Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. janúar 1986

Ár 1986, mánudaginn 20. janúar var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

               Fjármálaráðherra í umboði
               utanríkisráðherra
                  gegn
               Eigendum beitarréttinda jarða
               í Miðneshreppi, Gullbringusýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

I.

Þann 14. mars 1983 barst Matsnefnd eignarnámsbóta eftirfarandi bréf dags. 7. mars 1983.

"Samkvæmt ákvæðum laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er þess hér með óskað, að Matsnefnd eignarnámsbóta taki til meðferðar og mats eignarnám utanríkisráðherra á beitarréttindum nokkurra jarða í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Utanríkisráðuneytið hefur með bréfi 4. mars 1983 falið fjármálaráðuneytinu að fara með fyrirsvar í málinu í umboði eignarnema.

Heimild til þessa eignarnáms er að finna í lögum nr. 17/1982 um breytingu á lögum nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir, sbr. lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., sbr. lög nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands og reglugerð um sama efni nr. 69/1969. Á grundvelli þessa ákvað utanríkisráðherra á síðastliðnu sumri, að til eignarnáms beitarréttinda á Miðnesheiði skyldi gripið. Rétthöfum var tilkynnt til þessa fyrirætlan í ágúst 1982 og þeim gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns. Eignarnámi var síðan formlega lýst yfir með bréfum ráðuneytiins til rétthafa í desember 1982.

Í meðfylgjandi gögnum koma fram tildrög þessa eignarnáms og tilgreining þeirra réttinda, sem eignarnámið lýtur að. Nánari rökstuðningur og lýsing mun koma fram í greinargerð eignarnema, er Matsnefnd eigarnnámsbóta hefur tekið matsmálið til meðferðar."

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni 22. mars 1983 og aftur 29. mars og var þá bókað:

"f.h. eignarnámsþola, er um ræðir á mskj. nr. 18 mætir Páll S. Pálsson hrl, og áskilur sér rétt til að krefjast frávísunar málsins frá Matsnefndinni og mun hann skila greinargerð um það efni sérstaklega."

Þann 12. apríl var málið enn tekið fyrir og lagði Páll S. Pálsson hrl. fram stefnu til aukadómþings Gullbringusýslu ásamt greinargerð og óskaði bókað: "Með vísan til mskj. 23 - 24 krefst ég þess vegna umbj. minna, að matsmáli þessu verði að svo stöddu vísað frá Matsnefndinni eða máli þessu frestað hjá Matsnefndinni, uns dómur er fenginn um lögmæti eignarnámsins".

"Benedikt Blöndal hrl. mótmælir frávísunarkröfunni og krefst þess, að matsmálinu verði haldið áfram hjá nefndinni.

Árni Guðjónsson hrl., krefst þess, að málið verði látið hvíla hjá nefndinni meðan málflutningur fer fram í máli umbjóðenda Páls S. Pálssonar hrl.

Ólafur Axelsson hrl. áskilur umbj. sínum allan rétt gegn eignarnema, falli framangreint aukadómsmál umbj. Páls S. Pálssonar í vil.

Árni Guðjónsson áskilur umbj. sínum sama rétt.

Sátt var reynd en árangurslaust.

Lögmennirnir Benedikt Blöndal hrl. og Páll S. Pálsson hrl. skýrðu nú kröfur sínar og rökstuðning fyrir þeim munnlega.

Atriðið tekið til úrskurðar".

Hinn 18. apríl 1983 var kveðinn upp úrskurður í Matsnefndinni þar sem segir m.a. á þessa leið:

"Samkvæmt 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms ber Matsnefnd eignarnámsbóta að kanna hvort lagaheimild sé til eignarnámsins. Skv. 17. gr. sömu laga má leita úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms, þ.á m. ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta, en um það atriði þó ekki fyrr en úrlausn Matsnefndar liggur fyrir.

Samkvæmt þessu er það undirstöðuatriði við framkvæmd eignarnáms, hvort lagaheimild sé til eignarnámsins, og má leita úrlausnar dómstóla um lögmæti eignarnámsins, áður en úrlausn Matsnefndarinnar liggur fyrir um fjárhæð eignarnámsbóta.

Krafist hefur verið, annað hvort, að málinu verði vísað frá nefndinni að svo stöddu, eða málinu frestað, meðan skorið verður úr um lögmæti eignarnámsins.

Ekki er efni til þess að vísa málinu frá nefndinni, en hins vegar þykir rétt, samkævmt áðurgreindum lagaákvæðum að fresta meðferð matsmálsins hjá nefndinni um óákveðinn tíma.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, og matsmennirnir Bárður Daníalsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefu kvatt til meðferðar þessa máls, skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t :

Framangreindu matsmáli eignarnema, fjármálaráðherra í umboði utanríkisráðherra gegn eigendum beitarréttinda í Miðneshreppi er frestað hjá Matsnefndinni um óákveðinn tíma.

II.

Í framangreindu aukadómþingi var gerð sú krafa, að viðurkennt verði með dómi á grundvelli heimildar í upphafsákvæði í 17. gr. laga nr. 11/1973, að yfirlýst eignarnám utanríkisráðherra á beitarréttindum ofangreindra jarða á Miðnesheiði hinn 13. des. 1982 sé ólögmætt og skuli því eigi fram fara.

Dómur í máli þessu var kveðinn upp 27. janúar 1985 og voru utanríkisráðherra og fjármálaráðherra sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Hinn 13. febr. 1985 skrifaði Benedikt Blöndal hrl. f.h. eignarnema Matsnefndinni bréf og fór þess á leit, að matsmáli þessu yrði fram haldið hið fyrsta hjá Matsnefndinni.

Málið var því næst tekið fyrir hjá nefndinni 28. febr. 1985 og aðilum málsins veittur frestur til að skrifa greinargerðir í málinu.

Eignarnemi gerir þá kröfu í málinu, að Matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði hæfilegar og sanngjarnar bætur til eignarnámsþola fyrir þau beitarréttindi jarða í Miðneshreppi, Gullbringusýslu, sem tekin hafi verið eignarnámi með bréfum utanríkisráðuneytisins 13. des. 1982.

Jafnframt er því beint til nefndarinnar, að matskostnaður allur verði ákveðinn innan eðlilegra og hæfilegra marka.

Eignarnemi skýrir svo frá að tildrög máls þessa séu þau, að á árinu 1948 hafi farið fram eignarnám á landi á Miðnesheiði vegna byggingar Keflavíkurflugvallar. Við matið hafi verið ákveðið, að landeigendur skyldu halda óskertum beitarafnotum á landi sínu, þar sem ekki væri algjört bannsvæði. Á árinu 1949 hafi farið fram almennur niðurskurður á sauðfé á Reykjanesskaga vegna mæðiveikivarna. Hafi Bæjarsker verið eina jörðin á Miðnesheiði sem tekið hafi aftur fé við fjárskipti á Reykjanesskaga. Engin hinna jarðanna hafi tekið fé að nýju, og bændurnir talið sig ekki getað haft not af beitinni vegna þess, að með varnarsamningnum hefði varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli verið afhent umráð yfir mestum hluta beitarlandsins. Hafi þá eigendur og umráðamenn jarðanna Fuglavíkur, Nesja og Melabergs, Lands og Bursthúsa, Hvalsness og Stafness í Miðneshreppi og utanríkisráðherra f.h. varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins gert með sér samning dags. 25. nóv. 1955. Samkvæmt þeim samningi skyldi ríkið taka við beitarafnotum þessara jarða frá 1. ágúst 1951 að telja gegn árlegu gjaldi sem gerðardómur ákvæði. Í samningum hafi verið ákvæði um heimild til endurmats á 5 ára fresti.

Á árinu 1974 hafi ákvörðun um endurgjald beitarréttarins síðast verið lögð í gerð skv. þessum samningi. Niðurstaða gerðarmanna og forsendur sem þeir lögðu til grundvallar hafi verið fjarri öllu lagi að áliti eignarnema. Fallist hafi verið á kröfu landeigenda um hækkun eftirgjaldsins til samræmis við hækkun á dilkakjöti á þeim tíma sem um var fjallað. Gerðarmenn hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að taka tillit til þess til lækkunar, að fóðurkostnaður og allur annar tilkostnaður við sauðfjárhald hefði stórlega vaxið á umræddu tímabili. Með þessum gerðardómi hafi orðið stökkbreyting uppá við í þeim kostnaðarbyrðum sem ríkissjóður hafði skv. samningnum frá 1955.

Í árslok 1975 hafi utanríkisráðuneytið skrifað talsmanni bændanna, Vilhjálmi Árnasyni hrl., og með því bréfi sagt upp samningnum frá 1955 og lýst yfir, að umbj. lögmannsins væri skv. því heimilt að nýta beitarrétt sinn í heiðinni. Beitarréttareigendur hefðu mótmælt þessari uppsögn, en hún hafi verið ítrekuð með bréfi dags. 8. mars 1976. Eftir atvikum hafi þó verið fallist á að greiða fyrir beitarafnotin árið 1976, þar eð rétt þætti að gefa beitarréttareigendum vissan umþóttunartíma til að koma sér upp bústofni og gera aðrar ráðstafanir til að nýta beitarréttindin. Hinn 19. júní 1978 hafi fjármálaráðuneytið skrifað áðurnefndum lögmanni beitarréttareigenda bréf og þar ítrekað þá afstöðu, að ekki yrði breytt um fyrri ákvörðun að segja upp samningum frá 1955, sem leigugreiðslur fyrir beitarrétt hafi byggst á. Í bréfi ráðuneytisins segir m.a. á þessa leið: "Hinn 2. júní s.l. var haldinn fundur í Sandgerði um þetta mál. Á fundinum lagði fjármálaráðherra til, að af hálfu umbj. yðar yrði fallist á, að gerður yrði samningur um endanlega innlausn þessara réttinda til ríkissjóðs. Af hálfu umbj. yðar var því lýst yfir, að í þeirra hópi myndi það verða rætt hvort fallist yrði á slíka samningsgerð. Í trausti þess að slíkur samningur verði gerður á næstu mánuðum, annað hvort á þann veg, að samið verði um endanlegt innlausnarverð, eða að innlausnarverð skuli byggjast á mati hlutlausra og óvilhallra matsmanna hefur ráðuneytið ákveðið í samráði við utanríkisráðuneytið, að nú þegar verði umbj. yðar greidd nokkur fjárhæð upp í verð hinna innleystu réttinda."

Eignarnemi segir að þessu bréfi hafi aldrei verið svarað, enda eigendur beitarréttarins, að því er virtist, ekki kært sig um að fá hann sér afhentan til nytja á þessu skeiði a.m.k. Engar slíkar viðræður um innlausn hafi því farið fram.

Eignarnemi segir að þannig hafi verið komin á þráskák í þessu máli. Í bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns beitarréttareigenda dags. 11. maí 1982 hafi verð áréttað, að ríkissjóður hefði ekki haft umrædd beitarréttindi á leigu síðustu árin. Greiðslur hefðu hins vegar átt sér stað upp í væntanlegar eignarnámsbætur fyrir þessi réttindi. En vegna skorts á lagaheimild hefði dregist að lýsa yfir eignarnámi. Þá var því lýst yfir, að með þeirri breytingu á loftferðalögum, sem gerð hafi verið með lögum nr. 17/1982, hefði slík lagaheimild fengist og myndi ráðuneytið beita sér fyrir því að þessi heimild yrði nýtt.

Samkvæmt framangreindu telur eignarnemi, að heimild til þess eignarnáms, sem hér um ræðir sé að finna í lögum nr. 17/1982 um breytingu á lögum nr. 34/1964 um loftferðir.

Eignarnemi telur að við mat á þeim beitarréttindum sem um ræðir komi ekki til greina, að taka mið af úrlausn gerðardómsins frá 15. janúar 1975. Forsendur þær, sem sá dómur byggði niðurstöður sínar á séu fjarri öllu lagi og þar ekki verið tekið tillit til stórfelldrar kostnaðarhækkunar við sauðfjárhald næstu ár á undan. Þá heldur eignarnemi því fram, að beitarréttur á þeim svæðum, sem um sé að ræða, sé í rauninni afar lítils virði. Land sé þarna mjög lélegt til sauðfjárbeitar og að stórum hluta ógróið og grýtt. Viðbrögð rétthafanna við uppsagnarbréfi utanríkisráðuneytisins frá 24. desember 1975 bendi glögglega til þess, að rétthafarnir hafi talið beitarréttinn sem slíkan sér einskis virði og raunar alls ekki viljað fá hann afhentan. Gagnstæð viðbrögð hafi að vísu komið fram síðar, m.a. í fundarsamþykkt í Sandgerði 16. janúar 1982, og bréfi Páls S. Pálssonar hrl. til utanríkisráðuneytisins dags. 20. okt. 1982.

Fundarsamþykktin í Sandgerði feli m.a. í sér, að beitarrétturinn verði afhentur eigendum til afnota og hið sama sé að segja um bréf Páls S. Pálssonar að það feli í sér samþykki á uppsögn. Lögmaðurinn setji berum orðum frá þá tillögu f.h. umbj. sinna, að hugmyndin í bréfum varnarmáladeildar frá 24. desember 1975 og 8. mars 1976 verði að nýju dregin fram í dagsljósið, en hún sé í fáum orðum þess efnis, að landeigendur hagnýti sér beitarréttinn á beitarsvæðinu fyrir búfénað á eigin vegum.

Þá bendir eignarnemi á, að á árinu 1976 hafi Landgræðsla ríkisins ákveðið að stækka landgræðslugirðinguna í Höfnum með því að girða frá sjó á mörkum Húsatófta og Járngerðastaðalands norður fyrir Þórðarfell, þaðan að Grindavíkurvegi, síðan áfram inn með Reykjanesbraut inn fyrir Vogaafleggjarana og þar niður til sjávar. Þessu hafi fylgt að allt svæðið vestan þessarar girðingar hafi orðið landgræðslusvæði og lausaganga búfjár þar bönnuð.

Í bréfi Landgræðslu ríkisins til sveitarfélaga á Suðurnesjum dags. 30. apríl 1976 hafi ástæður þessa banns verið þær, að gróðurfar væri þarna mjög rýrt og landið í gróðurfarslegri afturför, er óskynsamleg beit ætti verulega sök á.

Eignarnemi ítrekar þá afstöðu sem ævinlega hafi komið fram af hans hálfu eftir uppsögn samningsins frá 1955 og ákveðinn umþóttunartíma í kjölfar hennar, að greiðsla fyrir beitarréttinn árið 1977 og síðar væri uppi væntanlegt innlausnarverð eða eignarnámsbætur. Komi fram í yfirliti ríkisbókhaldsins, að þessar greiðslur nemi nú að nafnvirði kr. 551.779.00. Eignarnemi telur það bæði réttmætt og eðlilegt, að þessar fjárhæðir verði framreiknaðar miðað við almenna verðlagsþróun í landinu, og komi síðan hinar framreiknuðu greiðslur að fullu til frádráttar við ákvörðun eignarnámsbóta.

III.

Ólafur Axelsson hrl., hefur flutt mál þetta fyrir eftirtalda eignarnámsþola:

1) Bala (13.254% Guðmundur Guðmundsson)
2) Stafnes I (13.254% Ingibjörg Þorsteinsdóttir)
3) Stafnes III og ½ Glaumbær (9.940% Sigurbjörn Metúsalemsson)
4) ½ Melaberg (1.905% Ásta M. Sigurjónsdóttir)
5) Bursthús (2.269% Agnes Agnarsdóttir og Svanhildur Kær)
6) Smiðshús (1.431% Þuríður Jónasóttir)
7) Moshús, Nýlenda (3.041% Hákon Magnússon)
8) Gerðarkot (1.610% Guðmundur Guðmundsson)

Í upphafi greinargerðarinnar eru í stuttu máli raktir málavextir og sagt að við eignarnámið hafi verið ákveðið að undanskilja beitarafnot, en búfjárrækt hafi á þessum tíma verið ein aðaltekjulind matsþola. Fljótlega eftir byggingu flugvallarins hafi verið fullreynt, að matsþolar gátu ekki notað umrætt landsvæði til beitar, bæði vegna ónæðis frá flugvellinum og svo af því, að með varnarsamningnum hafi umráð landsvæðisins að öllu leyti verið í höndum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hafi þau fallið undir hernaðarleg öryggissvæði og því öll umferð á þeim verið meira og minna bönnuð. Þá hafi einnig af hálfu yfirvalda verið talið útilokað, að vera með kvikfjárrækt í nágrenni flugvallarins vegna öryggissjónarmiða.

Fyrsta formlega krafan um endurmat á leigugjaldinu hafi verið úrskurðuð af gerðardómi 26. maí 1957. Síðari beiðni hafi komið frá landeigendum 5. júní 1967. Var þeirri beiðni fyrst sinnt með skipan gerðardóms 1972 og úrskurður gerðardómsins gengið 15. janúar 1975. Þar hafi leigugjaldið verið ákveðið til 31. des. 1977, gkr. 1.174.800.00 á ári.

Með bréfi dags. 24. des. 1975 hafi umræddum leigusamningi verið sagt upp einhliða af hálfu utanríkisráðuneytisins. Uppsögn samningsins hafi þegar verið mótmælt af hálfu bænda og því jafnframt haldið fram að einhliða uppsögn samningsins væri óheimil. Hafi bændur m.a. bent á máli sínu til stuðnings, að forsendur samningsins á sínum tíma hafi verið þær, að þeir gátu ekki nýtt umrædd beitarafnot vegna Keflavíkurflugvallar og varnarliðsins. Þessar forsendur væru ennþá fyrir hendi og því einhliða uppsögn óheimil. Jafnframt hafi verið bent á, að ógerlegt væri að skila beitarafnotum á nefndum landsvæðum aftur, þar sem allar athafnir leigutaka á landinu væru þess eðlis, að beitarafnotum væri ekki hægt að skila aftur.

Hinn 16. júní 1977 hafi bændur óskað eftir endurmati á leigugjaldinu, en þeirri beiðni hafi aldrei verið sinnt.

Leigugreiðslur vegna beitarafnota hafi verið greiddar fram til miðs árs 1982. Hafi leigukrafan verið hækkuð milli ára í samræmi við forsendur gerðardómsins, þ.e. hækkun á dilkakjöti og hafi þeirri útreikningsaðferð aldrei verið mótmælt. Síðari kröfubréfum vegna leigu, þ.e. fyrir síðari hluta ársins ´82, árið ´83, árið ´84 og árið 1985 hafi aldrei verið svarað.

Með bréfi dags. 13. desember 1982 hafi utanríkisráðuneytið/varnarmáladeild lýst því yfir, að ákveðið hefði verið frá og með dagsetningu bréfsins að taka umrædd beitarafnot eignarnámi.

Í þessu matsmáli gera matsþolar þá kröfu, að fullar bætur komi fyrir beitarafnotin. Í þessu sambandi beri að hafa í huga, að við eignarnámið 1948 hafi beitarafnotin verið undanskilin og bætur þá fyrir landmissinn hafi tekið mið af því að bændur héldu eftir afnotarétti af landsvæðinu og verið því töluvert lægri en ella.

Í greinargerðinni eru síðan raktir tveir gerðardómar, sem fjallað hafa um verðmæti beitarafnotanna. Fyrri gerðardómurinn er dags. 26. maí 1957 en hinn síðari 15. jan. 1975. Gerðardómsmenn hafi talið að eðlilegasta mat á verðbreytingum væri það, að miða við framleiðslutekjur í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Endurskoðun á árgjaldi fyrir beitarafnotin hafi því að verulegu leyti verið miðuð við matsgrundvöll gerðardómsins 1957. Gerðardómurinn hafi síðan úrskurðað, að fyrir tímabilið 1. jan. 1973 til 31. des. 1977 skuli árlegt afgjald vera gkr. 1.174.800. Er sagt að inni í úrskurði þessa dóms hljóti að hafa verið kostnaðarliðir, þar sem þar muni hafa verið tekið tillit til þeirra í gerðardómnum 1957.

Matsþolar halda því fram, að eðlilegt sé að Matsnefndin hafi í þessu máli til viðmiðunar, þegar hún metur eignarnámsbæturnar, þá fjármuni sem umræddur leigusamningur hafi gefið í aðra hönd, en það séu þær tekjur sem ætla verði að sauðfjárræktin hefið skilað.

Þá beri og í þessu sambandi að hafa til viðmiðunar, að samningurinn sé í eðli sínu óuppsegjanlegur og verði í þeim efnum að líta til forsendna hans, svo og að umræddum beitarafnotum verði aldrei skilað aftur.

Matsþolar telja að sé miðað við hækkun á dilkakjötskílói, sem virðist vera sá mælikvarði sem gerðardómarnir hafi gengið út frá að við sé miðað varðandi hækkun á ársleigunni, nema heildartekjur af leigusamningnum kr. 640.000.00 vegna ársins 1985.

Samkvæmt þessu skili samningurinn þessum matsþolum í sinn hlut árstekjum sem nemi ca. kr. 300.000.00, sem samsvari þeim tekjum sem sauðfjárrækt hefði skilað þeim. Matsþolar telja að sé miðað við framangreindar tekjur um aldur og æfi, og að þeir gætu ávaxtað bæturnar með 6% ársvöxtum komi út fjárhæðin ca. kr. 7.000.000.00. Þetta séu þau verðmæti sem mál þetta snúist um og Matsnefndin hljóti að taka mið af.

Matsþolar mótmæla því að beitarrétturinn á þeim svæðum, sem um er að ræða sé í raun afar lítils virði. Í þessu sambandi benda þeir á að stærð þess landsvæðis, sem um er að ræða sé í heild sinni ca. 3150 ha. Arðsemi beitarinnar hafi verið metin af gerðardómum 1957 og 1975. Í báðum tilvikum virðist gerðardómarnir hafa talið rétt að taka mið af starfi beitarlandsins svo og búfjáreign hvers býlis eins og hún hafi verið fyrir tilkomu Keflavíkurflugvallar og varnarliðsins. Matsþolar telja ekki ósennilegt, að landgæði hafi versnað á þeim tíma sem landið hafi lotið forsjá ráðuneytisins. Ekkert hafi verið gert á leigutímanum til þess að viðhalda gæðum landsins, svo sem með áburðargjöf og grassáningu.

Matsþolar mótmæla þeim sjónarmiðum eignarnema, að greiðslur frá honum fyrir beitarréttinn árið 1977 og síðar komi að fullu til frádráttar eignarnámsbótum. Byggja þeir þetta fyrst og fremst á því, að uppsögn samningsins árið 1975 hefði ekkert gildi gagnvart þeim, þar sem hann hafi verið óuppsegjanlegur í eðli sínu. Jafnframt benda þeir á, að eignarnemi hafi haft fullt forræði á landinu á grundvelli leigusamingsins þar sem beitarafnotunum verði ekki skilað aftur vegna ómöguleika. Þá er því haldið fram í þessu sambandi að krafa eignarnema um skuldajöfnuð heyri ekki undir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá er að lokum á það bent að það sé staðreynd, að kvikfjárrækt verði aldrei stunduð á þessu landi aftur vegna atvika sem varði alfarið eignarnema. Þá sé það ljóst að beitarafnot sem um er fjallað í málinu hafi skapað aðalatvinnu matsþola og verið helsta tekjulind þeirra þegar leigusamningurinn um þau var gerður á sínum tíma. Halda matsþolar því fram að það séu þess vegna verðmæti beitarafnotanna við samningsgerðina 1955 framreiknuð, sem verið sé að meta í þessu máli.

IV.

Mál þetta hefur flutt fyrir eftirtalda beitarréttareigendur Páll A. Pálsson hrl.:
Fuglavík, eigendur: Magnús Bergmann, Guðríður Bergmann, Haukur Bergmann, Ólafía Bergmann, Una Bergmann, Jónína Bergmann, Jóhann Bergmann, Sigurður Bergmann.
Norðurkot, eigendur: Sigurður K. Eiríksson og Eiríkur Eiríksson.
½ Melaberg, eigandi: Guðbrandur Benediktsson.
Nesjar, eigandi: Stefán Friðbjörnsson.
Lönd, eigendur: Hreggviður Guðmundsson og Óli Kr. Guðmundsson.
Hvalsnes, eigendur: Iðunn Gísladóttir og Guðlaug Gísladóttir.
Stafnes II og ½ Glaumbær, eigandi: Jón Ben. Guðjónsson
1/4 Nýlenda, eigandi: Jón B. Guðjónsson.
3/4 Nýlenda, Eigandi: Eiríkur Eilífsson.

Matsþolar gera þær kröfur, að Matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði matsþolum fullar bætur fyrir þau beitarréttindi sem taka á eignarnámi og að ákvarðað verði endurgjald úr hendi eignarnema til greiðslu alls málskostnaðar.

Í upphafi greinargerðar sinnar rekja matsþolar nokkuð tildrög þessa máls. Eignarnámsheimild hafi verið í lögum nr. 20/1941, en matsmál vegna eignarnámsbóta ekki hafist fyrr en á árinu 1944. Með undirmati 20. febr. 1946 hafi verið ákvarðaðar bætur til fjölmargra landeigenda vegna töku á alls 9200 ha. landi skv. beiðni atvinnu og samgöngumálaráðuneytisins. Á nokkrum hluta landsins hafi landeigendur átt að halda eftir beitarrétti. Ráðherra hafi skotið þessu mati til yfirmats og dregið þá verulega úr kröfum, þar sem einungis hafi verið óskað eftir fullu eignarnámi á 2018 ha., en landeigendur haldið eftir beitarréttindum á u.þ.b. 7200 ha. Yfirmati hafi lokið 12. janúar 1948, þar sem ákvarðaðar hafi verið endanlegar bætur vegna töku landsins, en þær verið lækkaðar að verulegu leyti með tilliti til þess að bændur héldu eftir beitarafnotum. Mikill niðurskurður hafi verið gerður á sauðfé 1948 á þessu svæði vegna mæðuveiki og beitarréttindin því ekki verið nýtt nema að mjög takmörkuðu leyti næstu ár á eftir. Árið 1951 hafi utanríkisráðherra og bændur gert með sér samkomulag um leigu á beitarréttindum á Miðnesheiði og árið 1955 hafi verið gerður skriflegur samningur milli aðila og ákveðið að leigugjald skyldi ákvarðað af gerðardómi. Skyldi árgjaldið ákveðið fyrir fyrstu 5 árin fram til ársloka 1957, og endurskoðast fyrir næstu 5 ár ef annar hvor óskaði, innan tiltekins tíma. Í ársbyrjun 1975 hafi legið fyrir gerðardómur um leigugjald til ársloka 1977 og hefði þá leigugjaldið hækkað nokkuð frá fyrra mati. Þetta hafi haft þau áhrif á afstöðu ráðuneytisins til beitarafnotanna, að ráðuneytið sagði upp leigusamningi með bréfi dags. 24. desember 1975 og tjáði beitarréttareigendum, að þeir mættu nýta beitarréttinn sjálfir. Þessari uppsögn hafi verið mótmælt, enda talið að leigusamningurinn væri óuppsegjanlegur.

Utanríkisráðuneytið hafi haldið því fram, að leigugreiðslur eftir þennan tíma væru upp í væntanlegt eignarnám, en beitarréttareigendur hafi ekki getað fallist á slíka afgreiðslu, enda hafi hún verið án lagastoðar.

Matsþolar í þessu máli halda því fram, að málinu sé á ýmsan hátt einkennilega staðið af hálfu eignarnema. Farið sé fram á eignarnám hjá öllum eigendum beitarréttar í eigu lagi, þó svo að land þeirra sé ekki í óskiptri sameign. Beitarrétturinn sé á 5 afmörkuðum svæðum en innan hverrar spildu sé beitarrétturinn í óskiptri sameign. Eignarnemi ætti því að reka fyrir Matsnefndinni 5 aðskilin mál enda séu hagsmunir mismunandi.

Samkvæmt 67. gr. stjórnarskráinnar sé enginn skyldur að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli séu fyrir hendi og fullt verð komi fyrir. Enginn vafi sé á því, að beitarréttindi teljist eign í skilningi stjórnarskrárinnar og að matsþolar eigi því að fá fullar bætur vegna missis þeirra. Beitarréttindin séu óbein eignarréttindi og í þeim felist að beitarréttareigandinn hafi fulla heimild til þess að hafa búfé á og nytja land það sem um ræðir og hafi ótakmarkaðan umferðarrétt.

Matsþolar segja að í þessu máli þurfi að meta hversu mikils virði beitarrétturinn sé fyrir bændur og einnig hvaða hagnað ríkið hafi af því að fá hann innleystan. Í því sambandi benda matsþolar á 4. gr. samningsins frá 1955 en þar segi m.a.: "Við ákvarðan gjaldsins skal tekin tillit til legu landsins, notagildis þess fyrr, nú og í framtíðinni, svo og til annarra atriða sem hér skipta máli."

Matsþolar segja að þegar finna skuli raunvirði þessarar eignar sé sannasta viðmiðunin samningar um kaup á slíkum eignum eða bætur fyrir skerðingu þeirra. Að því er varðar beitarréttindi á stórum lendum eins og um ræðir í þessu máli sé rétt að hafa til viðmiðunar samninga sem bændur hafi gert við Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins vegna virkjunarframkvæmda á afréttarlandi. Þó beri að hafa í huga að lönd matsþola í þessu máli séu heimaafréttir þar sem vetrarbeit sé möguleg og ætti að vera meira virði.

Matsþolar segja að einhver ástæða hljóti að hafa verið fyrir því, að ríkið hafi á sínum tíma dregið úr kröfum sínum þegar kom til yfirmats og telja matsþolar það stafa af því, að beitarréttindin hafi verið það verðmætasta sem landinu fylgdi. Þetta hafi mönnum verið orðið ljóst við yfirmatið. Heiðarlandið hafi helst verið hægt að nýta til beitar og þar hefðu bændur um aldir haft sauðfénað og nautgripi. Með því að svipta þá rétti til þess að beita sínu fé hafi verið kippt stoðum undan öllum búrekstri. Á þessum árum hafi mönnum verið ljóst að greiða þyrfti fullar bætur til bændanna, ef kippt yrði stoðum undan búrekstri þeirra.

Af þessum sökum hafi ríkið látið vera að taka beitarréttindin eignarnámi á sínum tíma.

Matsþolar halda því fram að landsvæði það er þeir eiga beitarréttindi á hafi verið gott beitiland a.m.k. áður en ríkið hafi tekið það á leigu. Benda þeir í því sambandi á lýsingu á landinu, sem komi fram í undirmatsgerðinni frá 1946.

Matsþolar segja það augljóst, að fengju þeir nú afhentan beitarréttinn aftur myndu þeir girða af heimaafrétti sína eins og t.d. eigendur Bæjarskers. Bann Landgræðslunnar sem um ræðir í málinu myndi því ekki ná til þeirra.

Matsþolar segja að þegar þeir hefðu haft skepnur á beit á sínum heimaafrétti, á sínum tíma, hafi skepnunum einnig verið beitt á fjörur, en með því að þeir missa beitarréttindin nýtist þeim ekki þessi fjörubeit. Þurfi að taka tillit til þess þegar eignarnámsbætur séu ákvarðaðar.

Matsþolar segja að taka landsins og beitarréttindanna nú hafi mikla þýðingu fyrir eignarnema. Þarna séu fyrirhugaðar byggingar fyrir hundruði ef ekki þúsundir milljóna króna, geysimiklar flugbrautir og hernaðarmannvirki. Hæfilegar bætur til beitarréttareigenda yrðu ekki nema brot af þeim kostnaði, sem þeim framkvæmdum fylgir. Þá ítreka þessir matsþolar mótmæli sín við því, að greiðslur frá eignarnema vegna leigu skuli skoðast sem inngreiðslur á eignarnámsbætur, enda hafi utanríkisráðherra ekki einu sinni haft eignarnámsheimild fyrr en á árinu 1982 og utanríksiráðherra borið að greiða leigu þar til réttindin væru tekin eignarnámi. Matsþolar mótmæla því að úr því verði skorið hjá Matsnefnd eignarnámsbóta hvort utanríkisráðuneytið hafi greitt inn á eignarnámsbætur eða leigu. Þetta deiluefni heyri undir hina almennu dómstóla.

Af hálfu eigenda Nýjabæjar (1,162%) þeirra Sigríðar Ásbjörnsdóttur og Jónínu Ásbjörnsdóttur og Sigurlaugar Pálsdóttur hefur mætt í máli þessu Árni Guðjónsson hrl.

V.

Matsnefndin fór á vettvang 3. júní 1985 í góðu veðri og skoðaði landið og allar aðstæður á staðnum.

Viðstaddir vettvangsgönguna voru aðilar málsins og umboðsmenn þeirra.

Sátt var reynd í málinu en árangurslaust og var málið tekið til úrskurðar 18. desember 1985 eftir munnlegan málflutning.

Eignarnámsheimild eignarnema á umræddum beitarréttindum er að finna í lögum nr. 17/1982 um breytingu á lögum nr. 34/1964 um loftferðir, sbr. lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum og fleira.

Með lögum nr. 20/1941 var heimilað að taka eignarnámi til flugvallargerðar land á Reykjanesi, svo og að meta bætur til eigenda téðra landa fyrir skerðingu á afnotarétti þeirra frá þeim tíma er ameríska setuliðið tók lönd þeirra til afnota. Hinn 3. maí 1944 voru tveir menn dómkvaddir af aukarétti Gullbringu- og Kjósarsýslu til að meta land þetta á Reykjanesi svo og bætur til eigenda landanna. Undirmatsgerð þessi var uppkveðin 20. febrúar 1946.

Atvinnumálaráðherra vildi ekki una þessu undirmati og 19. mars 1946 dómkvaddi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu þá Gizur Bergsteinsson, Jónatan Hallvarðsson og Þórð Eyjólfsson til að framkvæma yfirvirðingu á umræddum landsvæðum.

Í yfirmatsgerð sinni tilgreindu yfirmatsmenn þau höfuðsjónarmið, sem þeir töldu koma til greina við eignarnámsmatið: "Til grundvallar matinu verður að leggja áætlun reista á líkum um það, hvernig eigendur matslandsins hefðu getað hagnýtt sér það til fjár, ef ekki hefði til eignarnáms komið og mannvirki þau sem eignarnáminu eru samfara hefðu ekki reist verið, en landeigendur fengið að sjálfs sín vild að ráðstafa landinu og hagnýta það, eftir því sem þeir hefðu haft færi og föng á."

Samkvæmt dómkvaðningu undirmatsmanna áttu þeir að meta skerðingu á afnotarétti landeigenda á landinu, en ráðherra lýsti því yfir í bréfi 27. apríl 1944, að eignarnámsþolar skyldu halda óskertum beitarafnotum af þeim löndum er liggja utan tilgreindra marka.

Bæði undirmatsmenn og yfirmatsmenn lýstu landkostum og gróðurfari á landsvæði því en einnig hefur verið lagt fram í málinu gróðurkort af landsvæðum þeim, sem um ræðir í þessu máli.

Ein höfuðröksemd eignarnámsþola í málinu er sú, að samningur þeirra við utanríkisráðherra f.h. varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins dags. 25. nóv. 1955 sé óuppsegjanlegur, enda sé þeim ómögulegt að nýta beitarréttindi þau, sem um ræðir í málinu.

Í umræddum samningi, mskj. nr. 8, segir að við eignarnám 1948 á umræddu landsvæði sem tekið hafi verið í þarfir Keflavíkurflugvallar skuli Miðnesbændur halda beitarafnotum af hluta hins eignarnumda lands og er í samningnum tilgreind stærð landsvæðanna sem Miðnesbændur skyldu halda beitarafnotum af. Er því lýst yfir í samningnum, að Miðnesbændur telji sig vegna athafna setuliðs Bandaríkjanna ekki hafa getað haft landa þessara nein not síðan um áramótin 1951-52 og þess vegna sé það samkomulag aðila að ráðherra taki við umræddum beitarafnotum frá 1. janúar 1952 og telja gegn árlegu gjaldi.

Í téðum samningi Miðnesbænda og utanríkisráðherra er ekki tilgreindur neinn uppsagnarfrestur.

Það mun almenn regla að uppsagnarfrestur samninga sé yfirleitt gagnkvæmur nema öðruvísi sé um samið, eða lög bjóði annað.

Leigusamningar eru yfirleitt uppsegjanlegir, þó enginn uppsagnarfrestur sé tilgreindur í þeim. Í þeim tilvikum kemur þá til álita, hver skuli vera hæfilegur uppsagnarfrestur á viðkomandi samningi og fer það venjulega eftir efni máls og tímalengd samningsins. Matsþolar í þessu máli halda því fram, að leigusamningur sá er um ræðir skuli gilda um aldur og ævi. Matsnefnd eignarnámsbóta telur ekki hægt að túlka samning aðilanna frá 1955 þannig, að í honum felist fyrirheit um það að hann skuli vera óuppsegjanlegur.

Þá hafa eigendur beitarréttindanna haldið því fram, að þeim sé ómögulegt að nýta beitarréttinn, en Matsnefndin telur það ósannað í þessu máli að svo sé og uppsögninni og matinu óviðkomandi, hvort handhafar réttindanna geta nýtt sér þau.

Eignarnemi sagði upp samningnum frá 25. nóv. 1955 með bréfi dags. 24. des. 1975. Hins vegar féllst eignarnemi á að greiða fyrir beitarafnotin fyrir árið 1976 skv. mati því sem þá lá fyrir. Var þetta gert með hliðsjón af því, að rétthafar beitarréttindanna gætu fengið vissan umþóttunartíma, til þess að koma sér upp bústofni á ný. Til að rýmka þennan umþóttunartíma enn frekar var 31. ágúst 1977 samþykkt að greiða einnig fyrir beitarréttindi árið 1977. Með bréfi dags. 19. júní 1978 ítrekaði eignarnemi þá afstöðu sína, að ekki yrði breytt þeirri ákvörðun að segja upp samningnum frá 1955. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan fellst Matsnefnd eignarnámsbóta á það, að árin 1976 og 1977 séu nægilegur uppsagnartími á samningnum frá 1955.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í þessu máli, sbr. samning aðilanna frá 25. nóv. 1955, er það nú viðfangsefni Matsnefndar eignarnámsbóta, að meta verðmæti beitarréttinda þeirra, sem um ræðir í samningnum frá 1955.

Bæjarsker var eina jörðin í Miðneshreppi, sem tók aftur fé við fjárskipti á Reykjanesskaga og er sú jörð því ekki inni í þessu máli. Samkvæmt því sem upplýst er í málinu er beitarréttur sá sem um ræðir á 5 afmörkuðum svæðum en innan hverrar spildu er beitarrétturinn í óskiptri sameign. Verður þeirri skiptingu haldið í mati því, sem hér fer á eftir.

Í máli þessu hefur eignarnemi gert þá kröfu að til frádráttar metnum bótum komi leiga sú, sem eignarnemi hefur greitt árin 1977, 1978, 1979, 1980 og 1982 samtals kr. 551.779.00. Fjárhæð þessi án vaxta er talin í dag kr. 3.864.610.00, en með vöxtum kr. 4.755.653.00. Matsþolar hafa haldið því fram í málinu, að það sé ekki á valdi Matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr því hvort þessar leigugreiðslur skuli koma til frádráttar eignarnámsbótum og skuli Matsnefndin því vísa því atriði til dómstóla.

Eins og máli þessu er háttað telur Matsnefndin rétt að vísa þessu atriði til úrlausnar dómstóla.

Matsþolar halda því fram, að vegna nálægðar við þéttbýliskjarna beri að meta beitarréttindin hærra verði en ella. Eins og verðlagningu landbúnaðarafurða hefur verið háttað hér á landi um árabil þá telur nefndin staðsetningu landsins ekki skipta hér máli.

Eins og að framan er rakið og fram kemur í yfirmati 12. janúar 1948, hafa yfirmatsmenn við mat á landi þessu tekið tillit til allra atriða er landið varða. Er fram tekið í yfirmati, að sá háttur hafi verið hafður á við virðingu landsins, að virða landspildu meðfram þjóðvegi "allháu verði", en landspildu þar út frá á mun lægra verði. Þá hafi fjarlægari hlutar landsins verið virtir enn lægra verði. Við virðinguna hafi einnig verið litið til þess, að landeigendur héldu eftir beitarréttindum. Einnig var í yfirmati tekið tillit til þess, að búrekstur kröfueigenda hafi beðið hnekki af völdum setuliðsins.

Samkvæmt framansögðu, sbr. samning 25/11 - 1955, verða í þessu máli eingöngu metin beitarréttindi kröfueigenda. Í undirmati 1946 var lagt mat á umrædd beitarréttindi. Hefur Matsnefndin haft það mat til hliðsjónar, svo og annað sem Matsnefndin telur máli skipta þ.á m. afrakstur matsþola af búrekstrinum og verðbreytingum sem orðið hafa á þessu tímabili. Matsnefndinni virtist, að umrædd landsvæði væru í gróðurfarslegri afturför.

1. Svæði. Þetta land er í óskiptri sameign jarðanna Fuglavíkur og Norðurkots og Hóla með Fjósakoti, talið 19,683% við skiptingu á leigugreiðslum.

Í undirmati 1946 segir að á þessu landi hafi verið nokkurt jarðlag og landið með nokkrum gróðri en allur neðri hluti landsins hafi hin sömu jarðlags- og gróðurfarseinkenni eins og lönd Bæjarskers og Sandgerðis, en þar er þess getið að landið sé grýtt en gróðurmold nokkur á milli stórgrýtisins. Hluti landsins sé mosagróið heiðaland með strjálum valllendisgróðri. Landið er talið allgott til sauðbeitar vor og sumar en rýrt til vetrarbeitar. Í yfirmati 1948 er þess getið að legu og gróðurfari landsins sé réttilega lýst í undirmati.

Matsnefndin getur fallist á nefnda lýsingu á landinu, og að það sé allgott til sauðfjárbeitar að vor og sumarlegi en vetrarbeit rýr. Beitarafnot eru á 620 ha. lands. Búfjáreign árin 1935 - 1954 er lýst í gerðardómi mskj. 9.

Hæfilegt mat á beitarréttindum þessa svæðis ákveðst kr. 220.000.00.

2. Svæði. Nesja- og Melabergsland. Land þetta er í óskiptri sameign Melabergs og Nesja, talið 9,524%. Land þetta er í undirmati allt talið grýtt heiðarland en með nokkrum gróðri. Að því er gróðurfar og jarðveg snertir er land þetta talið svipað og Fuglavíkurland. Í yfirmati er gróðurfari landsins talið réttilega lýst í undirmati. Matsnefndin getur fallist á þessa lýsingu á landinu. Beitarréttindi eru talin á 300 ha. lands. Búfjáreign árin 1935 - 1954 er lýst í gerðrardómi mskj. 9. Beitarréttindi þessa svæðis teljast hæfilega metin á kr. 183.400.00.

3. Svæði. Landa- og Bursthúsaland talið 5.079%. Svæði þetta er í óskiptri sameign jarðanna Landa og Bursthúsa. Í undirmati er jarðvegur í öllu landinu sagður grýttur, en sandblandin malarjörð á þeim stöðum þar sem gróður er fyrir. Gróðurjörð er ekki sögð samfelld en allt landið með nokkrum mosagróðri og strjálum valllendisgróðri innanum. Landið er talið allgott sumarbeitiland fyrir sauðfé. Í yfirmati er legu og gróðurfari lands þessa talið réttilega lýst í undirmati. Matsnefndin getur fallist á þessa lýsingu á landinu. Beitarréttindi eru á 160 ha. lands á þessu svæði. Búfjáreign árin 1935 - 1954 er lýst í gerðardómi. Beitarréttindin teljast hæfilega metin á kr. 92.000.-.

4. Svæði. Hvalsnessland. Land þetta sem talið er við skiptingu á leigugreiðslum 13,698% er í óskiptri sameign jarðanna Hvalsness, Nýlendu, Moshúsa, Nýjabæjar, Smiðshúss og Gerðarkots.

Í undirmati er land þetta sagt vera heiðarland. Nokkur jarðvegur og samfelldir gróðurblettir hafi verið í efri hluta landsins bæði valllendi og lyngmóar. Í öllu landinu er sagður nokkur gróður en neðri hluti landsins sé þó grýttur. Landið er sagt allgott beitiland. Í yfirmati er landinu talið rétt lýst í undirmati. Matsnefndin getur fallist á þessa lýsingu á landinu, en beitarréttindin ná yfir 400 ha. svæði. Búfjáreign árin 1935 - 1954 er lýst í gerðardómi. Beitarréttindin teljast hæfilega metin á kr. 220.000.00.

5. Svæði. Stafnessland. Svæði þetta er talið 53.016% við skiptingu á leigugreiðslum. Landið er í óskiptri sameign jarðanna Stafness I, II, III, Nýlendu, Bala og Glaumbæjar. Land þetta nær til sjávar og fylgir því reki. Í undirmati er land þetta allt sagt heiðarland með lyngmosa og valllendisgróðri. Víða í landinu sé nokkur jarðvegur að vísu grýttur einkum syðst í landinu. Jarðvegurinn sé samfelldari í efri hluta landsins, moldar- og sandblandin malarjörð. Landið er talið sæmilegt beitiland fyrir sauðfé vor, sumar og haust. Vetrarbeit er sögð rýr á landinu. Í yfirmati er sagt að gróðurfari þessa lands sé réttilega lýst í undirmati en við skoðun á landinu nú telur Matsnefnd eignarnámsbóta að gróðurfari landsins hafi hrakað frá því sem verið hafi 1946. Beitarréttindi eru á 1670 ha. lands. Búfjáreign á þessu svæði 1935 - 1954 er lýst í gerðardómi. Matsnefndin telur beitarréttindi þessa svæðis hæfilega metin á kr. 366.800.00.

Allar fjárhæðir í mati þessu eru miðaðar við staðgreiðslu.

Eignarhlutföll jarða í Miðneshreppi, sem fengið hafa greiðslu vegna missis beitarréttinda eru talin þessi:

Fuglavík   13.122%   Stafnestorfan:   53.016%
Norðurkot   6.561%   Stafnes I   13.254%
Nesjar   5.714%   Bali   13.254%
Melaberg   3.810%   Stafnes II   6.627%
Lönd   2.810%   Stafnes III   6.627%
Bursthús   2.269%   Glaumbær   6.627%
Hvalsnes   5.454%   Nýlenda   6.627%
Gerðakot   1.610%   
Nýlenda   1.610%
Smiðshús   1.431%
Moshús   1.431%
Nýi-Bær   1.162%            
Samtals   46.984%   Samtals   53.016%

   Samtals 100%

Rétt þykir með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi greiði eignarnámsþolum fyrir lögfræðilega aðstoð við matsmálið sem hér segir: Páli A. Pálssyni hrl., kr. 50.000.-, Ólafi Axelssyni hrl. kr. 50.000.- og Árna Guðjónssyni hrl. kr. 10.000.-.

Rétt þykir með vísan til 11. gr. sömu laga að eignarnemi greiði kostnað Matsnefndarinnar kr. 120.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl, formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Andvirði beitarréttinda þeirra, sem matsgerðin tekur yfir, svo og fébætur til beitarréttareigenda ákveðast þannig:

1. Svæði. Land jarðanna Fulgavíkur, Norðurkots og Hóla með Fjósakoti. Verðmæti beitarréttinda þessa svæðis telst hæfilega metið kr. 220.000.00.
2. Svæði. Nesja og Melabergsland. Verðmæti beitarréttinda þessa svæðis telst hæfilega metið kr. 183.400.00.
3. Svæði. Landa og Bursthúsaland. Verðmæti beitarréttinda þessa svæðis telst hæfilega metið kr. 92.000.00.
4. Svæði. Lönd jarðanna Hvalsness, Nýlendu, Moshúsa, Nýjabæjar, Smiðshúss og Gerðakots. Verðmæti beitarréttinda þessa svæðis telst hæfilega metið kr 220.000.00.
5. Svæði. Lönd jarðanna Stafness I, II, III, Nýlendu, Bala, og Glaumbæjar. Verðmæti beitarréttinda þessa svæðis telst hæfilega metið kr. 366.800.00.

Eignarnemi greiði eignarnámsþolum kostnað af málinu sem hér segir:

Ólafi Axelssyni, hrl., talsmannlslaun kr. 50.000.00.

Páli A. Pálssyni, hrl., talsmannslaun kr. 50.000.00.

Árna Guðjónssyni, hrl., talsmannslaun kr. 10.000.00.

Eignarnemi greiði kostnað Matsnefndarinnar kr. 120.000.00.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum