Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 55/2016

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. febrúar 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, frá 20. janúar 2016, á beiðni hennar um undanþágu frá eignaviðmiði vegna umsóknar um sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 23. september 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. október 2015, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Var þar vísað til tekna kæranda. Kærandi óskaði þá eftir undanþágu frá framangreindu skilyrði en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 2. nóvember 2015, á þeirri forsendu að skilyrði b-liðar 5. gr. reglnanna um undanþágu væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. janúar 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 9. mars 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. mars 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi hefur ekki komið á framfæri sínum sjónarmiðum í málinu fyrir úrskurðarnefndinni eða gert sérstakar kröfur í kæru sinni. Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð kæranda til velferðarráðs, dags. 25. nóvember 2015, þar sem kærandi fór fram á undanþágu frá skilyrði um eignamörk. Þar greindi kærandi frá því að hún sé lungna- og hjartasjúklingur, með astma og jafnvægistruflanir vegna skaða á eyra ásamt því að fást við liðverki og áfallastreitu vegna mikils og langvarandi álags. Kærandi kveðst eiga fasteignir á B sem hún hafi ekki getað selt og sitji því uppi með. Kærandi fór fram á undanþágu frá skilyrði um eignamörk, í það minnsta þar til hún gæti selt fasteignir sínar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að í 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu sett fram tiltekin skilyrði sem uppfylla þurfi til að umsókn um sérstakar húsaleigubætur taki gildi. Kærandi hafi verið yfir eignamörkum c-liðar 4. gr. reglnanna vegna tveggja fasteigna sem hún væri skráð fyrir og því hafi umsókn hennar verið hafnað.

Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrðum 4. gr. reglnanna ef um sé að ræða mikla félagslega erfiðleika. Ákvæðið sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita undanþágu en í samræmi við viðteknar lögskýringarreglur beri að skýra undantekningar þröngt. Þrátt fyrir það líti velferðarráð svo á að meta beri hvert mál fyrir sig með hliðsjón af aðstæðum í hverju máli. Ljóst sé að kærandi hafi átt við ýmis veikindi og erfiðleika að stríða og sé metin til fjögurra stiga sökum félagslegs vanda vegna veikinda. Þrátt fyrir það séu aðstæður kæranda þó ekki með þeim hætti að víkja beri frá skilyrðum c-liðar 4. gr. reglnanna. Í því sambandi sé sérstaklega litið til þess að kærandi sé um það bil 149% yfir eignamörkum framangreindra reglna.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu frá skilyrðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Sú ákvörðun hafi hvorki brotið gegn framangreindum reglum né lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. 

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja undanþágu frá tekjuviðmiði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur, sbr. 5. gr. sömu reglna. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að skilyrði c-liðar 4. gr. framangreindra reglna væri ekki uppfyllt þar sem eignir kæranda væru yfir viðmiðunarmörkum. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 5. gr. reglnanna.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk og eru eignamörk 4.675.115 kr. en heimilt er að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi skráð fyrir tveimur fasteignum að fasteignamati samtals 16.440.000 kr. Að frádregnum skuldum er hrein eign kæranda samkvæmt álagningarseðli 2015 skráð 11.637.440 kr. eða 6.962.325 kr. yfir framangreindum eignamörkum. Kærandi hefur engin gögn lagt fram, svo sem verðmöt á fasteignum hennar, því til staðfestingar að hrein eign hennar sé þarna ranglega tilgreind. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþáguheimild frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið en ekki er kveðið á um undanþágu frá eignamörkum c-liðar 4. gr., svo sem ranghermt er í bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 2. nóvember 2015. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé til staðar heimild til að víkja frá eignamörkum c-liðar 4. gr. reglnanna og kemur undanþáguákvæði 5. gr. því ekki til frekari skoðunar í málinu. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. gr. reglnanna, en líkt og að framan greinir þurfa öll skilyrði a–e-liða 1. mgr. 4. gr. reglnanna að vera uppfyllt til að umsókn verði metin gild. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, frá 20. janúar 2016, um synjun á beiðni A, um undanþágu frá tekjuviðmiðum vegna umsóknar um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum