Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 56/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 56/2016

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

Akureyrarbæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2016 og móttekinni 8. sama mánaðar, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Akureyrarbæjar, dags. 22. janúar 2016, á umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Akureyrarbæ með umsókn, dags. 31. október 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi húsnæðisdeildar Akureyrar, dags. 6. nóvember 2014, með þeim rökum að leiguhúsnæði hennar væri ekki á almennum markaði, sbr. 1. gr. reglna Akureyrarbæjar um sérstakar húsaleigubætur. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2014, áfrýjaði kærandi synjuninni til félagsmálaráðs Akureyrarbæjar. Með bréfi, dags. 21. apríl 2015, ítrekaði kærandi beiðni sína og óskaði eftir svari frá sveitarfélaginu. Með bréfi Akureyrarbæjar, dags. 18. maí 2015, var kæranda tilkynnt að erindi hennar hefði ekki verið tekið fyrir vegna mistaka, en það yrði gert þegar endurskoðun reglna sveitarfélagsins um sérstakar húsaleigubætur væri lokið. Velferðarráð Akureyrarbæjar tók mál kæranda loks fyrir á fundi sínum þann 20. janúar 2016 og staðfesti synjunina. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Akureyrarbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Akureyrarbæjar barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2016, var bréf Akureyrarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún telji Akureyrarbæ mismuna þeim sem sæki um sérstakar húsaleigubætur þar sem leigjendur á almennum markaði og þeir sem leigi félagslegar íbúðir sveitarfélagsins fái greiddar sérstakar húsaleigubætur. Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Akureyrarbæjar um að synja henni um sérstakar húsaleigubætur verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar kemur fram að umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur hafi verið synjað þar sem leiguhúsnæði hennar væri í eigu Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands. Tekið er fram að áfrýjun kæranda til félagsmálaráðs hafi ekki verið tekin fyrir strax vegna mistaka, en síðar hafi kæranda verið tilkynnt að mál hennar yrði tekið fyrir þegar endurskoðun reglna um sérstakar húsaleigubætur væri lokið. Sú endurskoðun hafi tafist óheyrilega. Meðal annars væri verið að bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar í sams konar máli og mögulegum lagabreytingum með húsnæðisfrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Því hafi verið ákveðið að taka mál kæranda fyrir hjá velferðarráði Akureyrarbæjar á grundvelli gildandi reglna og þar hafi synjun á umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur verið staðfest.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Akureyrarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur. Ágreiningslaust er að umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að leiguhúsnæði hennar væri ekki á almennum markaði.

Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð Akureyrarbæjar vegna umsóknar kæranda um sérstakar húsaleigubætur. Líkt og fram kemur í bréfi Akureyrarbæjar, dags. 18. maí 2015, var afgreiðslu félagsmálaráðs á áfrýjun kæranda frestað frá þeim tíma og þar til í janúar 2016 þar sem verið var að endurskoða reglur sveitarfélagsins um sérstakar húsaleigubætur. Þar áður hafði erindi kæranda ekki verið tekið til skoðunar í sex mánuði vegna mistaka. Úrskurðarnefndin bendir á að sveitarfélaginu bar að taka efnislega ákvörðun um synjun eða samþykki umsóknar kæranda á grundvelli gildandi reglna sveitarfélagsins eins fljótt og unnt var, sbr. meðal annars 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beinir úrskurðarnefndin því til sveitarfélagsins að haga málsmeðferð sinni vegna umsókna einstaklinga framvegis í samræmi við framangreind sjónarmið. 

Í 1. gr. þágildandi reglna Akureyrarbæjar um sérstakar húsaleigubætur, sem var breytt þann 15. mars 2016, kom fram að sérstakar húsaleigubætur væru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum sem félagsleg aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og/eða annarra félagslegra erfiðleika. Þá kom fram í 2. mgr. 1. gr. að sérstakar húsaleigubætur væru fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu á almennum markaði umfram almennar húsaleigubætur. Íbúð teldist vera á almennum markaði væri hún ekki háð hámarksleigu eða öðrum opinberum stuðningi.

Óumdeilt er að kærandi var með leigusamning við Brynju, hússjóð Öryrkjabandalags Íslands, á þeim tíma sem umsókn hennar var lögð fram. Að mati Akureyrarbæjar var leiguíbúð kæranda ekki á almennum markaði og var umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur því synjað á þeirri forsendu. Af orðalagi þágildandi 1. gr. reglna Akureyrarbæjar um sérstakar húsaleigubætur verður ekki önnur ályktun dregin en sú að sveitarfélaginu hafi við framkvæmd ákvæðisins borið að leggja einstaklingsbundið mat á það hvort kærandi þyrfti á félagslegri aðstoð að halda til að sjá sér fyrir húsnæði, sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og/eða annarra félagslegra erfiðleika. Ákvæðið mælti því fyrir um skyldubundið mat sveitarfélagsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar felur ákvæði 2. mgr. 1. gr. framangreindra reglna það í sér að ekki er gert ráð fyrir sérstöku mati á aðstæðum hvers umsækjanda fyrir sig. Sveitarfélagið hefur þannig takmarkað, með ómálefnalegum hætti, skyldubundið mat sitt sem stjórnvalds og útilokað umsækjendur sem ekki leigja á almennum markaði, án frekari skoðunar.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún þyrfti á sérstökum húsaleigubótum að halda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Akureyrarbæ að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 22. janúar 2016, um synjun á umsókn A um sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum