Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Grei%C3%B0slua%C3%B0l%C3%B6gunarm%C3%A1l

Nr. 410/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Mál nr. 410/2018

Fimmtudaginn 20. desember 2018

 

 

 

Úrskurður

 

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

 

Þann 20. nóvember 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 24. október 2018 þar sem kæranda var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 24. október 2018 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Að mati embættisins var fjárhagur kæranda óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem umtalsvert meiri fjármunir voru lagðir inn á bankareikning hennar en hún gaf upp sem tekjur á tímabilinu 1. janúar 2017 til september 2018. Nam mismunurinn 9.369.842 krónum og taldi umboðsmaður að kærandi hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að sökum þessa liggi ráðstöfunartekjur kæranda ekki ljósar fyrir.

 

Þann 20. nóvember 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi gerði ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að hún krefjist þess að fyrrnefnd ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

Að sögn kæranda hafi hún aldrei séð tölvupóst sem umboðsmaður skuldara hafi sent henni þar sem pósthólf hennar hafi verið fullt. Þegar hún loks hafi séð póstinn hafi tími til að svara verið útrunninn. Kærandi kveðst ekki geta svarað fyrir hverja einustu krónu sem komið hafi inn á bankareikning hennar undanfarin tvö ár. Hún hafi fengið mikið lánað bara til að komast af og fengið hjálp frá foreldrum og vinum. Kærandi kveðst ekki hafa verið í svartri vinnu eða fengið peninga neins staðar frá ólöglega. Hún sé hins vegar [...] sem sé að missa íbúðina vegna skulda.

 

Samkvæmt gögnum málsins sendi umboðsmaður skuldara ákvörðun sína frá 24. október 2018 með tölvupósti og ábyrgðarpósti á lögheimili kæranda þann sama dag. Í bréfi umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins, kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Þetta var einnig sérstaklega tekið fram í tölvupóstinum.

 

Með bréfi 21. nóvember 2018 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hefði ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.

 

 

II. Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. 7. gr. laga nr. 135/2010 og 13. gr. laga nr. 85/2015, skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn um greiðsluaðlögun berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl. Í samræmi við þetta verður að telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi borist kæranda í skilningi ssl. 24. október 2018 er henni var sendur tölvupóstur með ákvörðuninni frá embættinu á það netfang sem hún hafði gefið upp á umsókn. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 7. nóvember 2018. Svo sem fram er komið barst úrskurðarnefndinni kæran 20. nóvember 2018, eða 12 dögum of seint.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. ssl. Af þessum sökum og með vísan til 1. mgr. 28. gr. ssl. er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

F. h úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum