Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20mennta-%20og%20menningarm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Brottvikning úr skóla

Ár 2009, föstudaginn 20. mars, er kveðinn upp í menntamálaráðuneyti svofelldur

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið.

 

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 25. september sl. erindi frá A, f.h. sonar hans, B, (hér eftir nefndur kærandi), þar sem kvartað var yfir synjun skóla X um skólavist fyrir kæranda á öðru námsári en í því felist brot á jafnræðisreglu miðað við málsmeðferð í máli annars nafngreinds nemanda, C. Þá var í erindinu kvartað yfir stærðfræðikennslu á fyrsta ári við skóla X á vorönn 2008 og þess krafist að ráðuneytið léti kanna hvort óeðlilega hátt hlutfall nemenda hafi ekki staðist námskröfur í áfanganum.

 

Í bréfi ráðuneytisins til skóla X, dags. 3. nóvember sl., þar sem óskað var eftir athugasemdum vegna framangreindrar kvörtunar var tekið fram að ráðuneytið hefði ákveðið að taka erindið til skoðunar en ekki lægi fyrir hvort farið yrði með það sem stjórnvaldskæru á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að fengnum athugasemdum skóla X og umsögn kæranda um þær hefur ráðuneytið ákveðið að fjallað skuli um erindið sem stjórnsýslukæru.

 

Af athugasemdum skóla X verður ráðið að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

Í úrskurði þessum verður einungis fjallað um þau álitaefni í framangreindu erindi kæranda sem fela í sér stjórnvaldsákvörðun af hálfu skóla X. Í samræmi við það verður leyst úr því hvort sú ákvörðun rektors sem fram kemur í tölvubréfi til föður kæranda, dags. 3. september sl., að synja kæranda um skólavist á öðru námsári við skóla X, hafi verið lögmæt. Öðrum þáttum málsins er varða almennt eftirlitshlutverk ráðuneytisins, þ. á m. með framkvæmd kennslu í einstökum námsgreinum, sbr. e- og c- lið 3. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla hefur verið vísað til meðferðar innan ráðuneytisins.

 

Málavextir.

 

Bréf föður kæranda sem er tilefni máls þessa var móttekið í ráðuneytinu 25. september sl. Með bréfi ráðuneytisins til skóla X, dags. 3. nóvember sl., var skólastjórnendum gefinn kostur á að kynna sér og bregðast við erindi kæranda. Athugasemdir rektors skóla X bárust ráðuneytinu 24. nóvember sl.  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 26. nóvember sl., var föður kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir rektors. Umsögn föður kæranda barst ráðuneytinu 29. desember sl.

 

Hin kærða ákvörðun í máli þessu lítur að afgreiðslu umsóknar kæranda um skólavist á öðru námsári við skóla X, skólaárið 2008-2009. Í erindi kæranda var þess jafnframt krafist að ráðuneytið léti fram fara athugun á því hvort óeðlilega hátt hlutfall nemenda á fyrsta ári í stærðfræði við skóla X hefði fallið á prófi í samanburði við aðra framhaldsskóla, skipt niður eftir kennurum og bekkjum. Í athugasemdum frá kæranda sem bárust ráðuneytinu 29. desember sl. er ennfremur óskað eftir upplýsingum um fjölda nemenda við skóla X sem hefðu fallið í stærðfræði á fyrsta námsári, hversu margir af þeim hefðu þreytt endurtekningarpróf og hversu margir hefðu hafið nám að nýju á fyrsta námsári. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um kostnað af hverjum nemanda, samanborið við nemendur þriggja annarra framhaldsskóla og fjölda nýbúa sem hefðu hætt námi í framhaldsskólum á síðastliðnum þremur árum.

 

Varðandi síðarnefnda atriðið skal tekið fram ráðuneytið metur það svo að krafa um athugun á kennsluaðferðum og námsmati í stærðfræði feli í sér kvörtun yfir tilteknum starfsháttum skóla X en teljist ekki vera stjórnsýslukæra í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, þar eð kvörtunin beindist ekki að tilgreindri ákvörðun sem kæranleg er til ráðuneytisins. Með slíkt mál verður eingöngu farið á grundvelli almennrar heimildar ráðuneytisins til eftirlits skv. 2. mgr. 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, sbr. reglugerð um eftirlit með starfi framhaldsskóla og námsefni og um ráðgjöf vegna kennslu og þróunarstarfa nr. 139/1997, sbr. reglugerð nr. 141/1997. Slíkt eftirlit tekur þó ekki til afgreiðslu á einstökum málum heldur fer það fram á grundvelli ytri rýni á sjálfsmatsaðferðir framhaldsskóla, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Ef slík rýni leiðir í ljós einhverja þá meinbugi á skólastarfi sem eru andstæðir lögum um framhaldsskóla, reglugerðum settum skv. þeim eða aðalnámskrá framhaldsskóla, getur til þess komið að menntamálaráðuneytið sendi viðkomandi skóla athugasemdir og veiti frest til að bæta úr, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

 

Kærandi í máli þessu var nemandi á fyrsta námsári við skóla X, skólaárið 2007-2008. Hann stóðst ekki prófraun í dönsku (DAN102) og stærðfræði (STÆ202) og þreytti endurtökupróf þar sem hann náði lágmarkseinkunn í dönsku en ekki stærðfræði. Þar með voru tæmdir möguleikar hans til endurtekningar prófa í téðum áföngum. Frá upphafi skólaárs 2008-2009 hugðist kærandi stunda nám við skóla Y en eftir skammvinna skólasókn við þann skóla ákvað kærandi að námið hentaði honum ekki. Þegar það lá fyrir leitaði faðir kæranda eftir því í tölvubréfi til rektors skóla X, dags. 2. september sl., að kærandi fengi að hefja nám á öðru námsári við skólann með þeirri tilhliðrun að hann fengi að taka hinn ólokna stærðfræðiáfanga aukalega með öðrum námsgreinum á öðru námsári. Í svari rektors í tölvubréfi, dags. 3. september sl., sagði að ekki kæmi til greina að kærandi byrjaði annað námsárið með ólokinn stærðfræðiáfanga (STÆ202) frá fyrsta ári og bauð að kærandi gæti hafið aftur nám á fyrsta námsári.

 

Málsástæður.

 

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

 

Ekki er tekið fram í erindi kæranda hvort þess sé krafist að sú ákvörðun skóla X, að synja honum um skólavist á öðru námsári námsárið 2008-2009, verði felld úr gildi eða að henni verði breytt, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þeirri grein er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Æðra sett stjórnvald getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvörðun lægra setts stjórnvalds. Viðbrögð æðra setta stjórnvaldsins ráðast af mati á hinni kærðu ákvörðun og séu annmarkar fyrir hendi er það æðra setta stjórnvaldsins að meta og ákveða hvaða afleiðingar þeir skuli hafa. Verður lagt mat á framangreint í úrskurði þessum.

 

Málsástæður kæranda.

Faðir kæranda gerir alvarlega athugasemd við þá ákvörðun skólastjórnenda skóla X að synja kæranda um að hefja að nýju nám við skólann á öðru námsári. Faðir kæranda telur að syni hans hafi verið mismunað þannig að tilgreindur skólafélagi, C, hafi fengið sérútbúið próf í stærðfræði til að komast á annað námsár eftir fall á vörönn 2008 og sumarskóla. Kæranda hafi hins vegar verið synjað um slíkt úrræði. Faðir kæranda fer fram á að athugað verði hvort hin kærða ákvörðun brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem og 76. gr. hennar um jafnan rétt til almennrar menntunar.

 

Málsástæður skóla X.

Af hálfu skóla X er til þess vísað að samkvæmt reglum um námsframvindu þurfi nemandi að ljúka lágmarksfjölda eininga á önn til þess að halda áfram námi og að auki þurfi hann að standast þá áfanga sem séu undanfarar greina í námsskipulagi næsta árs til þess að færast á milli námsára. Nemendur á fyrsta ári séu að flestu leyti í sömu námsgreinum en geti þó valið milli þýsku og frönsku, auk þess sem brautarval ráði því hvaða stærðfræðiáfanga þeir taki. Nemendur á náttúrufræðibraut þurfi að ljúka áfanganum STÆ103 og STÆ203 á fyrsta námsári, aðrir nemendur taki áfangana STÆ102 og STÆ103, auk áfanga í tungumálum og fleiri greinum. Munur sé á efni áfanganna að því leyti að í STÆ103 sé farið yfir meira námsefni og kafað dýpra en í STÆ102 og farið yfir a.m.k. helming þess efnis sem er í STÆ202. Kærandi hafi fallið á endurtökuprófi í STÆ202 og jafnframt tekið próf í sama áfanga í fjarnámi á sumarönn hjá skóla Z en ekki staðist prófið. Kærandi hafi tryggt sér skólavist í öðrum skóla í byrjun haustannar 2008 en leitaði engu að síður eftir skólavist við skóla X í september sl. eftir að innritunartímabili var lokið. Skóli X hafi þá veitt kæranda vilyrði fyrir að endurtaka fyrsta námsárið en engin augljós rök hafi legið til þess að hann fengi undanþágu frá reglum um námsframvindu og gæti hafið nám á öðru námsári.

 

Varðandi námsframvindu samnemanda kæranda, C, þá segir í athugasemdum skóla X að nemandinn, sem hafi upphaflega verið skráður í STÆ203 hafi fengið undanþágu frá reglum sem nýbúi og skólinn hafi reynt að koma til móts við slíka nemendur, ef herslumun vanti á að þeir geti haldið áfram námi. Það sé mat skóla X að ekki sé um sambærileg mál að ræða.

 

Rökstuðningur niðurstöðu:

 

Hin kærða ákvörðun var tekin af rektor skóla X í máli þessu og er hún því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Upphaf máls þessa má rekja til þess að kærandi náði ekki tilskilinni lágmarkseinkunn í stærðfræðiáfanganum STÆ202 á fyrsta námsári skólaárið 2007-2008. Í málinu er ekki deilt um námsmat á umræddri prófúrlausn kæranda og því hefur ekki reynt á ákvæði í kafla 11.3 í aðalnámskrá framhaldsskóla en kærandi hefur hins vegar farið fram á almenna athugun á kennsluaðferðum og námsmati í stærðfræði hjá skóla X, eins og áður er rakið. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi skráð sig úr skóla X og í skóla Y fyrir upphaf haustannar 2008. Í byrjun september 2008 óskaði faðir kæranda eftir innritun kæranda á annað námsár við skóla X en þá var innritunarfrestur liðinn.

 

Í máli þessu er deilt um hvort kærandi hafi átt rétt á því að skóli X félli frá því skilyrði fyrir námsvist á öðru námsári, að kærandi hafi lokið framangreindum stærðfræðiáfanga með tilskildum lágmarksárangri. Í skólanámskrá skóla X segir í kafla um námsframvindu að nemendur sem standast próf og hafa staðist reglur um skólasókn séu sjálfkrafa skráðir í skólann næsta skólaár og þurfi ekki að sækja um skólavist. Til að flytjast á milli námsára þurfi nemandi að hafa lokið minnst 18 einingum yfir skólaárið en sú regla styðst við kafla 7.5 í aðalnámskrá framhaldsskóla.

 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrædd ákvörðun skóla X um að synja honum um skólavist á öðru námsári, skólaráðið 2008 - 2009, feli í sér mismunun með tilliti til afgreiðslu á öðru sambærilegu máli hjá nafngreindum samnemanda hans. Af hálfu skóla X hafa verið færðar fram skýringar og rökstuðningur fyrir afgreiðslu á téðu máli. Eins og upplýsingar um það mál liggja fyrir, telst það ekki sambærilegt við mál kæranda, þar sem í því máli var um að ræða breytingu á vali námsbrautar á öðru ári. Af því leiddi að umræddur nemandi þurfti ekki að ljúka stærðfræðiáfanganum STÆ203, sem hann hafði fallið í, heldur nægði honum að hafa staðist áfangann STÆ202, með lausn stærðfræðiverkefnis upp á eina einingu. Skóli X heldur því fram að sú málsmeðferð samræmist reglum skólans um námsframvindu.

 

Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins og framkomnum skýringum skóla X verður að fallast á það með skólanum að ekki sé um sambærileg mál að ræða og því hafi afgreiðsla skólans á áðurnefndu máli ekki skapað fordæmi sem fylgja beri við umfjöllun um hina kærðu ákvörðun. Samkvæmt undantekningarheimild í námsframvindureglum í kafla 7.5 í aðalnámskrá framhaldsskóla er heimilt að flytja nemanda sem fallið hefur á öðru endurupptökuprófi milli bekkja einu sinni á námsferlinum ef einkunn hans er ekki lægri en 2 og námsgreinin ekki aðalgrein á námsbraut hans skv. skilgreiningu viðkomandi skóla. Er þetta eina undantekningin frá námsframvindureglum aðalnámskrár framhaldsskóla.

 

Eins og mál þetta er vaxið verður því ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun skóla X um að synja B um skólavist á öðru námsári við skóla X á skólaárinu 2008-2009 sem tilkynnt var í tölvubréfi til föður B, dags. 3. september 2008, er staðfest.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum