Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Nr. 48/2018 - Álit

Lögmæti aðalfundar. Aðgengi að gögnum. Fundarsköp. Tillögur. Eignaskiptayfirlýsing.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 48/2018

 

Lögmæti aðalfundar. Aðgengi að gögnum. Fundarsköp. Tillögur. Eignaskiptayfirlýsing.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 22. maí 2018, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn húsfélagsins B-X og Y, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 5. júní 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 26. júní 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 28. júní 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 3. september 2018.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B-X-Y. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsi nr. X. Ágreiningur er um ýmis málefni tengd störfum stjórnar húsfélagsins, þ.á m. lögmæti aðalfundar, aðgengi að gögnum húsfélagsins, tillögur álitsbeiðanda, húsreglur, fundarsköp og greiðslu vegna framkvæmda. Jafnframt er ágreiningur um eignaskiptayfirlýsingu.

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

  1. Að viðurkennt verði að aðalfundur húsfélagsins 30. apríl 2018 sé ólögmætur.
  2. Að viðurkennt verði að fundarsköp á aðalfundi 30. apríl 2018 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús.
  3. Að viðurkennt verði að húsreglur sem stjórnendur húsfélagsins hafi sett séu ólögmætar.
  4. Að viðurkennt verði að eignaskiptayfirlýsing fyrir B-Z-X-Y sé ólögleg og um sé að ræða sérstaka fasteign að A-Z sem sé sjálfstæð frá B-X og Y, sbr. 17. gr. laga um fjöleignarhús, og þar með viðurkenndur réttur þeirra sem taldir séu meðeigendur að B-Z með C, á endurgreiðslu frá C vegna greiðslu hluta viðhaldskostnaðar við B-Z.
  5. Að viðurkennt verði að gagnaðili hafi ekki gætt fjárhagslegra réttinda aðila húsfélagsins að B-X og Y gagnvart C varðandi fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir á B-Z svo og að gagnaðili hafi ekki rétt til afskipta af málefnum er varða B-Z án sérstakrar samþykktar eigenda.
  6. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að veita álitsbeiðanda tafarlaust aðgengi að gögnum húsfélagsins.
  7. Að viðurkennt verði að gagnaðili hafi ekki mátt greiða mun hærri fjárhæð fyrir endurnýjun viðvörunarkerfis við eldsvoða en lagt hafi verið upp með í upphafi verksins.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi sent skrifleg tilmæli, sbr. 59., 60. og 62. gr. laga um fjöleignarhús, um að ákveðin málefni yrðu tekin til umræðu á aðalfundi, auk nokkurra tillagna sem hafi tengst þeim málum. Gagnaðili hafi hundsað að geta málanna á dagskrá fundarins, enda umræðuefnið neikvætt fyrir störf hans. Þá hafi ekki verið tekið tillit til skriflegrar ábendingar til gagnaðila um að þrátt fyrir að tillögur þær sem lagðar hafi verið fram fyrir aðalfund væru efnislega réttar mætti gera ráð fyrir orðalagsbreytingum á þeim fyrir aðalfund. Samkvæmt lögum sé ekki unnt að krefjast atkvæðagreiðslu um mál sem séu ekki tilgreind í fundarboði og hafi engar umræður orðið um þessi mál sem óskað hafi verið eftir umræðu um. Af hálfu gagnaðila hafi allar tillögur álitsbeiðanda verið teknar til afgreiðslu í einu án þess að umræða hafi farið fram um þær.

Í fundargerð aðalfundar húsfélagsins frá 30. apríl 2018 komi hvergi fram bókun um afgreiðslu á lið 10 á efnisskrá fundarins. Engin bókun um tillögu nýkjörins formanns hússtjórnarinnar að allar tillögurnar yrðu bornar undir atkvæði í einu lagi eða frekari afgreiðsla á þessum lið málefnaskrár.

Þar sem ekki hafði verið gengið frá fundargerð fyrir fundarlok húsfundar 13. mars 2018, hafi álitsbeiðandi krafist þess með skriflegu erindi til gagnaðila að fyrsta mál á aðalfundi eftir setningu fundar yrði fundargerð fyrri fundar svo að hægt yrði að ljúka honum. Sú fundargerð sem hafi verið send meðlimum húsfélagsins hafi í meginatriðum verið röng. Tillaga sú sem gagnaðili hafi lagt upp með hafi aldrei verið borin undir atkvæði þar sem álitsbeiðandi hafi efnislega mótmælt henni sem hafi leitt til þess að henni hafi verið breytt og farið að óskum álitsbeiðanda um að meðlimir húsfélagsins fengju í hendur skrifleg gögn sem hafi varðað tilboð frá fyrirtækinu um hvaða þjónusta væri verið að bjóða.

Í svari gagnaðila til álitsbeiðanda um fundargerðina hafi komið fram að gagnaðili hafi sett reglur um afgreiðslu fundargerða sem hvergi séu skráðar fyrr en í umræddu bréfi um 20 daga frest til að skila athugasemdum. Þetta sé ekki í neinu samhengi við ákvæði laga um fjöleignarhús um frágang fundargerða. Gamlar óskráðar reglur um fundarsköp heimili að fundargerð síðasta fundar sé lesin upp sem fyrsta mál næsta fundar og tekin þar til afgreiðslu sem lok fyrri fundar, ella sé um framhald fyrri fundar að ræða.

Stjórn og framgangur á aðalfundi húsfélagsins 30. apríl 2018 hafi ekki verið samkvæmt gildandi lögum með vísan til 64. gr. laga um fjöleignarhús. Aðilar húsfélagsins hafi ekki fengið að kjósa fundarstjóra. Með einhliða ákvörðun gagnaðila hafi utanaðkomandi aðilar verið fengnir til að stjórna fundi og fundarritun. Hvorugur þessara aðila hafi virst hafa þekkingu á fundarsköpum og meðlimir húsfélagsins ekkert haft um þennan framgang mála að segja. Ekki hafi farið fram neitt val eða kosning um fulltrúa eigenda samkvæmt 64. gr. laga um fjöleignarhús til að undirrita fundargerð ásamt fundarstjóra.

Sú fundargerð sem hafi verið skráð á umræddum aðalfundi sé í engu samræmi við það sem fram hafi farið á fundinum og engar tillögur skráðar, þrátt fyrir að breytingartillögur hafi verið lagðar fram.

Fundarstjóri hafi hvorki verið formaður hússtjórnar eins og mælt sé fyrir um í lögum né hafi meðlimum húsfélagsins verið gefinn kostur á að kjósa fundarstjóra. Hvorki hafi verið leitað samþykkis húseigenda um skipan fundarstjóra né fundarritara heldur hafi verið um einhliða ákvörðun gagnaðila að ræða. Á húsfundi 13. apríl 2018 hafi verið skráð fundargerð, sem sé ekki í samræmi við gang mála á fundinum, og hafi hún ekki verið lesin upp að fundi loknum.

Gagnaðili hafi ekki staðfest að húsreglur hafi verið samþykkrar á húsfundi en gögn hafa verið lögð fram um þær og hafi verið samþykkar af stjórn gagnaðila. Ekki hafi húsreglum fyrir húsfélagið verið þinglýst en með þeim sé farið inn á séreignarrétt eigenda sem sé óheimilt samkvæmt 57. gr. laga um fjöleignarhús. Valdsvið húsfélags sé bundið við sameign og ákvarðanir sem varði hana og nauðsynlegar séu vegna hennar og sameiginlegra hagsmuna eigenda.

Eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið sé ekki í samræmi við lög um fjöleignarhús. Hún hafi verið gerð árið 2001 og taki bæði til B-X og Y svo og stóran hluta af B-Z, þar með kjallara (bifreiðageymslu) undir stórum hluta af Félagsmiðstöð C að X-Z. Allt sé fellt undir eignirnar B-X og Y þótt stór hluti tilheyri B-Z samkvæmt upplýsingum sem hafi fengist og teikningar sýni. Þrátt fyrir skriflegar ábendingar til gagnaðila um ástand þessara mála hafi umræða um þau ekki átt sér stað á húsfélagsfundi. Í gögnum hjá Sýslumanninum C hafi ekki fundist skráðar heimildir um eignir í húsinu B-Z. Þar hafi aðeins fundist einn eigandi að B-Z, þ.e. Félagsmiðstöð C, en á skjali hjá sýslumanni standi að þetta sé óstaðfest með eignina. Álitsbeiðandi sé eigandi að hluta hússins að B-Z eða bifreiðastæði undir matsal félagsmiðstöðvarinnar svo og eignaraðili að D sem hluta af B-Z.

Þar sem miklar viðhaldsframkvæmdir séu fyrirhugaðar á húsi nr. Z við B eigi C að greiða samkvæmt sínum eignarhluta vegna framkvæmdanna en gagnaðili hafi hundsað allar ábendingar um ábyrgð C á viðhaldskostnaðinum. Framferði gagnaðila geti leitt til aukinna útgjalda fyrir aðra eigendur að B-Z en C.

Álitsbeiðandi hafi í X, X og X 2018 óskað skriflega eftir aðgengi að gögnum sem tilheyri húsfélaginu og þeirri starfsemi sem falli undir húsfélög. Í skriflegu svari formanns húsfélagsins komi fram að hann sé ekki reiðubúinn að til að verða við þeirri beiðni fyrr en seinni hluta næstkomandi haust.

Viðvörunarkerfi við eldsvoða var endurnýjað og gefið upp að áætlaður kostnaður við það yrði um X kr. Án samráðs við eigendur og aðila húsfélagsins hafi verið greitt fyrir framkvæmdina 100% meira en lagt hafi verið upp með.

Í greinargerð gagnaðila segir að varðandi það sem álitsbeiðandi telji vera sameign B-Æ, Z, X og Y, virðist hann ekki gera sér grein fyrir því að skilveggir húsa geti bæði verið lóðréttir og láréttir, en hið síðara eigi við um hluta lofts bílageymslunnar, sem sé þá jafnframt gólf hannyrðastofu, sem sé við hlið matsalar félagsmiðstöðvarinnar á 1. hæð hennar.

Mót (skil) salar íbúa B-X og Y, kallaður D annars vegar og hins vegar hús félagsmiðstöðvarinnar séu augljós, bæði þar sem veggir húsanna mætist en skilveggur [...] og D sé með eldvarnarhurð, á sameiginlegu þaki húsanna og við samliggjandi burðarsúlur hvors húss fyrir sig í miðri bílageymslu.

Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að félagsmiðstöðin hefði möguleika á „afgreiðslu“ sorps frá húsi nr. Z út um aðaldyr bílageymslunnar, enda gert ráð fyrir tveimur færri bílastæðum en nú séu. Frá þessu hafi verið fallið, sennilega vegna breyttrar notkunar kjallara hússins nr. Z, og þá hafi byggingaraðili húsanna fengið þetta hugsaða pláss sorpbílsins til sín aftur og aukið fjölda bílastæða í bílakjallaranum um tvö stæði sem séu nú bílastæði nr. [...] og [...]. Þau séu síðan að fullu og öllu sameign húsanna B-X og Y og aðeins þeirra með þeim fyrirvara að aðeins þeir sem hafi keypt stæðin eða fengið þeim úthlutað með sínum íbúðum eigi þessi stæði, þar með talið þessi tvö seinustu stæði. Stæði nr. [...] sé eign álitsbeiðanda. Hið rétta sé að húsfélagið B-X og Y og félagsmiðstöðin að B-Z eigi ekkert sameiginlegt annað en skilvegginn á milli bílskýlis og kjallara og lofts hálfs bílskýlisins, sem jafnframt sé gólf hannyrðastofu félagsmiðstöðvarinnar og skilveggs [...] og D, nema umgengni og afnot sameiginlegrar leigulóðar, en þá einnig hússins nr. Æ. Engin eignaskiptayfirlýsing hafi verið gerð um sameign ofangreindra fjögurra húsa þar sem eina sameignin sé sameiginleg leigulóð.

Fundurinn 13. mars 2018 hafi verið langdreginn meðal annars vegna málþófs álitsbeiðanda og því hafi fundarstjóri óskað heimildar til að fundargerðin yrði hreinrituð að fundi loknum og síðan birt í dreifibréfi til íbúa húsanna nr. X og Y við B og fundurinn samþykkt þá málsmeðferð. Fundargerðin sé í öllum atriðum rétt. Álitsbeiðandi hafi ekki fengið tekna á dagskrá eða umræður um eignaskiptasamning á milli húsa nr. Æ, Z, X og Y við B og telji ef til vill þess vegna að fundargerðin sé röng.

Á aðalfundi 30. apríl 2018 hafi formaður tilkynnt tillögu sína um fundarstjóra og fundarritara og óskað álits fundarins sem hafi ekki haft aðrar tillögur og tillaga formanns því samþykkt. Samþykkt hafi verið að færa lið númer 10 á dagskrá í sæti liðar 4. Með fundarboði hafi fylgt allar sjö tillögur álitsbeiðanda sem hafi legið fyrir fundinn, þannig að allir hafi getað kynnt sér þær og tekið/myndað sér ígrundaða niðurstöðu um þær. Allar tillögur álitsbeiðanda hafi því verið teknar til umræðu. Álitsbeiðandi hafi haldið mjög langa ræðu um vandræði sín í viðskiptum við gagnaðila um tillögur sínar framlagðar fyrir aðalfundinn.

Kröfum álitsbeiðanda er alfarið hafnað. Sumar þeirra séu byggðar á röngum forsendum og aðrar á vanþekkingu á sameignarmálum. Athugasemd álitsbeiðanda um tvöfaldan áætlaðan framkvæmdarkostnað eigi fullan rétt á sér almennt séð en álitsbeiðanda hafi yfirsést að bæði hafi þetta atriði komið fram sem athugasemd endurskoðanda félagsins við reikninga á aðalfundi og hitt að útskýrt hafi verið að gagnaðili hafi á sínum tíma staðið frammi fyrir unninni framkvæmd og ónýtri áætlun áætlaðs trausts framkvæmdaraðila.

Um húsreglur verði ekki fjallað sérstaklega að sinni en þær elstu í húsunum séu frá árinu 1998, að því er séð verði, og hafi síðan verið endurnýjaðar, að minnsta kosti sumar hverjar. Allar hafi þær verið kynntar eigendum án mótmæla, að því er best verði séð, þótt vafalaust megi segja að þær þurfti svo sem margt annað að vera í nokkuð stöðugri endurnýjun.

Álitsbeiðandi sendi kærunefnd frekari athugasemdir með bréfi, dags. 5. júlí 2018, þar sem ekki komu fram nýjar upplýsingar.

III. Forsendur

Í 3. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að í fundarboði skuli greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skuli geta þeirra mála sem eigi að ræða og meginefni tillagna þeirra sem leggja eigi fyrir fundinn. Í 4. mgr. sömu greinar segir að vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skuli hann greina stjórn frá því skriflega með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.

Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á ólögmæti aðalfundar húsfélagsins sem haldinn var 30. apríl 2018 á þeirri forsendu að gagnaðili hafi ekki tilgreint í dagskrá fundarins umræðu um tillögur hans. Samkvæmt fundarboði fyrir aðalfund 30. apríl 2018 var eftirfarandi á dagskrá fundarins undir tölulið 10: „Tillögur sem stjórn hefur borist – sjá fylgiskjöl“. Kærunefnd fær ráðið að um hafi verið að ræða hluta af tillögum sem álitsbeiðandi sendi stjórninni og voru þær sendar meðfylgjandi fundarboðinu.

Flestar tillögur álitsbeiðanda voru á dagskrá fundarins og þar af leiðandi til umræðu. Gagnaðili undanskildi hins vegar einhverjar tillögur álitsbeiðanda varðandi sameign hússins og telur nefndin að gagnaðila beri að setja þær á dagskrá næsta fundar húsfélagsins. Kærunefnd telur þó ekki tilefni til að fallast á kröfu álitsbeiðanda um ólögmæti fundarins, þrátt fyrir þennan annmarka á dagskrá hans.

Í 1. mgr. 64. gr. laga um fjöleignarhús segir að húsfundi sé stjórnað af formanni húsfélagsins, en sé hann ekki viðstaddur velji fundurinn sjálfur fundarstjóra úr hópi félagsmanna. Í 2. mgr. sömu greinar segir að undir umsjá og á ábyrgð fundarstjóra skuli rita í sérstaka fundargerðarbók meginatriði allra mála sem tekin séu fyrir og allar ákvarðanir sem teknar séu og hvernig atkvæði hafi fallið, sé því að skipta. Í 3. mgr. sömu greinar segir að fundargerðin skuli lesin upp í lok fundar, hún leiðrétt og athugasemdir skráðar.

Álitsbeiðandi telur að aðalfundur húsfélagsins 30. apríl 2018 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús er stjórn húsfélags heimilt að ráða framkvæmdastjóra eða annan starfsmann sér til aðstoðar við daglegan rekstur. Í 4. mgr. sömu greinar segir að stjórninni sé einnig heimilt með sama hætti að fela sjálfstæðum verktaka, til dæmis húsfélagaþjónustu, að annast tiltekin verkefni. Álitsbeiðandi byggir á því að aðilar húsfélagsins hafi ekki fengið að kjósa fundarstjóra á umræddum fundi. Fyrir liggur að fengin var utanaðkomandi þjónusta til þess að annast fundarstjórn og ritun fundargerðar og samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð var það fyrirkomulag samþykkt á fundinum. Með hliðsjón af þessu telur kærunefnd að gagnaðila hafi verið heimilt að fá húsfélagaþjónustu til að annast fundarstjórn og ritun fundargerðar á umræddum fundi.

Álitsbeiðandi vísar einnig til þess að fundargerðir, sem ritaðar voru á umræddum aðalfundi og húsfundi 13. apríl 2018, séu í engu samræmi við gang mála á fundunum og þær ekki lesnar upp við lok funda. Gegn neitum gagnaðila telur kærunefnd ósannað að fundargerð endurspegli ekki það sem fram fór á téðum fundi eða að fundargerð hafi ekki verið lesin upp.

Í 74. gr. laga um fjöleignarhús segir að stjórn húsfélags skuli semja og leggja fyrir húsfund til samþykktar, sbr. 1. tölul. C-liðar 41. gr., reglur um hagnýtingu sameignar og séreignar að því marki sem lög þessi leyfa.

Álitsbeiðandi telur að húsreglur sem gilda fyrir húsin séu ólögmætar þar sem þær hafi hvorki verið samþykktar á húsfundi né hafi þeim verið þinglýst. Kærunefnd fær ráðið að umræddar húsreglur hafi upphaflega verið settar á árinu 1998, en ekki liggur fyrir hvort þær hafi á þeim tíma verið samþykktar á húsfundi. Reglurnar voru endurskoðaðar af gagnaðila í tvö skipti, þ.e. á árunum 2011 og 2015, og hafa verið gerðar breytingar á þeim, til að mynda á stjórnarfundi 10. ágúst 2015. Ekki verður séð að þær breytingar hafi verið bornar undir húsfund. Kærunefnd telur að séu gerðar breytingar á gildandi húsreglum skuli með réttu greiða atkvæði um þær á húsfundi, sbr. 74. gr. laga um fjöleignarhús.

Álitsbeiðandi fer fram á viðurkenningu á því að eignaskiptayfirlýsing fyrir B-Z, X og Y sé ólögleg. Það fellur utan valdsviðs kærunefndar að endurmeta eignaskiptayfirlýsingar eða gera á þeim breytingar. Aftur á móti bendir nefndin á að samkvæmt 18. gr. laga um fjöleignarhús getur eigandi krafist breytinga og leiðréttinga telji hann að hlutfallstölur séu rangar eða eignarhlutföllin í húsinu séu óeðlileg eða ósanngjörn. Samkvæmt sömu grein getur viðkomandi fengið dómkvadda matsmenn til að endurreikna eða endurákvarða hlutfallstölur í húsinu. Kærunefnd telur að fjalla skuli um þessa kröfu álitsbeiðanda á húsfundi og greiða atkvæði um hana. Að því búnu væri þá eftir atvikum unnt að bera þá kröfu aftur undir kærunefnd eða þá að óska dómkvaðningar matsmanna, sbr. 18. gr. laga um fjöleignarhús.

Álitsbeiðandi fer fram á að viðurkennt verði að gagnaðili hafi ekki gætt fjárhagslegra réttinda húsfélagsins að B-X og Y gagnvart C varðandi fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir á B-Z og að hann hafi ekki rétt til afskipta af málefnum er varða B-Z, án sérstakrar samþykktar eigenda. Kærunefnd telur að ágreiningur þessi tengist kröfu álitsbeiðanda er varðar eignaskiptayfirlýsingu hússins. Með hliðsjón af niðurstöðu kærunefndar þar um telur nefndin ekki tilefni til að fjalla frekar um kröfu þessa sem er jafnframt að mati nefndarinnar nokkuð óljós.

Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Samkvæmt gögnum málsins óskaði álitsbeiðandi eftir því við gagnaðila að skoða tiltekin gögn húsfélagsins. Með bréfi gagnaðila, dags. 17. maí 2018, var fallist á þá beiðni en skilja má efni bréfsins þannig að álitsbeiðandi geti ekki fengið aðgengi að gögnunum fyrr en síðari hluta næstkomandi hausts. Álitsbeiðandi óskar eftir viðurkenningu á því að gagnaðila beri að veita honum tafarlaust aðgengi að umræddum gögnum. Líkt og að framan greinir ber stjórn, með hæfilegum fyrirvara, að veita eigendum umbeðnar upplýsingar. Telur kærunefnd að sá frestur sem gagnaðili gefur sér, án sérstakra skýringa, sé óhæfilegur og honum beri að veita umbeðnar upplýsingar tafarlaust.

Þá óskar álitsbeiðandi viðurkenningar á því að gagnaðila hafi verið óheimilt, án samþykkis húsfundar, að greiða hærri kostnað vegna endurnýjunar á viðvörunarkerfi vegna bruna en lagt hafi verið upp með í upphafi verksins. Ekki liggja fyrir gögn í máli þessu sem sýna fram á að gagnaðili hafi farið gegn ákvæðum laga um fjöleignarhús hvað þetta varðar, en kærunefnd telur þó að almennt beri stjórn húsfélags ekki ábyrgð á tilvikum þar sem verkframkvæmd fer fram úr kostnaðaráætlun. Allt að einu telur kærunefnd að krafa þessi sé ekki nægilega ljós til þess að unnt sé að taka frekari afstöðu til hennar.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að aðalfundur húsfélagsins 30. apríl 2018 sé lögmætur.

Það er álit kærunefndar að gagnaðili skuli bera breytingar á húsreglum undir atkvæðagreiðslu á húsfundi.

Það er álit kærunefndar að greiða skuli atkvæði um tillögu álitsbeiðanda um breytingar á eignaskiptayfirlýsingu hússins á húsfundi.

Það er álit kærunefndar að frestur gagnaðili til að veita álitsbeiðanda aðgengi að gögnum húsfélagsins sé óhæfilega langur og hann skuli fá aðgengi að gögnunum tafarlaust.

Öðrum kröfum álitsbeiðanda er vísað frá.

 

Reykjavík, 3. september 2018

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                                  Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira