Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 112/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 112/2018

Miðvikudaginn 5. september 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. mars 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. desember 2017 þar sem kæranda var synjað um dánarbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu dánarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 11. desember 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. desember 2017, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að kærandi hafi ekki verið búsett hér á landi í nokkur ár og að mati Tryggingastofnunar hafi búseta hennar verið ranglega skráð hér á landi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2018. Með bréfi, dags. 21. mars 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. apríl 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 25. maí 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. maí 2018. Með bréfi, dags. 20. júní 2018, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júní 2018. Með bréfi, dags. 9. júlí 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. júlí 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. ágúst 2018, barst viðbótargreinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. ágúst 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. ágúst 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að kærandi óski eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um greiðslu dánarbóta verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hennar um dánarbætur.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um dánarbætur eftir að eiginmaður hennar lést X. Tryggingastofnun hafi synjað umsókn hennar með þeim rökum að þau hjónin hafi ekki verið búsett á Íslandi í nokkur ár og stofnunin telji því að búseta þeirra hafi verið ranglega skráð á Íslandi. Eiginmaður kæranda hafi greinst með X stigs krabbamein í X og hafi í kjölfarið farið í stóra aðgerð á Landspítalanum og þá hafi tekið við lyfja- og geislameðferðir. Þau hjónin hafi þá verið búin að vera búsett í B um tíma en Þjóðskrá hafi samþykkt strax lögheimilisbreytingu þeirra frá og með X vegna alvarlegra veikinda hans. Eftir aðgerðina hafi þau hjónin svo farið á milli Íslands og B eftir því hvaða meðferð hann hafi þurft að sækja hverju sinni samkvæmt ráðleggingum krabbameinslæknis hans. Að sjálfsögðu hafi allt verið reynt þar sem líf hans hafi verið í húfi og því hafi þau sótt læknisþjónustu í B eftir læknisráði í góðri trú. Hjónin hafi haft aðsetur hjá [...]  í B.

Í athugasemdum kæranda, dags. 25. maí 2018, segir að samkvæmt 9. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili komi fram að sá sem dveljist erlendis við nám eða vegna veikinda geti áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann hafi átt lögheimili er hann fór af landi brott, enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um greiðslu dánarbóta vegna andláts eiginmanns hennar, sem hafi látist í B þann X, þar sem stofnunin hafi talið lögheimili þeirra vera ranglega skráð á Íslandi.

Það rétta sé að þau hjónin hafi verið búin að búa í stuttan tíma á B og hafi lögheimili þeirra verið skráð þar þegar krabbameinið hafi verið greint X. Í ljósi aðstæðna hafi þau hjónin flutt strax aftur til Íslands þar sem tekið hafi við allskyns rannsóknir og stór skurðaðgerð. Fyrst um sinn hafi þau búið hjá [...] í C en svo hafi þau fengið íbúð á vegum D. Seinna hafi þau svo flutt aftur til [...]. Fljótlega hafi tekið við löng og erfið lyfjameðferð þar sem að meinið hafi verið búið að dreifa sér mikið. Skurðlæknir og krabbameinslæknir hafi mælt eindregið með því að eiginmaður kæranda færi í lyfjameðferðina á B ef þess væri einhver kostur þar sem að þeir vissu að þau hefðu búið þar áður en veikindin hafi komið í ljós. Þeir sögðu að framundan væri gríðarlega erfitt verkefni en samt væri von og B væri mjög framarlega í krabbameinslækningum. Einnig hafi þeir sagt að í lyfjameðferð á Íslandi þyrfti eiginmaður kæranda að ferðast reglulega til E til að fara í jáeindaskanna þar sem hann væri ekki til á Íslandi. Þá væri heldur ekki boðið upp á nýjustu krabbameinslyfin hér og aðbúnaðurinn væri alls ekki góður. Þau hjónin hafi því ákveðið að fara frekar í lyfjameðferð á B þótt það væri dýrt. Læknarnir á Íslandi hafi sent allar upplýsingar á spítalann í B og hafi eiginmaður kæranda verið í lyfjameðferð á tveggja vikna fresti í […] ár en þá hafi komið hlé á meðferð. Í lyfjameðferðinni hafi eiginmaður kæranda fengið þær aukaverkanir að hann hafi […] mjög illa eftir hverja meðferð. […]. Þrátt fyrir að þau hjónin hafi farið að ráðleggingum læknanna þá hafi þau sótt alla þá læknaþjónustu á Íslandi sem þau hafi mögulega getað frá X og þar til eiginmaður kæranda lést X, án þess þó að taka neinar óþarfa áhættur varðandi heilsufar hans. Um hafi verið að ræða reglulegt eftirlit hjá heimilislækni, myndatökur, rannsóknir auk innlagna á Landspítalanum, nú síðast í X. Þá hafi þau einnig verið í tölvupóstsamskiptum við lækna á Íslandi.

Vegna lyfjameðferðar eiginmanns kæranda, sem hafi staðið yfir í […] frá X, hafi honum verið sagt að hann mætti ekki fljúga vegna veiks ónæmiskerfis. Þau hjónin hafi því ekki farið aftur heim fyrr en um X en farið svo aftur til B í X þegar ný lyfjameðferð hafi byrjað. Sú meðferð hafi hins vegar ekki gengið vel og […] hafi þau því komið aftur heim þar sem þau hafi svo tekið að sér vinnu hjá F. Ný lyfjameðferð hafi byrjað á B í X sem hafi ekki heldur gengið vel og hafi þau því farið aftur heim til Íslands. Eftir innlögn á Landspítalann þann X hafi komið í ljós að ekki væri hægt að gera neitt meira fyrir eiginmann kæranda og hafi þeim verið ráðlagt að reyna að njóta tímans þar sem að stutt væri eftir. Í X hafi þau flogið út til B í frí og þau hafi átt flug heim til Íslands aftur þann X en þau hafi ekki komist í það flug þar sem hann hafi verið lagður inn á spítala á B […] og ekki náð sér aftur.

Varðandi gögn frá Tryggingastofnun, þ.e. útprentun af Facebook og whitepages.com, þá hafi þau hjónin nauðsynlega þurft að vera með skráð heimilisfang á B vegna læknismeðferðar þar sem alls staðar hafi þau þurft að gefa upp heimilisfang og síma, til dæmis hjá spítalanum, læknum og í apóteki og hafi þau því verið með skráð heimilisfang hjá [...]. Heimildir af Facebook teljist ekki mjög áreiðanlegar þegar komi að upplýsingum, eins og flestir vita.

Varðandi bréf G, þá hafi [...] verið í eigu H ehf. þar til í X 2017 og hafi kærandi tímabundið tekið að sér að aðstoða nýjan eiganda þar sem hann hafi ekki […]. [...] hafi hins vegar lokað í X 2017 í kjölfar ákvörðunar G en eins og fram komi í bréfi G hafi lögheimili kæranda þá verið á Íslandi.

Í athugasemdum kæranda, dags. 9. júlí 2018, er fjallað nánar um um veikindi eiginmanns hennar. Þá segir að þegar þau hjónin hafi komið aftur til Íslands í X hafi þau komist að því að hann hafi verið skráður aftur úr landi þar sem þau hafi ekki svarað bréfi frá ríkisskattstjóra. Eftir að hafa haft samband við lögfræðing Þjóðskrár Íslands og eftir útskýringar á máli þeirra og afhendingu gagna hafi lögheimili þeirra strax verið skráð aftur á Íslandi og beðist velvirðingar á þessum mistökum.

Ekki sé rétt að þau hjónin hafi flutt aftur til B eftir aðgerðina eins og Tryggingastofnun haldi fram, heldur hafi þau verið að reyna eftir fremsta megni að fá sem bestu lækningu til að lengja líf hans um sem mestan tíma og eiga eins langan tíma saman og mögulegt væri.

Undanþága 9. gr. lögheimilislaga um að fá að halda lögheimili sínu hér landi þrátt fyrir búsetu erlendis byggist á því að viðkomandi þurfi að dveljast erlendis vegna veikinda. Meðfylgjandi var vottorð krabbameinslæknis sem hafi annast eiginmann kæranda.

Það sé gríðarlega erfitt andlega að fá fréttir um svona langt gengin og alvarleg veikindi og að missa maka sinn svo í kjölfarið. Þá sé einnig mjög erfitt að fóta sig fjárhagslega eftir svona áfall og því mjög erfitt að þurfa að berjast fyrir því að fá dánarbætur ofan á allt annað.

Í athugasemdum kæranda, dags. 29. ágúst 2018, er vísað til laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Fram kemur að í lögunum segi að Þjóðskrá Íslands hafi eftirlit með framkvæmd laganna og því hljóti skráning þeirrar stofnunar og ákvörðun að gilda. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 80/2018 sé Þjóðskrá Íslands heimilt að leiðrétta augljósar villur sem orðið hafi á skráningu lögheimilis einstaklinga og hafna skráningu tilkynningar um lögheimili sem sé augljóslega röng.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu dánarbóta til kæranda vegna andláts eiginmanns hennar.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða hverjum þeim, sem verði ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, dánarbætur í sex mánuði eftir lát maka. Í 1. gr. laganna segi að bætur laganna greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili.

Í 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segi að lögheimili manns teljist sá staður vera þar sem maður hafi fasta búsetu. Maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Með bréfi, dags. 21. desember 2017, hafi kæranda verið synjað um greiðslu dánarbóta vegna andláts eiginmanns hennar sem hafi látist í B þann X. Tryggingastofnun hafi litið svo á að kærandi og eiginmaður hennar hefðu haft fasta búsetu í B í nokkur ár og lögheimili þeirra hafi því verið ranglega skráð á Íslandi.

Forsaga málsins sé sú að við eftirlit hjá Tryggingastofnun á árinu 2017 hafi vaknað grunur um að kærandi og eiginmaður hennar hefðu verið búsett í B í nokkur ár og væru því ekki rétt skráð í Þjóðskrá. Með bréfi, dags. […] 2017, hafi Tryggingastofnun óskað eftir aðstoð Þjóðskrár til að kanna hvort lögheimili þeirra væri rétt skráð. Með bréfinu hafi fylgt gögn sem hafi sýnt fram á búsetu þeirra í B og einnig hafi verið bent á að kærandi hafi ekki haft framfærslu á Íslandi frá árinu X og eiginmaður kæranda væri einungis með lífeyrisgreiðslur hér á landi. Þá hafi einnig verið bent á að þau væru með skráð lögheimili að I en þar ættu þau ekki fasteign.

Þau gögn sem Tryggingastofnun hafi undir höndum og sýni fasta búsetu þeirra í B séu upplýsingar af vef Facebook, upplýsingar frá whitepages.com þar sem gefið sé upp heimilisfang kæranda og eiginmanns hennar í B og ákvörðun G, dags. X 2017, en þar komi fram að samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé hún búsett í B og fyrirtæki hennar skráð í B.

Vegna andláts eiginmanns kæranda hafi Þjóðskrá hins vegar ákveðið að fella málið á hendur þeim niður, án þess að taka afstöðu til þess hvort föst búseta þeirra væri hér á landi eða í B.

Réttur til greiðslu dánarbóta sé bundinn við það að rétthafi greiðslna sé skráður með lögheimili hér á landi við andlát maka. Einstaklingi ber að hafa lögheimili þar sem hann sé skráður með fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili. Tryggingastofnun hafi þó heimild til að rannsaka og meta hvort lögheimili sé rétt skráð leiki vafi á því að opinber skráning sé rétt, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 5. tölul. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Tryggingastofnun hafi undir höndum gögn sem sýni að kærandi og eiginmaður hennar hafi haft fasta búsetu í B síðustu ár og [...] sem skráð sé þar í landi. Tryggingastofnun líti því svo á að lögheimili kæranda hafi verið ranglega skráð á Íslandi við andlát maka hennar. Hún hafi haft fasta búsetu í B síðastliðin ár og því hafi lögheimili hennar átt að vera skráð í B en ekki á Íslandi. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslu dánarbóta.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júní 2018, segir að í athugasemdum kæranda komi fram að vegna veikinda eiginmanns hennar hafi þau flutt aftur til Íslands árið X frá B svo að hann gæti farið í rannsóknir og aðgerð vegna krabbameins hér á landi. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að eiginmaður hennar færi í lyfjameðferð úti í B, því að þar hafi þau verið búsett fyrir veikindi hans, og hafi læknarnir mælt með því. Meðfylgjandi athugasemdum kæranda hafi verið meðal annars tölvupóstsamskipti við Þjóðskrá varðandi lögheimilisskráningu þeirra hér á landi.

Í athugasemdunum var áréttaður lagagrundvöllur fyrir rétti til greiðslu dánarbóta og vísað í úrskurð nr. 225/2016. Vísað var til þess að í 9. gr. laga um lögheimili segi að sá sem dveljist erlendis við nám eða vegna veikinda geti áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann hafi átt lögheimili er hann fór af landi brott, enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi og eiginmaður hennar verið skráð úr landi frá og með X en sú skráning hafi verið framkvæmd þann X. Þann X hafi þau verið skráð aftur til landsins með gildistöku frá X. Í X hafi þau verið aftur skráð úr landi, til B, með gildistöku frá og með X en í X hafi þau verið skráð aftur til landsins með sömu gildistöku og flutningurinn úr landi eða frá X.

Samkvæmt þeim tölvupóstsamskiptum sem kærandi hafi lagt fram hafi lögheimili kæranda og eiginmanns hennar verið flutt til Íslands á árinu X vegna veikinda eiginmanns hennar. Í X hafi lögheimili kæranda verið flutt úr landi í kjölfar ábendinga frá Ríkisskattsstjóra þar sem engin svör hafi borist frá kæranda, sbr. tölvupóst X. Í kjölfarið af þeim pósti hafi eiginmaður kæranda sent læknabréf til Þjóðskrár, sbr. tölvupóst X, og hafi þá lögheimili þeirra verið flutt aftur til landsins.

Með athugasemdum kæranda hafi fylgt læknabréf, dags. X. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé það læknabréfið sem hafi borist í X og hafi verið ástæða þess að kærandi og eiginmaður hennar hafi fengið skráð lögheimili sitt aftur á Íslandi.

Eins og gögn málsins beri með sér og kærandi hafi viðurkennt í athugasemdum sínum hafi hún og eiginmaður hennar verið búsett í B fyrir og eftir aðgerð hans á Íslandi X. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi læknar ráðlagt þeim að fara í lyfjameðferð í B og því hafi þau flutt aftur þangað eftir aðgerð en telja sig hafa haft heimild til að halda lögheimili sínu hér á landi. Engin læknisfræðileg gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að búseta þeirra í B hafi verið vegna nauðsynlegrar lyfjameðferðar eiginmanns kæranda þar í landi.

Undanþága 9. gr. laga um lögheimili um að fá að halda lögheimili sínu hér á landi þrátt fyrir búsetu erlendis byggist á því að viðkomandi þurfi að dveljast erlendis vegna veikinda. Engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að það hafi verið nauðsynlegt fyrir kæranda og eiginmann hennar. Læknabréfið frá árinu X, sem skilað hafi verið inn til Þjóðskrár árið X, staðfesti einungis veikindi eiginmanns kæranda en engar upplýsingar séu um meðferð hans erlendis og nauðsyn þess þar í landi.

Tryggingastofnun líti svo á að öll gögn málsins beri með sér að kærandi og eiginmaður hennar hafi verið með fasta búsetu í B síðustu ár og hafi ekki sýnt fram á nauðsyn þess að hafa lögheimili hér á landi samkvæmt 9. gr. laga um lögheimili. Tryggingastofnun líti því svo á að lögheimili kæranda hafi verið ranglega skráð á Íslandi við andlát maka hennar. Hún hafi haft fasta búsetu í B síðastliðin ár og því hafi lögheimili hennar átt að vera skráð í B en ekki á Íslandi. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslu dánarbóta. Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar stofnunarinnar og gagna í málinu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. ágúst 2018, komi fram að stofnuninni hafi borist ýmis viðbótargögn og þar á meðal læknisvottorð, dags. 6. júlí 2018, frá J. þar sem komi fram að hann hafi annast eiginmann kæranda fram að andláti hans í X 2017 og að hann hafi ekki getað flogið eða yfirgefið B á meðan meðferð hafi staðið.

Eins og komið hafi fram í fyrri greinargerðum Tryggingastofnunar þá byggist undanþága 9. gr. laga um lögheimili um að fá að halda lögheimili sínu hér á landi þrátt fyrir búsetu erlendis á því að viðkomandi þurfi að dveljast erlendis vegna veikinda. Ofangreint læknisvottorð staðfesti ekki að búseta kæranda og eiginmanns hennar í B hafi verið vegna nauðsynlegrar lyfjameðferðar hans þar í landi.

Tryggingastofnun ítreki því að öll gögn málsins beri með sér að kærandi og eiginmaður hennar hafi verið með fasta búsetu í B síðustu ár og hafi ekki sýnt fram á nauðsyn þess að hafa lögheimili hér á landi samkvæmt 9. gr. lögheimilislaga. Lögheimili kæranda hafi verið ranglega skráð á Íslandi við andlát maka hennar. Hún hafi verið með fasta búsetu í B síðastliðin ár og hafi því lögheimili hennar átt að vera skráð í B en ekki á Íslandi. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslu dánarbóta.

Að öðru leyti vísar Tryggingastofnun til fyrri greinargerða sinna og gagna í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um dánarbætur, dags. 21. desember 2017.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um dánarbætur en þar segir:

„Heimilt er að greiða hverjum þeim, sem verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, bætur í sex mánuði eftir lát maka, 27.429 kr. á mánuði.“

Í 1. mgr. 1. gr. framangreindra laga kemur fram að dánarbætur séu bætur félagslegrar aðstoðar og í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að slíkar bætur séu eingöngu greiddar þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar séu með stoð í þeim.

Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 er lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 9. gr. sömu laga er kveðið á um undantekningu frá framangreindu ákvæði en þar segir:

„Sá sem dvelst erlendis við nám eða vegna veikinda getur áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis. 

Íslenskur ríkisborgari, sem gegnir störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði, svo og íslenskur ríkisborgari sem er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að, á lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott. 

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um skyldulið þeirra manna sem þar um ræðir og dvelst með þeim erlendis.“

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að búseta sé skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. sömu laga að Tryggingastofnun ákvarði hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt almannatryggingalögum.

Tryggingastofnun synjaði kæranda um dánarbætur á þeim grundvelli að kærandi og eiginmaður hennar hefðu ekki verið búsett á Íslandi í nokkur ár og því telji stofnunin að búseta hennar sé ranglega skráð á Íslandi. Tryggingastofnun byggir einnig á því að undanþága 9. gr. laga um lögheimili eigi ekki við í tilviki kæranda þar sem engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að nauðsynlegt hafi verið fyrir kæranda og eiginmann hennar að dveljast erlendis vegna veikinda. Í athugasemdum kæranda er greint frá því að þau hjónin hafi flutt til Íslands þegar eiginmaður hennar hafi verið greindur með krabbamein árið X. Fram kemur að eiginmaður kæranda hafi farið í ýmis konar rannsóknir og skurðaðgerð á Íslandi og þau hafi búið á landinu í X á meðan hann hafi verið að jafna sig eftir aðgerðina. Þá segir að læknar eiginmanns kæranda hefðu mælt með því að hann færi í lyfjameðferð í B í framhaldinu. Fram kemur að lyfjameðferðin hafi byrjað í B í X og greint er frá því að þau hjónin hafi sökum þess dvalið mikið í B. 

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá voru kærandi og eiginmaður hennar skráð úr landi frá og með X en sú skráning var framkvæmd X. Þann X voru þau skráð aftur til landsins með gildistöku frá X. Þann X voru þau aftur skráð úr landi, til B, með gildistöku frá og með X. Þann X voru þau skráð aftur til landsins með gildistöku frá X. Kærandi hefur verið skráð með lögheimili á Íslandi frá þeim tíma.

Óumdeilt er að kærandi og eiginmaður hennar bjuggu í B fram til ársins X. Eins og áður hefur komið fram byggir kærandi á því að þau hjónin hafi búið á Íslandi eftir greiningu krabbameinsins og eiginmaður kæranda verið í læknismeðferð á landinu þar til lyfjameðferð hófst í B í X. Fyrir liggur að lögheimili þeirra hjóna var skráð á Íslandi frá X til X. Einnig liggur fyrir læknabréf K og L, dags. X, þar sem fram kemur að eiginmaður kæranda hafi verið tekinn til aðgerðar X þar sem fjarlægður hafi verið hluti af [...]. Að mati úrskurðarnefndar eru þau gögn sem Tryggingastofnum hefur lagt fram ekki nægjanleg til að sýna fram á að skráning á lögheimili kæranda í Þjóðskrá á tímabilinu frá X til X hafi verið röng. Það er því mat úrskurðarnefndar að lögheimili kæranda hafi verið á Íslandi á framangreindu tímabili. Kemur þá til skoðunar hvort lögheimili kæranda hafi með réttu verið á Íslandi eftir það.

Af gögnum málsins má ráða að Þjóðskrá féllst þann X á að hafa lögheimili þeirra hjóna einnig skráð á Íslandi frá X vegna veikinda eiginmanns kæranda, sbr. 9. gr. laga um lögheimili. Í fyrrgreindu læknabréfi K og L, dags. X, segir meðal annars svo:

„M er X ára maður með nýgreindan tumor [...]. Á stigunarrannsóknum sjást [...]. Búið að taka fyrir á samráðsfundi með krabbameinslæknum og þar ákveðið að gera [...] og lyfjameðferð og aðgerð vegna meinvarpa í framhaldinu.“

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé framangreint læknabréf ástæða þess að kærandi og eiginmaður hennar hafi fengið skráð lögheimili aftur á Íslandi. Þá liggur fyrir bréf frá H lækni hjá N, dags. 6. júlí 2018, þar sem fram kemur að eiginmaður kæranda hafi ekki verið fær um að fljúga eða fara frá B á meðan á meðferð hans stóð. Þá segir að eiginmaður kæranda hafi verið greindur í X og verið í umsjá viðkomandi læknis til X 2017.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili getur sá sem dvelst erlendis vegna veikinda áfram átt lögheimili á Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það sama á við um skyldulið viðkomandi, sbr. 3. gr. 9. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar verður ráðið af gögnum málsins að kærandi og eiginmaður hennar hafi að miklu leyti dvalið í B vegna lyfjameðferðar eiginmanns hennar á árunum X til X. Hvorki í 9. gr. laganna né í lögskýringargögnum með ákvæðinu er gerð krafa um að dvölin erlendis verði að vera nauðsynleg vegna veikinda til þess að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Ef litið er til afgreiðslu Þjóðskrár í máli þessu virðist stofnunin ekki heldur gera þá kröfu, enda voru engar upplýsingar um slíka nauðsyn í læknabréfinu frá X. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar hvort einstaklingur sé tryggður hér á landi samkvæmt lögunum þá er stofnunin bundin af lögum um lögheimili við mat á búsetu, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af orðalagi 9. gr. laga um lögheimili og afgreiðslu Þjóðskrár í máli þessu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á þá túlkun Tryggingastofnunar ríkisins að undanþága 9. gr. laganna eigi einungis við ef dvöl erlendis vegna veikinda sé nauðsynleg. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði 9. gr. laga um lögheimili hafi verið uppfyllt í tilviki kæranda frá árinu X þangað til eiginmaður hennar lést X 2017. Þar sem lögheimili kæranda var á Íslandi við andlát maka hennar telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu dánarbóta.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. desember 2017 um að synja kæranda um dánarbætur felld úr gildi. Fallist er á að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu dánarbóta.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. desember 2017 um að synja A, um dánarbætur er felld úr gildi. Fallist er á að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu dánarbóta.   

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum