Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 220/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 220/2018

Miðvikudaginn 14. nóvember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 22. júní 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins frá X 2016 til X 2017. Kærandi sótti á ný um endurhæfingarlífeyri með rafrænni umsókn, móttekinni 18. febrúar 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 22. mars 2018, var kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki skilyrði endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem segi að umsækjandi skuli taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Kærandi sótti ítrekað um endurhæfingarlífeyri í kjölfarið og var henni synjað á ný um endurhæfingarlífeyri með ákvörðunum Tryggingastofnunar, dags. 5. apríl 2018, 14. júní 2018 og 21. júní 2018. Farið var fram á rökstuðning fyrir ákvörðunum Tryggingastofnunar annars vegar með bréfi, dags. 10. apríl 2018, og hins vegar með tölvupósti, mótteknum 20. júní 2018. Tryggingastofnun rökstuddi ákvarðanir sínar annars vegar með bréfi, dags. 23. apríl 2018, og hins vegar með svari á mínum síðum, dags. 26. júní 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júní 2018. Með bréfi, dags. 26. júní 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. júlí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júlí 2018. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi, dags. 11. október 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði sótt úrræði hjá D sumarið 2018. Upplýsingar bárust frá kæranda með tölvupóstum 20. og 22. október 2018 og voru gögnin kynnt Tryggingastofnun með bréfi, dags. 22. október 2018. Athugasemdir bárust ekki.  

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um greiðslu endurhæfingarlífeyris verði endurskoðuð.

Kærandi greinir frá því að hún hafi byrjað í endurhæfingu hjá VIRK í X 2018 á ný eftir að hafa [...] í X í 2017 en Tryggingastofnun hafi synjað henni um endurhæfingarlífeyri í þrígang. Kærandi hafi farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og hafi fengið það svar að hún væri ekki í virkri endurhæfingu.

Frá því í X 2018 hafi kærandi hitt ráðgjafa vikulega fyrstu mánuðina en núna 1-2 sinnum í mánuði og eftir þörfum. Hún sé að klára kvíðameðferð við ofsakvíða hjá B og hún muni halda því áfram og þá sé hún hjá C [sérfræðingi] varðandi lyfjagjöf sem gangi vel.

Kærandi hafi klárað hreyfiseðil og þá hafi tekið við kort í líkamsræktarstöð ásamt vinnu með þjálfara og sjúkraþjálfara sem muni halda áfram í vetur. Frá því í X hafi kærandi einnig lokið vinnu með næringarráðgjafa. Þær hittist vikulega þar sem henni sé leiðbeint varðandi mataræði en fyrst og fremst hjálpi hún henni að taka lyfin rétt. Í samvinnu við félagsráðgjafa taki svo við D og X fög í E. Kærandi sé í meira prógrammi núna en þegar hún hafi síðast fengið endurhæfingarlífeyri. Hún hafi eftir bestu getu lagt allt sitt í endurhæfinguna hjá VIRK og hafi verið virkilega bjartsýn en þetta hafi verið virkilega erfitt á framfærslu frá F. Hún sé einstæð móðir með […]börn.

[...] og meðferð hjá næringarráðgjafa sé nú lokið. Nú sé vinna með virkni ráðgjafa, heilsurækt, sjúkraþjálfun og svo E og D. Fyrst þetta teljist ekki vera endurhæfing þá væri gott að fá svör við því hvað flokkist sem virk endurhæfing því að kærandi sé að reyna að koma sér aftur út í lífið.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærðar séu ákvarðanir Tryggingarstofnunar ríkisins vegna endurhæfingarlífeyris. Stofnunin hafi synjað beiðnum kæranda um endurhæfingarlífeyri alls fjórum sinnum á árinu 2018 og séu þær ákvarðanir stofnunarinnar kærðar í þessu máli.

Með ákvörðunum Tryggingastofnunar, dags. 22. mars 2018, 5. apríl 2018, 14. júní 2018 og 21. júní 2018, hafi umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri verið synjað.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóði svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. 

Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Afgreiðsla umsókna um endurhæfingarlífeyri byggist á 7. gr. laga um félagslega aðstoð og á öðrum ákvæðum laga um félagslega aðstoð og ákvæðum laga um almannatryggingar, eftir því sem við eigi hverju sinni. Í 7. gr. laganna segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Þar segi að greiðslur eigi að veita á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Það sé sett sem skilyrði greiðslna að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði og að hún teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila, þ.e. Tryggingastofnunar. Þá sé enn fremur skilyrði að umsækjandi hafi lokið rétti til launa í veikindaleyfi, lokið greiðslum úr sjúkrasjóði og fái ekki greiðslur frá Vinnumálastofnun. Skýrt sé í lagagreininni að Tryggingastofnun eigi að hafa eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu eigi Tryggingastofnun að tryggja að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir séu fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi áður lokið [X] mánuðum á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun en hún hafi hætt á endurhæfingarlífeyri í X 2017.

Fyrstu umsókn kæranda á árinu 2018 hafi verið synjað þar sem við skoðun málsins hjá Tryggingastofnun hafi ekki þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi hvorki talist nægilega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi hafi mátt telja að verið væri að vinna með aukna starfshæfni að markmiði. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Fram komi í endurhæfingaráætlun frá VIRK, dags. X 2018, að lagt sé upp með eftirfarandi áætlun: „byrja hjá VIRK og koma umsækjanda af stað og aðstoða með andlega heilsu, tengja við D með áframhaldandi stuðning við nám og með heimili, X sálfræðitímar hjá B vikulega, hreyfiseðill þar sem umsækjandi verður í léttri hreyfingu þrisvar til fjórum sinnum í viku en hún á að [...] og þarf því að fara rólega af stað, fjórir tímar í næringarráðgjöf í G og byrja rólega í einum áfanga í námi.“

Greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað 5. apríl 2018 þar sem ekki hafi þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil í ljósi þess að nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga á fyrra mati.

Í endurhæfingaráætlun, dags. X 2018, komi fram að lagt sé upp með eftirfarandi áætlun: „byrja hjá VIRK og koma umsækjanda af stað og aðstoða með andlega heilsu, tengja við D með áframhaldandi stuðning við nám og heimili (kemst vonandi að X 2018 annars næst þegar verður tekið inn), X sálfræðitímar hjá B vikulega, viðtöl hjá [...] til að ræða mál sem koma upp í hennar lífi (reyna að vera með regluleg viðtöl, byrja með á tveggja vikna fresti), hreyfiseðill þar sem umsækjandi verður í léttri hreyfingu þrisvar til fjórum sinnum í viku, ganga, [...] hjá H (vonast til að fara á námskeið sem hefst X 2018 og er í X vikur), X tímar í næringarráðgjöf hjá G (reynt að dreifa tímum til þess að fá sem mest úr þeim og tileinka sér betri lífstíl) og nám einn áfangi X 2018 (byrja rólega).“  

Þriðja endurhæfingaráætlunin hafi borist frá VIRK X 2018 en greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað 14. júní 2018 þar sem við skoðun málsins hafi ekki þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing hafi ekki verið talin vera í gangi á þeim tíma. Greiðslur endurhæfingarlífeyris taki ekki eingöngu mið af því tímabili sem viðkomandi sé óvinnufær heldur þurfi starfsendurhæfing að vera hafin. Kærandi hafi því ekki uppfyllti skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Fram komi í endurhæfingaráætlun frá VIRK, dags. X 2018, að lagt sé upp með eftirfarandi áætlun: „tengja við D X 2018, samstarf við félagsþjónustuna (er að bíða eftir að fá úthlutað nýjum félagsráðgjafa), X sálfræðitímar hjá B sem verða vikulega (kemur fram að umsækjandi hafði lokiðX tímum fyrir [...] og því X tímar eftir og mun ráðgjafi skoða með frekari tíma hjá sálfræðingi ef mælt er með), nám í [...] við E X einingar X 2018, líkamsræktarkort með aðstoð íþróttafræðings í X mánuði og næringarráðgjöf (fékk úthlutað X tímum og á X tíma eftir).“

Umsækjandi hafi skilað inn fjórðu endurhæfingaráætluninni þann 20. júní 2018 en þar sé lagt upp með eftirfarandi áætlun: „líkamsræktarkorti með aðstoð íþróttafræðings í X mánuði (vera í léttri hreyfingu 3-4 sinnum í viku), næringarráðgjöf fjórir tímar (einn tími eftir samkvæmt fyrri áætlun), átta sálfræðiviðtöl hjá B vikulega (lokið samkvæmt tölvupósti VIRK), tengja við D, nám […] X einingar X 2018.“

Þá hafi ráðgjafi VIRK sent tölvupóst 21. júní 2018 þar sem fram komi „að umsækjandi hafi lokið X sálfræðitímum, byrjuð í líkamsrækt með sjúkraþjálfara. Búin að vera hjá næringarráðgjafa, stefnt að tengja við D en umsækjandi á næst tíma hjá félagsráðgjafa félagsþjónustunnar í X. Nám í [...] X einingar X 2018. Þá kom einnig fram að umsækjandi hafi verið með hreyfiseðil áður en hún [...] í X 2018.“

Greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað 21. júní 2018 þar sem við skoðun málsins hafi ekki þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga á fyrra mati.

Tryggingastofnun eigi að tryggja að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Eins og komið hafi fram hér að framan þá þurfi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Á þeim forsendum hafi umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri verið synjað.

Tryggingastofnun telji ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsendar endurhæfingaráætlanir, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðunum sínum.

IV.  Niðurstaða

Í málinu liggja fyrir fjórar ákvarðanir frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem kæranda er synjað um endurhæfingarlífeyri. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af kæru verði ráðið að kæran lúti að öllum þessum ákvörðunum, enda greinir kærandi frá því í kæru hvernig endurhæfingu hennar hafi verið háttað síðan í febrúar 2018. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð til þess að geta öðlast rétt til endurhæfingarlífeyris.

Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Slík reglugerð hefur ekki verið sett.

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu lagaákvæði bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur samkvæmt ákvæðinu séu heimilar. Þeirra á meðal er skilyrðið um að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt.

Til grundvallar ákvörðunum Tryggingastofnunar lágu fyrir fjórar endurhæfingaráætlanir og vottorð I læknis, dags. X 2018. Endurhæfing var fyrirhuguð á tímabilinu X 2018 til X 2018.

Í læknisvottorði I, dags. X 2018, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Geðlægðarlota

Obesitas

[…]

Thyrotoxicosis

Sykursýki […]“

Um sjúkrasögu segir meðal annars svo:

„X ára kona hefur verið í uppgjöf eftir andleg og líkamleg veikindi. Var um tíma með sjálfsvígshugsanir sem tengdust notkun geðlyfja, en ekki borið á því síðan. Er nú komin í endurhæfingu á vegum Virk og byrjuð í vikulegum viðtölum hjá sálfræðingi.

Hefur hug á að komast á vinnumarkað aftur eða í skóla.

Er [...].“

Þá segir í vottorðinu að kærandi sé óvinnufær frá X 2016 og vísað er í endurhæfingaráætlun VIRK sem I telur fullnægjandi og raunhæfa.

Í endurhæfingaráætlun VIRK, undirritaðri X 2018, segir að langtímamarkmið áætlunarinnar varðandi atvinnuþátttöku sé ekki ljóst. Þá segir að megináherslur í starfsendurhæfingu séu stök úrræði fagaðila. Markmið varðandi atvinnuþátttöku sé full atvinnu-/námsþátttaka. Úrræði til að ná því markmiði eru:

„Byrja hjá Virk og koma henni af stað og aðstoða með andlega heilsu. Tengja við D með áframhaldandi stuðning við nám og með heimili.“

Markmið varðandi andlega og félagslega þætti eru að minnka einkenni ofsakvíða og víðáttufælni. Úrræði til að ná því markmiði eru:

„X tímar hjá J sálfræðing í B.

Verður í vikulegum viðtölum.

Metið áfram með áframhaldandi tíma eftir að greinargerð berst.“

Markmið varðandi líkamlega þætti kæranda eru að bæta líkamlega heilsu, minnka ofþyngd, stuðningur við reglu og mataræði og betri lífstíll. Úrræði til að ná því eru:

„1. Hreyfiseðill frá heimilislækni.

Vera í léttri hreyfingu 3 til 4 sinnum í viku.

[…] þarf því að fara rólega af stað.

2.    Næringarráðgjafi, 4 tímar. Verður í næringarráðgjöf í  G.“

Í markmiðum varðandi endurmenntun og námskeið segir að kæranda langi til að fara í [nám] í E. Um úrræði segir svo: „Byrja rólega, jafnvel bara einn áfangi.“

Þá segir að kærandi hitti ráðgjafa VIRK í reglulegum viðtölum þar sem stutt sé við endurkomu á vinnumarkað og unnið með áhugahvöt.

Endurhæfingaráætlun VIRK, undirrituð X 2018, er samhljóða fyrrgreindri áætlun að flestu leyti. Þó er einnig greint frá eftirfarandi úrræði til að ná fram því markmiði að minnka einkenni ofsakvíða og víðáttufælni:

„Viðtöl hjá […] til að ræða þau mál sem eru að koma upp í hennar lífi, reyna að vera með regluleg viðtöl, byrja með á tveggja vikna fresti.“

Þá er einnig greint frá eftirfarandi úrræði til að ná markmiðum varðandi líkamlega þætti:

„[...] hjá H. Vonast til að fara á námskeið sem hefst X. Námskeiðið er í sex vikur.“

Þá segir varðandi endurmenntun og námskeið meðal annars:

„2. D á vegum félagsþjónustunnar. Lagt til að fara í prógramm á vegum félagsþjónustunnar í tengslum við starfsendurhæfingu hjá Virk. Unnið verður saman að því að aðstoða hana með að komast í nám, fá aðstoð með […]. Heildstæð endurhæfing þar sem unnið er með grunnþætti og starfsendurhæfingu eins og vera í námi við E.

Kemst vonandi að X 2018 en annars næst þegar tekið verður inn í D.“

Endurhæfingaráætlun VIRK, undirrituð X 2018, er einnig sambærileg fyrri áætlunum að flestu leyti. Um framvindu varðandi atvinnuþátttöku segir:

„Verið að vinna í samstarfi við félagsþjónustuna. Er að bíða eftir að fá úthlutað félagsráðgjafa […]

Stefnt á að byrja í haust í D“

Um framvindu viðtala við sálfræðing á B segir:

„Er búin með X tíma fyrir [...] og á því X tíma eftir.

Þegar greinagerð kemur mun ráðgjafi skoða með frekari tíma hjá honum ef mælt er með. – X 2018“

Um framvindu varðandi nám segir:

„Er búin að skrá sig í nám við E, skráði sig í [...]. Er skráð í X einingar samtals fyrir áramót og svo X einingar eftir áramót.“

Einnig segir svo: „Tengja við D með að fara í prógram þar í X og fá aðstoð með námið og […].“

Um framvindu varðandi líkamlega þætti segir:

„Á einn tíma eftir hjá næringarráðgjafa, er að ganga rosalega vel.

Gekk mjög vel með hreyfiseðilinn, var að léttast og gekk mjög vel - X 2018“

Í endurhæfingaráætlun VIRK, móttekinni X 2018, kemur ekkert nýtt fram.

Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að það liggi fyrir að virk endurhæfing sé vart í gangi og því uppfylli kærandi ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem segir að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.

Samkvæmt gögnum málsins fólst endurhæfing kæranda á tímabilinu X 2018 til X 2018 í 8 viðtölum við sálfræðing, líkamsrækt, 4 viðtölum við næringarráðgjafa og viðtölum við ráðgjafa VIRK. Í endurhæfingaráætlunum kemur ýmist fram að tengja eigi kæranda við D X 2018 eða X 2018. Fyrir liggur að nám kæranda átti ekki að hefjast fyrr en X 2018.

Í ljósi misvísandi upplýsinga í endurhæfingaráætlunum um D óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum frá kæranda með bréfi, dags. 11. október 2018, um hvort hún hefði sótt úrræði hjá D X 2018. Með tölvupóstum 20. og 22. október 2018 greindi kærandi frá því að D hefjist ekki fyrr en í X 2019 en hún fari í viðtöl hjá félagsráðgjafa og hafi í X 2018 byrjað á sjálfstyrkingarnámskeiði. Þá kemur fram að kærandi hafi byrjað hjá sjúkraþjálfara í X.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur ljóst að kærandi glími við líkamleg og andleg veikindi sem orsaki skerta vinnugetu og hafi gert í nokkur ár. Að mati nefndarinnar var endurhæfingaráætlun kæranda á tímabilinu X til X 2018 hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað, eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um. Úrskurðarnefndin lítur meðal annars til þess að á tímabilinu virðist kærandi einungis hafa farið tvisvar í mánuði í viðtal til sálfræðings. Þá verður ekki ráðið af endurhæfingaráætluninni hvernig þeir endurhæfingarþættir sem lagt var upp með eigi að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt í tilviki kæranda þegar Tryggingastofnun tók hinar kærðu ákvarðanir. Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris eru því staðfestar.

Í ljósi vísbendinga í fyrirliggjandi gögnum um að umfangsmeiri endurhæfing sé nú hafin er kæranda bent á að hún geti sótt um endurhæfingarlífeyri á ný.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum