Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 43/2016

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 43/2016

Skaðabótaábyrgð eiganda. Greiðsla sjálfsábyrgðar húseigendatryggingar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. október 2016, beindi húsfélagsdeild A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 24. október 2016, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. febrúar 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er húsfélag og gagnaðili eigandi einnar íbúðar í fasteigninni. Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda andvirði sjálfsábyrgðar sem tryggingarfélag krafði álitsbeiðanda um vegna vatnstjóns í íbúð gagnaðila.

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda 89.075 kr. vegna sjálfsábyrgðar sem álitsbeiðandi greiddi vegna vatnstjóns í íbúð gagnaðila.

Í álitsbeiðni kemur fram að sumarið 2016 hafi gjaldkeri álitsbeiðanda fengið tikynningu frá tryggingafélagi. um að tjón hefði orðið í íbúð gagnaðila sem hann hafi krafist að tryggingafélagið myndi bæta á grundvelli sameiginlegrar húseigendatryggingar álitsbeiðanda. Hinn 24. júní 2016 hafi álitsbeiðanda borist krafa að fjárhæð 89.075 kr. vegna sjálfsábyrgðar tjónsins. Krafan hafi verið greidd en í kjölfarið hafi gjaldkeri farið að grennslast fyrir um tildrög tjónsins. Hinn 22. september hafi verið haldinn húsfundur þar sem rætt hafi verið hvort álitsbeiðandi ætti að greiða téða sjálfsábyrgð. Einn fundarmanna af fjórum hafi sagst hafa orðið vitni að því að bilun hafi komið upp í blöndunartækjum inni á baði í viðkomandi íbúð sem hafi orsakað tjónið og það hafi verið lagfært með nýjum blöndunartækjum. Að því sögðu hafi flestir fundarmenn talið ljóst að tjónið væri tilkomið vegna búnaðar sem gagnaðili hafi sjálfur borið ábyrgð á. Tjónið væri þannig ekki tilkomið vegna leka í lögnum í vegg eða þess háttar og gagnaðila bæri því sjálfum að greiða sjálfsábyrgðina

Skýrt komi fram í 5. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, að blöndunartæki á baði teljist til séreignar og gagnaðila beri því að greiða tjón sem hlýst af bilun í slíkum búnaði. Ekki skipti máli þótt tryggingafélagið hafi bætt tjónið enda bæti húseigendatrygging bæði vatnsslys sem verða í séreign og sameign. Af 50. gr. fjöleignarhúaslaga leiðir að eigandi eigi að sjá um allt viðhald á séreign sinni. Þá sé eigandi skaðabótaskyldur gagnvart öðrum eigendum vegna fjártjóns sem verði á eigum þeirra og stafi af vanrækslu á viðhaldi séreignar. Gagnaðili sé því bótaábyrgur gagnvart öðrum eigendum vegna þess fjártjóns sem þeir verði fyrir við að greiða hina umdeildu sjálfsábyrgð. Þá hafi gagnaðili ekki haft umboð álitsbeiðanda til að stofna til kröfunnar með tjónstilkynningu til tryggingafélagsins.

Í greinargerð gagnaðila segir að álitsbeiðandi sé vátryggingartaki umræddarar húseigendatryggingar, en ekki einstakir íbúðareigendur. Tryggingin sé til hagsbóta fyrir eigendur íbúða í fasteigninni en ekki fyrir húsfélagið sem slíkt enda eigi það engin sjálfstæð eignarréttindi til þess að tryggja. Samningurinn hafi því öll einkenni hópvátryggingar, sbr. einkum 54. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Sjálfsábyrgð sé óaðskiljanlegur hluti vátryggingarsamnings með sama hætti og vátryggingarfjárhæð, iðgjöld og vátryggingarbætur. Tryggingafélagið hafi með greiðslu bóta viðurkennt að tjónsatburðurinn falli undir gildissvið vátryggingarinnar. Álitsbeiðandi hafi þegar greitt hlutdeild sína í vátryggingunni í gegnum hússjóðsgjöld og með sama hætti muni íbúðin greiða hlutdeild sína í sjálfsábyrgð vegna tjónsins. Í vátryggingarskírteini sé hvergi að finna fyrirvara um að annar en vátryggingartaki, þ.e. álitsbeiðandi, beri eigin áhættu vegna töku vátryggingarinnar. Ekki sé unnt að gera þá kröfu að samþykki húsfélags sé fengið fyrir tjóni áður en það sé tilkynnt til tryggingarfélags enda hvíli ótvíræð skylda á vátryggðum að hindra vátryggingaratburð og tilkynna um hann. Þá telji gagnaðili gagnrýnivert af hálfu álitsbeiðanda að hafa athugasemdalaust greitt sjálfsábyrgðina í stað þess að krefjast útskýringa á háum viðgerðarkostnaði.

III. Forsendur

Aðila greinir á um hvort gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda sjálfsábyrgð þá sem hann greiddi tryggingafélagsins vegna vatnstjóns sem varð í íbúð gagnaðila.

Ágreiningslaust virðist að vatnstjón í íbúð gagnaðila megi rekja til bilunar í blöndunartækjum. Tjónið fellur undir húseigendatryggingu álitsbeiðanda hjá tryggingafélaginu og því var rétt að beina kröfu um greiðslu sjálfsábyrgðar til álitsbeiðanda sem vátryggingartaka.

Ákvæði 51. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, kveður á um að eigandi séreignar sé meðal annars ábyrgur gagnvart öðrum eigendum hússins vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra og stafar af bilun á búnaði séreignar og lögnum þótt eiganda verði ekki um það kennt. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins nær bótaábyrgðin einnig til afleidds tjóns. Í 52. gr. er fjallað um skaðabótaábyrgð húsfélags. Ákvæði 53. gr. laganna kveður á um að eigendur og húsfélag skulu jafnan, eftir því sem kostur er, kaupa vátryggingu til að mæta ábyrgð og áhættu skv. 51. og 52. gr. laganna. Samþykki húsfundur með einföldum meirihluta greiddra atkvæða miðað við hlutfallstölur þarf til að ákveða kaup á slíkri vátryggingu fyrir allt fjöleignarhúsið, þ.e. fyrir alla séreignarhluta og sameign. Ekki er kveðið á um í lögunum hvernig fara skuli með greiðslu sjálfsábyrgðar slíkrar tryggingar.

Þar sem eigandi ber ábyrgð á tjóni sem verður vegna bilunar á búnaði í séreign, svo sem blöndunartækjum, gagnvart öðrum eigendum fasteignar, bæði beinu tjóni og afleiddu, telur kærunefnd að gagnaðila beri að bæta íbúðareigendum öðrum það fjártjón sem þeir urðu fyrir við það að á álitsbeiðanda féll krafa um sjálfsábyrgð, að fjárhæð 89.075 kr.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda 89.075 kr. vegna

sjálfsábyrgðar sem álitsbeiðandi greiddi vegna vatnstjóns í íbúð gagnaðila.

Reykjavík, 15. febrúar 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum