Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20mennta-%20og%20menningarm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Lækkun einkunnar

Ár 2009, föstudaginn 27. mars, er kveðinn upp í menntamálaráðuneyti svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið.

 

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 6. janúar sl. stjórnsýslukæra frá A, hdl., f.h. B (hér eftir nefndur kærandi) þar sem kærð er sú ákvörðun skóla X að lækka einkunn kæranda í námsáfanganum ÍSL5036 úr 5 í 4. Af hálfu kæranda er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði lýst ógild eða felld úr gildi og einkunnin 5 standi óbreytt. Þess er ennfremur krafist að kærandi geti hafið nám á vorönn og lokið stúdentsprófi á vori 2009 eins og til hafi staðið.

 

Af athugasemdum skóla X við fram komna kæru verður ráðið að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

Í úrskurði þessum verður einungis fjallað um þau álitaefni í framangreindu erindi kæranda sem fela í sér stjórnvaldsákvörðun af hálfu skóla X. Í samræmi við það verður leyst úr því hvort breyting á prófseinkunn kæranda í áfanganum ÍSL5036 úr 5 í 4 hafi verið lögmæt.

 

Málavextir.

 

Bréf lögmanns kæranda sem er tilefni máls þessa var móttekið í ráðuneytinu 6. janúar sl. Degi síðar, 7. janúar sl., barst ráðuneytinu frekari greinargerð í málinu frá lögmanni kæranda. Með bréfi ráðuneytisins til skóla X, dags. 8. janúar sl., var skólastjórnendum gefinn kostur á að kynna sér og bregðast við erindi kæranda. Athugasemdir skólameistara skóla X bárust ráðuneytinu 19. janúar sl.  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 26. janúar sl., var lögmanni kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir skólameistara. Umsögn lögmanns kæranda barst ráðuneytinu 2. febrúar sl.

 

Hin kærða ákvörðun í máli þessu varðar breytingu á einkunn kæranda í námsáfanganum ÍSL5036 úr 5 í 4. Í gögnum málsins kemur fram að kennari í ÍSL5036 hafi farið línuvillt við innskráningu prófseinkunnar kæranda í Innu, gagna- og upplýsingakerfi framhaldsskóla, þannig að einkunnin 5 var færð í kerfið í stað réttrar einkunnar, sem var 4. Í málinu liggur fyrir útskrifað einkunnablað úr Innu, þar sem tilgreind er einkunnin 5 fyrir ÍSL5036. Formleg afhending einkunnablaða fór fram 17. desember sl. og var prófsýning haldin í kjölfarið. Þegar kærandi fékk aðgang að prófúrlausn sinni í ÍSL5036 kom í ljós misræmi á milli einkunnablaðs og prófúrlausnar þar sem einkunnin 4 hafði verið árituð á prófúrlausnina hans. Kennari áfangans mun þá hafa strikað yfir einkunnina 5 á einkunnablaðinu og handskrifað einkunnina 4 í hennar stað og staðfest breytinguna með upphafsstöfum sínum. Í framhaldi af því mun kennarinn hafa leiðrétt einkunnafærsluna í Innu. Síðar sama dag óskaði kærandi eftir því við skólann að upphafleg einkunn, 5, yrði látin standa. Að mati skólameistara skóla X var þá kominn upp ágreiningur á milli nemanda og kennara um námsmat er hljóta skyldi meðferð skv. kafla 11.3 í aðalnámskrá framhaldsskóla. Skólameistari mun í samræmi við það hafa gert ráðstafanir til þess að fram færi óháð námsmat á prófúrlausn kæranda. Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði lýst ógild eða felld úr gildi, með þeim afleiðingum að einkunnin 5 fyrir prófúrlausn í ÍSL5036 standi áfram, þannig að kærandi geti stundað nám við skóla X á vorönn og lokið stúdentsprófa að vori 2009.

 

Málsástæður.

 

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Æðra sett stjórnvald getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvörðun lægra setts stjórnvalds. Viðbrögð æðra setta stjórnvaldsins ráðast af mati á hinni kærðu ákvörðun og séu annmarkar fyrir hendi er það æðra setta stjórnvaldsins að meta og ákveða hvaða afleiðingar þeir skuli hafa. Verður lagt mat á framangreint í úrskurði þessum.

 

Málsástæður kæranda.

Lögmaður kæranda gerir við það athugasemd að kærandi hafi enn ekki fengið í hendur formlega tilkynningu um hina kærðu ákvörðun. Svo virðist sem skóli X líti þannig á að handritun kennara á einkunnablað uppfylli kröfur um form tilkynningar, að kennari hafi verið hæfur til að taka hina kærðu ákvörðun og að undirbúningur hennar hafi uppfyllt málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Þá hafi skóli X heldur ekki orðið við óskum kæranda um veita rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Að mati lögmanns kæranda felur afhending einkunnablaðs til kæranda með einkunninni 5 fyrir prófúrlausn í ÍSL5036 í sér bindandi ákvörðun fyrir stjórnvald eftir að hún er komin til aðila, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að mati lögmannsins veitir 23. gr. stjórnsýslulaga ekki heimild til breytinga eða leiðréttinga á einkunninni 5 í 4. Þá eigi heimild stjórnvalds til afturköllunar ákvörðunar skv. 25. gr. stjórnsýslulaga ekki við. Lögmaður kæranda bendir á að kafli 8.1 í aðalnámskrá framhaldsskóla sem vitnað sé til í greinargerð skóla X gangi ekki framar lögum. Tilgangur ákvæðisins sé ekki að veita kennurum og skólum þrjá daga til breytinga á einkunnum nemenda. Lögmaður kæranda telur engan vafa leika á því að hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Hana hafi því borið að tilkynna skriflega, með leiðbeiningum um kæruheimild og eftir atvikum upplýsingum um rétt aðila til að fá hana rökstudda. Skóli X hafi ekkert gert af framangreindu í máli kæranda. Að mati lögmanns kæranda er hin kærða ákvörðun bæði ólögmæt að formi og efni og í raun ógild þar sem ekki hafi verið við undirbúning hennar fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

 

Málsástæður skóla X.

Af hálfu skóla X er haldið fram að þegar kennari og fagstjóri í íslensku breytti einkunn kæranda í ÍSL5036 úr 5 í 4 við prófsýningu í kjölfar afhendingar einkunnablaðs, 17. desember sl. hafi verið farið eftir kafla 8.1 í aðalnámskrá framhaldsskóla. Kennari hafi farið línuvillt við innskráningu einkunna en prófúrlausn kæranda hafi gefið einkunnina 4. Kæranda hafi verið tilkynnt um breytinguna við prófsýningu sama dag og einkunnablað var afhent. Kennarinn hafi beðist afsökunar þegar mistökin uppgötvuðust. Kærandi hafi verið upplýstur um kærumöguleika á grundvelli kafla 11.3 í aðalnámskrá framhaldsskóla og í framhaldi óskað eftir slíkri meðferð. Síðar sama dag hafi kærandi hins vegar óskað eftir að fyrri einkunn yrði látin standa. Skóli X hafi brugðist við því með því að kanna nánar málaatvik hjá viðkomandi kennara og komist að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að málum staðið. Hins vegar hafi verið ákveðið að bíða með frekari athugun máls kæranda þar til endurmat prófúrlausnar hefði farið fram.

 

Í athugasemdum skóla X er sérstaklega bent á að kæranda hafi ekki vegna málsins verið meinað að stunda áframhaldandi nám til útskriftar á vorönn 2009. Hins vegar hafi verið gerður fyrirvari í stundatöflu kæranda um að áfanganum ÍSL5036 sé ólokið.

 

Rökstuðningur niðurstöðu:

 

Hin kærða ákvörðun var tekin af kennara og fagstjóra í Íslensku við skóla X og staðfest af skólameistara sama skóla og hún er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Á grundvelli 21. gr. framhaldsskólalaga hefur menntamálaráðherra gefið út aðalnámskrá framhaldsskóla, almennan hluta, nr. 229/2003, sbr. auglýsingu nr. 138/2004. Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara, undir umsjón skólameistara, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um framhaldsskóla.

 

Í 2. mgr. kafla 8.1 í aðalnámskrá framhaldsskóla segir að nemendur skuli eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara í síðasta lagi innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Ef skekkja komi fram í mati eða einkunnagjöf skuli slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða megi og niðurstaðan birt viðkomandi nemanda án tafar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um framhaldsskóla á nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati er liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveðja til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um framhaldsskóla.

 

Í kafla 11.3 í aðalnámskránni segir að komi ágreiningur upp á milli nemanda og kennara um mat úrlausnar sem ekki tekst að leysa innan skóla skuli skólameistari kveðja til prófdómara til að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við deildarstjóra. Tekið er fram að úrskurður prófdómara skuli gilda um mat úrlausnar.

 

Eins og þegar hefur komið fram má rekja upphaf máls þessa til misræmis á milli einkunnar kæranda í námsáfanganum ÍSL5036 samkvæmt einkunnablaði og áritaðrar einkunnar á prófúrlausn þegar kærandi mætti til prófsýningar 17. desember sl. Misræmið hefur verið rakið til innsláttarvillu kennara og fagstjóra í íslensku í Innu, gagna- og upplýsingakerfi framhaldsskóla. Viðbrögð kennarans þegar mistökin uppgötvuðust fólust í því að breyta einkunn á einkunnablaði til samræmis við prófúrlausn, jafnframt því sem kennarinn leiðrétti skráninguna í Innu.

 

Í úrskurði þessum reynir ekki á námsmat á frammistöðu kæranda í umræddum íslenskuáfanga, ÍSL5036, enda er námsmat kennarans þegar til meðferðar hjá óháðum prófdómurum á grundvelli kafla 11.3. í aðalnámskrá framhaldsskóla og telst niðurstaða þess endanleg sbr. 2. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér um afdrif endurmatsins leiddi það ekki til breytinga á lokaeinkunn kæranda í ÍSL5036.

 

Í máli þessu er deilt um rétt kennara til að breyta prófseinkunn í áfanganum ÍSL5036 eins og hún birtist kæranda á einkunnablaði sem skólinn afhenti honum 17. desember sl. Hér reynir því á réttaráhrif framangreindrar birtingar og rétt skólans til leiðréttingar. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga telst ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Um rétt stjórnvalds til breytinga og leiðréttinga á ákvörðun er fjallað í 23. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. mgr. 23. getur stjórnvald breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls en eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt, er stjórnvaldi aðeins heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té, sbr. 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við 2. mgr. 23. gr. í því frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segir að leiðréttingarheimildin taki til bersýnilegra villna í ákvörðun, svo sem misritun á orði, nafni eða tölu og reikningsskekkju, svo og annarra bersýnilegra villna er varði form ákvörðunar en ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar. Talið verður að birting prófseinkunnar kæranda í ÍSL5036 falli undir 23. gr. stjórnsýslulaga, enda reiknast hún til stúdentsprófs kæranda, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1852/1996.

 

Í rökstuðningi skóla X fyrir hinni kærðu ákvörðun hefur verið vísað til heimildar skóla í 2. málsl. 2. mgr. kafla 8.1 í aðalnámskrá framhaldsskóla til að leiðrétta einkunn eftir birtingu hennar þegar um er að ræða skekkju í námsmati eða einkunnagjöf, enda fari leiðréttingin fram eins fljótt og verða má og niðurstaðan birt viðkomandi nemanda án tafar.

 

Það er aðfinnsluvert að skóli X hafi ekki tilkynnt kæranda um hina kærðu ákvörðun með formlegum hætti eins og kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga og látið honum í té nýtt endurrit einkunnablaðs. Sá ágalli þykir þó ekki valda ógildi hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Að mati ráðuneytisins leiddi sýning á prófúrlausn kæranda í ÍSL5036 sem fram fór 17. desember sl. í ljós bersýnilegt misræmi með tilliti til einkunnar á einkunnablaði. Skóla X var því heimilt að taka hina kærðu ákvörðun á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga og

verður því ekki komist hjá því staðfesta hana eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun skóla X um að breyta prófseinkunn B í íslenskuáfanganum ÍSL5036 úr 5 í 4 á einkunnablaði, dags. 17. desember 2008, er staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum