Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 10. september 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A og B gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við sonardóttur þeirra, C, nr. 8/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kærenda, A, og B, við sonardóttur þeirra, C. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2014 um umgengni kærenda við C. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við föðurforeldra sína, B, og A, tvisvar á ári. Staðsetning, tímasetning og tímalengd verði ákveðin í samráði við fósturforeldra.

Símatímar föðurforeldra verði síðasta miðvikudag í mánuði milli kl. 17 – 19 eins og verið hefur.

Af hálfu kærenda hefur ekki komið fram ákveðin krafa í málinu en skilja verður kæruna og greinargerð þeirra frá 23. júní 2014 þannig að þau krefjist rýmri umgengni við C en ákveðin var með hinum kærða úrskurði. Fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur kröfðust kærendur þess að fá meiri og reglulegri umgengni við C, bæði í formi heimsókna og símtala.

Í greinargerð talsmanns C, D, 27. apríl 2014 kemur fram að stúlkuna langi að hitta kærendur, föðurafa sinn og -ömmu, oftar og gista hjá þeim. Hún vilji fara til þeirra eina helgi í mánuði og auk þess vilji hún geta hringt í fjölskyldu sína þegar hana langi til og að þau geti hringt í hana.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra C, þeirra E og F, til krafna kærenda varðandi umgengni þeirra við stúlkuna. Í greinargerð þeirra 25. ágúst 2014 kemur fram að þau sjái sér ekki fært að skapa C öruggt, heiðarlegt og heilbrigt uppeldi eigi hún að vera í sambandi við föðurfólkið sitt. Þau lýsa því hvernig umgengni við kærendur og annað föðurfólk stúlkunnar hafi valdið vandræðum sem ekki séu boðleg neinu heimili. Krafa fósturforeldranna er því sú að til þess að geta skapað C ró og heiðarlegt uppeldi verði allri umgengni og símatímum slitið við föður og föðurfólkið.

II. Málavextir

C er 12 ára gömul stúlka sem lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hennar afsalaði sér forsjá hennar í maí 2008 en báðir foreldrar hennar áttu við vímuefnavanda að etja. Stúlkan fór í tímabundið fóstur frá júní 2007 til júní 2008 á meðan móðir hennar ætlaði að taka á vímuefnavanda sínum og bæta aðstæður sínar. Það gekk ekki eftir og fór C í varanlegt fóstur til móðurömmu sinnar og eiginmanns hennar, sem nú eru búsett í G, árið 2008. Fósturrof varð í júlí 2010 og fór stúlkan þá á Vistheimili barna. Í september 2010 fór hún í fóstur á heimili í H sem ætlað var að standa til 18 ára aldurs. Sú fósturráðstöfun gekk ekki sem skyldi og varð fósturrof í janúar 2014 og fór C þá á ný í umsjá móðurömmu og stjúpafa í G. Hún er nú í varanlegu fóstri hjá þeim. Fram kemur að C sé fyrirmyndarnámsmaður og nemandi. Hún sé mikið í íþróttum og leggi stund á handbolta og körfubolta og stundi hestamennsku með fósturforeldrum sínum.

Umgengni C við foreldra hennar hefur verið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 18. september 2012 fjórum sinnum á ári við hvort þeirra í þrjár klukkustundir í senn. Hefur umgengnin við móður verið undir eftirliti. Einnig er eftirlit við upphaf og lok umgengni við föður en umgengni við hann fer fram að undangengnum vímuefnaprófum. Símatímar eru síðasta miðvikudag í mánuði. Fram kemur að foreldrar stúlkunnar hringja nær alltaf í hana þegar símatímar eru.

Eftir að C fór í fóstur til H höfðu bæði móður- og föðurfjölskyldur hennar nokkra umgengni og önnur samskipti við hana auk þeirrar umgengni sem foreldrar hennar hafa haft við hana eins og fram hefur komið. Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. júní 2013 var ákveðið að kærendur hefðu umgengni við stúlkuna tvisvar sinnum á ári. Var ákveðið að staðsetning, tímasetning og tímalengd yrði í samráði við þáverandi fósturforeldra stúlkunnar í H. Símatímar yrðu mánaðarlega eins og verið hafði.

Kærendur höfðu umgengni við C í H haustið 2013. Kærendur komu ásamt fjölskyldu sinni til H og gistu á hóteli. Stúlkan dvaldi með þeim í tvo daga og gisti hjá þeim í eina nótt. Fram kemur að þessi umgengni hafi gengið vel og hafi stúlkan verið ánægð með hana. Þá hafi kærendur hringt í stúlkuna á símatímum en auk þeirra hringi föðursystir hennar, J, einnig í hana. Auk framangreindrar umgengni í H hafi C hitt kærendur, föður sinn og fjölskyldu hans í fermingarveislu í lok mars 2014.

 

III. Afstaða kærenda

Fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur kröfðust kærendur þess að fá meiri og reglulegri umgengni við C, bæði í formi heimsókna og símtala. Í tölvupósti kærenda til barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. apríl 2014 kemur fram að þau telji að C sé fullfær um að gista hjá þeim og þau vilji að hún geri það einu sinni í mánuði og í lengri tíma á sumrin. Þau verði í fríi allt sumarið og muni til dæmis fara á K þar sem þau eigi hjólhýsi og vilji geta boðið C þangað án þess að þurfa að biðja um leyfi. Þá sé ættarmót hjá þeim í júlí og langi þau að stúlkan komi með þeim á það. Kærendur vilja einnig fá að hringja í hana óháð sérstökum fyrirfram ákveðnum símatímum einu sinni í mánuði. Eins vilji þau að það sé farið meira eftir óskum hennar sjálfrar í sambandi við föðurfólk sitt.

Kærendur gera ekki beinar kröfur fyrir kærunefnd barnaverndarmála en benda í greinargerð sinni og J, föðursystur stúlkunnar, 23. júní 2014, á að í gögnum málsins komi fram allmargar rangfærslur sem einkum megi rekja til fósturforeldra stúlkunnar en einnig til þess sem fram komi af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur og starfsmanna nefndarinnar.

Kærendur benda á skýrslu talsmanns stúlkunnar, D félagsráðgjafa frá 27. apríl 2014, þar sem fram komi hvað stúlkan vilji í sambandi við umgengni við föðurforeldra sína og J, föðursystur sína. Kærendur benda einnig á skýrslu fyrri talsmanns stúlkunnar, L, 21. maí 2013 varðandi afstöðu stúlkunnar til umgengni við föðurfólk sitt.

 

IV.  Afstaða C

Í skýrslu talsmanns C, D félagsráðgjafa, 27. apríl 2014 segir að rætt hafi verið við stúlkuna á fósturheimili hennar í G þann dag. Rætt hafi verið um líðan hennar og umgengni við föðurforeldra hennar. Fram hafi komið að C líði mjög vel í G, en hana langi til þess að hitta föðurforeldra sína og J, frænku sína, oftar. Stúlkan tali um að hún vilji fara eina helgi í mánuði til þeirra og gista hjá þeim. Þá vilji hún geta hringt í föðurforeldra sína og J þegar hana langi til og að þau geti einnig hringt í hana. Enn fremur hafi hún að fyrra bragði talað um að vilja hitta móður sína og föður oftar en hún geri nú.

 

V.  Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndar barnaverndarmála 20. júní 2014 kemur fram að samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem því eru nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark á því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

C sé vistuð í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan telpunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 13. maí 2014 að mikilvægt sé að skapa C stöðugleika og öryggi. Hafi það verið mat barnaverndarnefndarinnar að slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

 

VI.  Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra C kemur fram að eftir síðustu umgengni sem stúlkan hafi átt við föður sinn hafi þau fundið að eitthvað væri að hjá henni. Þau hafi spurt hana hvað það væri og loks hafi hún brostið í grát og sagt að faðir hennar og J föðursystir hennar hefðu sagt sér að hún ætti að vera hörð og ákveðin en þá gæti hún flutt til M, fyrst til J og síðan til föður síns. Umgengni við kærendur hafi síðan gengið þannig fyrir sig að faðir hennar hafi verið með henni alla helgina þrátt fyrir að þá hafi verið umgengnistími kærenda. Eftir þessa umgengni hafi stúlkan haft eitthvað mikið að fela og henni hafi verið mikið niðri fyrir. C hafi síðar sagt frá því sem gerðist í bréfi til móður sinnar. Stúlkan hafi einnig hitt móður sína eftir jarðarför N afa hennar og hafi hún sagt móður sinni sögurnar sem pabbi hennar hefði sagt henni um fósturforeldrana og móðurina. Fósturforeldrar stúlkunnar telja að faðir hennar virtist nálgast hana með því að sverta fósturforeldrana og rýra traust stúlkunnar til þeirra. Föðurfjölskyldan og faðir stúlkunnar virtust ekki skilja nein mörk. Fósturfaðirinn hafi hringt í kæranda Aog beðið hann að tala við föðurinn vegna klámmynda sem hann hefði sent stúlkunni en hann hefði sagt að honum kæmi ekkert við hvað sonur hans gerði. Sjálfur ætlaði kærandi A sér ekki að hætta fyrr en hann hefði fullan og óheftan aðgang að C. Kærandi A hefði mætt í jarðarför móðurafa stúlkunnar þrátt fyrir að móðir hennar hefði tjáð föður stúlkunnar að þeir feðgar væru ekki velkomnir þangað. Þar hefði hann brugðið sig á tal við stúlkuna. Daginn eftir hafi hún sagt að N afi hefði örugglega ekki viljað að afi A mætti í jarðarförina. Hún hafi einnig spurt hvort afi A vildi gera þeim eitthvað. Upplifun hennar komi þannig fram að hún sé hrædd eftir jarðarförina og segðist sjá eftir því að hafa trúað og treyst föðurfólkinu. Henni finnist staðan í dag óþægileg og segi hún að hún vilji hvergi annars staðar vera en hjá fósturforeldrunum. Henni sé mikið létt eftir að hafa getað losað sig við þessa byrði sem hafi verið lögð á hana. Þó viti fósturforeldrarnir að hún vilji helst af öllu vera hjá móður sinni. En það hafi hjálpað mikið að móðir hennar hafi sagt henni að það væri hennar ósk að hún væri hjá fósturforeldrunum fyrst hún gæti ekki verið hjá sér.

 

VII. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kærenda um rýmri umgengni við tólf ára gamla sonardóttur sína. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sem eru móðuramma hennar og stjúpafi. Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri á rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Við úrlausn á máli þessu er mikilvægt að skilgreina hagsmuni og þarfir stúlkunnar þannig að unnt verði að meta hvort umgengni hennar við kærendur samræmist þörfum hennar og hvað þjóni hagsmunum hennar best svo og hvort umgengnin sé samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með fóstrinu. Þá þarf einnig að meta hvort umgengni sé til hagsbóta fyrir stúlkuna.

Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum og gengur fóstrið vel. Markmiðið með fósturráðstöfuninni er að stuðla að stöðugleika og öryggi í uppvexti stúlkunnar en hún er nú á viðkvæmum aldri þar sem unglingsárin eru skammt framundan.

Eins og fram kemur í gögnum málsins var stúlkan í tímabundnu fóstri á árunum 2007 til 2008 í eitt ár. Hún fór í fóstur til kærenda í G í maí 2008 þar til í júlí 2010 en þá fór hún á Vistheimili barna. Í september sama ár fór hún á fósturheimili í H sem ætlað var að standa til 18 ára aldurs stúlkunnar. Þar náði hún ekki að aðlagast heimilinu en eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var það mat starfsmanna barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikið áreiti frá kynforeldrum og ættingjum stúlkunnar hafi átt stóran þátt í því að fósturráðstöfunin tókst ekki eins og stefnt hafði verið að. Stúlkan hafi ekki fengið næði, frið og leyfi til að setjast þar að. Ljóst sé að alið hafi verið á væntingum hennar um að hún gæti einhvern tímann flutt aftur til foreldra sinna og hafi stúlkan átt erfitt með að tengjast fósturforeldrunum vegna þess en hún hafi ekki viljað brjóta trúnað við foreldra sína. Stúlkan hafi tilhneigingu til að vera sammála þeim sem henni þyki vænt um, hún vilji alls ekki andmæla eða særa aðra með því að segja meiningu sína og lendi hún því oft í hollustuklemmu. Í janúar 2014 fór stúlkna aftur til núverandi fósturforeldra og er hún þar í varanlegu fóstri.

Kærunefndin telur mikilvægt fyrir þroska og geðheilbrigði stúlkunnar að hún geti verið í friði og ró í fóstrinu og að hún verði fyrir sem minnstum truflunum og utanaðkomandi áreiti, ófriði eða togstreitu hinna fullorðnu sem hér eiga hlut að máli. Að þessu gættu verður að telja ljóst að góð samvinna þarf að ríkja milli fósturforeldranna og kærenda um umgengni stúlkunnar við kærendur.

Ljóst er að illindi og deilur nákominna ættingja geta skaðað börn verulega, sérstaklega þau sem búa við viðkvæmar aðstæður eins og hér er raunin. Eftir því sem umgengni er meiri eykur það hættu á áreiti og togstreitu. Hér á það sérstaklega við þar sem stúlkan hefur umgengni við aðra ættingja, þ.e. móður sína, föður og föðurfjölskyldu. Við þessar aðstæður telur kærunefndin jafnframt mikilvægt að umgengnin sé sem mest í föstum skorðum. Sama gildir um önnur samskipti kærenda við stúlkuna, svo sem símtöl.

 Þegar litið er til þeirrar stöðu sem stúlkan er nú í verður að telja að það muni valda henni erfiðleikum ef hún þarf sjálf að bera ábyrgð á því að ákveða hvernig umgengni og öðrum samskiptunum verði háttað við kærendur. Á því verða hinir fullorðnu að bera ábyrgð. Þótt stúlkan hafi lýst því að hún vilji hafi umgengni við kærendur eina helgi í mánuði og að hún fái að hringja í þau þegar hana langar til þá verður að líta til þess hve slíkt fyrirkomulag er til þess fallið að valda óróa hjá stúlkunni og hættu á vanlíðan leiði samskiptin í tengslum við umgengnina til togstreitu og árekstra. Kærunefndin hefur í fyrri úrskurði litið þannig á að með því að takmarka umgengni ættingja við barn í fóstri og marka henni ákveðinn ramma sé stefnt að því að draga úr togstreitu í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum barnsins eins og skylt sé að gera samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þegar ákvörðun er tekin um umgengni, sbr. úrskurð kærunefndar barnaverndarmála í kærumáli nr. 5/2014.

Til þess að tryggja að friður og ró skapist um umgengnina þarf hún að vera fyrirfram ákveðin, takmörkuð og í föstum skorðum en slíkt fyrirkomulag er tvímælalaust til þess fallið að tryggja hagsmuni stúlkunnar best. Þá verður einnig að leggja hér til grundvallar að miklu máli skiptir að vel takist til þannig að stúlkan geti notið góðs af umgengni við kærendur og aðra ættingja sína og að stöðugleiki hennar í fóstrinu verði sem best tryggður. Fósturforeldrarnir hafa tekið að sér það vandasama hlutverk að annast uppeldi stúlkunnar. Mikilvægt er að stúlkunni líði vel hjá þeim og að hlúð verði að þeim skilyrðum sem eru henni nauðsynleg til að hún geti vaxið, þroskast og dafnað og orðið heilbrigður einstaklingur.

Með tilliti til þessa fellst kærunefndin ekki á að fyrir því séu lagaleg rök að umgengni kærenda við stúlkuna C verði aukin. Ber með vísan til þess að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Í kröfugerð fósturforeldranna kemur fram að þau sjái sér ekki fært að skapa C öruggt, heiðarlegt og heilbrigt uppeldi eigi hún að vera í sambandi við föðurfólkið sitt. Því sé krafa þeirra sú að til að geta skapað C ró og heiðarlegt uppeldi verði allri umgengni og símatímum slitið við föður og föðurfólkið. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd úrskurðað, ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum, að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd getur á sama hátt ákveðið að aðrir sem telja sig nákomna barninu njóti ekki umgengnisréttar ef hún telur að skilyrðum 2. mgr. sé ekki fullnægt, þ.e. að umgengni sé til hagsbóta fyrir barnið.

Kröfugerð þessi hafði ekki komið fram þegar málið var til meðferðar hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og kom hún því ekki til álita þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Krafa fósturforeldranna sætir því að svo komnu máli ekki efnislegri úrlausn kærunefndarinnar. Kærunefndin hefur hins vegar heimild samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, sbr. 4. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2011, til að vísa máli til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju. Með vísan til þess og með tilliti til þeirrar lýsingar sem fram kemur í greinargerð fósturforeldranna 21. ágúst 2014 um vanlíðan stúlkunnar vegna samskipta hennar við föðurfólk hennar nú í sumar verður að telja að málinu verði hvað varðar framangreinda kröfugerð fósturforeldranna réttilega vísað til barnaverndarnefndar Reykja­víkur til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2014 um umgengni B og A við sonardóttur sína, C, er staðfestur. Málinu er jafnframt vísað til barnaverndarnefndar Reykjavíkur til frekari meðferðar að nýju.

  Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira