Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 216/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 216/2016

Föstudaginn 9. september 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. maí 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 9. mars 2016, um greiðslu húsaleigubóta til hennar fyrir janúar og febrúar 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg fyrir árið 2016 með umsókn sem móttekin var þann 25. febrúar 2016. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. febrúar 2016, var kæranda synjað um greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar og febrúar 2016 á þeirri forsendu að umsóknin hafi ekki borist á tilsettum tíma, sbr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. mars 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. maí 2016. Með bréfi, dags. 27. júní 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 30. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júlí 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi átt við veikindi að stríða og misst nákominn vin í lok árs 2015. Hún hafi því gleymt að sækja um húsaleigubætur. Kærandi óskar eftir að fá greiddar húsaleigubætur fyrir janúar og febrúar 2016 með vísan til veikinda sinna og atvinnumissis.  

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur en þar komi fram að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Í 1. tölul. 11. gr. laganna komi fram að með umsókn skuli fylgja húsaleigusamningur, gerður á staðfest samningseyðublað, undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur. Framangreindar reglur séu einnig ítrekaðar í reglugerð nr. 118/2003 um húsaleigubætur.

Reykjavíkurborg greinir frá aðstæðum kæranda og vísar til læknisvottorðs sem liggi fyrir í málinu. Ekkert sé fram komið sem gefi tilefni til að telja að veikindi kæranda hafi verið slík að henni hafi verið með öllu ófært að sækja um húsaleigubætur innan þess frests sem lög mæli fyrir um. Í lögum nr. 138/1997 sé ekki að finna heimildir til undanþágu í sérstökum tilvikum og því ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi verið í samræmi við ákvæði laganna.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar og febrúar 2016.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur segir að umsókn um húsaleigubætur skuli skilað til viðkomandi sveitarfélags sem annast afgreiðslu og útborgun bóta. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna skulu umsóknir hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta með umsókn, dags. 25. febrúar 2016, og var samþykkt að greiða kæranda húsaleigubætur frá 1. mars 2016.

Með vísan til ákvæða tilvitnaðra lagagreina er ekki lagaheimild fyrir því að víkja frá skýrum ákvæðum laganna um að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár fyrir sig og að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar og febrúar 2016. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. mars 2016, um synjun á umsókn A um greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar og febrúar 2016 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum