Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 28. maí 1991

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA
Ragnar Aðalsteinsson, formaður,
Borgartúni 24, 105 Reykjavík.

   MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR
   uppkveðinn 28. maí 1991
   í eignarnámsmálinu:

   Vegagerð ríkisins
   gegn
   Jóni Bergssyni, Ketilstöðum.

I. Skipan matsnefndar.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt matsmönnunum Bárði Daníelssyni, verkfræðingi, og Óla Val Hanssyni, ráðunaut, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

Eignarnemi er Vegagerð ríkisins og fyrir hana flytur málið Gunnar Gunnarsson hdl.

Eignarnámsþoli er Jón Bergsson, bóndi og eigandi Ketilstaða, Vallahreppi, S-Múlasýslu. Fyrir hann flytur málið Þórólfur Kr. Beck hrl.

III. Matsbeiðni.

Eignarnámsbeiðni Vegagerðar ríkisins er dags. 19. nóvember 1984.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

Eignarnámið beinist skv. eignarnámsbeiðni að eignaskerðingum í landi Ketilstaða og efnistöku. Þjóðvegurinn liggur á 2,5 km kafla um land jarðarinnar og stafa eignaskerðingar af endurbótum á gamla veginum. Vegsvæðið er breikkað á tveimur stöðum og vegur færður til. Þá er vegurinn lagður bundnu slitlagi. Jafnframt er tekið efni úr landi jarðarinnar.

V. Eignarnámsheimild.

Eignarnemi vísar um heimild sína til eignarnáms til X. kafla vegalaga nr. 6/1977. Eignarnámsþoli fellst á að eignarnám fari fram skv. greindri heimild.

VI. Kröfur aðila.

a)   Kröfur eignarnámsþola.
   
1.    Bótakrafa vegna töku lands.
   
i)    Ræktun á 14.030 m2.               kr. 57.695.42

ii) Bætur fyrir gamla og
    nýja vegsvæðið 75.000 m2            kr. 1.566.933.00

iii)Bætur vegna 75.000 m2
spildu meðfram vegi og
    18.900 m2 spildu utan
    vegsvæðis            kr. 2.347.944.14   kr. 3.972.572.56   

2.    Krafa vegna efnistöku
    7000 m3 X kr. 49.94               kr. 349.580.00

3.    Rekstrartjón                   kr. 728.022.91

4.    Fébótakrafa vegna útihúsa
    og votheysgeymsla

i)    Bætur vegna fjárhúsa      kr. 3.815.000.00

ii) Bætur vegna votheysgeymsla   kr. 1.095.787.62   kr. 4.910.787.62

5.    Fébótakrafa vegna íbúðarhúss            kr. 6.945.000.00

6.    Þrjú hlið.(Ekki er þessi liður
    tölulega áætlaður af eignarnáms-
    þola)

7.    Kröfur vegna viðhalds girðinga         
    í 60 ár                     kr. 5.145.217.20
   

8.    Bætur vegna vörslu gripa að
    vetrarlagi í 15 ár               kr. 1.787.286.89
                     Samtals   kr.23.838.467.18

Þá krefst eignarnámsþoli í málskostnað kr. 1.653.158.35, þ.m.t. virðisaukaskattur og útlagður kostnaður.

Frá framangreindri fjárhæð dragist innborgun í júlí 1988 að fjárhæð kr. 142.236.00.

b)   Krafa eignarnema.
   Eignarnemi krefst þess að kröfum eignarnámsþola verði hafnað þar sem tjón hans hafi þegar verið að fullu bætt.

   Á fundi matsefndar 7. desember 1990 gerðu aðilar með sér svohljóðandi sátt um einn þátt málsins:

   "Eignarnemi mun girða á sinn kostnað í samræmi við bókun á fundi matsnefndar 24. ágúst 1989 og gerir eignarnámsþoli eigi frekari kröfur um nýjar girðingar. Girðingaframkvæmdum skal lokið fyrir 16. júlí 1991."

VII. Málsmeðferð.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá matsnefnd eignarnámsbóta að Ketilstöðum í Vallahreppi hinn 21. nóvember 1984. Voru skilyrði fyrirtöku málsins talin vera uppfyllt og á fundi matsnefndar sama dag var ákveðið að heimila eignarnema að fá umráð landsins og hefja framkvæmdir og jafnframt var honum veitt leyfi til efnistöku. Hafði nefndin þá gengið á vettvang með lögmanni eignarnema, en eignarnámsþoli lýsti því yfir á fundinum áður en gengið var á vettvang að hann teldi ekki þörf á að hann tæki þátt í vettvangsgöngunni. Málinu var síðan frestað til gagnaöflunar og kröfugerðar. Málið var næst tekið fyrir hjá nefndinni hinn 24. maí 1989, en þá hafði enn ekki borist kröfugerð frá aðilum. Á fundi nefndarinnar hinn 16. júní 1989 lagði talsmaður eignarnámsþola fram greinargerð og skjöl og talsmaður eignarnema lagði fram greinargerð og skjöl á fundi hinn 20. júlí 1989. Þá var ákveðið að ganga á vettvang öðru sinni og var það gert hinn 24. ágúst 1989. Í vettvangsgöngunni tóku þátt lögmaður eignarnema og Guðni Nikulásson, héraðsverkstjóri, en eignarnámsþoli tók sjálfur þátt í vettvangsgöngunni ásamt lögmanni sínum. Í öllum framangreindum tilvikum stýrði þáverandi varaformaður matsnefndar, Jóhannes L.L. Helgason, fundum matsnefndarinnar. Jóhannes lést hinn 15. september 1990 og hefur Ragnar Aðalsteinsson, formaður matsnefndar eignarnámsbóta, verið í forsæti nefndarinnar við meðferð þessa máls síðan. Aðilar hafa fallist á það fyrirkomulag án athugasemda, enda þótt formaður hafi ekki sjálfur gengið á vettvang, enda eru í málinu loftljósmyndir af vettvangi teknar bæði fyrir og eftir framkvæmdirnar 1984-1985 svo og ítarlegir uppdrættir. Málið kom síðan fyrir nefndina hinn 16. nóvember 1990 og var munnlega flutt á fundum hinn 4. og 7. desember 1990, er það var tekið til úrskurðar. Þá var leitað sátta með aðilum, en án árangurs um meginefni málsins.

VIII. Málsatvik og aðstæður á vettvangi.

Í október 1983 bauð eignarnemi út framkvæmdir við Austurlandsveg frá Höfða að Úlfsstöðum, sem er um 6,6 km vegalengd. Vegur þessi liggur á 2,5 km kafla um land Ketilstaða. Eignarnámsþoli, eigandi jarðarinnar, heimilaði hvorki framkvæmdir í landi jarðarinnar né efnistöku vegna vegagerðarinnar. Austurlandsvegur lá áður um land Ketilstaða og hafði lengi legið. Framkvæmdir 1984-1985 á grundvelli útboðsins 1983 fóru í landi Ketilstaða að mestu fram á vegsvæði gamla vegarins, en þó þurfti að breikka vegsvæðið og færa veginn til á tveimur stöðum. Framkvæmdir fóru fram sem fyrr segir seint á árinu 1984 og frameftir árinu 1985. Að sögn eignarnema var gamla veginum fylgt að langmestu leyti, en þó hafi þurft að breikka vegsvæðið um 5-8 metra báðum megin vegar. Vegna þessa hafi þurft að taka 28.830 fermetra af landi Ketilstaða til viðbótar því landi sem tilheyrt hafi gamla veginum. Af þessum 28.830 fermetrum hafi um 14.030 fermetrar verið tún. Þá hafi verið teknir 3.500. rúmmetrar af fyllingarefni við Unalæk í landi Ketilstaða.

Vegstæðið, þar sem vegurinn liggur fram hjá íbúðarhúsinu og útihúsunum að Ketilstöðum, er óbreytt. Miðlína vegar er og var u.þ.b. 50 metra frá íbúðarhúsi og 15 metra frá útihúsum. Gamli vegurinn hafði verið lagður 1954 eða 1955 en áður hafði vegurinn legið um hlaðið á Ketilstöðum. Vegurinn hafi hins vegar breikkað og hann liggur lítið eitt hærra en áður. Íbúðarhúsið á Ketilstöðum var byggt árið 1951 eftir að eldra húsið brann og var það reist á sama stað og eldra húsið, þ.e. við þáverandi veg.

Eignarnemi gerði verksamning um vegarlagninguna og annað sem henni tilheyrði og annaðist verktakinn allar framkvæmdir í landi jarðarinnar.

Í júlí 1988 greiddi eignarnemi eignarnámsþola í bætur kr. 142.236.-, sem sundurliðast þannig:

   Tún 14.030 m2 á kr. 7.20            101.016.-
   Gróið land 15.800 m2 á kr. 0.90       14.220.-
   Efni 3.500 m3 á kr. 2.00             7.000.-
   Málskostnaður kr                20.000.-
                  Samtals kr.   142.236.-

Af hálfu eignarnámsþola var greiðslu þessari veitt viðtaka með fyrirvara um "réttmæti fjárhæða og áskilnaði um málshöfðun um heimtu frekari bóta."

Girðing er beggja vegna Austurlandsvegar í landi Ketilstaða og var svo einnig áður en framkvæmdir hófust árið 1984. Girðingarstæðið var flutt til eftir því sem efni stóðu til vegna breikkunar nýja vegsvæðisins og girðingin endurnýjuð.

IX. Sjónarmið eignarnámsþola.

Sjónarmið eignarnámsþola eru í meginatriðum þau, að bæta beri honum 60 metra breiða ræmu lands þar sem vegurinn nú liggur. Engar bætur hafi sannanlega verið greiddar vegna vegarins 1954 eða 1955, þegar eldri vegur var lagður og nú sé um að ræða stofnbraut skv. 12. gr. vegalaga nr. 6/1977. Skv. 69. gr. laganna leggist kvöð á 30 metra svæði beggja vegna miðlínu vegarins og beri eignarnema að bæta að fullu allt slíkt landsvæði eða a.m.k. að hluta vegna kvaðarinnar. Þá telur eignarnámsþoli að framkvæmdir þær sem voru tilefni eignarnámsins leiði til slíkrar umferðar um veginn um landið að bæta beri verðmæti útihúsa við veginn og íbúðarhússins. Þá beri eignarnema að greiða bætur vegna girðingarskyldu meðfram vegi og vörslu gripa að vetrarlagi, svo og vegna afurðatjóns vegna framkvæmda.

Eignarnámsþoli hefur rökstutt einstaka kröfuliði, sbr. kafla VI hér að framan, sem hér segir:

Um 1. a.
   Eignarnemi telur kostað af ræktun túna í mýrlendi nema kr. 4,11229 per m2 og tún sem hafi farið undir veg hafi mælst 14.030 m2.
   Heildarfjárhæðin nemi því kr. 57.695.42 undir þessum lið
   ( kr.4,11229 X 14.030.-), þ.e. vegna túnræktunar.

Um 1. b.
   Eignarnámsþoli krefst þess að matið nái til alls vegsvæðisins í landinu, þ.e. 2.500 metra á lengd og 30 metra á breidd eða samtals 75.000 m2 á kr. 20,89 m2 eða samtals kr. 1.566.933.-.

Um 1. c.
   Til viðbótar því 30 m2 breiða svæði sem meta beri skv. 1.b. hér að framan beri að meta annað eins svæði (30 X 2.500) þar sem um stofnbraut sé að ræða sem fylgi 60 metra breið kvöð. Því beri að meta bætur fyrir 75.000 m2 til viðbótar á kr. 20,89244 á m2 vegna lands og kr. 4,11229 á m2 vegna ræktunar eða samtals kr. 1.875.354.75, enda sé við það miðað að viðbótarlandið sé ræktað tún.

   Þá telur eignarnámsþoli að meta beri 18.900 m2 lands, sem liggi milli línu dreginnar 30 metra frá miðlínu vegar og girðinga, sem eignarnemi hafi ekki flutt og krefst eignarnámsþoli kr. 20,89244 fyrir m2 lands og kr. 4,11229 fyrir m2 ræktunar eða samtals kr. 472.589.39 undir þessum lið. Telji matsnefndin hins vegar að miða beri eignarnám einungis við 30 metra breitt vegsvæði telur eignarnámsþoli landspildurnar innan girðinga 31.350 m2, sem bæta beri.

Um 2.
   Eignarnámsþoli telur að bæta beri 7.000 m3 efnis á kr. 49,94 hvern m3 eða samtals kr. 349.580.-. Er á því byggt að ósannað sé að eignarnemi hafi aðeins tekið 3.500 m3 og verð efnis er rökstutt m.a. með tilvísun til héraðsdóms um efni, sem tekið var á Héraði.

Um 3.
   Eignarnámsþoli telur, að haustið 1984 hafi verktaki sá sem annaðist vegagerðina, tekið upp girðingar án þess að hefta jafnframt aðgang búpenings að Ketilstaðatúninu og hafi því orðið mikil spjöll á túninu. Vitnað er til framlagðs mats dómkvaddra manna, sem mátu tjón vegna uppskerurýrnunar kr. 276.500.- auk vinnu við vörslu túna kr. 12.256.- eða samtals kr. 288.756.-. Framreiknuð nemi þessi fjárhæð að meðtöldum matskostnaði kr. 728.022.91 í nóvember 1990. Krafa eignarnámsþola um viðurkenningu á bótaskyldu eignarnema að því er þennan lið varðar er á því byggð að eignarnemi beri ábyrgð á verktakanum sem vann verkið.

Um 4.
   Krafan er á því byggð, að fjárhús og fjórar votheysgeymslur, sem standa við veginn verði ónothæf vegna þeirra framkvæmda sem voru tilefni eignarnámsins. Stafi þetta m.a. af umferðarþunga, svo og auknum umferðarhraða og hávaða, sem hafi aukist gífurlega. Þá hafi vegur verið hækkaður og breikkaður, sem hafi leitt til þess að snjóþyngsli hafi aukist að mun og í hláku og snjókomu stíflist renna við húsin og einnig þess vegna hafi þau orðið ónothæf. Telur eignarnámsþoli, að eignarnám vegsvæðisins feli í sér í raun eignarnám á útihúsunum og eignarnema sé skylt skv. 12. gr. l . nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að greiða bætur fyrir húsin. Segir eignarnámsþoli, að vatn falli inn í votheysgeymslur vegna hækkunar á yfirborði vegarins og vegna þess að vegfláinn sé nú nær húsunum en áður. Telur eignarnámsþoli að hæfilegur endurbyggingarkostnaður fjárhúsanna nemi kr. 3.815.000.- og votheysgeymslanna kr. 1.095.787.62 miðað við verðlag í nóvember 1990 eða samtals kr. 4.910.787.62.-.

Um 5.    
   Þess er krafist að eignarnemi greiði í bætur vegna íbúðarhússins kr. 6.945.000.- sem er jafngildi brunabótamats hússins árið 1989. Krafa þessi er þeim rökum studd, að framkvæmdir við veginn hafi leitt til stóraukinnar umferðar, einkum að næturlagi. Algengt sé að ekið sé um veginn á 150 til 200 km hraða á klukkustund og ónæðið sé óbærilegt. Verði því að byggja nýtt íbúðarhús á jörðinni. Vísað er til 29. gr. skipulagslaga til stuðnings þessari kröfu. Þá hefur eignarnámsþoli lagt fram gögn um hávaðamælingar við húsið. Þær sýna að jafnaðarhljóðstig er að áliti Hollustuverndar ríkisins yfir þeim viðmiðunarmörkum fyrir hámarkshávaða frá umferð, sem ákvæði í mengunarreglugerð nr. 386/1989 setur, sbr. viðauka 5 í þeirri reglugerð.

   Þá virðist krafan og á því byggð að skylt sé að girða í 30 metra fjarlægð frá vegarmiðlínu og þá kreppi að húsinu, þar sem aðeins 20 metrar verði milli girðingar og hússins.

Um 6.
   Því er haldið fram að setja þurfi upp þrjú hlið á girðingar, sem hafi verið fyrir, án þess að grein sé gerð fyrir því hvar þau hafi verið og hvernig þau hafi verið. Er á því byggt að matsnefndin eigi að meta hæfilegan kostnað vegna þessara hliða.
Um 7.
   Eignarnámsþoli gerir kröfur um mat á tjóni að fjárhæð kr. 5.145.217.20 vegna skyldu til að viðhalda girðingum meðfram veginum um túnið. Telur hann lagareglur þar að lútandi andstæðar stjórnarskránni og því beri að bæta honum þennan viðhaldskostnað, sem nemi vinnu og efni við 5 km langa girðingu í 60 ár. Telur hann viðhaldskostnaðinn á ári nema 6% af stofnkostnaði og jafngildir sú fjárhæð kr. 85.753.62 á ári. Margfaldað með árafjöldanum 60 nemi bótakrafan kr. 5.145.217.20.-Telur eignarnámsþoli eðlilegt að matsnefnd ákveði afvöxtum (disconto) framangreindar fjárhæðar.

Um 8.
   Eignarnámsþoli telur sig þurfa að hafa sérstaka vörslu gripa sinna 3-4 mánuði á hverjum vetri vegna sívaxandi og hraðari umferðar um veginn um Ketilstaði. Krafan er og rökstudd með því að girðingar umhverfis vegsvæðið fenni í kaf strax og snjóa taki að festa. Þá sé snjómokstur af veginum á girðingar. Slíkt ástand vari í 3-4 mánuði. Fjárhæð kröfunnar er á því byggð, að miðað sé við vörslur í 12 tíma á dag í 30 daga í 15 ár og nemur fjárhæðin þannig reiknuð kr. 1.787.286.89. Forsendur kröfunnar eru þó skv. málflutningi þær að vörslurnar vari í 120 daga í stað 30 daga, eins og gert er ráð fyrir í útreikningi, og ætti því fjárhæðin skv. því að vera fjórum sinnum hærri eða kr. 7.149.147.56.

X. Sjónarmið eignarnema.

Eins og fyrr getur greiddi eignarnemi eignarnámsþola kr. 142.226.- í júlí 1988. Er krafa eignarnema á því byggð að með þeirri greiðslu fyrir land og efni hafi að fullu verið bætt allt tjón eignarnámsþola vegna endurbóta á Austurlandsvegi.

Eignarnemi hefur gert athugasemdir við einstaka kröfuliði eignarnámsþola sem hér segir:

Um 1 og 2.
   Á því er byggt af hálfu eignarnema að hann hafi átt gamla vegsvæðið frá 1954 eða 1955 og eignarnámið nú nái aðeins til þess viðbótarlands á Ketilstöðum sem nauðsynlegt hafi verið að taka 1984, en það sé 29.830 m2, þar af 14.030 m2 túns. Eignarnámið nái aðeins til viðbótarskerðingar á landi Ketilstaða og heimildarlaust sé með öllu að stofna nú til mats á bótum vegna vegsvæðis sem afhent var 1954 eða 1955. Þá hafi eignarnemi aðeins tekið 3.500 m3 efnis úr landi Ketilstaða og það efni sé nú þegar að fullu bætt. Eignarnámsþoli hafi átt þess kost að fylgjast með því efnismagni sem tekið var.

Um 3.
   Eignarnemi mótmælir bótakröfu vegna rekstrartjóns og krefst þess að þessum kröfulið verði vísað frá matsnefndinni. Þetta rökstyður eignarnemi með því, að hann hafi falið verkið verktaka, sem m.a. hafi átt að sjá um niðurtekt og uppsetningu girðinga. Um verksamninginn hafi m.a. gilt gr. 22.6. í IST 30, en skv. því ákvæði beri verktaki einn skaðabótaábyrgð á tjóni, sem þriðji maður kann að verða fyrir af framkvæmd verksins. Af þessum ástæðum telur eignarnemi ekki ástæðu til að fjalla um bótafjárhæðina, þar á meðal ekki um þá fjárhæð sem fram kemur í matsgerð dómkvaddra manna, sem eignarnámsþoli aflaði sér sumarið 1985.

Um 4.
   Eignarnemi hafnar með öllu fébótakröfu skv. þessum lið. Fjarlægð vegar frá húsunum hafi nánast ekkert breyst við endurbæturnar 1984 til 1985. Aðstæður hafi hins vegar batnað með tilkomu bundins slitlags á veginn. Rykmengun sé úr sögunni, svo og aur og steinkast og hávaði frá umferðinni hafi minnkað til muna. Þetta séu hagsbætur sem taka beri tillit til skv. 61. gr. vegalaga nr. 6/1977, sbr. og dóm Hæstaréttar 1980.920 (Leirvogstungumál). Mótmælt er að endurbætur á vegi hafi leitt til aukinna snjóþyngsla við útihúsin og ekki kannast eignarnemi við að stífla í rennu hafi gert útihúsin ónothæf. -Þá er því haldið fram að vegurinn hafi ekki áhrif á skepnuhald, enda sé girðing beggja vegna vegar og aðstæður óbreyttar frá því sem var fyrir eignarnámið. Viðurkennt er að nokkuð aukin umferð sé um veginn við Ketilstaði eins og á öðrum vegum landsins og umferðarhraði sé lögbundinn og ekki á færi eignarnema að hafa áhrif þar á. Þá er því og haldið fram að við vettvangsgöngu hafi komið fram að útihúsin hafi verið léleg og að nokkru hrunin. Þau hafi því þá þegar, að minnsta kosti að nokkru, verið ónothæf.

Um 5.
   Því er haldið fram að aðstæður við íbúðarhúsið hafi ekki breyst nema til batnaðar við endurbætur á veginum 1984 til 1985 og víða væri óbúandi í íbúðarhúsum, ef íbúðarhús við umferðaræðar teldust óíbúðarhæf.

Um 6.
   Því er haldið fram að girt hafi verið meðfram Austurlandsvegi um land Ketilstaða skv. fyrirmælum 9. gr. girðingarlaga nr. 10/1965, sbr. lög nr. 41/1971, 1. gr. Með því sé girðingarskyldu eignarnema fullnægt og kröfum um frekari aðgerðir hafnað. Því er alfarið hafnað, að girðingarnar milli túns og vegar, þar sem vegurinn liggur um Ketilstaði séu eingöngu í þágu vegarins og þess vegna eigi ákvæði 6. gr. 1. mgr. girðingalaga ekki við. Þá vísar eignarnemi til 80. gr. vegalaga máli sínu til stuðnings.

Um 7.
   Fébótakröfu vegna viðhalds girðinga hafnar eignarnemi með vísan til 7. gr. girðingalaga nr. 10/1965, en eins og áður kemur fram er það skilningur eignarnema, að girðingarnar milli vegar og túns á Ketilstöðum séu ekki eingöngu í þágu vegarins og þar af leiðandi beri bóndanum að annast og kosta viðhald girðinganna.

Um 8.
   Því er haldið fram að krafa þessi eigi sér enga lagastoð. Þvert á móti vitnar eignarnemi til ýmissa ákvæða máli sínu til stuðnings, svo sem 34. gr. l. nr. 43/1969 um afréttarmálefni ofl., 33. og 38. gr. l. nr. 43/1976 um búfjárrækt, sbr 1. gr. l. nr. 57/1989 um skyldu búfjáreiganda til að gæta búsmala síns. Þá er á það bent að við vegalagninguna 1984 til 1985 hafi ástandið ekki breyst frá því sem áður var nema þá til batnaðar fyrir eignarnámsþola, því girðingar meðfram veginum hafi verið endurnýjaðar og séu nú betur til vörslu fallnar en hinar eldri girðingar.

   Þá hefur eignarnemi vakið athygli á því að gert sé ráð fyrir reiðgötum meðfram veginum og t.d. hafi hönnun og lagning ræsa tekið mið af því, en tilefni þessarar athugasemdar er athugasemd eignarnámsþola um sama efni í sóknargögnum.

   Eignarnemi mótmælir kröfu eignarnámsþola um greiðslu málskostnaðar með hliðsjón af greiðslu þeirri sem innt var af hendi í júlí 1988, enda sé málatilbúnaður eftir það á kostnað og áhættu eignarnámsþola.

XI. Álit matsnefndar.

Eins og áður getur hefur matsnefnd farið tvisvar sinnum á vettvang og að auki hefur hún loftljósmyndir af vettvangi sem teknar voru bæði fyrir og eftir endurbætur á Austurlandsvegi árið 1984 til 1985. Þá hefur eignarnemi og lagt fram greinargóða uppdrætti sem sýna gamla veginn og breytingarnar sem gerðar voru, svo og girðingar. Matsnefndin telur eðlilegt að taka afstöðu til sjónarmiða aðila með vísan til hinna einstöku kröfuliða eignarnámsþola eins og þeir hafa verið skilgreindir hér að framan undir liðunum nr. 1-8.

Um 1.
   Eignarnámsþoli krefst bóta undir þessum lið fyrir allt land undir veg og er þá við það miðað, að eignarnemi greiði bætur fyrir eldra vegsvæði auk breikkunar á því. Jafnframt krefst eignarnámsþoli þess, að bætur verði miðaðar við 60 metra breitt svæði á 2,5 km kafla og að auki verði metnar bætur vegna svæða innan girðingar en utan 60 metra svæðisins.

   Matsnefndin telur, að eignarnámsmál þetta snúi aðeins að því að meta eignarnámsbætur vegna þeirra eignaskerðinga, sem eignarnámsþoli varð fyrir vegna endurbóta og breikkunar á Austurlandsvegi árið 1984 til 1985, þar sem vegurinn fer um land Ketilstaða á 2,5 km svæði. Matsnefndin tekur ekki afstöðu til eignarréttar á gamla vegsvæðinu, enda er það hlutverk dómstóla að skera úr ágreiningi um eignarrétt en ekki matsnefndar eignarnámsbóta. Þá telur matsnefndin, að rétt sé sú staðhæfing eignarnema að eignarnámið nái til 29.830 m2 lands og þar af séu 14.030 m2 ræktað tún. Að auki telur matsnefndin að með lagningu Austurlandsvegar sem telst stofnbraut í skilningi 69. gr. vegalaga nr. 6/1977, hafi verið lögð kvöð á land Ketilstaða, sem nær til spildu sem er til hliðar við veginn í 30 metra fjarlægð frá miðlínu beggja vegna. Þarf leyfi vegamálastjóra til að staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, á greindu svæði. Í þessari kvöð felst eignaskerðing, sem matsnefndinni ber að hafa í huga þegar hún kemst að niðurstöðu í málinu. Á sama hátt ber matsnefndinni að taka tillit til ákvæða 65. gr. vegalaga nr. 6/1977 þar sem segir að sérstaklega skuli við mat taka tillit til þess, ef ætla má að land hækki í verði við vegagerðina. Ákvæði þetta hefur Hæstiréttur túlkað í svonefndu Leirvogstungumáli (1980.920) en þar segir að skýra skuli ákvæði 61. gr. vegalaga þannig, að til frádráttar eignarnámsbótum skuli, ef því er að skipta, koma það sem hinn hluti eignarinnar við eignarnámið hefur stigið í verði umfram aðrar eignir.

   Við mat á tjóni eignarnámsþola af völdum eignarnámsins ber að líta til þess, að á jörðinni er stundaður landbúnaður og fátt sem bendir til að jörðin muni nýtast til annarra hlutverka í fyrirsjáanlegri framtíð.

   Matsnefndin telur, að helstu áhrif vegalagningarinnar á gildi jarðarinnar séu þau almennu áhrif, sem slíkir vegir hafa á landbúnaðarjarðir. Flutningar allir og aðdrættir verða auðveldari og ódýrari og samskipti við nánasta þéttbýli tíðari og verður að telja slík áhrif jákvæð. Umferð eykst um stofnbrautir landsins og ekki síst hringveginn vegna fjölgunar bifreiða, en einnig að hluta vegna þess að vegirnir eru betri en áður, einkum þegar þeir eru lagðir bundnu slitlagi. Þessu til viðbótar minnkar ryk frá vegum svo og aur og grjótkast við gerð varanlegs slitlags og hávaði frá umferðinni minnkar. Þessi áhrif eru að því leyti almenn, að þau nýtast öllum þeim sem í nánd við veginn búa, en þau eru þó sérstaklega hagkvæm þeim, sem búa mjög nálægt malarvegum, sem endurnýjaðir eru með lagningu varanlegs slitlags. Verður að telja að slíkar endurbætur á vegi séu sérstakar hagsbætur fyrir þann, sem á heima í allra næsta nágrenni við veginn og hefur áður orðið að búa við venjulegan malarveg, en þá er átt við fjölfarinn veg eins og Austurlandsvegur hefur lengi verið. Telur matsnefndin að þessi sérstaki hagsauki sé jafnverðmætur fyrir eignarnámsþola og tjón það sem hann verður fyrir af framangreindri kvöð vegna stofnbrautarinnar og telur nefndin því rétt að þessir liðir jafnist hvor á móti öðrum.

   Matsnefndin telur hæfilegt að meta verðmæti ræktaða og óræktaða landsins sem eignarnumið var skv. framansögðu og er 29.830 m2 að stærð á kr. 234.150.- og hefur þá verið miðað við að verð á ræktuðu landi sé kr. 150.000.- fyrir hektarann og kr. 15.000.- fyrir ræktunarhæft land. Hefur m.a. verið höfð hliðsjón af afstöðu Búnaðarfélags Íslands til verðmætis lands á bújörðum.

   Aðilar urðu ásáttir um flutning girðinga við munnlegan flutning málsins og þarf því ekki að taka afstöðu til bótakröfu vegna þess lands, sem var utan vegsvæðis, en innan girðingar.

Um 2.
   Matsnefndin telur ekki ástæðu til að draga í efa upplýsingar eignarnema um magn jarðefna sem tekin voru í landi Ketilstaða vegna vegalagningarinnar. Efnisnáman er í grennd við bæinn að Ketilstöðum og hefði það ekki farið fram hjá eignarnámsþola, ef tekið hefði verið helmingi meira magn en eignarnemi hefur veitt upplýsingar um. Þá styður það staðhæfingu eignarnema um magn, að í útboðsgögnum er gert ráð fyrir að taka 2000 m3 af fyllingarefni við Unalæk. Þegar matsnefndin hefur tekið tillit til aðstöðu til efnistöku í námunni, nýtingarkosta efnisins og legu námunnar við markaði og eftirspurn eftir efninu telur hún að bætur fyrir umrædda 3.500 m3 efnis sé hæfilega metið kr. 14.700.-.

Um 3.
   Matsnefndin fellst ekki á þau sjónarmið eignarnema, að hann sé laus úr allri ábyrgð vegna jarðrasks og átroðnings með því að fela verktaka að annast vegalagninguna í sínu umboði. Í matsbeiðni var þess krafist að eignarnema yrði heimilað að taka umráð landsins og hefjast handa um þær framkvæmdir, sem voru tilefni eignarnámsins. Á sama hátt var óskað eftir leyfi til efnistöku eignarnema í landinu. Enginn fyrirvari var gerður af hálfu eignarnema um ábyrgð á greiðslu bóta né var eignarnámsþoli beðinn að samþykkja að verktakinn kæmi í stað eignarnema sjálfs í samskiptum þeirra út af eignarnáminu. Þess vegna telur matsnefndin að eignarnema beri að bæta jarðrask og átroðning sem eignarnámsþoli varð fyrir vegna þeirra framkvæmda, sem eru tilefni eignarnámsins og þá án tillits til þess hver framkvæmdi verkið í umboði eignarnema.

   Ekki liggja fyrir nefndinni gögn sem ótvírætt segi til um tjón eignarnámsþola af völdum jarðrasks og átroðnings, en eignarnámsþoli leggur megináherslu á, að girðingar hafi verið felldar án þess að þess hafi verið gætt að halda búpeningi frá túninu á Ketilstöðum og er þá líklega átt við skepnur, sem farið hafa eftir þjóðveginum, enda er ekki hlið á honum. Eignarnemi hefur hins vegar ekki afneitað því að slíkt tjón hafi orðið, en eignarnámsþoli hefur fært að því nokkrar líkur, að hann hafi orðið fyrir tjóni af þessum ástæðum.

   Þá telur matsnefndin rétt að hafa í huga að svo virðist sem eignarnámsþoli hafi ekki kvartað við eignarnema út af fyrirkomlagi framkvæmdanna né hafi hann gert eðlilegar ráðstafanir til að draga úr tjóni, svo sem honum er skylt skv. almennum reglum skaðabótaréttarins. Matsnefndin metur því tjón eignarnámsþola undir þessum lið að teknu tilliti til ofangreindra sjónarmiða kr. 120.000.-.

Um 4 og 5.
   Matsnefndin fellst ekki á að eignarnámið vegna endurbóta á veginum hafi haft í för með sér eyðileggingu eða verðrýrnun á íbúðarhúsi jarðarinnar og þeim útihúsum sem við veginn standa. Vegarstæðinu var ekki breytt með endurbótunum, þar sem vegurinn liggur meðfram bænum, að öðru leyti en því að vegurinn var breikkaður nokkuð og hækkaður. Matsnefndin fellst ekki á að neitt orsakasamband sé á milli meints tjóns eignarnámsþola á húsum þessum og eignarnámsins og framkvæmdum sem voru tilefni þess. Matsnefndin fellst ekki á, að aukning umferðar um þjóðveginn við Ketilstaði hafi í för með sér verðrýrnun á greindum húsum og eignarnemi beri ábyrgð á þeirri verðrýrnun. Matsnefndin telur heldur ekkert benda til, að breikkun og hækkun vegarins hafi haft í för með sér þær breytingar á aðstæðum, sem leitt hafi til þess að afnot húsanna skertust og verð þeirra rýrnaði. Ekki fellst matsnefndin heldur á það sjónarmið, að útihúsin séu ónothæf, vegna þess að stíflur hafi orðið í rennu milli húsa og vegar, eins og haldið er fram af eignarnámsþola. Við vettvangsgöngu 1984 kom í ljós, að fjárhúsin voru ekki lengur í notkun, enda hafði fjárbúskap þá þegar verið hætt á jörðinni. Húsin voru í niðurníðslu, þök að hluta til fallin og húsin því lítils eða einskis virði. Ekkert bendir heldur til að breytingar á vegi hafi haft áhrif á notagildi votheysgeymsla við húsin. Af þessum ástæðum hafnar matsnefndin því að meta bætur til handa eignarnámsþola undir þessum lið.

Um 6.
   Aðilar hafa gert sátt um færslu girðinga og girðingamál og því ekki tilefni til þess fyrir matsnefndina að taka afstöðu til bótakröfu vegna uppsetningar á þremur hliðum á girðingum án frekari skilgreiningar.

Um 7.
   Matsnefndin telur óhjákvæmilegt að hafa í huga að girðingar voru beggja megin vegarins þegar eignarnámið fór fram 1984 og var viðhald þeirra girðinga eignarnema óviðkomandi, að minnsta kosti í framkvæmd. Eignarnemi flutti þessar girðingar til að minnsta kosti að hluta og endurnýjaði þær. Almenn regla 9. gr. girðingalaga nr. 10/1965 er sú, að bændur beri viðhaldskostnað girðinga sem vegagerðin setur upp nema girðingin sé eingöngu í þágu vegarins, sbr. 7. gr. girðingalaga eins og henni var breytt með lögum nr. 45/1967. Í 11. gr. sbr. 1. gr. l. nr. 41/1971 er kveðið á um girðingar beggja megin vegar, sem liggur um tún. Ekki eru ákvæði þessi skýr að því er varðar merkingu orðanna um girðingar eingöngu í þágu vegarins. Hér er um ágreining að ræða milli aðila um það hvor þeirra skuli annast og kosta viðhald girðinga milli vegar og túns, svo og lengd þeirra girðinga. Ekki er um eignaskerðingu að ræða sem matsnefnd eignarnámsbóta beri að meta bætur fyrir. Ákveða þarf hins vegar hvor aðila eigi að annast og kosta viðhaldið og reglur um ákvörðun þessa er m.a. að finna í 6. gr. laganna, en almennir dómstólar eiga síðan lokaorðið. Af þessum ástæðum hafnar matsnefndin því að meta eignarnámsþola bætur undir þessum kröfulið.
Um 8.
   Matsnefndin hafnar því sjónarmiði eignarnámsþola, að það sé skaðabótaskyld afleiðing eignarnámsins og framkvæmdanna sem voru tilefni þess, að þörf sé á vörslum við tún jarðarinnar 12 stundir á dag í 4 mánuði ár hvert og þessi þörf sé bein afleiðing af vegalagningunni 1984 til 1985. Af þeim ástæðum metur nefndin eignarnámsþola ekki bætur undir þessum lið.

   Matsnefndin telur engan ágreining vera með aðilum um reiðveg með þjóðveginum, enda hafi sá þáttur málsins skýrst undir rekstri þess.
   Samkvæmt framansögðu telur matsnefndin eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola að teknu tilliti til frádráttarliða hæfilega metnar kr. 156.213.- sem sundurliðast þannig:

      1. Bætur fyrir land            kr. 234.500.-
      2. Bætur fyrir efnistöku         kr. 14.700.-
      3. Bætur fyrir jarðrask og átroðning   kr. 120.000.-
                     Samtals   kr. 369.200.-
       -Innborgun í júlí 1988 framreiknuð   kr. 212.987.-
                     Samtals   kr. 156.213.-

   Sá frádráttur sem gerður er á bótunum er vegna greiðslu eignarnema til eignarnámsþola í júlí 1988 hefur verið færður til verðlags á matsdegi miðað við byggingarvísitölu.

   Eignarnámsbætur af frádreginni innborgun nema því samtals
   kr. 156.213.-

   Matsnefndin telur það ekki hlutverki sitt að kveða á um vexti af matsfjárhæð.

   Við ákvörðun bóta hefur verið lagt til grundvallar verðlag á eignarnámsdegi 1984 fært til verðgildis á matsdegi.

   Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola er höfð hliðsjón af eðlilegu framlagi lögmanns við kröfugerð og rekstur málsins og jafnframt litið til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og eðlilegs útlagðs kostnaðar. Með ofangreint í huga ákveður matsnefndin að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 85.000.- í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts.
   
   Eignarnemi greiði ríkissjóði kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta við málið samtals kr. 400.000.-.

   

   MATSORÐ.

Eignarnemi, vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Jóni Bergssyni, Ketilstöðum, kr. 156.213.- í eignarnámsbætur og kr. 85.000.- í málskostnað. Eignarnemi greiði ríkissjóði kostnað af starfi matsnefndar kr. 400.000.-


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum