera takmarkað við hluta fasteignarinnar né ákveðinn hluta árs. Kærendur hafi engin gögn lagt fram því til stuðnings að fasteign þeirra standi ferðamönnum aðeins til boða hluta úr ári. Jafnvel þótt svo væri verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2013, 4/2015 og 18/2015. Það hafi kærendur ekki gert. Sveitarfélagið vísar jafnframt til þess að það fyrirkomulag að eigendur geti tilkynnt eftir á hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað sé að mati yfirfasteignamatsnefndar andstæð lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Bent er á að sveitarfélagið hafi tekið tillit til sjónarmiða kærenda í kjölfar andmæla þeirra við ákvörðun sveitarfélagsins frá 31. mars 2016 þegar ákveðið hafi verið að fasteignaskattur af helmingi fasteignar þeirra skyldi ákveðinn samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Að mati sveitarfélagsins er ósannað að aðeins 58 m2 af fasteigninni sé nýttur í ferðaþjónustu og að ferðamenn hafi ekki aðgengi að neinum öðrum hlutum hennar. Þá liggi heldur ekki fyrir um hlutfall af herbergjum fasteignarinnar sem séu í útleigu.

Sveitarfélagið tekur fram að núgildandi álagning fasteignaskatts geri ráð fyrir að helmingur fasteignarinnar að Helluhrauni [ ] sé skattlagður frá 1. mars 2016 samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í þeim mánuði hafi kærendur fengið útgefið rekstrarleyfi fyrir gististað sem ekki hafi verið takmarkað við árstíma, og notkun fasteignar þeirra hafi sannarlega verið breytt. Sveitarfélaginu hafi því verið heimilt á grundvelli 2. mgr. 32. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að endurákvarða fasteignagjöld vegna eignarinnar frá þeim tíma. Bókanir sveitarfélagsins frá 31. mars 2016 og 29. júní 2016 hafi falið í sér að breytingar næðu til álagningartímabils fasteignagjalda árið 2016. Verði það hins vegar afstaða yfirfasteignamatsnefndar að í upphaflegu erindi sveitarfélagsins, dags. 13. apríl 2016, þar sem kynnt hafi verið breyting á álögðum fasteignaskatti eignarinnar frá og með 15. maí 2016, hafi falist skuldbinding um að miða ekki við fyrra tímabil eða það að kærendur hafi mátt hafa réttmætar væntingar um að svo yrði, áréttar sveitarfélagið varakröfu sína um að breytingin miðist við 15. maí 2016 í stað 1. mars 2016.

Til þrautavara er þess krafist af hálfu sveitarfélagsins að ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi og málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar. Ekki sé hægt að leggja gagnrýnislaust og án frekari skoðunar til grundvallar þann málatilbúnað kærenda að fyrir liggi staðfesting þess efnis að aðeins 58 m2 af fasteign kærenda sé nýtt til útleigu til ferðamanna og hvað þá aðeins hluta úr ári.

Sveitarfélagið telur með vísan til valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, að vísa beri kröfu kærenda um endurgreiðslu álagðra fasteignaskatta fyrir árið 2016 frá nefndinni.

Athugasemdir kærenda vegna umsagnar sveitarfélagsins
Í bréfi kærenda, dags. 13. nóvember 2016, kemur fram að þegar sótt hafi verið um rekstrarleyfi hafi verið skilað inn teikningu af fasteigninni þar sem sá hluti eignarinnar, sem ætlaður sé til útleigu, hafi verið sérstaklega afmarkaður. Sá hluti fasteignarinnar hafi jafnframt verið tekinn út af brunaeftirliti, byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirliti. Annar hluti eignarinnar sé til einkanota. Kærendur ítreka þá kröfu sína að fasteignagjöld eignarinnar verði innheimt í réttu hlutfalli miðað við notkun hennar.

Niðurstaða
Kærendur gera kröfu um að ákvörðun Skútustaðahrepps frá 29. júní 2016 varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Helluhrauni [ ], Skútustaðahreppi, fnr. [ ] verði breytt á þann veg að álagningunni verði skipt milli a- og c-liða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þannig að tekið verði tillit til þess að einungis afmarkaður hluti eignarinnar er nýttur sem gististaður samkvæmt lögum nr. 85/2007 og einungis í afmarkaðan tíma á ári. Þá gera kærendur kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra fasteignagjalda í samræmi við kröfu þeirra um leiðréttingu álagningar. Skútustaðahreppur telur hins vegar að staðfesta beri fyrrgreinda ákvörðun sveitarfélagsins frá 29. júní 2016 um álagningu fasteignaskatts, þannig að helmingur fasteignarinnar verði skattlagður frá 1. mars 2016 samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga, en til vara frá 15. maí 2016. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið til meðferðar að nýju. Þá er þess krafist að kröfu um endurgreiðslu fasteignagjalda verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sem fjallar meðal annars um íbúðarhúsnæði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verði lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er sveitarstjórn með 4. mgr. 3. gr. laganna veitt heimild til þess að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laganna eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Óumdeilt er að kærendur hafa boðið ferðamönnum gistingu í fasteign sinni að Helluhrauni [ ] gegn endurgjaldi og hafa til þess tilskilið rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þannig verður að telja að kærendur hafi nýtt fasteign sína að hluta til fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Ekki verður séð að ágreiningur sé um að álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar kærenda að Helluhrauni [ ] skuli skipt milli a- og c-liða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ágreiningur málsins snýr hins vegar að því hversu stórt hlutfall af fasteigninni skuli skattleggja samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga svo og fyrir hvaða tímabil ársins.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2013 og 4/2015. Samkvæmt málatilbúnaði kærenda er leiga þeirra til ferðamanna á hluta fasteignar þeirra að Helluhrauni [ ] takmörkuð við tímabilið 15. maí til 15. september. Óljóst er af málatilbúnaði kærenda hvort þau hafi tilkynnt um slíka aðgreiningu fyrirfram fyrir árið 2016 en engin gögn liggja fyrir því til stuðnings. Þá byggja kærendur jafnframt á því að aðeins tiltekinn hluti fasteignarinnar sé nýttur undir rekstur heimagistingar. Kærendur hafa lagt fram í því sambandi grunnteikningu af fasteigninni þar sem svæði fyrir rekstur heimagistingar hefur verið afmarkað. Að sögn kærenda mun sú teikning hafa legið til grundvallar þegar rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í eigninni var gefið út og umsagnaraðilum vegna umsóknar þeirra um fyrrgreint rekstrarleyfi, þar á meðal heilbrigðiseftirlitinu og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, verið fullkunnugt um þessa afmörkun enda tekið umrætt svæði út.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ákveðið á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 31. mars 2016 að leggja fasteignaskatt á þær fasteignir í sveitarfélaginu sem höfðu leyfi til reksturs gististaðar í flokki I, heimagisting, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Var jafnframt ákveðið að það ætti við frá og með álagningartímabili ársins 2016 en kærendum var kynnt með bréfi, dags. 13. apríl 2016, að breytingin myndi gilda frá og með 15. maí 2016 og að fasteignaskattur vegna eignarinnar yrði 1,65% af fasteignamati frá og með þeim degi. Í kjölfar andmæla kærenda var ákveðið á fundi sveitarstjórnar 29. júní 2016 að álagning fasteignaskatts vegna þeirra fasteigna sem hefðu leyfi til reksturs gististaðar í flokki I, heimagisting, þar á meðal fasteign kærenda, skyldi vera með þeim hætti að helmingur af flatarmáli þeirra skyldi skattlagður á grundvelli c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá virðist sem jafnframt hafi verið ákveðið að breytingin skyldi gilda frá og með 1. mars 2016 en ekki 15. maí 2016 eins og áður hafði verið tilkynnt kærendum.

Fyrirliggjandi gögn málsins gefa ekki til kynna á hvaða grundvelli sveitarfélagið byggði þá ákvörðun sína að helmingur af flatarmáli allra þeirra eigna í sveitarfélaginu sem hefðu útgefið leyfi til reksturs gististaðar í flokki I, þar á meðal fasteign kærenda, skyldi sæta álagningu fasteignaskatts samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þá liggur heldur ekki skýrt fyrir við hvaða tímamark skyldi í raun og veru miða fyrrgreinda breytingu. Kærendum hafði verið tilkynnt að breytingin skyldi taki gildi 15. maí 2016 en sveitarfélagið mun síðar hafa ákveðið að breytingin skyldi gilda frá og með 1. mars 2016. Kærendur fengu hins vegar umrætt leyfi til reksturs gististaðar í fasteigninni ekki útgefið fyrr en 23. mars 2016. Jafnframt virðist sem sveitarfélagið hafi við ákvörðun sína þann 29. júní 2016 ekki rannsakað eða tekið afstöðu til kröfu kærenda um skiptingu álagningar miðað við ákveðinn hluta ársins fyrr en með umsögn í máli þessu. Að mati yfirfasteignamatsnefndar virðist ákvörðun sveitarfélagsins hafa verið almenns eðlis en ekki byggst á þeim gögnum eða staðreyndum sem sérstaklega vörðuðu umrædda fasteign kærenda. Með hliðsjón af framansögðu liggur fyrir að sjálfstæð skoðun af hálfu Skútustaðahrepps varðandi fasteign kærenda hefur ekki farið fram og því verður að telja að skilyrðum rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins í því máli sem hér um ræðir.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að sveitarfélagið hafi rannsakað né tekið fullnægjandi afstöðu til þeirra atriða er fram komu í athugasemdum kærenda áður en tekin var  ákvörðun varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignarinnar að Helluhrauni [ ] samkvæmt stafliðum a og c  3. mgr. 3. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins telur yfirfasteignamatsnefnd að forsendur fyrir niðurstöðu álagningar sveitarfélagsins liggi ekki nægilega skýrt fyrir. Er það því niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að ákvörðun sveitarfélagsins frá 29. júní 2016 um álagningu fasteignaskatts vegna Helluhrauns [ ], Skútustaðahrepps, fnr. [ ], skuli felld úr gildi og er lagt fyrir Skútustaðahrepp að taka mál kærenda til meðferðar að nýju með hliðsjón af fyrrgreindum atriðum og fyrirliggjandi gögnum.

Kröfu kærenda um endurgreiðslu fasteignagjalda vegna fasteignar þeirra að Helluhrauni [ ], Skútustaðahreppi, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd, þar sem það er utan valdssviðs nefndarinnar að úrskurða um endurgreiðslu fasteignaskatts eins og valdsvið nefndarinnar er skilgreint í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Skútustaðahrepps, dags. 29. júní 2016, um álagningu fasteignagjalda vegna Helluhrauns [ ], Skútustaðahreppi, fnr. [ ], fyrir árið 2016, er felld úr gildi og lagt fyrir Skútustaðahrepp að taka málið til meðferðar að nýju.

Kröfu kærenda um endurgreiðslu oftekinna fasteignagjalda er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum